I. KAFLI
Gildissvið o.fl.
1. gr.
Gildissvið og tengsl við lög og reglur.
Reglur þessar fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) eru settar af háskólaráði og gilda fyrir háskólann, þ.m.t. háskólaráð, framkvæmdastjórn, starfsfólk og nemendur.
Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr. 63/2006 um háskóla og laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.
Reglur þessar teljast grundvallarreglur fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands. Þær eru til fyllingar settum lögum sem um háskólann gilda en ganga framar öðrum reglum settum af hálfu háskólans.
II. KAFLI
Stjórnskipulag háskólans.
2. gr.
Skipulagseiningar og yfirstjórn.
Landbúnaðarháskóli Íslands er sjálfstæð menntastofnun sem heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Um stöðu og hlutverk háskóla er fjallað í 3. gr. laga nr. 85/2008.
Háskólaráð ákveður skipan skipulagseininga, hlutverk þeirra, mörk og verkaskiptingu en sé um grundvallarbreytingar á skipan háskólans að ræða ber að afla umsagnar háskólafundar, sbr. 4. og 11. gr. laga nr. 85/2008.
Landbúnaðarháskóli Íslands starfar sem einn skóli, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2008, og telst allt fastráðið starfsfólk til háskólasamfélagsins. Skólinn hefur eina fagdeild. Rektorsskrifstofa, fjármála- og rekstrarsvið, kennsluskrifstofa og rannsóknir og alþjóðasamskipti mynda stjórnsýslu og stoðþjónustu háskólans. Hlutverk stjórnsýslu- og stoðþjónustu er að skapa fræðasviði, deildum og starfsfólki háskólans skilyrði til að vinna störf sín í samræmi við lög og reglur háskólans.
Stjórn háskólans er falin háskólaráði og rektor, en framkvæmdastjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri og fylgni við rekstraráætlanir.
Við málsmeðferð og ákvarðanatöku af hálfu háskólans skal þar til bært starfsfólk jafnan gæta laga, góðra stjórnsýsluhátta, jafnræðis og annarra málefnalegra sjónarmiða.
3. gr.
Háskólaráð.
Stjórn Landbúnaðarháskóla Íslands er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð markar heildarstefnu í kennslu og rannsóknum, mótar skipulag háskólans, fer með almennt eftirlit og ber ábyrgð á að háskólinn starfi í samræmi við gildandi lög og reglur.
Háskólaráð annast staðfestingu á almanaki, námskrám og kennsluskrám háskólans.
Háskólaráð setur reglur um starfsmenntanám, nám á bakkalársstigi og um framhaldsnám á meistara- og doktorsstigi við háskólann.
Færa skal til bókar og kunngera með viðeigandi hætti ákvarðanir háskólaráðs. Háskólaráðsfundur er ályktunarfær ef fimm af sjö atkvæðisbærum fulltrúum sitja fundinn.
Rektor háskólans er jafnframt formaður háskólaráðs og boðar til funda í ráðinu og stýrir fundum þess, en um fundarboðun og ákvarðanatöku af hálfu ráðsins er fjallað í 7. gr. laga nr. 85/2008.
Háskólaráð kýs sér varaformann sem stýrir fundi í forföllum rektors. Auk rektors eiga eftirtaldir sæti í háskólaráði til tveggja ára í senn:
- Tveir fulltrúar háskólasamfélagsins, tilnefndir af háskólafundi. Að minnsta kosti einn akademískur fulltrúi skal sitja í ráðinu.
- Einn fulltrúi nemenda tilnefndur af Nemendafélagi LbhÍ.
- Einn fulltrúi tilnefndur af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
- Tveir fulltrúar tilnefndir af þeim framangreindu fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.
Tilnefna skal varamann fyrir sérhvern fulltrúa í a–c-lið og einn varamann fyrir fulltrúa skv. d-lið með sama hætti.
Þeir sem háskólasamfélagið velur sem fulltrúa starfsfólks í háskólaráð skal vera fastráðið starfsfólk LbhÍ þegar tilnefning á sér stað. Rektor eða aðrir fulltrúar úr framkvæmdastjórn eru þó ekki kjörgengir, sbr. 6. gr. Háskólasamfélagið er hér skilgreint sem allt fastráðið starfsfólk LbhÍ þegar háskólafundur á sér stað.
Kosning fulltrúa starfsfólks í háskólaráð skal tekin á dagskrá háskólafundar samkvæmt útsendu fundarboði. Samtímis því sem fundarboð er sent út a.m.k. tveimur vikum fyrir fund skal auglýst eftir framboðum. Skulu framboð berast skrifstofu rektors a.m.k. viku fyrir boðaðan fund.
Á háskólafundi er kosið á milli þeirra sem eru í kjöri til að taka sæti sem fulltrúar starfsfólks í háskólaráði, en fulltrúar nemenda á háskólafundi hafa þó ekki atkvæðisrétt um kjör til háskólaráðs.
Nemendafélag LbhÍ annast val á fulltrúa nemenda í háskólaráð og skal rektor f.h. háskólaráðs kalla eftir tilnefningu af þess hálfu a.m.k. þremur vikum áður en kjörtímabil nýrra fulltrúa hefst.
Háskólaráð getur sett frekari reglur um val á fulltrúum háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð. Rektor skal jafnan afla umsagnar háskólafundar og Nemendafélags LbhÍ áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.
Um skipan háskólaráðs og um hlutverk þess að öðru leyti er fjallað í 5.–6. gr. laga nr. 85/2008.
4. gr.
Rektor.
Rektor er æðsti yfirmaður stjórnsýslu háskólans og er í forsvari fyrir háskólann almennt en um hlutverk hans og heimildir er fjallað í 8. gr. laga nr. 85/2008.
Rektor stýrir daglegri starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum hans. Hann ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum og annast gerð starfs- og rekstraráætlana.
Rektor ræður starfsfólk. Rektor skal enn fremur sjá til þess að til séu starfslýsingar fyrir allt starfsfólk.
Rektor hefur yfirumsjón með sjóðum háskólans og öðrum eignum nema háskólaráð ákveði annað. Um stjórn sjóða fer að öðru leyti eftir fyrirmælum í stofnskrám og samþykktum. Rektor boðar til funda eftir reglum háskólans og hefur umsjón með útgáfu ársskýrslu.
Háskólaráð getur heimilað að rektor ráði aðstoðarrektor og skal rektor þá setja honum erindisbréf þar sem umboð hans er afmarkað. Aðstoðarrektor skal uppfylla kröfur um akademískt hæfi og skal skipanin staðfest af háskólaráði. Aðstoðarrektor er rektor til aðstoðar og gegnir starfinu tímabundið í fjarveru eða forföllum hans sem og í þeim tilvikum þegar rektor er vanhæfur samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
Falli rektor frá eða láti af störfum áður en starfstími er liðinn sinnir aðstoðarrektor starfinu þar til nýr rektor hefur verið skipaður samkvæmt lögum og reglum um háskólann en sé enginn aðstoðarrektor tilnefnir háskólaráð akademískan starfsmann til að vera settur til að gegna rektorsstörfum tímabundið. Hið sama á við ef rektor forfallast vegna veikinda eða fær leyfi frá störfum.
5. gr.
Skipun rektors.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, en um skipun rektors við háskólann er fjallað í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2008.
Við val á rektor skal háskólaráð tilnefna þrjá fulltrúa í valnefnd til að meta hæfni umsækjenda og skal einn þeirra tilnefndur sem formaður nefndarinnar.
Valnefndarmenn skulu hafa lokið æðri prófgráðu við háskóla og hafa auk þess marktæka stjórnunarreynslu á háskólastigi.
Leggja skal heildstætt mat á hæfni umsækjenda um embætti rektors með tilliti til menntunar, vísinda- og útgáfustarfa, ferils sem háskólakennara eða í öðrum störfum, samstarfs-, samskipta- og stjórnunarhæfni og út frá því meta hvernig menntun, reynsla, sýn og aðrar áherslur viðkomandi muni nýtast í starfi rektors.
Engum má veita embætti rektors nema meiri hluti valnefndar hafi látið í ljós það álit að viðkomandi teljist hæfur til að gegna starfinu.
Ef sitjandi rektor háskólans sækist eftir endurtilnefningu skal hann víkja af fundi háskólaráðs við meðferð og afgreiðslu málsins.
Háskólaráð skal annast auglýsingu á lausu starfi rektors og getur ráðið falið sitjandi rektor að annast framkvæmd þar að lútandi.
6. gr.
Framkvæmdastjórn háskólans.
Dagleg stjórnun háskólans er í höndum framkvæmdastjórnar. Fulltrúar í framkvæmdastjórn eru, auk rektors, deildarforseti, kennsluforseti, rekstrarstjóri, rannsókna- og alþjóðafulltrúi og mannauðs‑ og gæðastjóri.
Rektor boðar til funda að jafnaði hálfsmánaðarlega á tímabilinu september–júní. Fulltrúar í framkvæmdastjórn geta óskað eftir að fundur verði haldinn ef brýn mál krefjast úrlausnar.
Framkvæmdastjórn hefur eftirlit með daglegum rekstri háskólans, fylgir eftir ákvörðunum háskólaráðs og hefur frumkvæði að nýjum hugmyndum, verkefnum og stefnumarkandi málefnum er varða hag háskólans. Í framkvæmdastjórn er farið yfir og teknar ákvarðanir um fjármál, áætlanagerð, uppgjör samstarfssamninga, framgang þróunarverkefna og nýsköpunar, auk samræmingar verkefna á milli einstakra skipulagseininga háskólans. Háskólaráð og fulltrúar í framkvæmdastjórn geta vísað málum til framkvæmdastjórnar.
7. gr.
Fagdeild skólans og námsbrautir.
Skólinn starfrækir eina fagdeild, Líf og land, sem ber faglega ábyrgð á rannsóknum, kennslu, námi og veitingu prófgráða við námslok.
Deildin annast bæði kennslu og rannsóknir á viðkomandi fræðasviðum í samræmi við viðurkenningu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Ein eða fleiri námsleiðir deildarinnar mynda saman námsbrautir sem námsbrautarstjórar fara fyrir samkvæmt ákvörðun háskólaráðs hverju sinni, byggt á tillögu deildarinnar, sbr. ákvæði til bráðabirgða I.
Deildin býður upp á starfsmenntanám samkvæmt námskrá háskólans með tilvísun til heimildar í d-lið 2. mgr. 21. gr. laga nr. 63/2006. Námskrárbundið starfsmenntanám skal uppfylla skilyrði laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla eftir því sem við á en um námið gilda sérstakar reglur sem háskólaráð setur. Skipulag skólans í aðrar mögulegar skipulagseiningar skal ákvarðað af háskólaráði, og þá eftir umsögn háskólafundar ef með þarf, sbr. 11. gr. laga nr. 85/2008.
8. gr.
Starfsnefndir og ráð Landbúnaðarháskóla Íslands.
Við Landbúnaðarháskóla Íslands starfa eftirtaldar starfsnefndir og ráð: siðanefnd, jafnréttisnefnd, öryggisnefnd, stefnu- og gæðaráð, vísindaráð og kennsluráð. Nefndirnar og ráðin eru ráðgefandi hver á sínu sviði, en fara hvorki með framkvæmda- né ákvörðunarvald, nema sérstaklega sé kveðið á um það í erindisbréfi eða starfsreglum þeirra.
Í siðanefnd skulu eiga sæti þrír fulltrúar, allir utan háskólans. Siðanefnd háskólans skal vera háskólaráði og framkvæmdastjórn til ráðgjafar um gerð og túlkun siðareglna. Siðanefnd starfar eftir siðareglum sem háskólaráð setur, sbr. 2. mgr. 2. gr. a laga nr. 63/2006. Háskólaráð skipar siðanefnd, jafnréttisnefnd og öryggisnefnd til tveggja ára í senn. Stefnu- og gæðaráð er skipað framkvæmdastjórn og fulltrúa nemenda samkvæmt tilnefningu stjórnar Nemendafélags LbhÍ. Um vísindaráð er fjallað nánar í 14. gr. og um kennsluráð í 15. gr.
9. gr.
Háskólafundur.
Háskólafundur er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins. Þar fer fram umræða um þróun og eflingu háskólastarfsins, en um hlutverk og heimildir fundarins fer skv. 9. gr. laga nr. 85/2008 og reglum sem gilda á því sviði.
Háskólaráð getur sett frekari reglur um hlutverk háskólafundar. Háskólaráð getur leitað umsagnar háskólafundar um hvaðeina sem varðar starfsemi háskólans og stjórnunareininga hans og telst fundurinn ályktunarbær um þau mál sem fundurinn telur að varði hag háskólasamfélagsins.
Háskólafund skal halda a.m.k. einu sinni á ári. Rektor boðar til hans og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Niðurstöður ályktana af hálfu háskólafundar skulu kynntar á vettvangi háskólans. Að jafnaði skal háskólafundur vera haldinn fyrir 1. júní ár hvert. Æski tveir þriðju hlutar fulltrúa á háskólafundi fundar er rektor skylt að boða til hans.
Rétt til setu á háskólafundi á allt starfsfólk háskólans sem er í 49% starfi eða meira.
Nemendur háskólans tilnefna eftir kosningu á vettvangi Nemendafélags LbhÍ þrjá fulltrúa, einn af hverju námsstigi og jafn marga til vara, til setu á háskólafundi til eins árs í senn.
Háskólaráð getur sett nánari reglur um fjölda fulltrúa sem eiga sæti á háskólafundi og um val þeirra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2008. Fulltrúar í háskólaráði, aðrir en starfsfólk, hafa sem slíkir rétt til setu á háskólafundi en ekki atkvæðisrétt.
III. KAFLI
Fagdeild og akademískt starfsfólk.
10. gr.
Fagdeild.
Deildarfundur fer með yfirstjórn fagdeildar ásamt deildarforseta, sbr. 11. og 12. gr.
Starfrækja á námsbrautir og rannsóknarhópa innan deildar, en deildarforseti sér um að námsbrautum séu settar reglur um stjórnskipulag á deildarfundum, sem taka gildi við staðfestingu háskólaráðs.
11. gr.
Deildarforseti og kennsluforseti.
Deildarforseti hefur yfirumsjón með starfsemi og rekstri deildar og vinnur að stefnumörkun og framþróun málefna hennar, auk þess að vera næsti yfirmaður starfsfólks hennar. Á meðal helstu verkefna deildarforseta eru:
- Umsjón með málum sem snerta rannsóknir og alþjóðlegt samstarf í samstarfi við vísindaráð og rannsókna- og alþjóðafulltrúa.
- Annast fundarboð til fulltrúa á deildarfundi og fundarstjórn á þeim.
- Gerð fjárhagsáætlunar deildar í samvinnu við kennsluforseta og rekstrarstjóra.
- Frumkvæði að samstarfi milli brauta og við aðra skóla, stofnanir og hagaðila.
- Frumkvæði að því að settar séu reglur um innri málefni deildar.
- Ábyrgð á framkvæmd gæða- og starfsmannamála í starfsemi deildar í samstarfi við mannauðs- og gæðastjóra, stefnu- og gæðaráð og kennsluskrifstofu.
Deildarforseti er jafnframt formaður vísindaráðs.
Kennsluforseti hefur yfirumsjón með kennslu og námskrárgerð í samstarfi við deildarforseta, námsbrautarstjóra, kennslustjóra og annað starfsfólk kennsluskrifstofu. Helstu verkefni kennsluforseta eru:
- Umsjón með útfærslu og samþættingu námsframboðs í samvinnu við námsbrautarstjóra.
- Yfirsýn með mönnun námskeiða og umsjón með ráðningu stundakennara.
- Yfirsýn og eftirfylgni með gæðum kennslu.
- Yfirumsjón með málefnum nemenda er varða framvindu, umkvartanir eða annað, í samvinnu við kennsluskrifstofu.
- Fulltrúi LbhÍ í Miðstöð framhaldsnáms og aðalumsjón með framhaldsnámi skólans.
Kennsluforseti getur falið öðrum innan kennsluráðs, sbr. 15. gr., verkefni sem lúta að einstökum námsleiðum, námsstigum eða öðru faglegu starfi innan brauta, ef þörf er á, í samráði við námsbrautarstjóra, deildarforseta og kennslustjóra. Til dæmis þar sem krafist er fullnægjandi sérfræðináms á fagsviði viðkomandi námsleiðar.
12. gr.
Ráðning deildarforseta og kennsluforseta.
Rektor ræður deildarforseta og kennsluforseta til fimm ára samkvæmt verklagsreglum sem háskólaráð setur og starfa þeir í umboði hans. Forseti getur að hámarki starfað í tvö ráðningartímabil.
Umsækjendur um starf deildarforseta og kennsluforseta skulu uppfylla almenn hæfisskilyrði sem akademískt starfsfólk á fræðasviðum skólans. Hæfisnefnd sem í sitja a.m.k. fulltrúar þriggja meginsviða skólans (landbúnaðarvísinda, náttúru- eða skógfræða og skipulagsfræða eða landslagsarkitektúrs), auk annarra metur hæfni umsækjenda um stöðu deildarforseta og kennsluforseta og skal sérstaklega litið til starfsferils, starfsreynslu og menntunar umsækjenda með tilliti til eðlis starfsins. Nánar er kveðið á um hæfniskröfur, ábyrgð og verkefni deildarforseta og kennsluforseta í starfslýsingu.
Rektor er heimilt að kalla hæfan starfsmann LbhÍ til þessara starfa, eftir umsögn hæfisnefndar og meirihlutakosningu á háskólafundi.
Rektor skipar varamenn fyrir deildarforseta og kennsluforseta að fenginni tilnefningu deildarfundar og er heimilt að þeir séu varamenn hvors annars.
13. gr.
Deildarfundur.
Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald deildar.
Deildarfundur fjallar um meginatriði í starfsemi deildar og ber ásamt deildarforseta ábyrgð á að starfsemi deildar sé til samræmis við lög og reglur.
Á meðal helstu verkefna sem heyra undir deildarfund eru:
- Aðkoma að mótun stefnu varðandi nám og rannsóknir á sviði deildar.
- Að skera úr málum sem varða skipulag kennslu innan deildar.
- Umfjöllun um árlega fjárhagsáætlun deildar.
- Tillögur til háskólaráðs um stofnun og niðurlagningu námsbrauta og námsleiða.
- Að setja deild frekari reglur og skipulag eftir því sem við á um innri málefni.
- Að sinna öðrum verkefnum sem deild er falið af háskólaráði eða rektor.
Þar sem við á eru þessi verkefni unnin í samráði við aðrar skipulagseiningar skólans.
Öllu starfsfólki deildar með atkvæðisrétt er skylt að sitja deildarfundi. Atkvæðisrétt hefur starfsfólk með 49% starfshlutfall eða meira. Forföll skal tilkynna deildarforseta.
Jafnframt hafa þrír fulltrúar nemenda, tilnefndir af hálfu Nemendafélags LbhÍ, rétt til fundarsetu og atkvæðisrétt til eins árs í senn, hver af sínu námsstigi. Einnig á starfsfólk Landgræðsluskólans rétt til fundarsetu og atkvæðisrétt á fundum deildar.
Rektor er heimilt að sitja deildarfundi og hefur þar málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt. Einnig hafa akademískir gestakennarar og aðrir gestakennarar sem hafa umsjón með heilum áföngum rétt til setu á deildarfundi en ekki atkvæðisrétt.
Deildarfundur skal að jafnaði haldinn a.m.k. einu sinni á misseri. Deildarforseti skal gera áætlun um deildarfundi skólaársins og kynna hana fyrir þeim sem eiga þar rétt til setu.
Skylt er að boða til deildarfundar ef rektor eða þriðjungur fulltrúa, sem eru atkvæðisbærir á deildarfundi, æskja þess.
Deildarforseti boðar til deildarfunda með tölvupósti, helst með viku fyrirvara ef unnt er, og skal greina frá fundarefni á dagskrá í fundarboði.
Á deildarfundi eru settar reglur um innra skipulag er fjalla m.a. um hlutverk deildar- og námsbrautarfunda og um kjör, kjörtímabil og hlutverk námsbrautarstjóra og annarra sem sinna trúnaðarstörfum fyrir deild.
Deildarfundur er ályktunarbær ef 50% atkvæðisbærs starfsfólks deildar sækir fundinn. Meiri hluti atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði deildarforseta úr.
Fundargerðir deildarfundar skal birta á innri vef háskólans og ákvarðanir deildarfunda skulu færðar til bókar.
14. gr.
Vísindaráð.
Vísindaráð fer með málefni deildar samkvæmt nánari ákvörðun deildarfundar og fjallar um málefni hennar á milli deildarfunda að frumkvæði deildarforseta. Deildarforseta ber að taka upp þau mál úr framkvæmdastjórn sem tengjast hlutverki vísindaráðs á fundum þess og koma ályktunum vísindaráðs til framkvæmdastjórnar og rektors.
Vísindaráð skal stuðla að öflugu faglegu umhverfi innan deildar, efla rannsóknir og rannsóknainnviði og fjármögnun þeirra, m.a. með sókn í samkeppnissjóði. Einnig skal það huga sérstaklega að því að viðhalda og endurnýja faglega þekkingu á fagsviðum skólans við nýráðningar í akademísk störf.
Í vísindaráði skulu eiga sæti, auk deildarforseta sem er formaður ráðsins, kennsluforseti, rannsókna- og alþjóðafulltrúi, þrír fulltrúar deildar, ásamt fulltrúa framhaldsnema sem Nemendafélag LbhÍ tilnefnir árlega til setu á deildarfundi. Af fulltrúum deildar skal vera a.m.k. einn sem starfar á sviði landbúnaðarvísinda, einn sem starfar á sviði náttúru- eða skógfræða og einn sem starfar á sviði skipulagsfræða eða landslagsarkitektúrs. Fulltrúar deildar eru kosnir til tveggja ára í senn á deildarfundi, sbr. ákvæði til bráðabirgða II.
Vísindaráð tekur ákvörðun með sama hætti og gert er á deildarfundum. Ákvörðun þess er hægt að skjóta til deildarfundar innan þriggja vikna frá því að hún var kynnt. Á deildarfundi er hægt að setja nánari reglur um skipan, vald og verksvið vísindaráðs.
15. gr.
Kennsluráð.
Kennsluráð sinnir m.a. kennsluþróun og samræmingu milli námsbrauta, fjallar um námskrár og kennsluskrár fyrir einstakar námsbrautir, fylgist með gæðum náms og kennslu, fjallar um meiri háttar málefni einstakra nemenda og ágreiningsmál sem upp kunna að koma í framkvæmd kennslu og námsmats. Um grunnnám er nánar fjallað í reglum um BS-nám við háskólann sem háskólaráð staðfestir. Um framhaldsnám er nánar fjallað í reglum um meistaranám og reglum um doktorsnám við háskólann sem háskólaráð staðfestir. Um starfsmenntanám er fjallað í reglum um starfsmenntanám við háskólann sem háskólaráð staðfestir.
Kennsluforseti er formaður kennsluráðs, en auk hans eiga þar sæti námsbrautarstjórar, þrír fulltrúar nemenda og kennslustjóri, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða III. Ákvörðun kennsluráðs er hægt að skjóta til deildarfundar innan þriggja vikna frá því að hún var kynnt. Háskólaráð getur sett nánari reglur um skipan, vald og verksvið kennsluráðs.
16. gr.
Rannsóknarhópar.
Innan deildar starfa rannsóknarhópar. Á fundum slíkra hópa er m.a. rædd staða rannsókna- og þróunarverkefna, ný verkefni, styrkumsóknir eða hvað annað sem þarf til að skipuleggja vinnu við rannsóknir, nýsköpun og þróun. Hver hópur hefur frjálsræði hvað varðar stjórnskipulag sitt og verkaskiptingu.
Allt starfsfólk deildar, einstaklingar í akademískum gestastöðum og allir doktorsnemar skólans skulu tilheyra a.m.k. einum rannsóknarhópi, en mega einnig taka þátt í fleiri hópum. Að lágmarki skal vera minnst einn virkur rannsóknarhópur á hverju af þremur meginsviðum skólans, sbr. 12. gr. Hópstjóri boðar til funda rannsóknarhópsins eftir þörfum en að lágmarki tvisvar á ári.
Rannsóknarhópar eru stofnaðir eða lagðir niður með ákvörðun á deildarfundi.
Nafn, lýsing á hlutverki og samsetning hvers rannsóknarhóps skal gerð sýnileg á heimasíðu LbhÍ, auk þeirra rannsókna, þróunar og nýsköpunar sem hann hefur stuðlað að.
17. gr.
Starfsfólk fagdeildar.
Innan deildar starfar akademískt starfsfólk, aðjúnktar, kennarar í starfsmenntanámi, verkefnastjórar, sérfæðingar og þeir doktorsnemar sem eru á launaskrá skólans og eru kjörgengir í vísindaráð og námsbrautarstjórn. Til akademísks starfsfólks teljast prófessorar, dósentar og lektorar. Um hlutverk og ábyrgð akademísks starfsfólks fer skv. V. kafla laga nr. 85/2008 en háskólaráð getur að fenginni umsögn deildar sett nánari reglur um starfsheiti og starfsskyldur þeirra.
Rektor ræður í akademísk störf, en um veitingu akademískra starfa við háskólann er fjallað í 17. gr. laga nr. 85/2008 og reglum sem gilda um starfsemi háskólans. Eingöngu má ráða sem akademískan starfsmann einstakling sem lokið hefur fullnaðarprófi frá háskóla eða annarri sambærilegri stofnun í þeirri aðalgrein eða tengdri fræðigrein sem hann á að sinna.
Umsækjendur um akademísk störf skulu láta fylgja umsókn sinni ítarlega skýrslu um vísinda- og fræðastörf sín, ritsmíðar, rannsóknir, kennslustörf, stjórnunarstörf, námsferil og önnur störf.
Um skipun og störf dómnefndar um mat á umsóknum um störf prófessora, dósenta og lektora og um framgang akademískra starfsmanna fer skv. 16. gr. laga nr. 85/2008 og reglum sem háskólaráð setur á grundvelli laga að fenginni umsögn háskólafundar.
Þegar auglýst er akademískt starf og fleiri en einn umsækjandi hlýtur hæfnisdóm er skipuð valnefnd sem setur fram tillögu til rektors um hverjum skuli boðið starfið.
Heimilt er að fela fastadómnefnd verk- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands að annast dómnefndarmat fyrir háskólann.
Rektor er heimilt að bjóða tímabundnar akademískar gestastöður þar sem augljós ávinningur er fyrir starfsemi háskólans. Gestalektorar, -dósentar og -prófessorar undirgangast sama hæfnismat og annað akademískt starfsfólk háskólans. Aðjúnktar, verkefnastjórar, sérfræðingar, kennarar í starfsmenntanámi og stundakennarar sinna kennslu og/eða rannsóknum en þeir teljast ekki til akademísks starfsfólks.
Rektor, deildarforseti og kennsluforseti ákvarða í samráði hvernig starfsskyldur einstakra akademískra starfsmanna og annarra starfsmanna fagdeilda skiptast á milli kennslu, rannsókna og annarra starfsþátta í samræmi við kjarasamninga og lög og reglur um starfsskyldur og réttindi kennara.
18. gr.
Námsbrautarstjórar.
Í forsvari hverrar námsbrautar er námsbrautarstjóri sem er tengiliður námsbrautar við nemendur, kennsluskrifstofu og kynningarstjóra. Háskólaráð setur nánari verklagsreglur um hlutverk námsbrautarstjóra.
Rektor skipar námsbrautarstjóra úr hópi fastráðins starfsfólks til tveggja ára í senn að fengnum tillögum frá deild.
Námsbrautarstjórar bera ábyrgð á faglegri umsjón námsbrauta og framkvæmd kennslu og skulu stuðla að nánu samstarfi sín á milli til að nýta sem best mannafla, fjármuni, aðstöðu, tæki og búnað.
19. gr.
Rannsóknarmisseri.
Háskólaráði er heimilt að veita kennurum og öðru fastráðnu starfsfólki háskólans leyfi til rannsóknarmisseris í allt að eitt ár á föstum launum, enda liggi fyrir fullnægjandi greinargerð um hvernig umsækjandi hyggst verja þeim tíma til að auka þekkingu sína eða sinna sérstökum rannsóknarverkefnum.
Eftir því sem fjárlög heimila og kjarasamningar gera ráð fyrir getur háskólaráð veitt einstaklingi styrk á meðan hann er í leyfi til rannsóknarmisseris vegna nauðsynlegs ferða- og dvalarkostnaðar.
Háskólaráð skal setja nánari reglur um rannsóknarmisseri og styrkveitingar.
IV. KAFLI
Starfsmenntun.
20. gr.
Starfsmenntun.
Starfsmenntanám er starfrækt innan brauta þar sem það á við og sér kennsluforseti um að starfsmenntanámsbrautir samræmist samþykktri námskrá og samþykktum háskólaráðs, sbr. 28. gr.
V. KAFLI
Endurmenntun og fræðsla.
21. gr.
Endurmenntun og fræðsla.
Endurmenntun og fræðsla skal starfrækt fyrir almenning í þeim fræðum sem viðurkenning háskólans tekur til.
Með endurmenntun er átt við:
- einstök námskeið fyrir fólk á fagsviði þess, sem myndað geta samstæða heild og er eftir atvikum metin til eininga og
- viðbótarnám fyrir almenning á þverfaglegum grunni sem miðar að skilgreindum námslokum eða prófgráðu.
Með fræðslu fyrir almenning er átt við:
- fyrirlestra, fræðslu, málstofur og námskeið um tiltekin málefni og
- einstök námskeið eða flokk námskeiða sem myndað geta samstæða heild.
Endurmenntunarnám er utan við hefðbundið námsframboð háskólans. Þó er heimilt að bjóða einstök námskeið á starfsmenntanáms-, grunnáms- eða meistarastigi, sem eru hluti hefðbundins náms til prófgráðu, sem endurmenntunarnámskeið gegn gjaldi.
Um gjaldtöku vegna endurmenntunar og fræðslu fyrir almenning á vegum skólans fer eftir e- og f-lið 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Háskólaráð skal staðfesta reglur um endurmenntun og gjaldtöku vegna hennar.
Rektor ræður endurmenntunarstjóra. Endurmenntunarstjóri hefur umsjón með endurmenntun og fræðslu í samvinnu við framkvæmdastjórn háskólans. Á meðal helstu verkefna endurmenntunarstjóra eru:
- Yfirumsjón með kennslu og framboði námskeiða.
- Gerð fjárhagsáætlunar fyrir endurmenntun og útreikning á gjaldtöku sem lögð er fyrir háskólaráð.
- Frumkvæði að samstarfsverkefnum innan skólans og við aðra hagaðila.
- Ábyrgð á framkvæmd gæðastjórnunar í endurmenntun og fræðslu.
VI. KAFLI
Stjórnsýsla og stoðþjónusta.
22. gr.
Sameiginleg stjórnsýsla.
Sameiginleg stjórnsýsla annast almenna stjórnsýslu og stoðþjónustu fyrir háskólann á eftirfarandi sviðum:
- Rektorsskrifstofu.
- Fjármála- og rekstrarsviði.
- Rannsókna og alþjóðasamskiptum.
- Kennsluskrifstofu.
Heimilt er að hafa sameiginlegan sviðsstjóra fyrir eitt eða fleiri þessara sviða. Rektor setur stjórnendum þessara sviða erindisbréf eða starfslýsingu.
23. gr.
Rektorsskrifstofa.
Rektorsskrifstofa ber ábyrgð á mannauðs-, gagna-, gæða-, kynningar- og útgáfumálum sem og endurmenntun háskólans. Hér undir heyra markaðsmál, kynningarstarf skólans og yfirumsjón með vef skólans og skjalasafni. Mannauðs- og gæðastjóri er fulltrúi háskólans í samstarfsnefnd um gæðamál háskóla. Hann annast, í samstarfi við rektor og deildir, undirbúning og framkvæmd sjálfsmats og ytra mats á háskólanum og eftirfylgni umbótaáætlana.
24. gr.
Fjármála- og rekstrarsvið.
Fjármála- og rekstrarsvið ber ábyrgð á fjármálum, framkvæmdum, tækniþjónustu og annarri stoðþjónustu, svo sem bókhaldi og launamálum, því sem lýtur að fasteignum skólans eða umsýslu vegna fasteigna sem tengjast skólastarfinu, auk reksturs á tölvukerfi og þjónustuveri háskólans. Rektor skal ráða rekstrarstjóra fyrir háskólann sem heyrir beint undir rektor. Rekstrarstjóri skal undirbúa árlega fjárhagsáætlun og hafa eftirlit með því að rekstur háskólans sé í samræmi við gildandi heimildir hverju sinni. Rekstrarstjóri stýrir fjármála- og rekstrarsviði og annast fjárreiður skólans.
25. gr.
Rannsóknir og alþjóðasamskipti.
Rannsókna- og alþjóðafulltrúi er ráðinn af og heyrir beint undir rektor, eða annan þann er rektor tilnefnir. Fulltrúanum er ætlað að hafa heildaryfirsýn yfir rannsóknarverkefni við háskólann, fjárhagsmál þeirra og framtal akademískra starfsmanna vegna starfa þeirra. Hann ber ábyrgð á miðlun upplýsinga um rannsóknir og skýrslugerð þar um, í samræmi við lög og samninga. Þá veitir hann starfsfólki upplýsingar og aðstoð varðandi innlenda og erlenda rannsóknasjóði og hvetur starfsfólk til að afla rannsóknarstyrkja. Enn fremur ber rannsókna- og alþjóðafulltrúi ábyrgð á að hafa yfirsýn yfir og sjá um samþættingu alþjóðasamskipta er varða rannsóknir, nemendaskipti og annað samstarf.
26. gr.
Kennsluskrifstofa.
Kennsluskrifstofa og kennslustjóri heyra undir kennsluforseta. Kennsluskrifstofa veitir námsbrautum og rannsóknanámi háskólans þjónustu.
Kennsluskrifstofa hefur forgöngu um kennsluþróun og samræmingu náms í samráði við kennsluráð og deild og ber einnig ábyrgð á eftirliti með gæðum náms og vísar eftir atvikum málum til kennsluforseta, námsbrautarstjóra eða deildarforseta.
Kennsluskrifstofa annast daglegan rekstur kennslumála undir verkstjórn kennslustjóra. Undir skrifstofuna heyrir skipulag kennslu og stundarskrárgerð, almenn afgreiðsla og nemendaskrá, prófstjórn, námsráðgjöf og umsjón með brautskráningum.
VII. KAFLI
Nemendur, kennsla og námsmat.
27. gr.
Nám og kennsla á háskólastigi.
Fagdeild ber akademíska ábyrgð á kennslu, kennslufyrirkomulagi og á veitingu námsgráða við háskólann, í samræmi við reglur um starfsmenntanám, BS-nám, meistaranám og doktorsnám við háskólann, sem háskólaráð staðfestir.
Kennsluskrifstofa skal hlutast til um að settar séu almennar reglur um kennslu og kennsluhætti sem háskólaráð staðfestir.
Námskeið skulu metin til eininga, en fullt nám á háskólastigi á námsári skal almennt samsvara 60 námseiningum (ECTS) og endurspegla alla námsvinnu nemanda. Háskólaráð skal setja almennar reglur um mat námskeiða til eininga.
Deild er heimilt að setja nemendum skilyrði um að ljúka námi á tilteknu námsári áður en þeir megi hefja nám á næsta námsári námsins og skal nemendum tilkynnt um slíkt fyrirkomulag.
Hámarkstími í tilteknu námi við háskólann skal miðast við 50% umfram áætlaðan hefðbundinn námstíma, en kennsluráð getur þó veitt undanþágur frá þeim áskilnaði í sérstökum tilvikum.
28. gr.
Starfsmenntanám.
Deild má bjóða upp á starfsmenntanám á sínum fræðasviðum í samræmi við ákvörðun háskólaráðs. Kennsluforseti skal í samstarfi við námsbrautarstjóra og deildarforseta hlutast til um að settar séu almennar reglur um kennslu og kennsluhætti sem háskólaráð staðfestir.
Kennt skal á námskeiðum sem metin eru til eininga, en fullt nám á námsári skal almennt samsvara 60 framhaldsskólaeiningum (FEIN) og endurspegla alla námsvinnu nemanda við háskólann. Háskólaráð skal setja almennar reglur um mat námskeiða til eininga.
Heimilt er að setja nemendum skilyrði um að ljúka námi á tilteknu námsári áður en þeir megi hefja nám á næsta námsári námsins og skal nemendum tilkynnt um slíkt fyrirkomulag.
Hámarkstími í tilteknu námi við háskólann miðast við 50% umfram áætlaðan hefðbundinn námstíma, en kennsluráð er heimilt að veita undanþágur frá þeim áskilnaði í sérstökum tilvikum.
29. gr.
Skólaárið.
Skólaárið telst vera frá 1. júlí til 30. júní.
Skólaárið skiptist í tvö kennslumisseri sem heimilt er að skipta upp í tvær kennsluannir, fyrri og seinni kennsluönn að hausti og fyrri og seinni kennsluönn að vori. Haustmisseri skal lokið í síðasta lagi 21. desember og vormisseri hefjast í fyrsta lagi 3. janúar. Jafnframt eru nokkur námskrárbundin námskeið kennd að sumarlagi. Almennt skal kennsla ekki fara fram miðvikudag fyrir skírdag eða á lögboðnum frídögum. Háskólaráð getur ákveðið að fella niður kennslu á öðrum dögum en hér eru tilgreindir.
Háskólaráð staðfestir með nauðsynlegum fyrirvara, ekki síðar en í febrúar ár hvert, almanak háskólans fyrir komandi skólaár.
30. gr.
Nám- og kennsluskrá.
Háskólaráð staðfestir með nauðsynlegum fyrirvara, ekki síðar en í febrúar ár hvert, námsframboð fyrir verðandi nýnema sem innritast það skólaár.
Árlega skal birta kennsluskrá fyrir háskólann í heild þar sem eru birt yfirlit yfir námskeið sem kennd eru á viðkomandi skólaári samkvæmt gildandi námskrá. Kennsluskrifstofa annast gerð náms- og kennsluskrár að fenginni staðfestingu deildar og skal hún innihalda nöfn og númer allra námskeiða, stutta lýsingu á efni hvers námskeiðs, ásamt skilgreiningu á þekkingu, leikni og hæfni sem nemendum er ætlað að búa yfir við lok námskeiðs. Jafnframt skal þar tilgreina eftir atvikum kröfur um undanfara og meginþætti námsmats sem og frekari upplýsingar um ábyrgðarmenn, námsmat og lesefni á viðkomandi námskeiði og á hvaða tungumáli er kennt.
31. gr.
Nemendur – innritun í háskólanám.
Sá sem lokið hefur stúdentsprófi frá íslenskum framhaldsskóla, eða jafngildu prófi, og uppfyllir að öðru leyti aðfarakröfur að námi getur sótt um að skrá sig til háskólanáms við skólann gegn því að greiða skrásetningargjald. Háskólanum er þó lögum samkvæmt heimilt að leyfa innritun annarra nemenda að uppfylltum skilyrðum, sbr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.
Rektor ber ábyrgð á innritun nemenda í háskólanám, en háskólaráð getur sett frekari reglur um inntöku nemenda, sbr. 18. gr. laga nr. 85/2008. Háskólaráð skal að fengnum tillögum deildar staðfesta reglur um skráningu nemenda þar sem kveðið er nánar á um inntökuskilyrði í viðkomandi nám.
Skráning nýnema fer að jafnaði fram frá mars og fram í júníbyrjun, en skráning annarra 1.–30. apríl, ár hvert. Á alþjóðlegum námsleiðum sem taka á móti umsóknum frá nemendum sem koma utan Schengen-svæðisins er leyfilegt að hafa skráningu á öðrum tilteknum tíma. Skráningu nema sem æskja flutnings frá erlendum háskólum skal að jafnaði lokið fyrir 1. maí.
Beiðni um skráningu nýnema skal fylgja ljósrit eða staðfest afrit stúdentsprófskírteinis og önnur skilríki sem nánar kann að verða kveðið á um af hálfu deildar.
Námskeið á vegum háskólans eru ætluð fyrir nemendur skráða í skólann og samstarfsskóla í samræmi við samninga þar um. Þau standa þó öðrum opin með samþykki umsjónarkennara eða eftir nánari reglum sem háskólaráð setur. Nemendur hafa ekki rétt til þess að gangast undir próf nema þeir uppfylli skilyrði um inntöku í skólann, hafi greitt skrásetningargjald, séu skráðir á viðkomandi námskeið og uppfylli þær kröfur sem umsjónarkennari námskeiðs setur fyrir próftöku.
Háskólaráð skal að fenginni umsögn frá Nemendafélagi LbhÍ setja reglur um réttindi og skyldur nemenda innan háskólans, þ.m.t. um málskotsrétt þeirra innan háskólans. Rektor getur veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla tímabundið eða að fullu gerist nemandinn brotlegur við reglur skólans, en um skilyrði, málsmeðferð og málskotsrétt nemenda fer skv. 19. gr. laga nr. 85/2008. Um innritun í meistaranám og doktorsnám er fjallað í reglum um meistara- og doktorsnám.
32. gr.
Nemendur – innritun á starfsmenntabrautir.
Sá sem uppfyllir aðfarakröfur að starfsmenntanámi getur sótt um að skrá sig til náms við háskólann gegn því að greiða skrásetningargjald. Háskólanum er þó heimilt að leyfa innritun annarra nemenda að uppfylltum skilyrðum, til dæmis gegnum raunfærnimat.
Rektor ber ábyrgð á innritun nemenda í starfsmenntanám, en háskólaráð getur sett frekari reglur um inntöku nemenda, sbr. 18. gr. laga nr. 85/2008. Háskólaráð skal að fengnum tillögum deildar staðfesta reglur um skráningu nemenda þar sem kveðið er nánar á um inntökuskilyrði í viðkomandi nám.
Skráning nýnema fer að jafnaði fram frá mars og fram í byrjun júní, en skráning annarra 1.–30. apríl, ár hvert. Beiðni um skráningu nýnema skal fylgja ljósrit eða staðfest afrit frá viðkomandi framhaldsskóla og önnur skilríki sem nánar kann að verða kveðið á um af hálfu deildar.
Háskólaráð ákveður fjárhæð skrásetningargjalds.
Námskeið á vegum háskólans eru ætluð fyrir nemendur skráða í háskólann og samstarfsskóla í samræmi við samninga þar um. Þau standa þó öðrum opin með samþykki umsjónarkennara eða eftir nánari reglum sem háskólaráð setur.
Nemendur hafa ekki rétt til þess að gangast undir próf nema þeir uppfylli skilyrði um inntöku í háskólann, hafi greitt skrásetningargjald, séu skráðir í viðkomandi námskeið og uppfylli þær kröfur sem umsjónarkennari námskeiðs setur fyrir próftöku.
Háskólaráð skal að fenginni umsögn frá Nemendafélagi LbhÍ setja reglur um réttindi og skyldur nemenda innan skólans, þ.m.t. um málskotsrétt þeirra innan skólans.
Rektor getur veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla tímabundið eða að fullu gerist nemandinn brotlegur við reglur háskólans, en um skilyrði, málsmeðferð og málskotsrétt nemenda fer skv. 19. gr. laga nr. 85/2008.
33. gr.
Námsvist – verknám.
Deild er heimilt að setja reglur um skyldu nemenda til þátttöku í verklegum æfingum, verklegu námi og vettvangsþjálfun.
34. gr.
Námsmat.
Um fyrirkomulag í tengslum við próf eða annað námsmat í háskólanum fer samkvæmt lögum og reglum fyrir háskólann, sbr. 21. gr. laga nr. 85/2008 og 30. gr. laga nr. 92/2008.
35. gr.
Prófgráður.
Um prófgráður sem háskólanum er heimilt að veita fer samkvæmt lögum, sbr. III. kafla laga nr. 63/2006, 22. og 23. gr. laga nr. 85/2008 og 17. og 19. gr. laga nr. 92/2008. Háskólaráð skal setja nánari reglur um prófgráður og viðmiðanir um mat á námi frá öðrum skólum, eftir umsögn frá hlutaðeigandi skólum eða fræðasviðum háskólans.
VIII. KAFLI
Almennt varðandi starfsemi háskólans.
36. gr.
Samvinna innan háskólans og samstarf við aðra háskóla, skóla og stofnanir.
Skipulagseiningar háskólans skulu hafa náið samstarf með samnýtingu mannafla, tækja og aðstöðu og annarra innviða til að ná markmiðum um hagkvæmni í rekstri.
Háskólinn og fagdeild skulu fyrir sitt leyti hafa samráð og samstarf við aðra háskóla og stofnanir til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttari menntunarkostum.
Leita ber samkomulags við samstarfsaðila um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta auk þess sem skólanum er einnig heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir sem tengjast starfssviði skólans um kennslu, rannsóknir og ráðningu starfsfólks. Í samstarfssamningum er heimilt að kveða á um að starfsmenn samstarfsstofnana sem hafa kennsluskyldu við skólann, en gegna rannsóknarskyldu sinni við samstarfsstofnun, eigi rétt á að dómnefnd meti hæfi þeirra til að gegna þar akademískri stöðu. Njóta þeir þá sambærilegra réttinda og gegna sambærilegum skyldum og lektorar, dósentar eða prófessorar eftir því sem við á, enda þótt ráðning sé við aðra stofnun, eftir því sem lög, reglur og kjarasamningar kveða á um. Háskólaráð getur sett framgangsreglur fyrir þá starfsmenn samstarfsstofnana sem hafa kennsluskyldu við háskólann í samræmi við framgangsreglur sem gilda fyrir aðra kennara hans.
37. gr.
Tengsl við almenning og endurmenntun.
Háskólinn skal leitast við að sinna fræðslu fyrir almenning og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Háskólinn getur sinnt símenntun og endurmenntun í þeim fræðum sem kennd eru við háskólann. Jafnframt skulu kennarar hans hvattir til að sækja sér símenntun og rannsóknarþjálfun.
38. gr.
Gæðamál.
Í háskólanum skal fara fram reglulegt sjálfsmat á innra starfi auk ytra mats með stöðugar umbætur í huga til samræmis við áskilnað laga þar um, sbr. IV. kafla laga nr. 63/2006 og VII. kafla laga nr. 92/2008, og í samræmi við áherslur Gæðamats háskóla.
Stefnu- og gæðaráð og mannauðs- og gæðastjóri sinna daglegri umsjón með gæðakerfi háskólans, eftirliti og úrbótum, en rektor ber endanlega ábyrgð á því. Háskólaráð getur sett frekari reglur um gæðastjórnun.
39. gr.
Fjárhagsmálefni.
Um fjárhagsmálefni háskólans og gjaldtökuheimildir fer skv. 24.–26. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.
40. gr.
Ársfundur háskólans.
Ár hvert skal rektor boða til opins ársfundar þar sem fjárhagur og meginatriði starfsáætlunar háskólans eru kynnt og skal tilkynnt um fundinn með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.
41. gr.
Ársskýrsla skólans.
Rektor hefur umsjón með að ársskýrsla háskólans komi út fyrir hvert almanaksár. Í ársskýrslu skal fjallað um starfsemi háskólans, stofnanir hans og sjóði, ráðstöfun fjármuna skólans, framtíðarsýn og horfur, sem og málefni nemenda skólans almennt.
IX. KAFLI
Gildistaka.
42. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem hafa fengið umsögn starfsfólks og verið staðfestar af háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands, taka þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 366/2020, sbr. þó bráðabirgðaákvæði I-IV.
Reglurnar verða aðgengilegar á vef háskólans, líkt og aðrar reglur sem háskólaráð setur.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Kennsluforseta verður falið að leiða fyrirhugaðar breytingar á utanumhaldi námsins og almennri þróun kennslumála í samráði við kennsluráð.
II.
Vísindaráði verður stýrt af rannsókna- og alþjóðafulltrúa þar til nýr deildarforseti hefur hafið störf, sem tekur þá við forstöðu þess, en rannsókna- og alþjóðafulltrúi tekur þá almennt sæti í ráðinu. Vísindaráð tekur við hlutverki vísindanefndar og deildarráðs og verður deildarforseta til stuðnings í tengslum við mál er varða vísindastarf á sviðum skólans.
III.
Í upphafi taka allir fulltrúar í framhaldsnáms-, grunnnáms- og starfsmenntanámsnefndum sæti í kennsluráði. Kennslustjóri veitir ráðinu forstöðu þar til kennsluforseti hefur verið ráðinn, en þá tekur viðkomandi við því forystuhlutverki og kennslustjóri tekur almennt sæti í ráðinu.
IV.
Yfirfærsla í nýtt fyrirkomulag mun verða gerð í þrepum og tekur mið af ráðningum í störf deildarforseta og kennsluforseta. Núgildandi fyrirkomulag mun þannig halda gildi sínu með óbreyttri ábyrgð núverandi deildarforseta, umsjónarmanns framhaldsnáms og annarra lykilstarfsmanna þar til nýr deildarforseti sameinaðra deilda og kennsluforseti hefja störf.
Samþykkt í háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands, 19. desember 2024.
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor.
|