Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Leiðréttingar:
Leiðrétt skjal: B_nr_856_2023_leidrett.pdf
Leiðrétt 21. ágúst 2023:
PDF-skjal: Í upphafi 4. tl. 4. gr. í stað „Hæfilegra klínískr“ komi: Hæfilegri klínískri


Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 856/2023

Nr. 856/2023 10. ágúst 2023

REGLUGERÐ
um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um menntun, réttindi og skyldur lækna, sérnám í læknisfræði og veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa.

 

2. gr.

Skilgreiningar.

  1. Framvindumat: Árlegt mat á því hvort sérnámslæknir uppfylli færni-, hæfni- og þekkingar­viðmið samkvæmt marklýsingu.
  2. Handbók um sérnám lækna: Almennar leiðbeiningar um framkvæmd sérnáms í læknisfræði á Íslandi (Gullbók).
  3. Marklýsing: Lýsing á sérnámi, samþykktu af mats- og hæfisnefnd, sbr. 23. gr.
  4. Námslokavottorð: Staðfesting kennsluráðs viðkomandi sérgreinar eða sérnámsgrunns á náms­lokum, sbr. 20. gr.
  5. Sérnám: Nám og þjálfun læknis sem fer fram á viðurkenndri kennslustofnun og samkvæmt viður­kenndri marklýsingu eftir að læknir hefur lokið háskólanámi í læknisfræði og hlotið lækn­inga­leyfi.
  6. Viðurkennd kennslustofnun: Heilbrigðisstofnun eða deild heilbrigðisstofnunar sem mats- og hæfis­nefnd um sérnám lækna hefur metið hæfa sem kennslustofnun fyrir sérnám, sbr. 24.

 

II. KAFLI

Lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

3. gr.

Starfsheiti og sérfræðileyfi.

Rétt til að kalla sig lækni og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem hefur gilt lækningaleyfi útgefið af embætti landlæknis.

Rétt til að kalla sig sérfræðing í sérgrein skv. 21. gr. og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.

 

4. gr.

Skilyrði fyrir lækningaleyfi.

Lækningaleyfi skv. 1. mgr. 3. gr. má veita þeim sem lokið hafa embættisprófi (cand. med.) í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands.

Nám í læknisfræði skal vera að lágmarki 5 ára nám og innihalda að lágmarki 5.500 klst. af kennslu. Að loknu námi skal tryggt að eftirfarandi þekkingu og færni sé náð:

  1. Fullnægjandi þekkingu á grundvallarfræðum læknisfræðinnar og víðtækum skilningi  á vísinda­legum aðferðum, þ.m.t. hvernig lagt er mat á líffræðilega starfsemi, gagnreyndri læknis­­fræði og túlkun gagna;
  2. Nægilegum skilningi á uppbyggingu, starfsemi og hegðun heilbrigðra og veikra einstaklinga, svo og tengslum heilsufars við raunlegt og félagslegt umhverfi manneskjunnar;
  3. Fullnægjandi þekkingu á klínískum greinum og starfsháttum og hafa þar með öðlast heild­stæða mynd af geðrænum og líkamlegum sjúkdómum, á læknisfræði frá sjónarhóli forvarna, greiningar og meðferðar og á æxlun fólks;
  4. Hæfilegri klínískri reynslu á heilbrigðisstofnunum undir viðeigandi handleiðslu.

Veita má leyfi á grundvelli náms frá öðru ríki, að fenginni umsögn skv. 5. gr., þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að námið sé sambærilegt við nám skv. 1. mgr. og uppfylli lágmarks­kröfur 2. mgr. enda hafi námið farið fram í háskóla sem viðurkenndur er af heilbrigðisyfirvöldum í náms­ríki og hér á landi. Við mat á umsóknum skal taka tillit til gagnkvæmra samninga við önnur ríki um viðurkenningu menntunar og um viðurkenningu starfsréttinda.

Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi læknis sem uppfyllir skilyrði tilskipunar Evrópu­þingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breyt­ingum, fer samkvæmt reglugerð, nr. 510/2020, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heil­brigðis­starfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi. Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði sjálfkrafa viðurkenningar skal meta nám hans samkvæmt 3. mgr.

Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi læknis frá sameinaða konungsríkinu Stóra-Bret­landi og Norður-Írlandi fer samkvæmt 12. kafla fríverslunarsamnings konungsríkisins við EFTA-ríkin innan EES.

Um umsóknir ríkisborgara ríkja sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á menntun og hæfi til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi gilda sérstakar reglur í reglu­gerð nr. 483/2023 um meðferð umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi skv. lögum um heilbrigðis­­starfsmenn nr. 34/2012 frá umsækjendum frá ríkjum sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viður­­kenningu á faglegri menntun og hæfi.

Umsókn um lækningaleyfi skal senda embætti landlæknis.

Um gjaldtöku fyrir veitingu lækningaleyfis fer skv. 28. gr.

 

5. gr.

Umsagnir vegna umsókna um lækningaleyfi.

Áður en lækningaleyfi er veitt á grundvelli 2. mgr. 4. gr. skal landlæknir leita umsagnar lækna­deildar Háskóla Íslands um það hvort menntun umsækjanda teljist sambærileg við menntun skv. 1. mgr. 4. gr.

Þá er landlækni heimilt að leita umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands um umsókn um lækn­ingaleyfi á grundvelli náms frá öðru EES-ríki þegar umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði til að hljóta starfsleyfi í námslandi svo sem vegna skilyrtrar starfsþjálfunar eða þegar umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði um sjálfkrafa viðurkenningu.

 

6. gr.

Skilyrði fyrir sérfræðileyfi.

Sérfræðileyfi má veita í sérgreinum læknisfræði skv. 21. gr., þ.e. aðalsérgreinum, undir­sérgreinum og viðbótarsérgreinum, að loknu viðurkenndu formlegu sérnámi.

Til að læknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skv. 2. mgr. 3. gr. skal hann uppfylla eftir­taldar kröfur:

  1. hafa lokið embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands skv. 4. gr. eða hafa lokið sambærilegu námi erlendis,
  2. hafa hlotið lækningaleyfi hér á landi skv. 3. gr.,
  3. geta framvísað námslokavottorði sem staðfestir að læknir hafi lokið viðurkenndu sérnámi, að meðtöldum sérnámsgrunni, eða sambærilegu vottorði um þjálfun í öðru ríki, og tileinkað sér þá hæfni, færni og þekkingu sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein skv. 6., 19. og 21. gr. og
  4. að sérnám hans sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til.

Heildarnámstími sérnáms skal vera að lágmarki fimm ár (60 mánuðir) í aðalgrein, að undan­gengnum sérnámsgrunni eða starfsnámi skv. 8. mgr. 18. gr. Heildarnámstími í undirsérgrein eða viðbótarsérgrein skal vera að lágmarki tvö ár (24 mánuðir) í hvorri fyrir sig, sbr. þó 5. mgr. 8. gr.

Til að hljóta sérfræðileyfi í undirsérgrein aðalgreinar skal umsækjandi hafa hlotið sérfræðileyfi í viðkomandi aðalgrein og lokið formlegu viðurkenndu sérnámi í undirgreininni. Til að hljóta sér­fræði­leyfi í viðbótarsérgrein skal umsækjandi hafa hlotið sérfræðileyfi í viðeigandi aðalgrein og lokið formlegu viðurkenndu sérnámi í viðbótargrein. Aðeins má veita leyfi í tveimur undirsérgrein­um og einni viðbótarsérgrein. Um umsóknir um sérfræðileyfi í sérgreinum, undirsérgreinum og viðbótar­sérgreinum gilda enn fremur skilyrði 21. gr.

 

7. gr.

Umsókn um sérfræðileyfi og umsagnir.

Umsóknir um sérfræðileyfi í sérgrein í læknisfræði skv. 21. gr. skal senda til embættis land­læknis.

Umsækjandi skal leggja fram námslokavottorð í þeirri sérgrein sem sótt er um sérfræðileyfi í ásamt öðrum gögnum sem embætti landlæknis telur nauðsynleg vegna umsóknar.

Áður en sérfræðileyfi er veitt fyrir sérnám sem stundað var utan EES og Sviss eða sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands skal landlæknir leita umsagnar kennsluráðs við­komandi sérgreinar, eða framhaldsmenntunarráðs lækninga ef slíkt er ekki til staðar, um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um sérnám skv. 19. gr., sbr. 13. og 15. gr.

Einnig er landlækni heimilt að óska umsagnar sömu umsagnaraðila og samkvæmt 3. mgr. um umsóknir ríkisborgara EES og Sviss og vegna náms frá sameinaða konungsríkinu Stóra-Bretlandi og Norður-Írlandi enda sé marklýsing fyrir viðkomandi sérgrein samþykkt af mats- og hæfisnefnd um sérnám í læknisfræði.

 

8. gr.

Sérfræðileyfi á grundvelli sérnáms í öðru ríki.

Aðeins er heimilt er að veita sérfræðileyfi á grundvelli sérnáms frá menntastofnun í öðru ríki enda uppfylli það marklýsingu fyrir sérgreinina hér á landi samkvæmt mati kennsluráðs. Einnig er heimilt að viðurkenna sérfræðileyfi á grundvelli mats kennsluráðs viðkomandi sérgreinar eða framhalds­menntunar­ráðs lækninga þess efnis að umsækjandi hafi lokið viðurkenndu sérnámi, sbr. 19. gr., í landi sem gerir sambærilegar kröfur um nám og gerðar eru í reglugerð þessari enda þótt náms­tilhögun sérnáms sé frábrugðin, þar með talið tímaákvæði. Sérnámið skal vera viðurkennt sem slíkt af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum námslands.

Um umsóknir ríkisborgara ríkja sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á menntun og hæfi til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi gilda sérstakar reglur í reglugerð nr. 483/2023 um meðferð umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi skv. lögum um heilbrigðis­starfs­menn nr. 34/2012 frá umsækjendum frá ríkjum sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viður­kenningu á faglegri menntun og hæfi.

Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sérmenntaðs læknis frá öðru EES-ríki eða Sviss sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heil­brigðis­starfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi, nr. 510/2020, eða samkvæmt samningum sem ríkisstjórnir Norðurlandanna gera og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda. Um viðurkenn­ingu á faglegri menntun og hæfi sérmenntaðs læknis frá sameinaða konungsríkinu Stóra-Bretlandi og Norður-Írlandi fer samkvæmt 12. kafla fríverslunarsamnings konungsríkisins við EFTA-ríkin innan EES.

Heimilt er að veita umsækjanda um sérfræðileyfi í aðalsérgrein skv. 21. gr. takmarkaða undan­þágu á einstaklingsgrundvelli frá hluta sérnáms sem skráð er í lið 5.1.3. V. viðauka tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, sbr. tilskipun 2013/55/ESB, enda hafi hann þegar lokið við þann hluta sérnámsins í öðru sérnámi í læknisfræði og þegar öðlast sérfræðileyfi á grundvelli þess sérnáms. Undanþágan má ekki taka til meira en helmings af lágmarkstíma í viðkomandi sérnámi.

Um gjaldtöku fyrir veitingu sérfræðileyfis fer skv. 28. gr.

 

9. gr.

Aðlögunartími.

Um aðlögunartíma fer skv. reglugerð nr. 483/2023 eða reglugerð nr. 510/2020. Aðlögunartími skal byggja á þeim kröfum sem gerðar eru í embættisprófi í læknisfræði skv. 1. mgr. 4. gr., eða við lok sérnáms í viðkomandi sérgrein.

 

10. gr.

Heimild til að synja umsókn um lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

Landlæknir skal synja umsækjanda um lækningaleyfi og sérfræðileyfi uppfylli umsækjandi ekki skilyrði reglugerðar þessarar.

Landlækni er einnig heimilt að synja umsækjanda um lækningaleyfi og sérfræðileyfi þótt skilyrði reglugerðar þessarar séu uppfyllt telji landlæknir, að nám eða sérnám umsækjanda hafi ekki verið nægilega samfellt eða að langur tími hafi liðið frá því að umsækjandi lauk samfelldu námi eða sérnámi og þar til umsókn barst. Landlækni er aðeins heimilt að synja á þessum grundvelli ef ljóst er að umsækjanda hafi ekki tekist að sýna fram á að þrátt fyrir það hafi hann viðhaldið þekkingu sinni og hæfni og stundað sí- eða endurmenntun. Landlækni ber að afla umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands, kennsluráðs sérgreinar eða framhaldsmenntunarráðs, eftir því sem við á, áður en synjað er á þessum grundvelli.

 

III. KAFLI

Sérnám í læknisfræði og sérgreinar.

11. gr.

Skipulag sérnáms.

Sérnám skal ávallt fara fram á viðurkenndri kennslustofnun og samkvæmt marklýsingu fyrir við­komandi sérgrein, sbr. 18. og 19. gr. og IV. kafla.

Sérnám skal hefjast á sérnámsgrunni skv. 18. gr. Að sérnámsgrunni loknum getur læknir sótt um sérnámsstöðu í sérgrein skv. 19. gr.

Sérnám í aðalsérgrein, sbr. 21. gr., skal vera að lágmarki fimm ár miðað við fullt starf að sérnáms­grunni loknum. Sérnám í undirsérgrein eða viðbótarsérgrein skal vera að lágmarki tvö ár til viðbótar.

 

12. gr.

Ábyrgð og umsjón með sérnámi.

Sérnám lækna fer fram á heilbrigðisstofnunum sem öðlast hafa viðurkenningu sem kennslu­stofnanir, sbr. 24. gr. Framkvæmdastjóri lækninga ber ábyrgð á sérnámi á viðkomandi kennslu­stofnun ásamt kennslustjórum. Umsjón með sérnámi skal vera hjá skrifstofu sérnáms á Landspítala eða hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu sem skipa kennslustjóra og kennsluráð hverrar sérgreinar. Kennslustjóri úthlutar sérnámslæknum sérnámshandleiðara og klínískum handleiðara.

Skrifstofu sérnáms á Landspítala og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu er heimilt að gera samn­inga við aðrar heilbrigðisstofnanir sem hlotið hafa viðurkenningu sem kennslustofnanir skv. 24. gr. um kennslu á hluta sérnáms.

Ráð og nefndir samkvæmt III. og IV. kafla skulu setja sér starfsreglur, halda fundargerðir og for­menn skulu boða fundi og kalla til varamenn eftir þörfum.

 

13. gr.

Framhaldsmenntunarráð lækninga.

Framhaldsmenntunarráð lækninga er ráðgefandi samráðsvettvangur, leitt af yfirlækni sérnáms á Landspítala og skipað kennslustjórum sérnáms, formanni kennsluráðs sérnámsgrunns, forseta lækna­deildar Háskóla Íslands og fulltrúa umsjónarsérnámslækna. Framhaldsmenntunarráð vinnur með mats- og hæfisnefnd að uppfærslu á handbók um sérnám lækna samkvæmt beiðni mats- og hæfis­nefndar. Til framhaldsmenntunarráðs er heimilt að vísa mati kennsluráðs á fyrra sérnámi eða jafn­gildum störfum sem unnin hafa verið undir handleiðslu og samkvæmt marklýsingu, sem og ákvörðun framvindumatsnefndar, sbr. 19. mgr., um námsframvindu og námslok. Sé ákvörðun framvindumats­nefndar eða kennsluráðs vísað til framhaldsmenntunarráðs lækninga til endur­skoðunar er ráðinu heimilt að skipa ad hoc nefnd þriggja hlutlausra sérfræðilækna, þar sem a.m.k. einn hefur sérfræðileyfi í viðkomandi sérgrein, til að komast að niðurstöðu sem er endanleg á stjórnsýslustigi. Landspítali skal sjá ráðinu fyrir aðstöðu og ritara. Kennslustofnanir sérnáms skulu hafa upplýsingar um framhalds­menntunar­ráð lækninga og kennsluráð þeirra sérgreina sem kenndar eru á stofnuninni aðgengilegar á vefsíðu sinni.

 

14. gr.

Kennslustjórar.

Í hverri sérgrein sem kennd er hér á landi skal vera kennslustjóri með sérfræðileyfi í viðkom­andi sérgrein. Kennslustjóri leiðir kennsluráð sérgreinarinnar sem formaður. Kennsluráð sérgreinar sem aðeins er kennd að hluta til hér á landi skal leitast við að tryggja samstarf við erlendar kennslu­stofnanir sérnáms þar sem sérnámslæknar geta lokið sérnámi í sérgreininni. Kennslustjóri og framkvæmda­stjóri lækninga bera ábyrgð á að innihald, framkvæmd og gæði sérnáms séu í sam­ræmi við samþykkta marklýsingu skv. 23. gr.

 

15. gr.

Kennsluráð.

Kennsluráð skal starfa innan hverrar sérgreinar sem kennd er hér á landi, leitt af kennslustjóra viðkomandi sérgreinar sem tilnefnir a.m.k. tvo sérfræðilækna í kennsluráðið, sem lokið hafa hand­leiðaraþjálfun, og er æskilegt að annar sé yfirlæknir. Fjöldi lækna í kennsluráði tekur mið af fjölda sérnámslækna hverju sinni í viðkomandi sérgrein. Fulltrúi viðkomandi fræðasviðs læknadeildar Háskóla Íslands og fulltrúi viðeigandi sérgreinafélags skulu eiga þar sæti ef unnt er. Sérnámslæknar viðkomandi greinar kjósa sjálfir fulltrúa sinn í kennsluráð sem skal hafa málfrelsi og tillögurétt. Heimilt er að skipa varamenn.

Kennsluráð bera ábyrgð á að tryggja gæði viðkomandi sérnáms og taka ákvarðanir um skipulag, innihald, framkvæmd þess á grundvelli marklýsingar, sbr. 19. og 23. gr., stýra inntöku í sérnáms­stöður og meta reynslu úr fyrra sérnámi, eða jafngildum störfum sem unnin hafa verið undir hand­leiðslu og samkvæmt marklýsingu. Þá samþykkir kennsluráð námslokavottorð og veitir embætti land­læknis umsagnir um sérfræðileyfisumsóknir á sínu sérsviði.

Í kennsluráði sérnámsgrunns sitja kennslustjórar sérnámsgrunns frá Landspítala og Sjúkra­húsinu á Akureyri fyrir sjúkrahúshluta, kennslustjóri sérnámsgrunns hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsu­gæslu fyrir heilsugæsluhluta ásamt kennslustjórum annarra kennslustofnana sérnámsgrunns eftir getu. Skipa skal varamenn frá sömu stofnunum. Kennsluráð velur sér formann úr hópi kennslu­stjóra sérnámsgrunns. Sérnámsgrunnslæknar kjósa sjálfir fulltrúa sinn í kennsluráð sem skal hafa málfrelsi og tillögurétt.

 

16. gr.

Handleiðarar.

Sérnámshandleiðari ber ábyrgð á handleiðslu sérnámslæknis og skrifar skýrslu um framvindu hans í námi sem lögð er fyrir framvindumatsnefnd fyrir formlegt framvindumat. Sérnámshandleiðari skal hafa sérfræðileyfi í viðkomandi sérgrein og hafa lokið og viðhaldið handleiðaraþjálfun.

Sérnámslæknir í sérnámi í tiltekinni sérgrein skal hafa nafngreindan klínískan handleiðara á hverri kennslustofnun, sem ber ábyrgð á handleiðslu sérnámslæknis við klínísk störf. Klínískur handleiðari skal hafa sérfræðileyfi og hafa lokið og viðhaldið handleiðaraþjálfun.

Í sérnámsgrunni skal læknir hafa handleiðara sem ber ábyrgð á handleiðslu og skrifar skýrslu um framvindu í lok námsárs. Handleiðari skal hafa sérfræðileyfi og hafa lokið og viðhaldið hand­leiðara­þjálfun.

 

17. gr.

Framvindumatsnefndir.

Framvindumatsnefnd hverrar sérgreinar er leidd af kennslustjóra sem skipar a.m.k. tvo sérfræð­inga viðkomandi sérgreinar og a.m.k. einn hlutlausan aðila. Meginhlutverk nefndarinnar er að gefa út ákvörðun um árlega framvindu og námslok sérnámslæknis. Ákvörðun framvindumats­nefndar má vísa til framhaldsmenntunarráðs.

 

18. gr.

Sérnámsgrunnur.

Sérnám skal hefjast á sérnámsgrunni. Nám í sérnámsgrunni skal fara fram samkvæmt mark­lýsingu fyrir sérnámsgrunn á kennslustofnunum sem fengið hafa viðurkenningu sem kennslu­stofnanir sérnámsgrunns, sbr. IV. kafla. Sérnámsgrunni skal að fullu lokið áður en sérnám í aðal­grein hefst.

Skilyrði fyrir inntöku læknis í sérnámsgrunn er að hann hafi hlotið lækningaleyfi útgefið af embætti landlæknis skv. 3. gr. Kennsluráð sérnámsgrunns gerir samning um réttindi og skyldur stofn­unar og læknis í sérnámsgrunni.

Sérnámsgrunnur skal vera 12 mánuðir og uppfylla marklýsingu fyrir sérnámsgrunn. Sérnáms­grunnur skal skiptast þannig að a.m.k. séu fjórir mánuðir í heilsugæslu og átta mánuðir á kennslu­sjúkrahúsi, þar af að lágmarki tveir mánuðir í lyflækningum, skurðlækningum og bráðalækningum. Miða skal við fullt starf. Kennsluráð sérnámsgrunns skipuleggur námsblokkir.

Kennsluráð sérnámsgrunns tekur ákvörðun um framvindu sérnámsgrunnslæknis í samræmi við framvinduviðmið marklýsingar. Heimilt er að veita undanþágu frá kröfu um 100% starfshlutfall og veita heimildir til töku sérnámsgrunns í hlutastarfi, þó að lágmarki 50% starfi, enda lengist námstími hvers hluta sérnámsgrunnsins sem því nemur. Störf sem unnin eru utan skipulagðra námsblokka samkvæmt þessu ákvæði teljast ekki hluti af sérnámsgrunni.

Formaður kennsluráðs sérnámsgrunns staðfestir á grundvelli ákvörðunar kennsluráðs sérnáms­grunns hvort læknir hafi lokið sérnámsgrunni á fullnægjandi hátt. Ef vafi leikur á um að læknir uppfylli kröfur marklýsingar skal ráðið gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt handbók um sérnám lækna og í samráði við kennslustofnanir sérnámsgrunns.

Kennslustjórar sérnámsgrunns á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og heilbrigðis­stofn­unum sem fengið hafa viðurkenningu sem kennslustofnanir fyrir sérnámsgrunn bera ábyrgð á að námið sé í samræmi við marklýsingu skv. 23. gr.

Kennsluráði sérnámsgrunns er heimilt er að meta fyrstu stig sérnáms sem stundað hefur verið erlendis upp í sérnámsgrunn enda uppfylli námið skilyrði um marklýsingu og handleiðslu og var stundað við heilbrigðisstofnun sem er viðurkennd sem kennslustofnun af heilbrigðisyfirvöldum í því ríki þar sem námið var stundað og heilbrigðisyfirvöldum hér á landi.

 

19. gr.

Sérnám í læknisfræði.

Sérnám í læknisfræði skal fela í sér fræðilegt og verklegt nám við heilbrigðisstofnun sem viður­kennd er af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi eða háskóla eða heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er til slíks sérnáms í því ríki þar sem sérnámið er stundað.

Sérnám í læknisfræði skal uppfylla, hvað varðar innihald og námstíma, kröfur um sérnám sem gerðar eru í því ríki þar sem sérnám er stundað, en við mat á sérnámi frá öðru ríki skal námið metið á grundvelli marklýsingar fyrir sérgreinina hér á landi.

Sérnám í aðalgrein skal hefjast á sérnámsgrunni skv. 18. gr. sem skal að fullu lokið áður en sér­nám í sérgrein hefst. Framvísa skal námslokavottorði úr sérnámsgrunni skv. 20. gr. Skilyrði fyrir inntöku í sérnám, þar með talinn sérnámsgrunn, er að læknir hafi hlotið lækningaleyfi hér á landi skv. II. kafla.

Allt sérnám hér á landi skal fara fram samkvæmt samþykktri marklýsingu, sbr. 23. gr., og á heilbrigðisstofnunum eða deildum heilbrigðisstofnana sem hlotið hafa viðurkenningu sem kennslu­stofnanir fyrir sérnám í læknisfræði, sbr. 24. gr. Kennslustjóri sérnáms, framkvæmdastjóri lækninga og sérnámslæknir gera sérnámssamning þar sem kveðið skal á um réttindi og skyldur stofnunar og sérnámslæknis, áætlun, lengd og fyrirkomulag sérnáms.

Miða skal við að starfshlutfall í sérnámi sé 100% starf í fimm ár og heildarnámstími því sex ár að meðtöldum sérnámsgrunni. Lægra starfshlutfall lengir sérnámstíma sem því nemur. Heildar­námstími skal að jafnaði ekki vera lengri en níu ár að meðtöldum sérnámsgrunni. Framhalds­mennt­unar­ráði er heimilt, að fenginni tillögu kennslustjóra, að veita heimild til lengri heildarnámstíma, enda séu ríkar ástæður fyrir því.

Við samþykkt nýrrar marklýsingar í sérgrein í læknisfræði skulu sérnámslæknar sem leggja stund á sérnám í sérgreininni hér á landi fá sérnám sitt samkvæmt eldri marklýsingu metið sam­kvæmt nýrri marklýsingu. Séu ríkar ástæður til staðar skal sérnámslækni standa til boða að ljúka sérnámi sínu sam­kvæmt eldri marklýsingu. Kennsluráð viðkomandi sérgreinar hér á landi fram­kvæmir matið og kemst að niðurstöðu sem heimilt er að áfrýja til framhaldsmenntunarráðs lækninga.

Kennsluráði er heimilt að meta, í stað allt að sex mánaða af heildartíma sérnáms í aðalgrein, formlegt doktorsnám sem sérnámslæknir hefur lokið, á sviði læknisfræði eða tengdra greina enda tengist það viðkomandi sérnámsgrein. Skilyrði er að sérnámslæknir hafi uppfyllt öll færni- og hæfni­viðmið sérnáms í samræmi við framvinduviðmið marklýsingar. Þrátt fyrir þetta skal heildarnámstími klínísks sérnáms ekki vera styttri en 5 ár, sbr. 25. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB.

Áunnið sumarfrí og vaktafrí sem tekið er á sérnámstímanum reiknast sem hluti af heildar­námstíma. Framvindumatsnefnd skal taka ákvörðun um hvort lengja skuli sérnám ef fjarvera af öðrum ástæðum er umfram 14 vinnudaga á námsári.

Árlega skal framkvæma framvindumat og byggja á því ákvörðun um námsframvindu og náms­lok sérnámslæknis, sbr. 20. gr. Námslok skulu staðfest af kennslustjóra og kennsluráði þegar fyrir liggur að öllum hæfni- og færnikröfum er mætt samkvæmt framvinduviðmiðum marklýsingar með útgáfu námslokavottorðs skv. 20. gr. undirrituðu af kennslustjóra sem undirritar einnig fyrir hönd kennslu­ráðs.

Hætti sérnámslæknir sérnámi í einni sérgrein og hefji sérnám í annarri sérgrein, án þess að ljúka fyrra sérnámi, er kennsluráði heimilt að meta hluta þess sérnáms sem stundað hefur verið, enda telji það fullnægjandi skörun vera á milli marklýsinga beggja sérgreina og þeirra hæfni- og færniviðmiða sem sérnámslæknir hefur uppfyllt í fyrra sérnámi. Meta má að hámarki 24 mánuði sérnáms í annarri sérgrein. Þó skal eigi meta meira en sem nemur helmingi námstíma sem fram fer hér á landi, sé um hlutasérnám að ræða.

Þeir sem ljúka sérnámi bæði í aðalsérgrein og undirsérgrein á sjö árum geta haft sveigjanlegri tímamörk milli aðalsérgreinar og undirsérgreinar en að framan getur, svo fremi sem hæfni­viðmiðum marklýsinga sé fullnægt. Þó má aðalgrein aldrei taka skemmri tíma en þrjú ár.

 

20. gr.

Námslokavottorð.

Kennsluráð sérnámsgrunns gefur út námslokavottorð sem byggir á umsögn handleiðara og náms­mati þegar læknir hefur lokið sérnámsgrunni skv. 18. gr.

Kennsluráð sérgreinar sem unnt er að stunda að fullu hér á landi gefur út námsloka­vottorð þegar sérnámslæknir hefur uppfyllt kröfur sérnámsins skv. 19. gr. samkvæmt marklýsingu og ákvörðun framvindumatsnefndar.

Kennsluráði sérgreinar er heimilt að gefa út námslokavottorð skv. 2. mgr. þó svo að hluti sér­náms hafi farið fram í öðru ríki, enda uppfylli sérnámslæknir öll skilyrði gildandi marklýsingar fyrir sér­grein­ina hér á landi að mati kennsluráðs.

 

21. gr.

Sérgreinar.

Sérgrein skal standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóð­legum vettvangi.

Ráðherra getur ákveðið að fella undir reglugerð þessa nýja sérgrein í læknisfræði, enda standi hún á traustum fræðilegum grunni og eigi sér samsvörun á alþjóðlegum vettvangi og sé þar viður­kennd. Ráðherra skal leita umsagnar embættis landlæknis og Læknafélags Íslands.

Embætti landlæknis má veita sérfræðileyfi í eftirtöldum sérgreinum í læknisfræði. Aðal­sér­greinar eru feitletraðar í köflum I-XVIII og táknaðar með tölustöfum (1., 2., 3.). Undirsérgreinar eru táknaðar með bókstöfum (a, b, c) og fela í sér frekari sérhæfingu á fræða- og starfssviði aðal­sérgreinar. Viðbótar­sérgreinar eru táknaðar með stafliðum i-iii í XIX. kafla þessa ákvæðis.

I. Skurðlækningar:

  1.    Almennar skurðlækningar.

Undirsérgreinar:

a.     Barnaskurðlækningar.

b.    Brjósta- og innkirtlaskurðlækningar.

c.     Efri-meltingarfæraskurðlækningar.

d.    Hjarta- og brjóstholsskurðlækningar.

e.     Lýtaskurðlækningar.

f.      Ristil- og endaþarmsskurðlækningar.

g.    Þvagfæraskurðlækningar.

h.    Æðaskurðlækningar.

  2.    Barnaskurðlækningar.

  3.    Handaskurðlækningar.

  4.    Heila- og taugaskurðlækningar.

  5.    Hjarta- og brjóstholsskurðlækningar.

  6.    Kviðarholsskurðlækningar.

Undirsérgreinar:

a.     Skurðlækningar efra kviðarhols.

b.    Ristil- og endaþarmsskurðlækningar.

  7.    Lýtaskurðlækningar.

  8.    Þvagfæraskurðlækningar.

  9.    Æðaskurðlækningar.

II. Augnlækningar:

Undirsérgreinar:

a.     Augnlýtalækningar.

b.    Augasteinsskurðlækningar.

c.     Barnaaugnlækningar.

d.    Glákulækningar.

e.     Hornhimnulækningar.

f.      Sjónhimnulækningar.

g.    Taugaaugnlækningar.

III. Bæklunarskurðlækningar:

Undirsérgrein:

a.     Handarskurðlækningar.

IV. Fæðinga- og kvensjúkdómalækningar:

Undirsérgreinar:

a.     Fósturgreining og meðgöngusjúkdómar.

b.    Innkirtlalækningar kvenna.

c.     Krabbameinslækningar kvenna.

d.    Vanfrjósemislækningar.

e.     Þvagfæraskurðlækningar kvenna.

V. Háls-, nef- og eyrnalækningar:

Undirsérgreinar:

a.     Háls-, nef- og eyrnaskurðlækningar.

b.    Heyrnarfræði.

c.     Radd- og talmeinafræði.

d.    Háls-, nef- og eyrnalækningar barna.

e.     Taugaheyrnarfræði.

VI. Svæfinga- og gjörgæslulækningar:

Undirsérgreinar:

a.     Bráðalækningar utan sjúkrahúsa.

b.    Gjörgæslulækningar.

c.     Sérhæfðar verkjalækningar.

d.    Svæfingalækningar við fæðingar.

e.     Svæfinga- og gjörgæslulækningar barna.

f.      Svæfinga- og gjörgæslulækningar við brjósthols- og æðaaðgerðir.

VII. Lyflækningar:

  1.    Lyflækningar.

Undirsérgreinar:

a.     Blóðlækningar.

b.    Blóð- og krabbameinslækningar.

c.     Fíknilækningar.

d.    Gigtarlækningar.

e.     Gjörgæslulækningar.

f.      Hjartalækningar.

g.    Innkirtlalækningar.

h.    Krabbameinslækningar.

i.      Líknarlækningar.

j.      Lungnalækningar.

k.    Meltingarlækningar.

l.      Nýrnalækningar.

m.   Ofnæmis- og ónæmislækningar.

n.    Smitsjúkdómalækningar.

o.    Öldrunarlækningar.

  2.    Blóðlækningar.

  3.    Blóð- og krabbameinslækningar.

  4.    Gigtarlækningar.

  5.    Hjartalækningar.

Undirsérgreinar:

a.     Hjartabilun og hjartaígræðsla.

b.    Hjartaþræðingar og innanæðaaðgerðir.

c.     Myndgreining hjarta.

d.    Raflífeðlisfræði hjarta.

  6.    Innkirtlalækningar.

  7.    Krabbameinslækningar.

Undirsérgrein:

a.     Geislalækningar krabbameina.

  8.    Lungnalækningar.

  9.    Meltingarlækningar.

10.    Nýrnalækningar.

11.    Ofnæmis- og ónæmislækningar.

12.    Smitsjúkdómalækningar.

13.    Öldrunarlækningar.

VIII. Atvinnu- og umhverfislækningar.

IX. Barnalækningar:

Undirsérgreinar:

a.     Barna- og unglingageðlækningar.

b.    Blóð- og krabbameinslækningar barna.

c.     Bráðalækningar barna.

d.    Erfðalækningar barna.

e.     Fötlun barna.

f.      Gigtarlækningar barna.

g.    Gjörgæslulækningar barna.

h.    Hjartalækningar barna.

i.      Hæfing barna.

j.      Innkirtlalækningar barna.

k.    Lungnalækningar barna.

l.      Meltingarlækningar og næring barna.

m.   Nýburalækningar.

n.    Nýrnalækningar barna.

o.    Ofnæmislækningar barna.

p.    Ofnæmis- og ónæmislækningar barna.

q.    Ónæmislækningar barna.

r.      Smitsjúkdómalækningar barna.

s.     Smitsjúkdóma- og ónæmislækningar barna.

t.      Taugalækningar barna.

u.    Unglingalækningar.

X. Bráðalækningar:

Undirsérgreinar:

a.     Bráðalækningar barna.

b.    Bráðalækningar utan sjúkrahúsa.

c.     Eitrunarfræði.

XI. Endurhæfingarlækningar.

XII. Lýðheilsufræði.

XIII. Geðlækningar:

  1.    Geðlækningar.

Undirsérgreinar:

a.     Barna- og unglingageðlækningar.

b.    Fíknigeðlækningar.

c.     Réttargeðlækningar.

d.    Samfélagsgeðlækningar.

e.     Öldrunargeðlækningar.

  2.    Barna- og unglingageðlækningar.

XIV. Heimilislækningar:

Undirsérgrein:

a.     Héraðslækningar.

XV. Húðlækningar:

Undirsérgrein:

a.     Húðmeinafræði.

XVI. Lækningarannsóknir:

  1.    Blóðmeinafræði.

  2.    Eiturefnafræði.

  3.    Erfðalæknisfræði.

  4.    Klínísk lífeðlisfræði.

  5.    Klínísk lífefnafræði.

  6.    Klínísk lyfjafræði.

  7.    Klínísk ónæmisfræði og blóðgjafafræði.

  8.    Meinefnafræði.

  9.    Meinafræði.

Undirsérgreinar:

a.     Barnameinafræði.

b.    Blóðmeinafræði.

c.     Frumumeinafræði.

d.    Réttarmeinafræði.

e.     Taugameinafræði.

10.    Ónæmisfræði.

11.    Réttarmeinafræði.

12.    Sýkla- og veirufræði.

13.    Sýklafræði.

14.    Veirufræði.

XVII. Myndgreining:

Undirsérgreinar:

a.     Myndgreining barna.

b.    Myndgreining ísótópa.

c.     Myndgreining rannsóknarinngripa.

d.    Myndgreining stoðkerfis.

e.     Myndgreining taugakerfis.

XVIII. Taugalækningar:

  1.    Taugalækningar.

Undirsérgreinar:

a.     Bólgusjúkdómar miðtaugakerfis.

b.    Flogaveiki.

c.     Heilaæðasjúkdómar.

d.    Hreyfitruflanir.

e.     Höfuðverkir.

f.      Klínísk taugalífeðlisfræði.

g.    Endurhæfing taugasjúkdóma.

  2.    Klínísk taugalífeðlisfræði.

XIX. Viðbótarsérgreinar:

i.     Öldrunarlækningar, sé umsækjandi með sérfræðileyfi í heimilislækningum.

ii.    Líknarlækningar, sé umsækjandi með sérfræðileyfi í aðalsérgrein, annarri en atvinnu- og umhverfislækningum, sérgrein innan lækningarannsókna, lýðheilsufræði, myndgrein­ingu eða klínískri taugalífeðlisfræði.

iii.   Sérhæfðar verkjalækningar, sé umsækjandi með sérfræðileyfi í aðalsérgrein, annarri en atvinnu- og umhverfislækningum, sérgreinum innan lækningarannsókna, lýðheilsu­fræði, myndgreiningu eða klínískri taugalífeðlisfræði.

 

IV. KAFLI

Mats- og hæfisnefnd um sérnám lækna.

22. gr.

Skipun og hlutverk.

Ráðherra skipar mats- og hæfisnefnd fimm sérfræðilækna til fjögurra ára í senn. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Læknafélags Íslands og einn til vara, einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu læknadeildar Háskóla Íslands og einn til vara, einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu framhaldsmenntunarráðs lækninga og einn til vara og ráðherra skipar formann án tilnefningar. Nefndin skal kalla til eftir þörfum sérfræðinga innan sérsviða læknisfræði. Ráðuneytið útvegar nefndinni starfsaðstöðu og starfsmann.

Mats- og hæfisnefnd skal:

  1. Samþykkja marklýsingar fyrir sérnámsgrunn skv. 18. gr. og sérgreinar skv. 21. gr.
  2. Meta hæfi heilbrigðisstofnana eða deilda innan þeirra til að öðlast viðurkenningu sem kennslu­stofnanir til að annast sérnám lækna, þ.m.t. sérnámsgrunn, sbr. 18. gr.
  3. Hafa eftirlit með sérnámi og kennslustofnunum eftir þörfum, eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í þessu felst m.a. að tryggja að sérnám fari aðeins fram á viðurkenndum kennslu­stofn­unum, samkvæmt marklýsingu og að handleiðarar hafi lokið og viðhaldið hand­leiðara­­þjálfun.
  4. Útbúa gæðaviðmið fyrir: a) gerð marklýsinga, b) innleiðingu og framkvæmd sérnáms og c) eftirlit með kennslustofnunum og sérnámi. Þau verði í samræmi við alþjóðleg gæðaviðmið.
  5. Fylgja eftir ákvörðunum sínum sem teknar hafa verið í samræmi við úttektir og gæða­stýringu.
  6. Gera tillögur til ráðherra um hvaða sérgreinar sé boðið upp á sérnám í hér á landi og hvað þær skuli kallast.
  7. Skipuleggja og halda utan um númerakerfi fyrir sérnámslækna.
  8. Veita umsagnir sem krefjast faglegrar sérþekkingar nefndarinnar.
  9. Sjá til þess að handbók um framkvæmd sérnáms lækna sé gefin út og uppfærð reglulega og eftir þörfum, í samvinnu við framhaldsmenntunarráð lækninga.

Embætti landlæknis samþykkir og birtir gæðaviðmið mats- og hæfisnefndar sem og handbók um sérnám lækna.

Embætti landlæknis birtir yfirlit yfir viðurkenndar kennslustofnanir sérnáms lækna, þ.m.t. sérnáms­grunns, ásamt samþykktum marklýsingum.

Nefndin skal endurskoða mat sitt á viðurkenndum kennslustofnunum og samþykktum marklýs­ingum á fjögurra ára fresti eða oftar ef tilefni er til.

Nefndinni er heimilt að fela öðrum framkvæmd gæðaeftirlits með kennslustofnunum sérnáms á forsendum og ábyrgð nefndarinnar.

 

23. gr.

Samþykki marklýsinga.

Marklýsing skal fylgja gæðaviðmiðum um gerð marklýsinga. Þar skal meðal annars kveðið á um skipulag sérnáms, inntöku, innihald, fyrirkomulag og lengd sérnámsins og einstakra námshluta, gæðakröfur, handleiðslu, framvindumat og færni- og hæfniviðmið.

Við mat marklýsinga skal nefndin kalla til sérfræðinga innan viðkomandi sérsviða læknisfræði. Einnig skal leita alþjóðlegrar ráðgjafar eftir þörfum.

Áður en marklýsing er samþykkt skal nefndin afla umsagna viðkomandi sérgreinafélags, kennslu­stofnunar sérgreinar og læknadeildar Háskóla Íslands.

Nefndin skal senda ráðherra og embætti landlæknis samþykktar marklýsingar fyrir sérnáms­grunn og sérgreinar.

 

24. gr.

Viðurkenning kennslustofnana.

Til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun fyrir sérnám í læknisfræði þarf heilbrigðis­stofnun eða deild innan hennar að uppfylla gæðaviðmið skv. 22. gr.

Nefndin skal kynna fyrir heilbrigðisstofnunum þau gæðaviðmið sem nefndin leggur til grund­vallar mati sínu til að heilbrigðisstofnun geti öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun fyrir sérnám lækna.

Heilbrigðisstofnun sem fengið hefur viðurkenningu sem kennslustofnun skal tilkynna nefndinni um allar breytingar á starfsemi sem og á mönnun sem haft getur áhrif á hæfi heilbrigðisstofnunar eða deildar heilbrigðisstofnunar til að teljast viðurkennd sem kennslustofnun til að annast sérnám lækna.

Nefndin skal senda ráðherra og embætti landlæknis yfirlit yfir viðurkenndar kennslustofnanir fyrir sérnámsgrunn og sérgreinar.

 

V. KAFLI

Réttindi og skyldur.

25. gr.

Faglegar kröfur og ábyrgð.

Læknir skal sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við þær faglegu kröfur sem gerðar eru til lækna á hverjum tíma. Lækni ber að þekkja starfs­skyldur sínar og siðareglur lækna.

Læknir skal kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðis­þjónustu svo og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli eftir því sem við á.

Lækni ber að stunda símenntun og viðhalda þannig þekkingu sinni og faglegri færni og tileinka sér nýjungar er varða starfið. Læknar skulu skrá upplýsingar um símenntun sína í samræmi við til­mæli fagfélags og sinna upplýsingaskyldu til vinnuveitenda þar um eins og við á.

Læknir ber ábyrgð á þeirri læknisfræðilegu greiningu og meðferð sem hann veitir.

Læknir skal virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem nauðsynlegt og mögulegt er, svo sem ef hann telur sig ekki geta veitt sjúklingnum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

 

26. gr.

Upplýsingaskylda og skráning.

Um upplýsingaskyldu læknis gagnvart sjúklingi fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúk­linga, nr. 74/1997.

Um skyldu læknis til að veita landlækni upplýsingar, meðal annars vegna eftirlits með heil­brigðis­starfsmönnum og heilbrigðisþjónustu og til gerðar heilbrigðisskýrslna, fer samkvæmt lögum um land­lækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.

Læknir sem veitir sjúklingi meðferð skal færa sjúkraskrá samkvæmt ákvæðum laga um sjúkra­skrár, nr. 55/2009, og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.

 

27. gr.

Trúnaður og þagnarskylda.

Um trúnað og þagnarskyldu lækna fer skv. 17. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012.

 

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

28. gr.

Gjaldtaka.

Landlækni er heimilt að innheimta sérstakt gjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur til viðbótar gjaldi skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um lækningaleyfi og sérfræðileyfi, þar á meðal fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu vegna umsókna um starfsleyfi eða sérfræðileyfi skv. 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og skv. 3. mgr. 8. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, sbr. 45. gr. reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðis­starfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi, nr. 510/2020.

 

29. gr.

Önnur lög og reglur.

Ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009, laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og laga um réttindi sjúk­linga, nr. 74/1997, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 svo og önnur lög og stjórnvalds­fyrirmæli gilda eftir því sem við á um málsmeðferð samkvæmt reglugerð þessari og um lækna og sérfræðilækna.

 

30. gr.

Gildi eldri leyfa.

Almenn lækningaleyfi og sérfræðileyfi, hvort sem er í aðal-, undir- eða viðbótarsérgreinum, á grund­velli eldri reglugerða halda gildi sínu. Ekki skal gera greinarmun á almennum lækningaleyfum gefnum út fyrir gildistöku reglugerðar þessarar og lækningaleyfum samkvæmt reglugerð þessari.

 

31. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5., 8., 30. og 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur brott reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 467/2015, ásamt síðari breytingum nr. 29/2017 og 411/2021. Þó skal 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í reglugerð nr. 467/2015 halda gildi sínu til 31. desember 2023.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem lögðu stund á eða höfðu lokið formlegu starfsnámi, sambærilegu við það sem kveðið er á um í 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 467/2015, við gildistöku reglugerðar nr. 411/2021, skulu við lok starfsnámstímans teljast hafa lokið sérnámsgrunni, enda hafi starfsnámið farið fram samkvæmt mark­lýsingu skv. 23. gr.

Heimilt er að veita læknum sem eru í sérnámi hér á landi og eiga minna en þrjú ár eftir af sérnámi í almennum lyflækningum, barna- og unglingageðlækningum, bráðalækningum, bæklunar­skurðlækn­ingum, fæðinga- og kvensjúkdómalækningum, geðlækningum eða heimilislækningum við gildistöku reglugerðar þessarar sérfræðileyfi á grundvelli eldri reglugerðar nr. 467/2015. Undanþága þessi gildir til 30. júlí 2026 nema ef sérnámslæknir fór í veikindaleyfi, fæðingarorlof, eða sambæri­legt, eftir gildistöku reglugerðar þessarar, þá gildir undanþágan lengur, sem því nemur, þó eigi lengur en til 30. júlí 2028.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 10. ágúst 2023.

 

Willum Þór Þórsson.

Ásta Valdimarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 16. ágúst 2023