Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1566/2024

Nr. 1566/2024 13. desember 2024

REGLUGERÐ
um Loftslags- og orkusjóð.

I. KAFLI

Almennt um Loftslags- og orkusjóð.

1. gr.

Hlutverk Loftslags- og orkusjóðs.

Loftslags- og orkusjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir ráðherra.

Hlutverk Loftslags- og orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Enn fremur styður sjóðurinn við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.

Hlutverk sjóðsins er einnig að styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, verkefni sem stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.

Loftslags- og orkusjóður hefur enn fremur það hlutverk að sjá um beinar stuðningsaðgerðir, svo sem styrki til kaupa á rafbílum og styrki til jarðhitaleitar, eftir atvikum hverju sinni, þ.m.t. með tilliti til aðgerða aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og orkuskiptaáætlun.

 

2. gr.

Stjórn.

Ráðherra skipar fimm einstaklinga í stjórn Loftslags- og orkusjóðs til fjögurra ára. Formaður skal skipaður án tilnefningar og honum til viðbótar skipar ráðherra einn fulltrúa án tilnefn­ingar, einn fulltrúa, sem hefur þekkingu á lofts­lagsmálum, samkvæmt tilnefningu háskólasamfélagsins, einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu umhverfis­verndarsamtaka.

Umhverfis- og orkustofnun annast daglega umsýslu Loftslags- og orkusjóðs undir yfirstjórn stjórnar sjóðsins. Stjórninni er þó heimilt að framselja óháðum aðila faglega umsýslu sjóðsins sam­kvæmt samningi. Í því felst að auglýsa úthlutanir úr sjóðnum, taka á móti umsóknum, meta umsóknir og leggja fyrir stjórn Loftslags- og orkusjóðs.

Úthlutað er úr sjóðnum að jafnaði tvisvar sinnum á ári. Stjórn Loftslags- og orkusjóðs er þó heimilt að gera undantekningar á fjölda úthlutana á ári og mun tilkynna um það sérstaklega.

Ákvarðanir sem teknar eru um að veita styrki úr Loftslags- og orkusjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

 

3. gr.

Tekjur og gjöld.

Tekjur Loftslags- og orkusjóðs eru fjárveiting á fjárlögum ár hvert og eftir atvikum tímabundnar tilfærslur fjárheimilda innan hvers árs. Allur kostnaður við rekstur Loftslags- og orkusjóðs greiðist af tekjum sjóðsins.

 

4. gr.

Samkeppnissjóður og beinn stuðningur.

Umsóknir um styrki eru annars vegar metnar út frá hlutverki og tilgangi sjóðsins, reglugerð þessari og áherslum stjórnvalda og ráðherra sem skulu koma fram í auglýsingum um styrki hverju sinni, sbr. II. kafla. Hins vegar eru veittir styrkir á grundvelli tiltekinna forsendna, sbr. III. kafla.

 

5. gr.

Fundir stjórnar, fundargerðir og birting gagna.

Formaður boðar til fundar og stýrir fundum stjórnar. Halda skal fundargerðir yfir alla fundi og þær ákvarðanir sem teknar eru. Fundargerðir og upplýsingar um þau verkefni sem styrkt eru af sjóðnum skal birta á vef sjóðsins.

Stjórn Loftslags- og orkusjóðs skal funda eftir þörfum og umfangi verkefna, að lágmarki fjórum sinnum á ári.

 

6. gr.

Hæfisreglur.

Stjórnarfulltrúi, sem veit um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans, skal án tafar vekja athygli formanns stjórnar á þeim. Telji formaður sig vanhæfan skal hann vekja athygli annarra stjórnar­fulltrúa á því. Stjórnin ákveður í framhaldi hvort stjórnarfulltrúa/formanni beri að víkja sæti, sbr. 5. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Við mat á vanhæfi skal taka mið af ákvæðum stjórnsýslulaga.

 

II. KAFLI

Úthlutunarreglur.

7. gr.

Styrkhæfi verkefna og áherslur.

Lögaðilar, að undanskildum A-hluta ríkisaðilum og sveitarfélögum, geta sótt um styrki í Loftslags- og orkusjóð.

Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki sjóðsins og:

  1. sem skila samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda,
  2. sem draga úr notkun jarðefnaeldsneytis,
  3. sem stuðla að framleiðslu og nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum og orku­nýtni,
  4. sem stuðla að hringrásarhagkerfi,
  5. sem stuðla að bættu orkuöryggi og
  6. sem hagnýta gögn um áhrif loftslagsbreytinga.

Ráðherra getur ákveðið frekari áherslur við styrkveitingar á grundvelli markmiða stjórnvalda.

Styrkjum skal úthlutað til afmarkaðra verkefna til eins árs í senn. Ef tilgreindur verktími er lengri en eitt ár er heimilt að veita árlegan styrk til allt að þriggja ára, með fyrirvara um fjárveitingar á fjárlögum hverju sinni.

Eftirfarandi er ekki styrkhæft:

  1. Verkefni sem eru á fjárlögum eða falla undir sérstaka samninga eða falla undir lögbundin hlutverk A-hluta stofnana.
  2. Kostnaður vegna reksturs félagasamtaka.
  3. Verkefni sem tengjast förgun úrgangs.
  4. Rannsóknaverkefni á meistara- eða doktorsstigi.
  5. Kostnaður vegna launa nefndarmanns eða annar kostnaður vegna nefndarsetu.
  6. Verkefni eða hluti verkefnis sem hefur þegar verið unninn.

 

8. gr.

Auglýsingar.

Stjórn Loftslags- og orkusjóðs auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum, að jafnaði tvisvar á ári, sbr. 2. gr. Auglýsa skal á vef Umhverfis- og orkustofnunar, í dagblöðum eða með öðrum sannan­legum hætti.

Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, sbr. reglugerð þessa, tímafresti og leiðbeiningar um hvar og hvernig skuli sækja um.

Ákveði ráðherra að leggja fram nánari áherslur við úthlutun styrkja en fram koma í 7. gr. skal það koma fram í auglýsingu. Stjórn Loftslags- og orkusjóðs skal á hverju ári óska eftir upplýsingum um áherslur ráðherra áður en auglýst er eftir umsóknum um styrki.

 

9. gr.

Umsóknir.

Umsókn skal skilað í rafrænu umsóknarkerfi á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Umsókn skal fela í sér greinargóða lýsingu á verkefninu, markmiði þess, hvernig árangur þess verði metinn, áætluðum ávinningi af verkefninu, fjárhagsáætlun og hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum. Umsókn skulu m.a. fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar:

  1. upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru,
  2. nafn og kennitala þess sem annast samskipti við sjóðinn, netfang og símanúmer,
  3. lýsing á verkefninu og markmiðum þess, þar sem m.a. skal koma fram stutt greinargóð lýsing á verkefninu, hvert vandamálið er sem verið er að leysa, í hverju lausnin felst, hverjir standa að verkefninu, fyrir hvern hún er hugsuð, hvaða sambærilegu lausnir eru á mark­aðnum, hvað gerir þessa lausn betri en aðrar og áhrif og markmið verkefnisins og hvernig verður árangur verkefnisins metinn,
  4. tíma- og verkáætlun,
  5. greinargóð fjárhagsáætlun, þar sem m.a. skulu koma fram sundurliðaðar upplýsingar um áætlaðar tekjur og kostnað af verkefninu, hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið, styrkfé sem verkefnið hefur hlotið eða sótt hefur verið um og hvert heildarframlag umsækjanda sjálfs er áætlað í verkefninu s.s. vinnuframlag,
  6. staðfesting á eigin fjárframlagi og/eða lánsvilyrði eftir atvikum,
  7. lýsing á því hvernig verkefnið samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrk­veitinga í reglugerð þessari, hver umhverfislegur ávinningur er líklegur til að verða af verkefninu, hvort verkefnið feli í sér nýsköpun, hvort það sé atvinnuskapandi og þá með hvaða hætti og ætluð minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda, og
  8. staðfest gögn frá samstarfsaðilum um þátttöku sem og önnur gögn til stuðnings umsókn.

Umsóknum sem berast ekki innan tilskilins tímafrests í gegnum umsóknargátt er hafnað. Heimilt er að hafna að taka umsóknir til umfjöllunar sem skilað er án allra umbeðinna fylgigagna.

Umsækjendur mega ekki undir neinum kringumstæðum hafa samband við stjórn meðan á mats­ferli stendur. Hafi umsækjandi samband við stjórn vegna umsóknar kann hún að verða tekin úr mats­ferli.

Hafi umsækjandi áður hlotið styrk frá Loftslags- og orkusjóði þarf fyrra verkefni að vera lokið áður en ný umsókn frá sama umsækjanda verður tekin til meðferðar.

 

10. gr.

Mat á umsóknum.

Stjórn Loftslags- og orkusjóðs metur styrkhæfi umsókna og gildi þeirra í samræmi við reglugerð þessa.

Auk skilyrða sem fram koma í 8. gr. verður við mat á umsóknum og ákvörðun úthlutunar m.a. tekið tillit til eftirtalinna sjónarmiða, eftir því sem við á:

  1. hvort og hversu vel verkefni falli að skilgreindum áherslum styrkveitinga eins og þær eru auglýstar hverju sinni,
  2. forsendur og mikilvægi verkefnis og hvort verkefnið sé líklegt til að hafa í för með sér umhverfislegan ávinning sem og mögulegan ávinning fyrir aðra aðila, s.s. samdrátt í kolefnis­losun,
  3. hvort markmið verkefnis séu skýr og raunhæf, hvernig markmiðum sem að er stefnt verði náð og hvernig árangur verkefnis verði metinn,
  4. hvort verkefnið sé byggt á faglegum grunni,
  5. eigið framlag umsækjanda eða annarra til verkefnis
  6. hagnýti verkefnis og hvort verkefni sé atvinnuskapandi,
  7. fjárhagsgrundvöllur verkefnis,
  8. upplýsingar um samstarfsaðila.

 

11. gr.

Úthlutun og skilmálar.

Heildarfjárhæð styrkja er samkvæmt heimild í fjárlögum hverju sinni, sbr. 3. gr. Stjórn Lofts­lags- og orkusjóðs tekur ákvörðun um styrkveitingar á grundvelli mats á framkomnum umsóknum. Tilkynna skal öllum umsækjendum um afgreiðslu umsóknar. Við ákvörðun um styrkveitingar skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga, hlutlægni, gagnsæis og samkeppnissjónarmiða, sbr. 42. gr. laga nr. 123/2015 um opin­ber fjármál. Ákvarðanir sem teknar eru um veitingu styrkja úr Loftslags- og orku­sjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

Styrkþegi ábyrgist að styrk verði einungis varið til þess verkefnis sem getið er um í umsókn. Jafnframt skuldbindur hann sig til að skila greinargerð um framvindu verkefnisins og fjárhags­uppgjöri. Styrkþegi skal auk þess hlíta öðrum þeim skilmálum sem fram koma í reglugerð þessari eða eru sérstaklega tilgreindir í úthlutunarbréfi eða samningi.

Styrkjum er úthlutað til eins árs í senn með gerð skriflegs samnings. Ef verkefni er styrkt til lengri tíma en eins árs skal gerður um það samningur með fyrirvara um heildarfjárhæð styrkja sam­kvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Greiðslur vegna verkefnis eru að jafnaði eftir framgangi verks en loka­greiðsla styrkfjár kemur almennt ekki til greiðslu fyrr en við skil til sjóðsins á gögnum sem gerð er krafa um hverju sinni, svo sem greinargerð um framgang og lok verkefnis ásamt fjárhags­uppgjöri, sbr. 16. gr.

Styrki skal auglýsa tvisvar á ári, að jafnaði 15. janúar og 15. júlí ár hvert. Umsóknarfrestur skal vera 4 vikur. Úthlutun styrkja fer að jafnaði fram eigi síðar en 30. júní og 31. desember ár hvert. Loftslags- og orkusjóður birtir nöfn styrkþega, heiti verkefna og upphæð styrkja á vef Umhverfis- og orkustofnunar.

 

12. gr.

Upplýsingagjöf og skýrslur.

Styrkþega er skylt að tilkynna Loftslags- og orkusjóði tafarlaust ef upp koma aðstæður sem seinka styrktu verkefni eða koma í veg fyrir að markmiðum eða skilyrðum fyrir styrkveitingu sé fullnægt.

Styrkþega ber ávallt að verða við beiðni sjóðsins um upplýsingar um stöðu verkefnisins og láta honum í té allar upplýsingar og gögn um verkefnið, þar á meðal bókhaldsgögn.

Styrkþegi skal senda sjóðnum greinargerð um verkefnið og fjárhagsuppgjör vegna þess innan 60 daga frá því verkefninu lýkur.

Styrkþegi skal varðveita öll gögn verkefnisins, þ.m.t. bókhaldsgögn, í a.m.k. sjö ár og hafa þau tiltæk sé þess óskað af hálfu Ríkisendurskoðunar.

Stjórn Loftslags- og orkusjóðs skilar ráðherra ársskýrslu þar sem fram kemur umfjöllun um styrkveitingar ársins og árangursmat á fyrri styrkjum.

 

13. gr.

Kynningarefni tengt verkefni.

Á öllu útgefnu efni, auglýsingum o.s.frv. sem tengist hinu styrkta verkefni skal koma fram að það sé styrkt af Loftslags- og orkusjóði.

 

14. gr.

Endurkröfuréttur Loftslags- og orkusjóðs.

Ef styrknum eða hluta hans er varið í annað en það verkefni sem tilgreint er í umsókn eða ef skilmálar í reglugerð þessari eru ekki uppfylltir teljast forsendur styrkveitingar brostnar. Áskilur Lofts­lags- og orkusjóður sér þá rétt til að ógilda styrkveitinguna og krefja styrkþega um endur­greiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild sinni, ásamt kostnaði.

Reynist útgjöld vegna verkefnis samkvæmt umsókn lægri en útborguð styrkfjárhæð skal styrkþegi endurgreiða ónýttan styrk innan 30 daga frá því fjárhagsuppgjör verkefnis liggur fyrir. Að öðrum kosti innheimtir sjóðurinn ónýttan styrk ásamt innheimtukostnaði.

Styrkjum er úthlutað til eins árs í senn. Nýti styrkþegi ekki styrk innan árs frá undirskrift samnings fellur styrkurinn niður, nema sérstaklega sé sótt um frestun hans. Umsókn þess efnis skal vera skrifleg og rökstudd.

Þegar samningur um styrk er felldur niður vegna vanefnda eða þegar samningur um styrk­veitingu er ekki gerður þá fellur sú úthlutun niður. Það sama gildir þegar styrkhafi er krafinn um endurgreiðslu þegar greidds styrks.

 

15. gr.

Styrkhlutföll og fjárhæðir.

Eftirfarandi skulu vera hámarks styrkhlutföll og styrkfjárhæðir í úthlutunum stjórnar Loftslags- og orkusjóðs:

  1. Verkefni, hámark 500 m.kr. og hlutfall 33% af heildarkostnaði verkefnis.
  2. Frumkvöðlaverkefni, hámark 10 m.kr. og hlutfall 50% af heildarkostnaði verkefnis.
  3. Frumkvöðlaverkefni, hámark 10 m.kr. gegn fjárfestingu óháðs þriðja aðila.

Eftirfarandi skilyrði gilda fyrir frumkvöðlaverkefni í b- og c-lið 1. mgr.:

  1. Að lögaðili sé ekki eldri en 10 ára.
  2. Að fjöldi starfsfólks hjá lögaðila sé færri en 10.
  3. Að velta lögaðila sé innan við 100 m.kr. á undangengnu ári.
  4. Fjárfesting óháðs þriðja aðila skv. c-lið þarf ekki að liggja fyrir við umsókn, en lögaðili hefur 12 mánuði til að ganga frá þessu eftir samþykki umsóknar.

Skipting greiðslna til styrkþega skal vera eftirfarandi:

  1. Framvindugreiðsla (75%) greiðist samkvæmt samningi og framlagningu gagna.
  2. Lokagreiðsla (25%) er greidd þegar lokaskýrsla hefur verið samþykkt.

 

III. KAFLI

Styrkir til hreinorkuökutækja.

16. gr.

Styrkir til hreinorkuökutækja.

Stjórn Loftslags- og orkusjóðs veitir styrki vegna kaupa á ökutækjum er hafa engan útblástur, eru hreinorkutæki eða losunarfrí ökutæki og við veitingu þeirra fer samkvæmt reglugerð þessari. Styrk­veitingum þessum er ætlað að hvetja til kaupa á ökutækjum er ganga fyrir hreinni endur­nýjanlegri orku í þeim tilgangi að hraða orkuskiptum í samgöngum með það að meginmarkmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

 

17. gr.

Styrkhæfi og skilmálar.

Styrkirnir eru veittir til einstaklinga og lögaðila sem eru skráðir sem eigendur styrkhæfra ökutækja hér á landi hjá Samgöngustofu. Styrkhæfi nær til ökutækja í eftirfarandi flokkum:

  1. Fólksbílar í flokki M1, þ.m.t. leigubifreiðar og bílaleigubílar.
  2. Sendibílar í flokki N1, litlar hópferðabifreiðar í flokki N2 og vörubifreiðar í flokki N3.
  3. Hópferðabílar í flokki M2 og M3.

Til styrkhæfra ökutækja í flokki M1 teljast bæði ný og innflutt notuð ökutæki. Ökutæki í flokkum M2, M3, N2 og N3 eru aðeins styrkhæf ef um ný ökutæki er að ræða. Hámarks kaup­verðmæti ökutækja í flokkum M1 og N1 er 10.000.000 kr. þ.a. sé kaupverð umfram framangreint hámark fæst enginn styrkur.

Til nýrra ökutækja teljast þau er fá fyrstu skráningu hér á landi frá og með 1. janúar 2024.

Á þessum reglum eru undantekningar fyrir ökutæki í flokkum M1 og N1 ef bifreið er sérútbúin fyrir þarfir fólks með fötlun.

 

18. gr.

Auglýsingar.

Stjórn Loftslags- og orkusjóðs skal auglýsa hvenær og hvernig verður opið fyrir umsóknir um hreinorkuökutækjastyrki. Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um þau skilyrði sem ökutæki þurfa að uppfylla til að standast styrkhæfni, sbr. reglugerð þessa, og leiðbeiningar um hver og hvernig skuli sækja um.

Umsóknir um hreinorkuökutækjastyrki skulu almennt vera opnar allt árið en stjórn Loftslags- og orkusjóðs getur lokað fyrir umsóknir m.t.t. stöðu fjárheimilda Loftslags- og orkusjóðs.

 

19. gr.

Umsóknir og útborgun styrkja.

Umsóknir vegna kaupa á fólksbifreiðum í flokki M1 og atvinnubifreiða í flokki N1 fer alla jafna fram með stafrænum hætti í gegnum rafrænan aðgang umsækjanda á Ísland.is. Vegna bifreiða í sömu flokkum sem eru sérútbúnar vegna fötlunar kaupanda þarf að liggja fyrir staðfesting Trygginga­stofnunar ríkisins (TR) áður en sótt er um á Ísland.is.

Hvað varðar styrkveitingar til ökutækja í flokkum M2, M3, N2 og N3 verður framkvæmd þeirra í gegnum umsóknarferli Loftslags- og orkusjóðs.

Styrkur er aðeins veittur einu sinni vegna hvers styrkhæfs ökutækis. Séu meðeigendur skráðir á hið styrkhæfa ökutæki greiðist styrkur til skráðs aðaleiganda og getur hann einn sótt um styrk.

Uppfylli bæði ökutæki og umsækjandi öll skilyrði og umsækjandi hefur gengist við þeim skilmálum sem liggja til grundvallar styrkveitingu og fram koma í umsóknarferli er styrkur greiddur út innan tveggja daga að jafnaði eftir að umsókn berst.

 

20. gr.

Rangar eða villandi upplýsingar.

Verði umsækjandi uppvís að því að veita rangar eða villandi upplýsingar til Loftslags- og orku­sjóðs vegna umsóknar sinnar eða notar styrk í öðrum tilgangi en til kaupa á hreinorkuökutæki áskilur sjóðurinn sér rétt til að ógilda styrkveitinguna og krefja styrkþega um endurgreiðslu styrks ásamt kostnaði. Öll slík tilvik verða undantekningarlaust kærð til lögreglu. Í þessu sambandi áskilur Loftslags- og orkusjóður sér rétt til þess að kalla eftir upplýsingum um kaup, skráningu og eigenda­sögu þeirra ökutækja sem styrkt hafa verið. Enn fremur er upplýst að Ríkisendurskoðun hefur víðtækar skoðunarheimildir sem fela í sér heimild til að kalla eftir gögnum og upplýsingum í þessu sambandi.

 

21. gr.

Styrkfjárhæðir og hlutföll.

Eftirfarandi skulu vera hámarks styrkhlutföll og styrkfjárhæðir í úthlutunum stjórnar Loftslags- og orkusjóðs:

Fólksbílar - nýir 2025 2026 2027 2028 Hlutföll
Söluverð < 10 M 900.000 kr. 500.000 kr. 500.000 kr. 0 kr. Á ekki við
Söluverð > 10 M 0 kr. 0 kr. 0 kr. 0 kr. Á ekki við
Bílaleigur/leigubílar
< 10 M
900.000 kr. 500.000 kr. 500.000 kr. 0 kr. Á ekki við
Fólksbílar - notaðir          
Söluverð < 10 M 450.000 kr. 250.000 kr. 250.000 kr. 0 kr. Á ekki við

 

Atvinnubílar 2025 2026 2027 2028 Hlutföll
Sendibílar (N1) Söluverð < 10 M 500.000 kr. 250.000 kr. 250.000 kr. 0 kr. Á ekki við
Lítil vörubifreið (N2) 3,5-7 tonn 5.000.000 kr. 2.500.000 kr.

0 kr.

0 kr. 33%
Lítil vörubifreið (N2) 7-12 tonn 10.000.000 kr. 2.500.000 kr. 2.500.000 kr. 0 kr. 33%
Vörubifreið II (N3) 12-18 tonn 10.000.000 kr. 5.000.000 kr. 5.000.000 kr. 2.500.000 kr. 33%
Vörubifreið II (N3) 18-26 tonn 15.000.000 kr.

10.000.000 kr.

10.000.000 kr. 5.000.000 kr. 33%
Vörubifreið II (N3)
< 26 tonn
20.000.000 kr. 15.000.000 kr. 15.000.000 kr. 10.000.000 kr. 33%

 

Hópferðabílar 2025 2026 2027 2028 Hlutföll
M2 (10 farþegar +)
< 5 tonn
5.000.000 kr. 2.500.000 kr. 0 kr. 0 kr. 33%
M3 (10 farþegar +)
> 5 tonn
10.000.000 kr. 5.000.000 kr. 5.000.000 kr. 2.500.000 kr. 33%
M3 almennings­vagnar/strætó 30.000.000 kr. 30.000.000 kr. 15.000.000 kr. 15.000.000 kr. 33%

 

IV. KAFLI

Lagastoð og gildistaka.

22. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 8. gr. laga um Loftslags- og orkusjóð nr. 76/2020 og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 185/2016 um Orkusjóð.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 13. desember 2024.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Stefán Guðmundsson.


B deild - Útgáfud.: 20. desember 2024