Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 577/2017

Nr. 577/2017 12. júní 2017

REGLUGERÐ
um skráningu staðfanga.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skráningu staðfanga á Íslandi.

Markmið þessarar reglugerðar er að:

  1. tryggja gagnsæja, opna og skilvirka stjórnsýslu við skráningu örnefna,
  2. samræma skráningu staðfanga í þéttbýli og dreifbýli,
  3. samræma skráningu hverfa, götuheita og staðfanga til þess að auðvelda upplýsingaöflun um áfangastaði, staðsetningu lóða og aðkomu að mannvirkjum,
  4. tryggja aðgang neyðarþjónustu og almannavarna að samræmdum upplýsingum um ákveðnar byggðir eða svæði,
  5. tryggja skráningu og form landupplýsinga fyrir leiðsögutæki og stafrænar kortaþjónustur.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari gildir:

  1. Örnefni er nafn, orð eða orðasamband, á landfræðilegum punkti, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar innan ákveðins samfélags; lands, héraðs, sveitabæjar, þéttbýlisstaðar, húss, götu, torgs, vegar, fjalls, dals, stöðuvatns, fjarðar, hafsvæðis, skers, miðs o.s.frv., sbr. lög um örnefni.
  2. Hverfi skipta sveitarfélagi upp í eina eða fleiri landfræðilegar heildir, ýmist skilgreindar sem skipulagt þéttbýli eða dreifbýli.
  3. Staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um nafn (staðvísir), númer (staðgreinir) og hnit (staðsetning). Staðfang er tegund örnefnis. Heimilisfang er tegund staðfangs.
  4. Staðvísir er nafnberi staðfangs. Dæmi um staðvísi er nafn götu, bæjar eða staðar. Ásamt heiti getur staðvísir samanstaðið af rómverskum tölustaf og/eða viðbættu örnefni til nánari aðgreiningar.
  5. Staðgreinir staðfangs er samsettur af arabískum tölustaf, bókstaf og/eða öðru viðbættu auðkenni og tryggir einkvæmni staðfangs innan staðvísis. Staðgreinir staðfangs getur auk þess geymt sérheiti, valkvæmt heiti sem gefið er mannvirki, svæði eða stað.
  6. Staðsetning staðfangs er hnit sem lýsir landfræðilegri legu staðfangs.
  7. Örnefnagrunnur er miðlægur gagnagrunnur sem inniheldur örnefni og gögn tengd þeim, sbr. lög um örnefni.
  8. Staðfangaskrá er miðlægur gagnagrunnur sem inniheldur upplýsingar um staðföng, sbr. staðvísa, staðgreina og staðsetningu (hnit).

II. KAFLI

Hlutverk og ábyrgð.

3. gr.

Sveitarfélög.

Sveitarfélög annast nafngiftir, hafa umsjón með og bera ábyrgð á skráningu staðfanga innan staðarmarka sveitarfélaga.

Sveitarstjórn skal að jafnaði fela byggingar­fulltrúa upplýsingagjöf um staðföng. Þar sem byggingarfulltrúar eru ekki starfandi skal sveitarstjórn fela öðrum aðila upplýsingagjöfina. Byggingarfulltrúar eða aðrir sem sveitarstjórn hefur falið upplýsingagjöf bera ábyrgð á að upplýsingarnar séu efnislega réttar.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á að Þjóðskrá Íslands berist upplýsingar um staðföng í sveitarfélaginu.

4. gr.

Þjóðskrá Íslands.

Þjóðskrá Íslands heldur staðfangaskrá og fer með viðhald gagnagrunns, gerð hugbúnaðar til skráningar, miðlun staðfanga til notenda og annað sem viðkemur uppbyggingu staðfangaskrár. Þjóðskrá Íslands skal miðla staðfangaskrá til örnefnanefndar og Landmælinga Íslands í sem næst rauntíma.

Þjóðskrá Íslands getur, hvenær sem hún telur þörf á, látið endurskoða upplýsingar sem fyrir liggja um einstök staðföng. Slík endurskoðun skal gerð ef sýnt er fram á að upplýsingar gefa ekki rétta lýsingu á því staðfangi sem um ræðir.

5. gr.

Landmælingar Íslands.

Landmælingar Íslands skulu halda örnefnagrunn samkvæmt lögum sem um hana gilda. Ný staðföng skal skrá í örnefnagrunn sem vistaður er hjá Landmælingum Íslands.

6. gr.

Stofnun Árna Magnússonar.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur leiðbeinandi hlutverk á sviði nafngifta nýrra staðfanga og veitir ráðgjöf til almennings, sveitarfélaga og stofnana um skráningu og varðveislu örnefna, örnefnavernd og nýjar nafngiftir.

7. gr.

Örnefnanefnd.

Örnefnanefnd starfar samkvæmt lögum um örnefni. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt þessari reglugerð er að:

  1. veita rökstutt álit um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni, hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar,
  2. úrskurða um nýtt eða breytt bæjarnafn, götunafn eða annað nafn sem notað er til skráningar á staðfangi, hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar,
  3. veita umsögn um fyrirhugað nafn á nýjum þéttbýliskjarna eða hverfi innan sveitarfélags.

8. gr.

Fasteignareigandi.

Eigandi fasteignar, sem telur sig eiga hagsmuna að gæta í skráningu staðfangs, getur krafist endurskoðunar sveitarfélags á fyrirliggjandi upplýsingum.

III. KAFLI

Hverfi.

9. gr.

Skilgreining hverfa.

Hverfi skipta sveitarfélögum í smærri varanlegar einingar sem afmarka heildstæð skráningarsvæði fyrir fasteigna-, götu- og staðfangaskráningu.

Sveitarfélög sjá um skilgreiningu og nafngift hverfa.

Hverfi tryggir einkvæmni staðfanga innan sveitarfélags.

10. gr.

Auðkenning og afmörkun hverfa.

Auðkenni hverfa er hlaupandi heiltala sem er merkingarlaus og einkvæm á landsvísu.

Skylt er að gefa hverfi þriggja bókstafa hverfiskóða sem auðkenni.

Hverfi skulu bera heiti sem eru lýsandi fyrir það svæði sem um ræðir og í samræmi við lög um örnefni.

Hverfi eru landfræðilega innan staðarmarka hvers sveitarfélags og tekur afmörkun þeirra mið af þeim landeignum sem innan hverfisins eru.

Við afmörkun hverfa skal taka tillit til einkvæmni staðfanga og skiptingu sveitarfélags í skipulagt þéttbýli og dreifbýli samkvæmt aðalskipulagi.

IV. KAFLI

Staðvísir.

11. gr.

Skilgreining og skráning.

Skráning staðvísa er á hendi sveitarfélaga og samanstendur af heiti og eftir atvikum rómverskum tölustaf og/eða öðru viðbættu auðkenni, svo sem örnefni, til að tryggja einkvæmni viðkomandi staðvísis.

Staðvísi skal skrá eins fljótt og kostur er eftir að staðfest skipulag liggur fyrir.

12. gr.

Auðkenning og einkvæmni staðvísa.

Auðkenni staðvísa er hlaupandi heiltala sem er merkingarlaus og einkvæm á landsvísu.

Auðkenni staðvísis verður ekki breytt. Ef nafn staðvísis breytist helst auðkennið óbreytt til að viðhalda tengingu við aðrar skrár.

Nöfn staðvísa eru ákveðin í samræmi við lög um örnefni. Fyrir sérhvern staðvísi lengri en 20 stafabil er geymd styttri og eftir atvikum skammstöfuð útgáfa.

Ekki skal nota samhljóða eða lík heiti staðvísa innan hverfis. Heiti staðvísa teljast lík ef munur á milli þeirra kemur aðeins fram í:

  1. stafsetningu en heyrist ekki í framburði,
  2. ólíkri fallbeygingu sömu orða,
  3. eintölu-/fleirtölumynd,
  4. bili, bandstriki, há-/lág-/tölustöfum eða öðru slíku.

13. gr.

Notkun staðvísa.

Eftirfarandi reglur gilda um notkun staðvísa:

  1. Staðvísar götuheita skulu einkenna afmarkað umferðarsvæði innan hverfis þar sem staðgreinar raðast rökrétt í hækkandi röð og eru leiðandi fyrir notendur.
  2. Ef ekki er hægt að tryggja einkvæmni staðvísa bæjarheita er heimilt að nota annað viðbætt auðkenni til aðgreiningar. Það getur verið:
    1. Rómverskir tölustafir: notaðir til að aðgreina tvö eða fleiri staðföng, sem bera sama bæjarheiti, innan sömu upprunajarðar.
    2. Viðbætt örnefni: notuð til að aðgreina samnefni eða lík bæjarheiti innan hverfis eða sveitarfélags.
  3. Staðvísar staðarheita. Sveitarfélagi ber að úthluta staðarheitum til mannvirkja og/eða svæða sem hafa skýra landfræðilega afmörkun, t.d. áningarstaða, virkjana, fjallaskála, fjarskiptamannvirkja og vita.

V. KAFLI

Staðfang.

14. gr.

Notkunarsvið.

Staðfang skal skrá eins fljótt og kostur er eftir að staðfest skipulag liggur fyrir.

Staðfang ber alla jafna að tengja þeim staðvísi sem samræmist best skilgreindri aðkomu. Staðfang samanstendur af staðvísi, staðgreini og hniti og er skráð af sveitarfélagi.

Ef eignaskiptayfirlýsing er gerð um land eða mannvirki ber að lagfæra staðfangaskrá til samræmis ef þörf krefur.

Sérhvert landeignanúmer skal hafa vensl við að a.m.k. eitt staðfang óháð fjölda mannvirkja. Heiti landeignar ræðst af þeim staðföngum sem henni tengjast.

15. gr.

Staðgreinir staðfangs.

Staðgreinir getur samanstaðið af arabískum tölustöfum, bókstaf og/eða öðru viðbættu auðkenni.

Staðgreinum við götur í skipulagðri byggð er úthlutað í hækkandi númeraröð eftir götu og raðast oddatölur vinstra megin en sléttar tölur hægra megin. Lokaðar götur skulu tölusettar frá þeim enda sem tengdur er gatnakerfinu. Aðrar götur skulu tölusettar frá þeim enda sem næst liggur skilgreindum miðpunkti viðkomandi þéttbýlis eða tengingu við þjóðveg.

Við úthlutun staðgreina má skilja eftir eyður í númeraröð ef fyrirséð er að frekari uppbygging geti orðið við götu.

Ef skipulag ákveðins svæðis er á þann veg að erfitt er að fylgja framangreindum reglum þá er heimilt að númera staðgreina með öðrum rökrænum hætti án þess að tekið sé tilliti til oddatalna eða sléttra talna.

Við nafngift jarða er óheimilt að nota tölusetta staðgreina en heimilt er að nota bókstafi og viðskeyti.

Sérheiti mannvirkja, svæða eða staða flokkast sem viðbætt auðkenni staðgreina. Við skráningu sérheita innan hverfis skal forðast að nota samhljóða eða lík heiti.

16. gr.

Staðsetning staðfangs.

Sérhvert staðfang fær hnit sem er staðsett á mannvirki eða innan eignamarka landeignar, ef ekkert mannvirki er til staðar.

Hnit staðfangs er sett innan grunnflatar mannvirkis þannig að það endurspegli sem best inngang þess.

Ef staðfang á við óbyggt svæði miðast hnit staðfangs við bestu mögulegu aðkomu, þó innan marka þeirrar landeignar sem staðfangið á við um. Þar sem um er að ræða svæði sem ekki eru í byggð skal leitast við að hnitsetja staðfang við rústir eða aðrar menningarminjar þar sem það á við.

Ef ekkert af ofangreindu virðist eiga við, þ.e. ef um er að ræða óbyggða landeign án merkjanlegrar aðkomu eða menningarminja, skal þess gætt að hnit staðfangs sé sannanlega innan afmörkunar hennar.

VI. KAFLI

Merking staðfanga.

17. gr.

Uppsetning merkinga.

Merkingum, svo sem vegvísum og skiltum, er ætlað að auðkenna staðfang og vísa vegfaranda á áfangastað.

Sveitarfélag ber ábyrgð á merkingu hverfa og staðvísa götuheita en fasteignareigandi ber ábyrgð á merkingu staðvísa bæjar- og staðarheita og á merkingu staðgreina.

Heiti hverfa ber að merkja á alfaraleiðum við hverfamörk.

Skilti skal sett upp á áberandi stað við upphaf hverrar götu, við heimreið að bæjum, sem og annars staðar þar sem skipulögð er ak- og/eða gangfær aðkoma. Stígar sem bera götuheiti skulu einnig vera merktir þar sem gengið er inn á þá.

Merkingar fasteigna skulu vera sjáanlegar frá götu. Letur skal vera læsilegt og æskilegt er að númer staðgreina ritist með tölustöfum.

Ef sveitarfélag telur merkingu fasteignar ábótavant og fasteignareigandi hefur ekki sinnt áskorun um úrbætur, hefur sveitarfélag heimild til að hafa frumkvæði að merkingu á kostnað fasteignar­eiganda.

Sveitarfélög geta útfært nánari reglur um merkingar.

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

18. gr.

Leiðbeiningar.

Þjóðskrá Íslands skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga gefa út leiðbeiningar og ítarefni til þess að stuðla að samræmdri skráningu staðfanga skv. reglugerð þessari.

19. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. mgr. 12. gr. laga, nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 12. júní 2017.

Jón Gunnarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


B deild - Útgáfud.: 29. júní 2017