1. gr.
Viðskiptareikningar.
Eftirfarandi fjármálafyrirtæki geta sótt um að hafa viðskiptareikning í íslenskum krónum við Seðlabanka Íslands.
- Innlend fjármálafyrirtæki (lánastofnanir) sem fengið hafa starfsleyfi sem viðskiptabanki eða sparisjóður skv. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem fengið hafa staðfestu og samsvarandi starfsleyfi og greinir í 1. tl. í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, Sviss og Færeyjum og starfa hér á landi, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fengið hafa heimild Fjármálaeftirlitsins skv. 33. gr. laga nr. 161/2002 enda hafi fyrirtækið hliðstætt starfsleyfi og greinir í 1. tl. í heimaríkinu, starfsemin sem fyrirtækið hyggst stunda hér á landi sé sambærileg og að starfsemi fyrirtækisins sé háð sambærilegu fjármálaeftirliti sem lög nr. 87/1998 kveða á um í heimaríkinu.
Bindiskyld fjármálafyrirtæki (lánastofnanir) skulu leggja bindifé í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands um bindiskyldu inn á viðskiptareikning sinn.
Viðskiptareikningur er jafnframt aðalreikningur sem notaður er við framkvæmd greiðslna og uppgjörs skv. reglum um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands.
2. gr.
Stofnun og notkun viðskiptareikninga.
Stofnun viðskiptareiknings hjá Seðlabanka Íslands er háð því skilyrði að hún samrýmist markmiðum og verkefnum Seðlabankans eins og þau eru skilgreind skv. lögum nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands. Í því skyni skulu eftirfarandi skilyrði vera uppfyllt:
- Að tilskilin leyfi skv. lögum nr. 161/2002 séu fyrir hendi.
- Að útibú erlendra fjármálafyrirtækja lúti opinberu eftirliti fjármálaeftirlitsyfirvalds á Evrópska efnahagssvæðinu eða sambærilegu eftirlitsvaldi, sé um að ræða fjármálafyrirtæki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Að kröfur um eiginfjárhlutfall og lausafjárhlutfall séu uppfylltar að mati Seðlabankans.
- Að fjármálafyrirtæki hafi sett sér skriflegar reglur og viðhafi innra eftirlit sem miðar að því að koma í veg fyrir að starfsemi þess sé notuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka, sbr. ákvæði laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Útibú erlendra fjármálafyrirtækja utan Evrópska efnahagssvæðisins skulu sýna fram á að eftirlit innan fyrirtækisins með því að ekki fari fram peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé með hliðstæðum eða sambærilegum hætti og fram kemur í lögum nr. 140/2018.
- Að fjármálafyrirtæki sé að mati Seðlabankans virkur þátttakandi í miðlun peningastefnu bankans s.s. með veitingu innlána og útlána til almennings og fyrirtækja og falli að markmiðum Seðlabankans um að stuðla með peningastefnu sinni og framkvæmd hennar að stöðugu verðlagi.
- Að starfsemi fjármálafyrirtækis raski ekki fjármálastöðugleika að mati Seðlabankans né vinni að öðru leyti gegn traustri og öruggri fjármálastarfsemi.
- Að starfsemi fjármálafyrirtækis raski ekki að mati Seðlabankans framgangi lögbundinna verkefna Seðlabankans.
Með hliðsjón af skilyrðum 5. og 6. tl. 1. mgr. skal hlutfall innlána viðskiptavina fjármálafyrirtækis sem geymt er á viðskiptareikningi eða í bundnum innlánum hjá Seðlabankanum nema að hámarki 40%. Heimilt er að víkja tímabundið frá skilyrði 1. málsl. við sérstakar aðstæður að fengnu leyfi Seðlabankans.
Seðlabankinn getur hvenær sem er tekið til skoðunar hvort skilyrði 1. og 2. mgr. séu uppfyllt og kallað í því skyni eftir nauðsynlegum gögnum og upplýsingum frá fjármálafyrirtæki.
3. gr.
Vextir af innstæðum.
Innstæða á viðskiptareikningi ber vexti samkvæmt ákvörðunum peningastefnunefndar Seðlabankans sem birtar eru á vefsíðu bankans. Um ákvörðun vaxta vísast til 8. gr. reglna um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands.
4. gr.
Yfirdráttur á viðskiptareikningi.
Yfirdráttur á viðskiptareikningi er óheimill.
Þrátt fyrir 1. mgr. geta þau fjármálafyrirtæki, sem eru þátttakendur í millibankagreiðslukerfi Seðlabankans fengið heimild til yfirdráttar á viðskiptareikningi sínum vegna uppgjörs í millibankagreiðslukerfinu með skriflegum samningi og gegn fullnægjandi tryggingum sem Seðlabankinn metur hæfar skv. reglum um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands. Yfirdráttur er eingöngu heimill innan dags, á afgreiðslutíma millibankagreiðslukerfisins.
Þátttakandi í millibankagreiðslukerfi Seðlabankans getur óskað eftir hækkun yfirdráttarheimildar á afgreiðslutíma millibankagreiðslukerfisins skv. 2. mgr. gegn tryggingum sem Seðlabankinn metur hæfar.
5. gr.
Lokun viðskiptareiknings og heimildir Seðlabankans til að ganga að tryggingum.
Seðlabankinn getur lokað viðskiptareikningi vegna óheimils yfirdráttar og ef skilyrði 2. gr. eru ekki uppfyllt.
Seðlabankanum er heimilt að innleysa tryggingar til uppgjörs á óheimilum yfirdrætti á hvern þann hátt sem Seðlabankinn kýs, án sérstaks fyrirvara og án atbeina yfirvalda. Er Seðlabankanum í sjálfsvald sett hvort innleystar eru allar tryggingar sem settar hafa verið eða einungis hluti þeirra og þá í hvaða röð það er gert.
Loki Seðlabankinn viðskiptareikningi samkvæmt þessari grein getur Seðlabankinn lagt innstæðuna á viðskiptareikningnum inn á vaxtalausan reikning skv. 8. gr. í nafni fjármálafyrirtækis.
6. gr.
Viðskiptareikningar ríkisaðila.
Sjóðir og stofnanir í eigu ríkisins sem tilgreindir eru í A-hluta ríkisreiknings sbr. 50. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál geta haft viðskiptareikning í Seðlabankanum.
7. gr.
Vextir af innstæðum ríkisaðila o.fl.
Vextir af innstæðum viðskiptareikninga ríkisaðila skv. 6. gr. eru hinir sömu og á viðskiptareikningum fjármálafyrirtækjahjá Seðlabankanum.
Yfirdráttur á viðskiptareikningi ríkisaðila er óheimill.
8. gr.
Vaxtalausir reikningar.
Eftirfarandi fjármálafyrirtæki geta sótt um að hafa reikning í íslenskum krónum við Seðlabanka Íslands þar sem innstæða ber ekki vexti, eða vaxtalausan reikning:
- Fjármálafyrirtæki (lánastofnanir) sem fengið hafa starfsleyfi sem lánafyrirtæki skv. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem fengið hafa staðfestu og samsvarandi starfsleyfi og greinir í 1. tl. í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, Sviss og Færeyjum og starfa hér á landi, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
- Útibú erlendra fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fengið hafa heimild Fjármálaeftirlitsins skv. 33. gr. laga nr. 161/2002 enda hafi fyrirtækið hliðstætt starfsleyfi og greinir í 1. tl. í heimaríkinu, starfsemin sem fyrirtækið hyggst stunda hér á landi sé sambærileg og að starfsemi fyrirtækisins sé háð sambærilegu fjármálaeftirliti sem lög nr. 87/1998 kveða á um í heimaríkinu.
Stofnun og notkun vaxtalauss reiknings hjá Seðlabanka Íslands er háð því skilyrði að hún samrýmist markmiðum og verkefnum Seðlabankans eins og þau eru skilgreind skv. lögum nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands. Í því skyni skulu skilyrði 1.-4. og 6.-7. tl. 1. mgr. 2. gr. vera uppfyllt enda sé reikningurinn nauðsynlegur fyrir starfsemi fjármálafyrirtækisins að mati Seðlabankans.
Seðlabankanum er heimilt að setja nánari skilyrði um stofnun og notkun vaxtalausra reikninga, s.s. um hámarksfjárhæð innstæðna.
Seðlabankinn getur hvenær sem er tekið til endurskoðunar hvort skilyrði 2. og 3. mgr. séu uppfyllt og kallað í því skyni eftir nauðsynlegum gögnum og upplýsingum frá fjármálafyrirtæki. Séu skilyrði ekki uppfyllt að mati Seðlabankans getur hann lokað reikningi án tafar.
Yfirdráttur á vaxtalausum reikningi er óheimill.
Ákvæði þessarar greinar gilda einnig eftir því sem við á um vaxtalausa reikninga sem Seðlabankinn stofnar skv. 3. mgr. 5. gr. reglna þessara.
9. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með tilvísun til 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 46. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands, taka gildi þegar í stað. Falla þá jafnframt úr gildi reglur nr. 18/2022 um viðskiptareikninga við Seðlabanka Íslands.
Seðlabanka Íslands, 30. desember 2022.
Seðlabanka Íslands, 14. janúar 2022.
|
Ásgeir Jónsson |
Rannveig Júníusdóttir |
|
seðlabankastjóri. |
framkvæmdastjóri. |
|