Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 20/2020

Nr. 20/2020 10. janúar 2020

REGLUGERÐ
um gagnaöflun og rannsóknir á sviði ferðamála.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um öflun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga, þ.m.t. gögn, gagnagreiningu og rannsóknir, sem Ferðamálastofa annast á grunni rannsóknaráætlunar.

 

2. gr.

Hlutverk Ferðamálastofu.

Ferðamálastofa skal fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálf­bærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi með því að vinna að samræmingu, greiningum og gagna­öflun ásamt miðlun og úrvinnslu upplýsinga, þar á meðal tölfræðilegra gagna, á málefnasviði stofn­unar­innar.

Ferðamálastofa skal meta þörf fyrir gagnaöflun, greiningar og rannsóknir, móta rannsóknar­áætlun, sbr. 5. gr., og láta framkvæma rannsóknir samkvæmt rannsóknaráætlun í samræmi við lög og reglur þar að lútandi, m.a. hvað varðar opinber innkaup. Vinna stofnunarinnar að gagnaöflun og rann­sóknum skal styðja við ákvarðanatöku og markmiðasetningu í greininni samkvæmt stefnu stjórn­­valda.

Ferðamálastofa skal miðla niðurstöðum á markvissan hátt.

 

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Gagnagreining: Nákvæm athugun, útvinnsla og túlkun á gögnum eða heimildum sem framkvæmd er til að skilja uppbyggingu, eðli og/eða samhengi.
  2. Gagnaöflun: Skipuleg, og eftir atvikum reglubundin, söfnun gagna sem framkvæmd er í tengslum við greiningu, rannsókn eða skráningu upplýsinga. Að jafnaði skal miða við að gagna­öflun myndi óbrotna tímalínu á grunni þess sem áður hefur verið framkvæmt. Frum­gagna er aflað með megindlegum (t.d. talningum eða könnunum) eða eigindlegum (t.d. við­tölum eða þátttökuathugunum) rannsóknaraðferðum. Afleiddra gagna er aflað á grunni útgefinna eða óútgefinna heimilda.
  3. Gögn: Skráðar upplýsingar sem skiptast í frumgögn og afleidd gögn. Frumgögn eru skráðar upplýsingar frá fyrstu hendi. Afleidd gögn eru gögn sem þegar er búið að skrá og eru tiltæk.
  4. Jafnvægisás ferðamála: Stjórntæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag íslensks samfélags á grunni skilgreindra sjálfbærnivísa.
  5. Mælaborð ferðaþjónustunnar: Rafræn gagnaveita og upplýsingagátt Ferðamálastofu þar sem hægt er að nálgast gögn og helstu niðurstöður greininga og rannsókna tengdar ferða­þjón­ustu sem birtar eru á aðgengilegan hátt.
  6. Rannsókn: Nákvæm og kerfisbundin athugun með vísindalegri aðferð sem hefur þann til­gang að skapa nýja eða frekari þekkingu á því sviði sem rannsakað er og framkvæmd er í þeim tilgangi að nýtast stjórnvöldum til töku stefnumótandi ákvarðana á sviði ferðamála.
  7. Rannsóknaráætlun: Áætlun til þriggja ára um þá gagnaöflun, greiningar og rannsóknir sem stjórnvöldum er nauðsynleg til að taka stefnumótandi ákvarðanir um uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi.

 

4. gr.

Miðlun upplýsinga og greining gagna.

Ferðamálastofa skal miðla upplýsingum um helstu gögn og niðurstöður gagnagreininga og rann­sókna á vegum stofnunarinnar eins fljótt og auðið er eftir eðli verkefna. Niðurstöður skulu nýttar til að varpa ljósi á stöðu og þróun ferðaþjónustunnar.

Ferðamálastofa skal gera megindleg gögn og helstu niðurstöður megindlegra rannsókna aðgengi­legar í Mælaborði ferðaþjónustunnar. Ferðamálastofa skal jafnframt stuðla að því að fyrir­liggjandi upplýsingar frá öðrum hagaðilum sem snúa að ferðaþjónustu og hafa þýðingu fyrir þróun hennar séu birtar í Mælaborði ferðaþjónustunnar.

Ferðamálastofa skal setja fram áætlun um áframhaldandi þróun og framkvæmd Mælaborðs ferða­þjónustunnar, m.a. með hliðsjón af gildandi rannsóknaráætlun.

Ferðamálastofa skal setja fram birtingaráætlun árlega. Hana skal uppfæra reglulega í tengslum við framgang verkefna.

 

5. gr.

Rannsóknaráætlun.

Ferðamálastofa skal móta og láta framkvæma rannsóknaráætlun á grunni Jafnvægisáss ferða­mála og stefnumótunar stjórnvalda. Rannsóknaráætlun skal einnig taka mið af þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni til gagnaöflunar og rannsókna. Áætlunin skal unnin til þriggja ára í senn og endurskoðuð árlega eða oftar ef nauðsyn krefur.

Við mótun rannsóknaráætlunar skal Ferðamálastofa:

  1. Stuðla að samhæfingu, yfirsýn og virku samráði við hagsmunaaðila um gagnaöflun og rann­sóknir í ferðaþjónustu.
  2. Greina og meta hvaða gagna skuli aflað og í hvaða rannsóknir þurfi að ráðast sem styðja við stefnumótun stjórnvalda í ferðaþjónustu og áframhaldandi þróun og viðhald Jafnvægisáss ferðamála, meta umfang verks og áætla kostnað.
  3. Forgangsraða verkefnum með tilliti til þess fjármagns sem er til ráðstöfunar fyrir mála­flokkinn og gæta jafnvægis milli hinna þriggja þátta sjálfbærni, þ.e. efnahagslegra þátta, umhverfislegra þátta og samfélagslegra þátta, þannig að við gagnaöflun og rannsóknir sem nýtast við ákvarðanatöku og stefnumótun stjórnvalda sé horft til allra þáttanna. Í rannsókn­ar­áætlun skal tilgreina viðfangsefni, tilgang, umfang, hagnýtt gildi og tímasetningu sérhvers verk­efnis.
  4. Birta hugtakalista á heimasíðu Ferðamálastofu með helstu hugtökum sem tengjast rann­sóknum á ferðamálum.

 

6. gr.

Ráðgefandi nefnd um gagnaöflun og rannsóknir.

Ferðamálastofa skal kalla saman ráðgefandi nefnd um gagnaöflun og rannsóknir á rannsóknar­áætlun Ferðamálastofu.

Í nefndinni skulu eiga sæti, auk eins fulltrúa stofnunarinnar, sem stýrir starfi nefndarinnar, tveir fulltrúar háskóla sem sinna kennslu og rannsóknum á sviði ferðamálafræði sem tilnefndir eru af samstarfsnefnd háskólastigsins, einn fulltrúi sem tilnefndur er af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn fulltrúi sem tilnefndur er af þeim ráðherra sem fer með samgöngu- og sveitarstjórnarmál og einn fulltrúi sem tilnefndur er af Samtökum ferðaþjónustunnar. Fulltrúi sem tilnefndur er af þeim ráðherra sem fer með ferðamál skal jafnframt eiga sæti í nefndinni.

Niðurstöður nefndarinnar skulu lagðar til grundvallar við mótun rannsóknaráætlunar. Nefndin skal setja sér starfsreglur. Nefndin getur, eftir því sem þörf er á, kallað eftir mati sérfróðra aðila um áherslur rannsóknaráætlunar. Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist af Ferðamálastofu sem tryggir henni jafnframt viðunandi starfsaðstöðu.

 

7. gr.

Samráð og gildistaka rannsóknaráætlunar.

Drög að rannsóknaráætlun Ferðamálastofu skulu birt í samráðsgátt stjórnvalda. Að loknu sam­ráði gerir stofnunin tillögu að rannsóknaráætlun til ráðherra.

Samþykkt rannsóknaráætlun skal birt á vefsíðu Ferðamálastofu.

 

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018, öðlast þegar gildi.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 10. janúar 2020.

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Sigrún Brynja Einarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 17. janúar 2020