Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 620/2019

Nr. 620/2019 14. júní 2019

REGLUR
um skráningu jarðfastra menningarminja vegna skipulags og framkvæmda.

1. gr.

Markmið.

Minjastofnun Íslands setur reglur um skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og skil á gögnum þar að lútandi, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sbr. 15. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Minjastofnun Íslands setur reglur um lág­marks­kröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig, sbr. 16. gr. sömu laga.

Tilgangur reglnanna er að auka samræmi við skráningu jarðfastra menningarminja um allt land. Skráning jarðfastra menningarminja veitir upplýsingar um eðli og ástand menningarminja á Íslandi auk þess sem heildarsýn um umfang slíkra minja í sveitarfélögum stuðlar að skilvirkni við gerð skipulags og útgáfu leyfa til framkvæmda.

2. gr.

Tilkynning til Minjastofnunar Íslands um skipulagsgerð.

Skipulagsyfirvöld skulu tilkynna Minjastofnun Íslands um fyrirhugaða gerð skipulagsáætlana og veru­legar breytingar á þeim, með því að senda stofnuninni lýsingu á skipulagsverkefninu til umsagn­ar. Ef stofnunin metur það svo að þörf sé á skráningu fornleifa, húsa og mannvirkja skal sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð, í samræmi við skipulagslög, standa straum af kostnaði við skrán­inguna. Ríkissjóður skal þó bera kostnað af fornleifaskráningu sem fram fer innan þjóðlendu nema um annað hafi verið samið, sbr. 16. gr. laga um menningarminjar. Við umfangsmiklar fram­kvæmdir skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af vettvangsskráningu fornleifa, sbr. 28. gr. sömu laga.

Fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráning skal unnin af fagaðilum er búa yfir sérþekkingu og reynslu á sviði skráningar og skal skráningin vera í samræmi við staðla Minjastofnunar Íslands.1

Þegar skipulagstillaga liggur fyrir skal hún send Minjastofnun Íslands til umsagnar.
____________
1 http://www.minjastofnun.is/minjar/skraning-fornleifa/skraningarstadlar/.

3. gr.

Skráning minja vegna aðalskipulags.

Fornleifar, hús og mannvirki í þéttbýli og á svæðum þar sem eru fyrirhugaðar framkvæmdir sem valda jarðraski á skipulagstímanum skulu skráðar á vettvangi áður en aðalskipulag er samþykkt. Undir þetta falla allar byggingaframkvæmdir, auk þess sem önnur framkvæmdasvæði þar sem jarðrask er fyrirsjáanlegt geta fallið hér undir. Skilgreining slíkra svæða skal gerð í samráði við minjavörð hvers landshluta. Þetta á einnig við um framkvæmdir í sjó og vötnum. Fornleifaskráningu skal vinna í samræmi við staðla Minjastofnunar Íslands um fornleifaskráningu.2

Gera skal grein fyrir húsum og mannvirkjum sem falla undir lög um menningarminjar í húsaskrá. Húsaskráningu skal vinna í samræmi við staðla Minjastofnunar Íslands um húsaskráningu.3

Upplýsingar um friðlýst hús og mannvirki eru aðgengilegar á vef Minjastofnunar Íslands.4

Upplýsingar um friðuð og umsagnarskyld hús má fá úr fasteignaskrá, en þær skulu birtar með fyrir­vara um að ekki sé alltaf um að ræða rétt byggingarár í þeirri skrá.

Í undantekningartilvikum mun stofnunin samþykkja að skráning fornleifa, húsa og mannvirkja vegna aðalskipulags verði unnin á gildistíma skipulagsáætlunar ef gert er samkomulag með tíma­settri áætlun, sem er undirrituð af fulltrúum sveitarfélags og Minjastofnunar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um menningarminjar.
____________
2 http://www.minjastofnun.is/minjar/skraning-fornleifa/skraningarstadlar/.
3 http://www.minjastofnun.is/gagnasafn-/leidbeiningarit/.
4 http://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/.

4. gr.

Skráning minja vegna deiliskipulags.

Skipulags- og byggingarfulltrúar og/eða framkvæmdaraðili skal tilkynna Minjastofnun Íslands um fyrirhugaða gerð deiliskipulags með því að senda stofnuninni lýsingu á skipulagsverkefninu til umsagnar, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Minjastofnun Íslands mun þá kanna aðstæður á skipulagssvæðinu, t.d. með úttekt á vettvangi. Minjastofnun Íslands leggur mat á hvort þörf sé að afla frekari gagna, m.a. með skráningu fornleifa, húsa og mannvirkja svo veita megi faglega umsögn.

Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags skal vinna í samræmi við staðla Minjastofnunar Íslands um fornleifaskráningu.5 Sýnilegar fornleifar skulu mældar upp og útlínur skráðra fornleifa skulu færðar inn á skipulagsuppdrátt þannig að fram komi með skýrum hætti umfang og afstaða minjanna.

Skrá skal friðuð, friðlýst og varðveisluverð hús, húsasamstæður og mannvirki á deiliskipulagsreit í samræmi við staðla Minjastofnunar Íslands um húsaskráningu,6 sbr. einnig húsakönnun skv. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.7 Á deiliskipulagsuppdrætti skal sýna staðsetningu húsa og mannvirkja sem falla undir lög um menningarminjar og umfang þeirra.
____________
5 http://www.minjastofnun.is/minjar/skraning-fornleifa/skraningarstadlar/.
6 http://www.minjastofnun.is/gagnasafn-/leidbeiningarit/.
7 Rétt er að benda á að samkvæmt þessari grein skipulagslaga ber að gera húsakönnun þar sem lagt er mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru. Skráning friðaðra, friðlýstra og varðveisluverðra húsa er hluti slíkrar húsakönnunar en hún nær einnig til annarra bygginga innan skipulagsreitsins.

5. gr.

Skráning vegna leyfa til framkvæmda.

Óheimilt er að veita byggingar- eða framkvæmdaleyfi án undanfarandi fornleifa-, húsa- og mann­virkja­skráningar. Áður en sveitarstjórn samþykkir framkvæmdaleyfi eða byggingarleyfi skal hún ganga úr skugga um að skráning fornleifa, húsa og mannvirkja hafi farið fram á vettvangi skv. lögum um menningarminjar, sbr. 4. gr. reglna þessara. Liggi ekki fyrir samþykki Minjastofnunar Íslands á skráningarskýrslu og skráningargögnum, eða vafi leikur á hvort fullnægjandi skráning liggi fyrir, skal leitað samráðs við Minjastofnun Íslands sem tekur afstöðu til þess hvort vett­vangs­könnun nægi til grundvallar leyfisveitingar eða hvort afla þurfi frekari gagna með skráningu á vettvangi.

Sveitarstjórn getur sett skilyrði í framkvæmdaleyfi um tilhögun framkvæmda m.t.t. menn­ingar­minja.

6. gr.

Skil á gögnum.

Afhenda ber Minjastofnun Íslands öll gögn er varða skráningu fornleifa, friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja, sbr. 15. gr. laga um menningarminjar. Annars vegar staðsetningargögn, þ.e punkta­skrár og uppmælingar sem hægt er að varpa inn á landfræðilegan kortagrunn og hins vegar skrán­ingar­skýrslur á rafrænu formi og í tveimur prentuðum eintökum. Skila ber staðsetn­ingar­gögnum í því formi sem fram kemur í leiðbeiningum Minjastofnunar Íslands um skil á gögnum vegna skráningar fornleifa, húsa og mannvirkja.8 Umsögn Minjastofnunar Íslands um umhverfis­mats- og skipulagsverkefni, þar sem krafist er skráningar fornleifa, húsa og mannvirkja verður afgreidd þegar öllum gögnum hefur verið skilað inn til stofnunarinnar.
____________
8 http://www.minjastofnun.is/media/leidbeiningarit/Skil_a_fornleifaskraningargognum.pdf.

Minjastofnun Íslands, 14. júní 2019.

Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður.


B deild - Útgáfud.: 1. júlí 2019