1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um starfsemi innlendra vátryggingafélaga og starfsemi erlendra vátryggingafélaga hér á landi, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi.
2. gr.
Verklag sem fylgja skal við mat á lánshæfismati utanaðkomandi aðila.
Í 8. mgr. 44. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016 segir að noti vátryggingafélag lánshæfismat lánshæfismatsstofnunar við útreikning á vátryggingaskuld og gjaldþolskröfu skuli það vera hluti af áhættustýringu félagsins að meta hvort lánshæfismatið eigi við með því að nota aðrar aðferðir við mat verði því við komið í því skyni að draga úr sjálfvirkum áhrifum utanaðkomandi aðila. Reglur þessar eru settar til að innleiða tæknilega staðla sem mæla fyrir um verklag sem fylgja skal við mat á því hvort lánshæfismat utanaðkomandi aðila sé viðeigandi.
3. gr.
Innleiðing reglugerðar.
Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2015 frá 11. nóvember 2015 um tæknilega framkvæmdarstaðla um verklag sem fylgja skal við mat á lánshæfismati utanaðkomandi aðila í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2015 er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 29 frá 3. maí 2018, bls. 31-32.
4. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 9. mgr. 44. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Reglurnar öðlast þegar gildi.
Fjármálaeftirlitinu, 25. júní 2018.
Unnur Gunnarsdóttir.
Rúnar Guðmundsson.
|