1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi kveður á um skattafslátt vegna hlutabréfakaupa á grundvelli 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Reglugerðin byggir á viðmiðunum um ríkisaðstoð að því er varðar aðgang lítilla og meðalstórra fyrirtækja að áhættufjármagni, sem fram koma í reglugerð ESB nr. 651/2014, um almenna hópundanþágu, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar ríkisaðstoðar sem samrýmast framkvæmd EES-samningsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2014. Skattafsláttur sem felst í 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, hefur verið felldur undir reglugerð ESB nr. 651/2014, sbr. yfirlýsingu sem send var til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til birtingar 1. júlí 2016.
2. gr.
Skilgreining á félagi í fjárhagsvanda.
Félag telst eiga í fjárhagsvanda ef a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:
- Um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um félag skv. 2. tölul. 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, þegar starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
- Um er að ræða félag þar sem a.m.k. einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um félag samkvæmt 2. tölul. 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, þegar starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
- Um er að ræða fyrirtæki sem sætir gjaldþrotameðferð eða hefur óskað heimildar til að leita nauðasamninga.
- Um er að ræða fyrirtæki sem hefur fengið björgunaraðstoð í skilningi leiðbeinandi reglna ESA um björgun og endurskipulagningu fyrirtækja, og hefur enn ekki endurgreitt lánið eða aflétt ábyrgðinni eða hefur fengið aðstoð til endurskipulagningar og er því enn bundið af samþykktri áætlun um endurskipulagningu.
3. gr.
Birting upplýsinga.
Ríkisskattstjóri skal birta á vefsvæði sínu upplýsingar um félag sem fellur undir 2. tölul. 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 og hlutafjáraukningu þess ef hlutafjáraukningin er yfir 60 millj. kr. Upplýsingarnar skulu vera í samræmi við III. viðauka reglugerðar ESB nr. 651/2014. Ríkisskattstjóri skal birta upplýsingarnar innan eins árs frá lokum þess frests sem félag hefur til að skila skattuppgjöri sínu á því ári sem hlutafjáraukningin átti sér stað og skulu upplýsingarnar vera tiltækar í a.m.k. 10 ár frá þeim degi sem hlutafjáraukningin átti sér stað. Ákvæði þetta á ekki við um félag skv. 2. tölul. 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, sem ekki hefur stundað sölu í viðskiptalegum tilgangi.
4. gr.
Gildistaka og lagastoð.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 7. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og öðlast þegar gildi.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 5. september 2016.
F. h. r.
Maríanna Jónasdóttir.
Steinar Örn Steinarsson.
|