1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar sem settar eru á grundvelli 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, taka til móðurfélags og samstæðu fjármálafyrirtækja sem hlotið hafa starfsleyfi skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga, um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, eins og nánar greinir í reglum þessum.
2. gr.
Skilgreiningar.
Aðili sem ekki er varinn fyrir gjaldeyrisáhættu: Merkir í reglum þessum lántaka sem annaðhvort hefur ekki nægilegar tekjur í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu til að standa skil á greiðslum af láninu þegar það er veitt, eða hefur ekki varið sig að fullu vegna gengishreyfinga íslensku krónunnar með afleiðusamningi við fjármálafyrirtæki.
Afleiðusamningur gerður í tilgangi áhættuvarnar: Merkir í reglum þessum afleiðuviðskipti sem uppfylla öll eftirtalin skilyrði: samið er um viðskipti í íslenskum krónum gagnvart erlendum gjaldeyri, tilgangur samnings er að leiðrétta gjaldeyrisójöfnuð og umfang og tímalengd fyrirhugaðra varna er ekki umfram það sem gjaldeyrisójöfnuður gefur tilefni til. Dæmi um afleiðusamninga sem gerðir eru í tilgangi áhættuvarnar eru: efnahagsvarnir vegna skulda fyrirtækja í atvinnurekstri, til að verja skilgreinda gjalddaga og vaxtagjalddaga skuldbindinga fram í tímann, svo að gjaldmiðlasamsetning endurspegli betur efnahagsreikning og tekjur félagsins; gjaldeyrisvörn til að verja vænt greiðsluflæði vegna beinnar fjárfestingar, og rekstrarvarnir fyrirtækja í atvinnurekstri.
Almennt eigið fé þáttar 1: Eiginfjárliðir sem uppfylla kröfur 84. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
Dótturfélag: Félag sem fellur undir skilgreiningu dótturfélags skv. 10. tölul. 1. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
Eiginfjárgrunnur: Eigið fé samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
Eignir og skuldir í erlendum gjaldmiðlum: Eignir og skuldir, svo og liðir utan efnahagsreiknings, sem eru í erlendum gjaldmiðli auk liða í íslenskum krónum sem taka mið af gengi erlendra gjaldmiðla.
Framvirk staða: Öll viðskipti í erlendum gjaldmiðlum sem gerð eru upp þremur virkum dögum eftir upphafsdag þeirra eða síðar, að meðtöldum gjaldmiðlaskiptasamningum og öðrum skiptasamningum.
Heildargjaldeyrisjöfnuður: Samtala þar sem opin gjaldeyrisstaða er jákvæð í gjaldmiðli (nettó gnóttstaða) að frádreginni samtölu þar sem opin gjaldeyrisstaða er neikvæð í gjaldmiðli (nettó skortstaða).
Kerfislega mikilvægur eftirlitsskyldur aðili: Aðili sem fjármálastöðugleikaráð hefur skilgreint sem kerfislega mikilvægan, sbr. lög um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014.
Lánastofnun: Fjármálafyrirtæki sem hlotið hefur starfsleyfi skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu laga.
Móðurfélag: Með móðurfélagi er í reglum þessum átt við móðurfélag eins og það er skilgreint í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, enda sé um að ræða lánastofnun.
Mótaðili: Mótaðili í framvirkum samningum sem er annaðhvort fjárhagslegur mótaðili eða ófjárhagslegur mótaðili, eins og það er skilgreint skv. 8. og 9. tölul. 2. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17 frá 16. mars 2017, bls. 412–470, en með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 206/2016, frá 30. september 2016, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 13 frá 23. febrúar 2017, bls. 63–71, sbr. og 2. gr. laga um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018; ellegar annars konar mótaðili en fjárhagslegur eða ófjárhagslegur mótaðili skv. framansögðu.
Nústaða í gjaldmiðli: Eignir og skuldir í einum gjaldmiðli, þar með talin núviðskipti.
Núviðskipti: Viðskipti sem gerð eru upp eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir upphafsdag þeirra (e. spot transaction).
Opin gjaldeyrisstaða: Allar eignir og skuldir, svo og liðir utan efnahagsreiknings, þar sem lánastofnun ber sjálf gjaldeyrisáhættu. Við skilgreiningu áhættu skal miða við lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eftir því sem við á.
Samstæða lánastofnunar: Með samstæðu lánastofnunar er í reglum þessum átt við samstæðu móður- og dótturfélags eins og það er skilgreint í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, enda sé móðurfélagið lánastofnun.
3. gr.
Sundurliðun eigna og skulda í erlendum gjaldmiðlum.
Lánastofnunum ber að sundurliða nústöðu eigna með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu til Seðlabankans:
1. |
Innlán í Seðlabanka Íslands. |
2. |
Bundin innlán í Seðlabanka Íslands. |
3. |
Nostro-reikningar. |
4. |
Önnur innlán og ávöxtunarsamningar. |
5. |
Skráð skuldabréf og víxlar þar sem útgefandi er ríki, seðlabanki, alþjóðastofnun eða fjölþjóða þróunarbanki, eða bréf sem tryggð eru með ábyrgð þessara aðila, sbr. 18. gr. og 21. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 233 frá 6. mars 2017, um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja. |
6. |
Önnur skráð skuldabréf og víxlar. |
7. |
Skráð hlutabréf. |
8. |
Óskráð hlutabréf. |
9. |
Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða. |
10. |
Skammtímaútlán, þ.e. veitt til skemmri tíma en eins árs. |
10.a |
Þar af lán til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. |
11. |
Langtímaútlán, þ.e. veitt til eins árs eða lengri tíma. |
11.a |
Þar af lán til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. |
12. |
Kröfur vegna núviðskipta. |
13. |
Aðrar eignir en ofantaldar. |
Lánastofnunum ber að sundurliða nústöðu skulda með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu til Seðlabankans:
- Viðskipti við Seðlabanka Íslands samkvæmt gildandi reglum bankans um viðskipti fjármálafyrirtækja við bankann, að framvirkum viðskiptum undanskildum.
- Aðrar skuldir við Seðlabanka Íslands en skv. 1. tölul.
- Veðlán og endurhverf viðskipti við aðra en Seðlabanka Íslands.
- Útgefnir víxlar.
- Útgefin skuldabréf með upphaflegan gjalddaga innan eins árs.
- Útgefin skuldabréf með upphaflegan gjalddaga eftir eitt ár eða lengri tíma.
- Sértryggð skuldabréf útgefin skv. lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008, og önnur samningsbundin sértryggð skuldabréf.
- Sambankalán.
- Tvíhliða lánasamningar við fjármálafyrirtæki.
- Ávöxtunarsamningar og innlán frá fjármálafyrirtækjum.
- Ávöxtunarsamningar og innlán frá lífeyris-, verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum.
- Almenn innlán.
- Skuldbindingar vegna núviðskipta.
- Aðrar skuldir en ofantaldar.
Lánastofnunum ber að sundurliða framvirka stöðu eigna með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu til Seðlabankans:
- Framvirkir gjaldmiðlasamningar (e. FX forwards).
- Gjaldmiðlaskiptasamningar (e. FX swaps).
- Vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningar (e. Cross-Currency Interest Rate Swaps).
- Valréttir.
- Aðrar eignir sem mynda framvirka stöðu.
Lánastofnunum ber að sundurliða framvirka stöðu skulda með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu til Seðlabankans:
- Framvirkir gjaldmiðlasamningar (e. FX forwards).
- Gjaldmiðlaskiptasamningar (e. FX swaps).
- Vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningar (e. Cross-Currency Interest Rate Swaps).
- Valréttir.
- Aðrar skuldir sem mynda framvirka stöðu.
Framvirka stöðu eigna og skulda skal jafnframt sundurliða eftir innlendum og erlendum mótaðilum með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu til Seðlabankans:
- Fjárhagslegir mótaðilar:
- Lánastofnanir.
- Fjárfestingarfyrirtæki.
- Lífeyrissjóðir.
- Vátrygginga- og endurtryggingafélög.
- Verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir, fagfjárfestasjóðir, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög þeirra.
- Aðrir fjárhagslegir aðilar.
- Ófjárhagslegir mótaðilar:
- Fiskveiðar og -vinnsla.
- Iðnaður.
- Orkuveita o.fl.
- Byggingariðnaður.
- Verslun.
- Flutningar o.fl.
- Starfsemi tengd fjármála- og tryggingaþjónustu.
- Þjónusta, önnur.
- Einstaklingar.
- Aðrir.
- Aðrir mótaðilar.
Framvirka stöðu eigna og skulda skal ennfremur sundurliða í tímabönd með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu.
- Afleiðusamningar með eftirstöðvatíma allt að einum mánuði.
- Afleiðusamningar með eftirstöðvatíma frá einum mánuði og allt að þremur mánuðum.
- Afleiðusamningar með eftirstöðvatíma frá þremur mánuðum og allt að sex mánuðum.
- Afleiðusamningar með eftirstöðvatíma frá sex mánuðum og allt að einu ári.
- Afleiðusamningar með eftirstöðvatíma frá einu ári og allt að þremur árum.
- Afleiðusamningar með eftirstöðvatíma frá þremur árum og allt að fimm árum.
- Afleiðusamningar með eftirstöðvatíma frá fimm árum.
Sérstaklega skal tilgreina í skýrslum þá afleiðusamninga sem gerðir eru í tilgangi áhættuvarnar mótaðila.
4. gr.
Útreikningur á opinni gjaldeyrisstöðu.
Útreikningur á opinni gjaldeyrisstöðu skal innihalda eftirfarandi liði:
- Allar eignir í erlendum gjaldmiðlum, að frádregnum skuldum í erlendum gjaldmiðlum, en að meðtöldum áföllnum ógjaldföllnum vöxtum (nettó nústaða).
- Stöður í framvirkum samningum, stöðluðum framvirkum samningum og gjaldmiðlaskipta-samningum, að því marki sem þessir samningar eru ekki taldir með nettó nústöðu (nettó framvirk staða). Gjaldmiðlaskiptasamninga og framvirka samninga skal meðhöndla sem eign í einum gjaldmiðli og skuld í öðrum.
- Óafturkallanlegar ábyrgðir í erlendum gjaldmiðlum og svipaðar skuldbindingar, ef líklegt er talið að á þær reyni og ólíklegt sé að endurkrafa muni ná fram að ganga.
- Samanlagt nettó deltavirði af valréttarsamningum um gjaldeyri. Lánastofnanir sem eiga í viðskiptum með valréttarsamninga skulu reikna deltavirði í samræmi við ákvæði reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 233/2017, um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja.
- Markaðsvirði annarra afleiðusamninga í erlendum gjaldmiðli en skv. 2. og 4. lið að ofan.
Við útreikning á opinni gjaldeyrisstöðu skulu allir eigna- og skuldaliðir hafa 100% vægi.
Við útreikning á opinni gjaldeyrisstöðu í einstökum gjaldmiðlum er skylt að skipta fjármálagerningi sem samsettur er úr mörgum gjaldmiðlum upp eftir vægi hvers gjaldmiðils í viðkomandi gjaldmiðil.
Við útreikning á opinni gjaldeyrisstöðu skal umreikna fjárhæðir miðað við miðgengi íslensku krónunnar eins og það er skráð á heimasíðu Seðlabanka Íslands. Viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði er þó heimilt að miða við dagslokagengi.
Í tilviki samstæðu er að fengnu leyfi Seðlabankans heimilt við útreikning á opinni gjaldeyrisstöðu að undanskilja dótturfélag enda sé annað hvort eftirtalinna skilyrða uppfyllt:
- Starfsemi félagsins, án tillits til þess hvað segir um tilgang í samþykktum þess, felst ekki í því að eiga eða stunda viðskipti með verðbréf af hvaða tagi sem er, annars konar fjármálagerninga en verðbréf, afleiður, gjaldmiðla eða aðrar eignir.
- Félagið er í eigu lánastofnunar eða dótturfélags á grundvelli 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002; án tillits til þess hvort um innlent eða erlent félag er að ræða.
Beiðni um heimild skv. 5. mgr. skal vera skrifleg og rökstudd og er aðeins veitt tímabundið, að hámarki til 12 mánaða, en fellur sjálfkrafa niður í lok gildistímans.
5. gr.
Gjaldeyrisjöfnuður.
Gjaldeyrisjöfnuður kerfislega mikilvægra eftirlitsskyldra aðila skal á hverjum tíma vera innan eftirfarandi marka:
- Opin gjaldeyrisstaða í einstökum erlendum gjaldmiðlum skal hvorki vera jákvæð né neikvæð um hærri fjárhæð en sem nemur 10% af eiginfjárgrunni kerfislega mikilvægra eftirlitsskyldra aðila, sbr. þó 4. mgr.
- Heildargjaldeyrisjöfnuður skal hvorki vera jákvæður né neikvæður um hærri fjárhæð en sem nemur 10% af eiginfjárgrunni kerfislega mikilvægra eftirlitsskyldra aðila, sbr. þó 4. mgr., þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25 ma.kr.
Gjaldeyrisjöfnuður lánastofnunar sem ekki er kerfislega mikilvægur eftirlitsskyldur aðili skal á hverjum tíma vera innan eftirfarandi marka:
- Opin gjaldeyrisstaða í einstökum erlendum gjaldmiðlum skal hvorki vera jákvæð né neikvæð um hærri fjárhæð en sem nemur 15% af eiginfjárgrunni lánastofnunar, sbr. þó 4. mgr.
- Heildargjaldeyrisjöfnuður skal hvorki vera jákvæður né neikvæður um hærri fjárhæð en sem nemur 15% af eiginfjárgrunni lánastofnunar, sbr. þó 4. mgr., þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25 ma.kr.
Víki gjaldeyrisjöfnuður frá þeim mörkum sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr. skal hlutaðeigandi lánastofnun grípa til aðgerða til að eyða frávikinu eigi síðar en innan þriggja viðskiptadaga. Takist viðkomandi þetta ekki er Seðlabankanum heimilt að reikna dagsektir á þá fjárhæð sem er umfram tilskilda fjárhæð gjaldeyrisjafnaðar, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta nr. 389 frá 29. maí 2002.
Við útreikning á mörkum sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr. skal miða við eiginfjárgrunn samkvæmt síðasta uppgjöri lánastofnunar. Lánastofnun er heimilt að leiðrétta eiginfjárgrunn um mánaðamót vegna breytinga á gengi gjaldmiðla, enda sé Seðlabankanum gerð grein fyrir slíkri breytingu sérstaklega. Hafi heimildin verið notuð skal samsvarandi leiðrétting til hækkunar eða lækkunar gerð um hver mánaðamót.
Lánastofnanir skulu einnig skila upplýsingum um heildargjaldeyrisjöfnuð sem hlutfall af almennu eigin fé þáttar 1 í mánaðarlegum skýrslum til Seðlabanka Íslands. Miða skal við almennt eigið fé þáttar 1 samkvæmt því uppgjöri sem lánastofnun byggir útreikninga á, sbr. 4. mgr.
6. gr.
Skýrsluskil.
Aðilar þeir er reglur þessar ná til skulu skila Seðlabankanum skýrslu um gjaldeyrisjöfnuð mánaðarlega, eftir því sem greinir í 3. gr., sbr. 4. gr., eigi síðar en fimmtánda (15.) dag hvers mánaðar, en móðurfélag samstæðu eigi síðar en tuttugasta (20.) dag hvers mánaðar vegna samstæðu lánastofnunar. Ef skiladag ber upp á helgar- eða frídag skal skila skýrslu næsta virka dag á eftir.
Seðlabanki Íslands getur krafist tíðari skýrsluskila en hér er kveðið á um. Seðlabankinn getur einnig á hverjum tíma kallað eftir ítarlegri upplýsingum um sundurliðun eigna og skulda skv. 3. gr.
Viðskiptavakar á millibankamarkaði með gjaldeyri skulu að auki skila daglegri skýrslu um gjaldeyrisjöfnuð. Í skýrslunni er eingöngu tilgreind heildarnústaða eigna og skulda annars vegar og framvirk staða eigna og skulda hins vegar.
Vanræki lánastofnun að veita Seðlabankanum upplýsingar á tilsettum tíma skv. þessum reglum getur Seðlabankinn beitt viðkomandi lánastofnun dagsektum skv. reglum um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nr. 389/2002.
7. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, svo og 8. gr. laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Reglurnar taka gildi 30. ágúst 2018. Jafnframt falla þá úr gildi reglur um gjaldeyrisjöfnuð nr. 950 frá 6. desember 2010.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði liða 10.a og 11.a í 1. mgr. 3. gr. reglna þessara, sem og ákvæði lokamálsliðar 7. mgr. 3. gr. reglna þessara, um annars vegar sundurliðun nústöðu eigna eftir því hvort lánveitingar eru til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu, og hins vegar um skyldu til þess að tilgreina sérstaklega í skýrslum þá samninga sem gerðir eru í tilgangi áhættuvarnar mótaðila; skal þeim aðilum sem reglur þessar ná til heimilt, fram til 1. janúar 2019 og að höfðu samráði við Seðlabankann, að haga skýrslugjöf sinni hvað þessa þætti varðar til samræmis við fyrirliggjandi upplýsingar í upplýsingakerfum sínum. Aðilar skulu eigi síðar en 7 virkum dögum fyrir fyrstu skýrsluskil samkvæmt reglum þessum tilkynna Seðlabankanum hvernig þeir hyggist haga viðkomandi sundurliðun og getur þá Seðlabankinn krafist ítarlegri upplýsinga, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglna þessara.
Reykjavík, 17. ágúst 2018.
Seðlabanki Íslands,
|
Már Guðmundsson |
Harpa Jónsdóttir |
|
seðlabankastjóri. |
framkvæmdastjóri. |
|