Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 690/2016

Nr. 690/2016 18. júlí 2016

REGLUR
um skrá um lögræðissvipta menn, lögráðamenn og ráðsmenn.

1. gr.

Um lögræðissviptingaskrá.

Þjóðskrá Íslands heldur skrá um lögræðissvipta menn, lögráðamenn og ráðsmenn í samræmi við ákvæði lögræðislaga nr. 71/1997, með síðari breytingum. Skráin nefnist lögræðissviptingaskrá og skal hún varðveitt með öruggum hætti þannig að upplýsingar úr henni glatist ekki og séu aðgengi­legar í samræmi við reglur þessar.

Lögræðissviptingaskrá skal vera ein fyrir landið allt og aðgengileg öllum yfirlögráðendum.

Þjóðskrá Íslands og yfirlögráðendur skulu gæta þess að vinnsla og meðferð upplýsinga í skránni sé ávallt í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000, með síðari breytingum.

2. gr.

Færsla upplýsinga í lögræðissviptingaskrá.

Yfirlögráðendur færa upplýsingar í lögræðissviptingaskrá og skrá breytingar á þeim jafnóðum og tilefni er til. Eftirfarandi upplýsingar skal færa í skrána:

  1. Nafn og kennitölu hins svipta.
  2. Dagsetningu úrskurðar og heiti dómstóls.
  3. Tegund sviptingar samkvæmt II. kafla lögræðislaga.
  4. Hvenær svipting fellur úr gildi.
  5. Ef um fjárræðissviptingu er að ræða sem einungis nær til tiltekinna eigna skal það tilgreint.
  6. Niðurfellingu sviptingar eða breytingar á úrskurði um sviptingu, ef til hennar kemur.
  7. Nafn og kennitölu skipaðs lögráðamanns og breytingar sem kunna að verða á þeirri skipan, ásamt dagsetningu skipunar.

Ef fjárráða manni er skipaður ráðsmaður samkvæmt ákvæðum IV. kafla lögræðislaga skal yfir­lögráðandi færa upplýsingar um ráðsmanninn og skjólstæðing hans í lögræðissviptingaskrá í sam­ræmi við ákvæði 1. mgr. eftir því sem við á.

3. gr.

Aðgangur að lögræðissviptingaskrá og miðlun upplýsinga.

Þjóðskrá Íslands, innanríkisráðuneytið og yfirlögráðendur hafa aðgang að lögræðissviptingaskrá með þeim hætti sem tilgreindur er í 5. gr. og er þeim heimilt að nýta upplýsingar úr skránni við framkvæmd lögmæltra verkefna sinna.

Þjóðskrá Íslands annast miðlun upplýsinga úr lögræðissviptingaskrá. Miðlun getur verið með skrif­legum hætti í formi vottorðs, sbr. 4. gr., eða með rafrænum uppflettiaðgangi, sbr. 5. gr.

4. gr.

Útgáfa vottorða.

Þjóðskrá Íslands er heimilt að veita eftirtöldum aðilum upplýsingar úr lögræðissviptingaskrá með útgáfu vottorða:

  1. Einstaklingi sem óskar upplýsinga um sjálfan sig eða umboðsmanni sem hann hefur veitt sérstakt umboð.
  2. Skipuðum lögráðamönnum og ráðsmönnum vegna skjólstæðinga þeirra.
  3. Opinberum aðilum eftir því sem þeir óska og nauðsynlegar eru þeim við framkvæmd lög­mæltra verkefna, svo sem sjúkrahúsum og öðrum sjúkrastofnunum, dómstólum, skipta­stjórum, lögreglu, handhöfum ákæruvalds og félagsþjónustu sveitarfélaga eða sam­svar­andi fulltrúum sveitarstjórna.
  4. Öðrum aðilum en að framan greinir sýni þeir fram á lögmæta hagsmuni af því að fá upp­lýsingar úr skránni eða hafi sérstaka lagaheimild til slíkrar upplýsingaöflunar. Upp­lýs­ingar sem veittar eru samkvæmt þessum staflið takmarkast við upplýsingar um fjár­ræði við­kom­andi einstaklings.

Eingöngu skal veita upplýsingar um tilgreindan einstakling eftir því sem óskað er hverju sinni og skal þess gætt að ekki séu veittar víðtækari upplýsingar en þörf krefur. Upplýsingagjöf skal vera rekjanleg og skal sá sem upplýsinga æskir hafa sannað á sér deili með framvísun persónuskilríkja eða rafrænni auðkenningu.

Áður en upplýsingar eru veittar á grundvelli b–d-liðar 1. mgr. skal sá sem upplýsinga æskir, eða sá sem heimild hefur til að koma fram fyrir hans hönd, undirrita yfirlýsingu þess efnis að upp­lýs­ingarnar verði aðeins notaðar við framkvæmd lögmæltra verkefna eða í öðrum lögmætum til­gangi og að þeim verði ekki dreift áfram til þriðja aðila.

5. gr.

Rafræn miðlun upplýsinga.

Þjóðskrá Íslands er heimilt að gera sérsamninga um rafrænan uppflettiaðgang að lögræðis­svipt­inga­skrá við þá opinberu aðila sem taldir eru upp í c-lið 1. mgr. 4. gr. Rafræn miðlun upplýsinga úr lögræðissviptingaskrá með þessum hætti er bundin eftirfarandi skilyrðum:

  1. Aðgangur er bundinn við tiltekna einstaklinga sem sanna á sér deili með rafrænni auð­kenn­ingu.
  2. Eingöngu eru veittar upplýsingar um einn tiltekinn einstakling í einu.
  3. Allar rafrænar uppflettingar skulu rekjanlegar til notenda og vistaðar að minnsta kosti í eitt ár.
  4. Eingöngu skal veita upplýsingar um sviptingar sem í gildi eru á hverjum tíma.

Í samningi skv. 1. mgr. skal koma fram með skýrum hætti að upplýsingar sem fást með hinni rafrænu miðlun sé einungis heimilt að nota við framkvæmd lögmæltra verkefna eða í öðrum lög­mætum tilgangi og að þeim verði ekki dreift áfram til þriðja aðila. Þeir starfsmenn sem hafa raf­rænan uppflettiaðgang fyrir hönd hinna opinberu aðila, sbr. a-lið 1. mgr., skulu jafnframt undir­rita yfirlýsingu þess efnis áður en aðgangur er veittur.

Við alla rafræna vinnslu samkvæmt þessari grein skal gætt að því að kröfum um dulkóðun og upplýsingaöryggi sé fullnægt miðað við staðla á hverjum tíma.

6. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt 6. mgr. 14. gr., 3. mgr. 40. gr. og 2. mgr. 57. gr. lög­ræðis­laga, nr. 71/1997, sbr. b-lið 5. gr., 19. gr. og 21. gr. laga nr. 84/2015, sbr. einnig 1. gr., 3. tölul. 3. gr. og 19. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962, með síðari breyt­ing­um, og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 18. júlí 2016.

Ólöf Nordal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


B deild - Útgáfud.: 3. ágúst 2016