Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 91/2021

Nr. 91/2021 22. júní 2021

LÖG
um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018 (Ferðatryggingasjóður).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „skv. 24. gr.“ í c-lið 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: skv. VII. kafla.

 

2. gr.

    24. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Ferðatryggingasjóður.

    Ferðatryggingasjóður er sjálfseignarstofnun sem hefur það hlutverk að tryggja hagsmuni ferða­manna sem keypt hafa pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun sem ekki er framkvæmd í sam­ræmi við samning vegna ógjaldfærni eða gjaldþrots seljanda.

    Ferðatryggingasjóður er undanþeginn tekjuskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt. Sjóðurinn verður hvorki tekinn til gjaldþrotaskipta né er heimilt að gera aðför í eignum hans.

    Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Ferðatryggingasjóðs.

    

3. gr.

    Á eftir 24. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 24. gr. a og 24. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

 

    a. (24. gr. a.)

Stjórn Ferðatryggingasjóðs.

    Ráðherra skipar þriggja manna stjórn Ferðatryggingasjóðs til tveggja ára í senn. Einn stjórnar­maður skal skipaður samkvæmt tilnefningu samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu Neytendasamtakanna og einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Formaður skal fullnægja skilyrðum laga til að hljóta skipun í embætti héraðs­dómara. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Stjórnarmenn skulu vera lögráða og mega ekki hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Þeir skulu hafa gott orðspor og ekki hafa hlotið dóm fyrir refsi­verðan verknað í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjald­þrota­skipti o.fl., lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda eða lögum um virðisaukaskatt. Stjórnin skal setja sér starfsreglur. Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna sem skal greidd af fé sjóðsins.

    Stjórn Ferðatryggingasjóðs skal sjá til þess að sjóðurinn sé ávallt bær til að valda hlutverki sínu. Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárhæð iðgjalds og lántöku.

    Stjórn Ferðatryggingasjóðs er heimilt að semja við lögaðila um rekstur og vörslu sjóðsins. Lög­aðilinn getur verið Ferðamálastofa eða vörslufyrirtæki samkvæmt lögum um verðbréfasjóði. Stjórn­inni er heimilt að ákveða í starfsreglum að vörsluaðila verði heimiluð endanleg afgreiðsla mála fyrir hönd Ferðatryggingasjóðs, annarra en þeirra sem fram koma í 2. mgr.

    Stjórn Ferðatryggingasjóðs skal ráða endurskoðanda til að annast gerð ársreiknings og skal árlega skila ráðherra skýrslu þar sem gerð er grein fyrir störfum og stöðu sjóðsins.

 

    b. (24. gr. b.)

Eignir Ferðatryggingasjóðs.

    Heildareign Ferðatryggingasjóðs skal að lágmarki nema 100 millj. kr.

    Nái heildareign sjóðsins ekki lágmarki skv. 1. mgr. er stjórn sjóðsins heimilt að hækka iðgjald aðila að sjóðnum þar til sjóðurinn hefur náð lágmarksstærð eða þar til skuldbindingar sjóðsins skv. 3. mgr. eru að fullu greiddar. Við ákvörðun um hækkun iðgjaldsins skal taka mið af árlegri veltu aðila að sjóðnum.

    Hrökkvi heildareignir sjóðsins ekki til að standa við greiðsluskyldu hans vegna krafna ferða­manna er sjóðnum heimilt að taka lán svo að heildareignir sjóðsins nái lágmarki skv. 1. mgr.

    Ferðatryggingasjóði ber að ávaxta fé sitt þannig að sjóðurinn geti með sem bestum hætti gegnt hlutverki sínu. Sjóðnum er aðeins heimilt að ávaxta fé sitt á innlánsreikningum í viðskiptabanka eða hjá Seðlabanka Íslands eða í fram- og auðseljanlegum fjármálagerningum með ábyrgð ríkissjóðs.

 

4. gr.

    25. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Aðild og greiðsla iðgjalds.

    Seljendur pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar eru leyfisskyldir samkvæmt lögum um Ferðamálastofu og skulu vera aðilar að Ferðatryggingasjóði. Þeir skulu greiða árlegt iðgjald sem ákveðið er af stjórn sjóðsins eigi síðar en 1. júlí ár hvert. Gjalddagi iðgjaldsins er 1. september. Nýir aðilar skulu greiða stofngjald til sjóðsins. Umsókn um aðild að sjóðnum skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem stjórn Ferðatryggingasjóðs ákveður. Greidd iðgjöld teljast til eigin fjár sjóðsins og eru óendurkræf. Aðilar að sjóðnum bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans umfram lögbundin framlög til hans.

    Iðgjald skv. 1. mgr. skal ákveðið sem tiltekið hlutfall af fjárhæð tryggingar sem aðilar að Ferðatryggingasjóði skulu leggja fram skv. 25. gr. a. Heimilt er að ákveða að iðgjaldið skuli vera á bilinu 2,5–10% af fjárhæð tryggingar.

    Seljandi sem hefur gilda tryggingu í öðru EES-ríki og leggur fram staðfestingu þess efnis telst upp­fylla tryggingarskyldu sína samkvæmt lögum þessum og er undanskilinn skylduaðild að Ferða­trygginga­sjóði.

 

5. gr.

    Á eftir 25. gr. laganna kemur ný grein, 25. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tryggingarskylda.

    Aðilar að Ferðatryggingasjóði skulu leggja fram tryggingu samkvæmt ákvörðun Ferðamálastofu. Trygging skal vera í gildi á meðan leyfi til rekstrar samkvæmt lögum um Ferðamálastofu er í gildi og í allt að sex mánuði eftir að leyfi eða aðild að sjóðnum fellur niður. Við ákvörðun um fjárhæð tryggingar skal taka mið af fjárhagsstöðu seljanda og áhættu af rekstri hans.

    Trygging getur verið:

  1. Fé á reikningi í nafni Ferðamálastofu í viðurkenndum banka eða sparisjóði.
  2. Ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs eða vátrygging hjá vátryggingafélagi.
  3. Önnur trygging sem Ferðamálastofa metur fullnægjandi. Leggja skal fram yfirlýsingu um skilmála tryggingar og að tryggingarfjárhæð sé í samræmi við lög þessi.

    Ráðherra kveður í reglugerð á um skilyrði fyrir aðild að Ferðatryggingasjóði, um útreikning tryggingarfjárhæðar, stofngjald nýrra aðila að sjóðnum, bókhald og reikningsskil seljenda til að aðskilja sölu pakkaferða frá annarri starfsemi, gögn sem nauðsynleg eru til að meta fjárhæð tryggingar, um viðbótartryggingar, aðild að sjóðnum og önnur atriði sem nauðsynleg eru. Fjárhæð tryggingar skal taka mið af tryggingaþörf hvers aðila að teknu tilliti til árlegrar veltu hans.

 

6. gr.

    26. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Tryggingavernd.

    Ferðatryggingasjóður endurgreiðir ferðamanni þær greiðslur sem hann hefur innt af hendi vegna pakkaferðar eða samtengdrar ferðatilhögunar sem ekki er framkvæmd í samræmi við samning og annast heimflutning ferðamanns sé farþegaflutningur hluti pakkaferðar, komi til ógjaldfærni eða gjaldþrots seljanda eða ef leyfi hans er fellt niður skv. 27. gr. Greiðsluskylda er til staðar hvort sem endanlegur samningur um pakkaferð hefur komist á eða ekki, enda sé sýnt fram á greiðslu með fullnægjandi hætti.

    Tryggingavernd nær til allrar ferðatengdrar þjónustu sem er hluti af samningi um pakkaferð og er ekki veitt sökum ógjaldfærni eða gjaldþrots seljanda. Ferðamanni skal gert kleift að ljúka pakkaferð, sem þegar er hafin, í samræmi við upphaflegan samning eins og kostur er.

    Ferðamálastofa tekur afstöðu til krafna ferðamanna um greiðslur úr Ferðatryggingasjóði.

 

7. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna kemur ný grein, 26. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Endurkröfuréttur o.fl.

    Við greiðslu til ferðamanns úr Ferðatryggingasjóði stofnast krafa sjóðsins á hendur viðkomandi seljanda eða þrotabúi hans. Ferðatryggingasjóði er heimilt að ganga að tryggingu seljanda skv. 25. gr. a til fullnustu kröfu sem stofnast hefur á hendur seljanda eða þrotabúi hans. Komi til gjaldþrots seljanda nýtur krafa sjóðsins, sem ekki hefur fengist greidd að fullu af tryggingu seljanda, rétt­hæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, við gjaldþrota­skiptin.

    Verði seljandi ógjaldfær, komi til gjaldþrots hans eða leyfi hans er fellt niður skv. 27. gr. skal birta áskorun um kröfulýsingu í Lögbirtingablaði og jafnframt á annan áberandi hátt eins og heppi­legt þykir hverju sinni. Ferðamenn skulu lýsa kröfum sínum skriflega og skulu þær berast innan tveggja mánaða frá birtingu áskorunarinnar. Heimilt er að framlengja kröfulýsingarfrestinn um þrjá mánuði ef sérstakar ástæður mæla með því. Kröfulýsingum skulu fylgja fullnægjandi gögn til sönnunar um kröfuna.

 

8. gr.

    27. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Niðurfelling leyfis.

    Vanræki seljandi sem er aðili að sjóðnum greiðslu iðgjalds eða stofngjalds á gjalddaga, hann leggur ekki fram tryggingu skv. 25. gr. a eða veitir ekki þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta fjárhæð iðgjalds og tryggingar skv. 33. gr., skal Ferðamálastofa veita hlutaðeigandi seljanda allt að fjögurra vikna frest til að uppfylla skyldur sínar. Hafi hlutaðeigandi seljandi ekki uppfyllt skyldur sínar að þeim fresti liðnum er Ferðamálastofu heimilt að fella niður leyfi hans. Við niðurfellingu leyfis fellur jafnframt úr gildi aðild hlutaðeigandi seljanda að Ferðatryggingasjóði.

    Sé leyfi seljanda fellt niður er Ferðatryggingasjóði heimilt að ganga að tryggingu seljanda skv. 25. gr. a og ferðamenn geta krafið sjóðinn um endurgreiðslu skv. 26. gr.

    Seljandi sem sætt hefur niðurfellingu leyfis samkvæmt þessari grein getur ekki orðið aðili að Ferðatryggingasjóði aftur fyrr en hann hefur greitt þau iðgjöld sem voru í vanskilum og endurgreitt sjóðnum þá fjárhæð sem greidd hefur verið úr sjóðnum til ferðamanna ef við á.

 

9. gr.

    Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Ferðatryggingasjóður.

 

10. gr.

    Í stað orðsins „tryggingar“ í 2. mgr. 33. gr. laganna kemur: iðgjalds og trygginga.

 

11. gr.

    Á eftir 33. gr. d laganna koma þrjár nýjar greinar, 33. gr. e – 33. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

 

    a. (33. gr. e.)

Stjórnvaldssektir.

    Ferðamálastofu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á seljanda sem veitt hefur rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem liggja eiga til grundvallar mati á fjárhæð iðgjalds og tryggingar skv. 33. gr. eða reglugerðum settum á grundvelli laga þessara.

    Stjórnvaldssektir geta numið allt að 5% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverjum þeim seljanda sem aðild á að broti. Við ákvörðun um fjárhæð sektar skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brots eða brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða.

    Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostn­aði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Ferða­mála­stofu skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttar­vaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

    Stjórnvaldssektum verður beitt hvort sem brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

    Falla má frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt.

    Ákvörðun Ferðamálastofu um að leggja stjórnvaldssekt á seljanda er kæranleg til ráðherra.

 

    b. (33. gr. f.)

Refsingar.

    Sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum 33. gr. eða reglugerða settra á grundvelli laga þessara, með því að veita Ferðatryggingasjóði eða Ferðamálastofu rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem liggja eiga til grundvallar mati á fjárhæð iðgjalds og trygginga, skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar.

    Gera má lögaðila sekt samkvæmt ákvæðum II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, fyrir brot skv. 1. mgr.

    Nú er maður dæmdur sekur um brot skv. 1. mgr. og má þá í dómi í sakamáli á hendur honum jafnframt banna honum að fá leyfi samkvæmt lögum um Ferðamálastofu, sitja í stjórn félags sem hefur slíkt leyfi, starfa sem framkvæmdastjóri þess eða koma með öðrum hætti að stjórnun leyfisskylds aðila í allt að þrjú ár.

 

    c. (33. gr. g.)

Kæra til lögreglu.

    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Ferða­mála­stofu.

    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Ferðamálastofa hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun. Ef brot eru meiri háttar ber Ferðamálastofu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Ferðamálastofa á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögunum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.

    Með kæru Ferðamálastofu skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um ákvörðun Ferðamálastofu um að kæra mál til lögreglu.

    Ferðamálastofu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Ferðamálastofu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu og ákæruvaldi er jafnframt heimilt að láta Ferðamálastofu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Ferðamálastofu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.

    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Ferðamálastofu til meðferðar og ákvörðunar.

 

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum:

  1. 2. málsl. orðast svo: Sjóðurinn öðlast einnig kröfu í tryggingarfé viðkomandi skipuleggjanda eða smásala komi til gjaldþrots hans, þó skal krafa Ferðatryggingasjóðs skv. 26. gr. a ganga framar kröfu Ferðaábyrgðasjóðs.
  2. Í stað tilvísunarinnar „skv. 26. gr.“ í 3. málsl. kemur: sbr. 25. gr. a.

 

13. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

 

    a. (I.)

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 25. gr. skal gjalddagi iðgjalds í Ferðatryggingasjóð fyrir árið 2021 vera 1. desember.

 

    b. (II.)

    Ákvarðanir um tryggingarfjárhæð fyrir árið 2020 skulu halda gildi sínu þar til nýjar ákvarðanir hafa verið teknar á grundvelli laganna.

 

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

15. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um Ferðamálastofu, nr. 96/2018:

  1. 2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
        Leyfishafi sem fellur undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun skal vera aðili að Ferðatryggingasjóði skv. VII. kafla þeirra laga og hafa lagt fram tryggingu í samræmi við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
  2. Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
    1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem Ferðamálastofa ákveður.
    2. 4. mgr. orðast svo:
          Falli leyfishafi undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun skal hann vera aðili að Ferðatryggingasjóði áður en leyfi er veitt.
    3. 2. málsl. 8. mgr. fellur brott.
  3. Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
    1. Orðin „rekstrarstöðvunar eða“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
    2. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Jafnframt er heimilt að fella niður leyfi samkvæmt lögum þessum komi til ógjaldfærni leyfishafa sem fellur undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun eða ef hann uppfyllir ekki skyldur sínar gagnvart Ferðatryggingasjóði, sbr. VII. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.
    3. 3. mgr. fellur brott.
  4. Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
    1. Í stað orðanna „2. og 3. mgr.“ í 1. og 2. mgr. kemur: 2. mgr.
    2. 4. mgr. fellur brott.
  5. Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
        Kærufrestur vegna ákvörðunar um niðurfellingu leyfis skv. 14. gr. er fjórar vikur.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

    Seljendur pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar sem hafa til þess leyfi samkvæmt lögum um Ferðamálastofu við gildistöku laga þessara skulu sækja um aðild að Ferðatryggingasjóði eigi síðar en 1. ágúst 2021.

    Seljendur sem sækja um aðild að Ferðatryggingasjóði skv. 1. mgr. skulu eigi síðar en 1. sept­ember 2021 greiða sem nemur 1,5% af reiknaðri tryggingarfjárhæð hlutaðeigandi seljanda miðað við veltu af sölu pakkaferða árið 2019 í stofngjald til sjóðsins. Hafi seljandi hafið rekstur á árinu 2020 eða síðar skal reikna stofngjald með sama hætti miðað við veltu af sölu pakkaferða árið 2020. Næstu fjögur rekstrarár skulu þeir seljendur greiða 1,5% af mismun grunn­tryggingar­fjárhæðar hvers árs og hæstu grunn­tryggingar­fjárhæðar fyrri rekstrarára. Lækki grunntryggingarfjárhæð frá fyrra ári skal ekkert stofngjald innheimt það ár. Stofngjaldið er óendurkræft.

 

Gjört á Bessastöðum, 22. júní 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 7. júlí 2021