Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 218/2023

Nr. 218/2023 1. mars 2023

REGLUR
um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

1. gr.

Almenn ákvæði um verðtryggingu.

Verðtrygging sparifjár og lánsfjár skal miðast við vísitölu neysluverðs eins og Hagstofa Íslands auglýsir hana mánaðarlega, sbr. ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema lög kveði á um annað. Verðtrygging fjárhæða hluta úr mánuði skal þannig framkvæmd að verðbætur innan mánaðar miðist við daglega línulega breytingu á vísitölu neysluverðs, þ.e. milli gildis vísi­tölunnar sem auglýst er fyrir þann mánuð þegar útreikningur er gerður og gildis hennar á fyrsta degi næsta mánaðar þar á eftir.

 

2. gr.

Verðtryggt lánsfé.

Grunnvísitala verðtryggðs láns skal nema vísitölugildi vísitölu neysluverðs á þeim degi þegar lán er veitt, nema samningur eða eðli máls leiði til annars, en vísitölugildið skal reiknað til samræmis við 2. málsl. 1. gr. þannig að miðað sé við línulega breytingu á vísitölu neysluverðs, þ.e. milli gildis vísitölunnar sem auglýst er fyrir þann mánuð þegar útreikningur er gerður og gildis hennar á fyrsta degi næsta mánaðar þar á eftir.

Höfuðstóll verðtryggðs láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunn­vísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga í samræmi við 2. málsl. 1. gr. Vexti og afborganir skal reikna á hverjum gjalddaga, eða greiðsludegi sé greitt af láninu á öðrum degi en gjalddaga, miðað við eftirstöðvar höfuðstóls eins og hann hefur breyst í samræmi við breytingu á vísitölunni.

Á kvittunum skal jafnan gera nákvæma grein fyrir útreikningi greiðslu og áföllnum verðbótum.

 

3. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og hafa verið samþykktar af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 1. mgr. 15. gr. sömu laga, öðlast gildi 1. júní 2023. Falla þá jafnframt úr gildi reglur Seðlabanka Íslands nr. 877/2018 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

 

Seðlabanka Íslands, 1. mars 2023.

 

  Ásgeir Jónsson 
seðlabankastjóri. 
Rannveig Júníusdóttir
framkvæmdastjóri.

 

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 7. mars 2023