A. Inngangur. 1. gr. Doktorsnafnbót í heiðursskyni er æðsta viðurkenning sem Háskólinn á Akureyri veitir. Veiting slíkrar nafnbótar skal endurspegla æðstu hlutverk og markmið skólans. Heiðursdoktorsnafnbót skal veita framúrskarandi einstaklingum í viðurkenningarskyni fyrir langvarandi starf að vísindum, listum og menningu eða fyrir sérstakt framlag til almannaheilla. Einstaklingar tilnefndir til doktorsnafnbótar í heiðursskyni skulu hafa sýnt með störfum sínum og framgöngu að þeir séu mikilvæg fyrirmynd nemendum og kennurum skólans og samfélaginu í heild. Útnefningin auki sæmd og hróður Háskólans á Akureyri. B. Viðmið. 2. gr. Heiðursdoktorsnafnbót frá Háskólanum á Akureyri er veitt fyrir framúrskarandi framlag doktorsefnisins til tiltekinnar fræðigreinar háskólans, íslensks samfélags almennt eða á alþjóðavettvangi. 3. gr. Þeir sem hljóta heiðursdoktorsnafnbót skulu hafa afkastað merkilegu starfi og njóta almennrar viðurkenningar á sínu sviði, ýmist sem vísindamenn, menningarfrömuðir, andlegir eða veraldlegir leiðtogar. 4. gr. Heiðursdoktorsnafnbót frá Háskólanum á Akureyri má veita til að sýna erlendum doktorsefnum, þjóð þeirra eða stofnun, sem þeir hafa unnið við, sérstakan sæmdarvott fyrir mikilvægt starf. 5. gr. Ef fyrrverandi föstum starfsmönnum háskólans er veitt heiðursdoktorsnafnbót er það ævinlega vegna sérstaks framlags sem nýtur mikillar viðurkenningar í víðara samhengi. 6. gr. Þótt háskólamenntun sé ekki forsenda fyrir heiðursdoktorskjöri er algengt að heiðursdoktorar séu einnig prófdoktorar frá einhverjum háskóla. 7. gr. Sami maður getur verið heiðursdoktor við tvo eða fleiri háskóla og einnig geta tvær eða fleiri deildir sæmt sama mann doktorsnafnbót í heiðursskyni eða sameinast um að veita nafnbótina. 8. gr. Valið getur verið tengt við stórafmæli háskólans eða deildarinnar, merkan samfélagslegan viðburð sem háskólinn tekur þátt í eða jafnvel við afmæli doktorsefnanna sjálfra. 9. gr. Þótt mismunandi sjónarmið geti komið til greina við val heiðursdoktora skal ætíð vanda valið þannig að heiðursdoktorsnafnbót sé hinn mesti sómi sem háskólinn getur sýnt manni. 10. gr. Doktorsnafnbót í heiðursskyni er að öllu jöfnu ekki veitt: Þeim sem er fjarstaddur. Sitjandi stjórnmálamönnum eða opinberum embættismönnum. Starfsmönnum Háskólans á Akureyri.
C. Framkvæmd. 11. gr. Atkvæðisbærir fulltrúar á deildarfundi geta sett fram tillögu um veitingu heiðursdoktorsnafnbótar. Að tillögunni skulu standa hið minnsta þrír fulltrúar og með henni skal fylgja skrifleg greinargerð eða rökstuðningur fyrir tillögunni ásamt æviágripi þess sem tillagan er gerð um. Tillagan skal hljóta samþykki ¾ hluta atkvæða á fundinum. 12. gr. Að fengnu samþykki deildarfundar skal tillagan ganga til deildaráðs sem tekur hana fyrir og metur hvort taka á hana til greina. 13. gr. Fallist meirihluti deildaráðs á að taka tillöguna til greina skal sviðsforseti fræðasviðs leggja hana, með milligöngu rektorsskrifstofu, fyrir sérstaka nefnd sem háskólaráð skipar og veitir umsögn um tillöguna á grundvelli ofangreindra viðmiða. Í heiðursdoktorsnefndinni eiga sæti einn fulltrúi frá hverju fræðasviði og einn fulltrúi háskólaráðs sem er formaður. Hvert fræðasvið tilnefnir tvo, karl og konu, til að taka sæti í nefndinni. Við skipun nefndarinnar skal tekið mið af ákvæðum jafnréttislaga. Nefndin skal skila sviðsforseta, með milligöngu rektorsskrifstofu, skriflegri umsögn sinni innan eins mánaðar. 14. gr. Hin rökstudda tillaga skal lögð, ásamt umsögn heiðursdoktorsnefndar, fyrir fræðasviðsfund til afgreiðslu. Til að tillaga hljóti brautargengi þarf hún að hljóta samþykki þriggja fjórðu hluta allra atkvæðisbærra fulltrúa á fundi sé hann ályktunarbær. Hljóti tillagan samþykki fræðasviðs er hún send, með milligöngu rektorsskrifstofu, háskólaráði til samþykktar. Að jafnaði skal við það miðað að ár hvert verði ekki sett fram fleiri en ein tillaga frá hverju fræðasviði. Halda skal fyllsta trúnað um tillöguna þar til háskólaráð hefur tekið afstöðu til hennar. Þegar háskólaráð hefur samþykkt tillöguna ritar rektor doktorsefninu bréf og greinir frá niðurstöðunni. 15. gr. Doktorsnafnbót í heiðursskyni er veitt við sérstaka hátíðlega athöfn, sem undirbúin er af viðkomandi deild, á háskólahátíð eða öðrum hátíðisdögum háskólans. Við athöfnina les forseti fræðasviðs upp greinargerð eða rökstuðning fyrir veitingunni og fær doktornum í hendur doktorsskjal sem forseti fræðasviðs og rektor undirrita. Doktorsskjalið skal vera á íslensku og ensku. Aðdraganda og framkvæmd athafnar skal að öðru leyti lýst í verklagsskjali sem forsetar fræðasviða eiga í sínum fórum og er jafnframt aðgengilegt í gæðahandbók Háskólans á Akureyri. 16. gr. Sá sem er sæmdur doktorsnafnbót í heiðursskyni hlýtur lærdómstitilinn doctor honoris causa (með skammstöfun þess fræðasviðs sem veitir viðurkenninguna), t.d. Dr. phil h.c., Dr. Jur. h.c., Dr. Scient h.c. o.s.frv. Handhafa heiðursdoktorsnafnbótar er heimilt að nota hana með viðeigandi hætti, en þó þannig að henni verði ekki ruglað saman við doktorsgráðu að undangengnu prófi. 17. gr. Reglur þessar, sem samþykktar voru í háskólaráði 28. júní 2012, eru settar á grundvelli 23. gr. laga nr. 85/2008 um háskóla með síðari breytingum og 16. gr. reglna nr. 387/2009 fyrir Háskólann á Akureyri með síðari breytingum. Reglurnar öðlast þegar gildi. Háskólanum á Akureyri, 13. ágúst 2012. Stefán B. Sigurðsson rektor. Sigurður Kristinsson, varaforseti háskólaráðs. |