Samkvæmt 4. málsl. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, er heimilt að skila ársreikningum á rafrænu formi í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur. Með tilvísun til þessara heimildar setur ársreikningaskrá eftirfarandi reglur um móttöku ársreikninga á rafrænu formi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Skila ber ársreikningi og samstæðureikningi sem saminn er skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006, og skal hann hafa að geyma eftirfarandi þætti og mynda þannig eina heild: rekstrarreikning; efnahagsreikning; sjóðstreymi; skýringar og athugasemdir; skýrslu stjórnar; og áritun endurskoðanda.Ofangreindar kröfur um innihald eru gerðar hvort heldur ársreikningurinn (samstæðureikningurinn) er saminn í samræmi við reglugerð nr. 694/1996 um framsetningu ársreikninga í samandregnu formi eða reglugerð nr. 696/1996, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. Á forsíðu ársreiknings eða samstæðureiknings skal koma fram nafn félagsins ásamt kennitölu þess og póstfangi, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 319/2003, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga. Á forsíðu skal einnig koma fram rekstrarárið og hvort um sé að ræða ársreikning félagsins, samstæðureikning samstæðunnar, eða hvort tveggja, svo og ef hann er í samandregnu formi, þá komi það skýrt fram, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 319/2003. Rafræn skil eiga sér stað á þjónustuvef skattstjóra, www.skattur.is, á kennitölu félagsins, eða móðurfélagsins ef um samstæðureikningsskil er að ræða. Þá skal skrá veflykil, sem notaður er við skattskil félagsins. Velja skal á vefsíðunni annaðhvort Almennt/Ársreikningaskrá RSK eða Vefskil/Skil til ársreikningaskrár RSK. Á upplýsingasíðu skal gera grein fyrir eftirfarandi: Reikningsár sem verið er að skila fyrir. Ef reikningsárið fer yfir áramót (annað en almanaksár), skal miða skilin við það ár sem reikningsári lýkur, t.d. ef reikningslok eru 30. apríl 2007 er skilað undir árinu 2007. Velja skal reikningstegund: - ársreikningur félagsins;
- samstæðureikningur samstæðunnar á kennitölu móðurfélagsins og veflykli. Skila skal þá einnig ársreikningi móðurfélagsins, sbr. a, á kennitölu þess og veflykli;
- ársreikningur félagsins, móðurfélagsins, ásamt reikningsskilum samstæðunnar á kennitölu móðurfélagsins og veflykli.
Færa skal tölvupóstfang sendandans, en staðfesting samþykktar eða synjun móttöku verður send á það póstfang. Færa skal dagsetningu aðalfundar eða ígildi aðalfundar hjá eins manns einkahlutafélögum sem er skráning í gerðabók, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga um einkahlutafélög. Í stað undirritunar skal staðfesta undirritun stjórnar og framkvæmdastjóra með því að merkja í viðeigandi reit að ársreikningurinn, þ.e. skjalið, sé í samræmi við undirritað frumrit ársreiknings. Færa skal inn kennitölu endurskoðanda, endurskoðendafélags eða skoðunarmanns. Færa skal inn kennitölu framkvæmdastjóra ef hann er ráðinn hjá félaginu. Færa skal inn kennitölur stjórnarmanna. Ef stjórnarmaður er erlendur án kennitölu samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá skal nafn hans og heimaland skráð í þar til gerðan reit. Færa skal inn kennitölur þeirra hluthafa sem eiga 10% eða hærri hlut af hlutafé félagsins. Ef um erlendan aðila er að ræða án kennitölu skal koma fram nafn og heimaland. Ef enginn hluthafi á 10% eða hærri hlut af hlutafé skal það staðfest í viðeigandi reit.
Til viðbótar þessum upplýsingum skal við skil á samstæðureikningi færa inn kennitölur og eignarhluta í innlendum dótturfélögum en annars nafn, eignarhluta og heimaríki erlendra dótturfélaga, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 319/2003. Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. málsl. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Reglur þessar taka þegar gildi. Reykjavík, 6. desember 2007. | Skúli Eggert Þórðarson | Guðmundur Guðbjarnason, | | ríkisskattstjóri. | forstöðumaður ársreikningaskrár. |
|