1. gr. Gildissvið. Reglugerð þessi á við um: - skattaðila sem bera hér á landi takmarkaða skattskyldu á grundvelli 7. og 8. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt,
- launagreiðendur skv. 7. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda,
- vexti, sbr. 8. gr. og söluhagnað af hlutabréfum og hlutum í félögum með takmarkaða ábyrgð, sbr. 18. gr. laga um tekjuskatt.
2. gr. Skattstofn. Hagnaður af sölu hlutabréfa hjá þeim aðilum sem skattskyldir eru skv. 7. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt telst mismunur á söluverði og kaupverði, sbr. 18 gr. laga um tekjuskatt. Þannig ákvarðaður hagnaður skal vera skattstofn. Skattstofn aðila sem skattskyldir eru skv. 8. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt eru greiddir og greiðslukræfir vextir, sbr. 8. gr. laga um tekjuskatt. Til skattskyldra vaxta hjá móttakanda teljast áfallnir vextir af hvers kyns kröfum þ.m.t. skuldabréfum, þegar slíkar kröfur ganga kaupum og sölum. Kaupverð kröfunnar myndar svo nýtt stofnverð í hendi kaupanda. Vörsluaðilum, sbr. 6. gr., er skylt að skrá og halda utan um kaupverð þeirra skuldabréfa og hlutabréfa sem þeir hafa í sinni vörslu þannig að unnt sé að reikna út og halda eftir réttri staðgreiðslu af vöxtum og söluhagnaði verðbréfa. Við ákvörðun á fjárhæð vaxta á kröfur og skuldabréf sem til falla frá og með 1. september 2009 skal miða við lokagengi kröfunnar eða skuldabréfsins eins og það stendur 31. ágúst 2009 enda liggi ekki fyrir þekkt stofnverð. 3. gr. Undanþágur frá skattskyldu. Samkvæmt 2. málsl. 8. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt, tekur skattskyldan ekki til vaxta sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands. Tilvitnað ákvæði tekur til þeirra skuldabréfa sem Seðlabanki Íslands gefur sjálfur út og er sjálfur greiðandi vaxtanna, en ekki þeirra vaxta sem Seðlabanki Íslands greiðir fyrir hönd annarra aðila. Þá tekur skattskyldan ekki til vaxta sem greiðast erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum opinberum aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu í sínu heimilisfestisríki. Aðila sem telur sig falla undir þessa undanþágu ber að sýna skattyfirvöldum fram á skattleysi í heimilisfestisríki svo að undanþága frá staðgreiðslu verði veitt. Undanþágan frá skattskyldu tekur einnig til vaxta af skuldabréfum sem eru gefin út í eigin nafni af fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem og af orkufyrirtækjum sem falla undir lög nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja. Skilyrði er að skuldabréfin séu skráð hjá verðbréfamiðstöð í aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og ekki sé um að ræða viðskipti sem falla undir ákvæði 13. gr. b – 13. gr. n laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Samkvæmt ákvæði 5. málsl. 8. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt ber að taka tillit til ákvæða tvísköttunarsamnings varðandi afdrátt staðgreiðslu af vaxtagreiðslum til aðila með skattskyldu í heimilisfestisríki sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við. Aðila sem telur sig falla undir þessa undanþágu ber að sýna fram á að hann sé heimilisfastur aðili í skilningi viðkomandi tvísköttunarsamnings svo lækkun eða undanþága frá staðgreiðslu verði veitt. Sækja má um undanþágu eða lækkun á staðgreiðslu af söluhagnaði hlutabréfa á grundvelli gildandi tvísköttunarsamnings til ríkisskattstjóra, sbr. 4. gr. 4. gr. Umsókn um lækkun/undanþágu. Umsóknum um lækkun eða undanþágu frá skattskyldu, sbr. 3. gr., skal skilað til ríkisskattstjóra á sérstöku eyðublaði þar sem fram komi staðfesting frá skattyfirvöldum í heimilisfestisríkinu þess efnis að umsækjandi sé heimilisfastur aðili í skilningi viðkomandi tvísköttunarsamnings. Með umsókn skal umsækjandi staðfesta að hann sé raunverulegur eigandi þeirra tekna sem um ræðir. Staðfesting frá erlendu skattyfirvaldi má fylgja í formi vottorðs. Ef fallist er á umsókn um lækkun eða undanþágu gefur ríkisskattstjóri út undanþáguvottorð sem skráð er í sérstaka vefþjónustu ríkisskattstjóra. Jafnframt skal skrá það staðgreiðsluhlutfall sem gilda á fyrir viðkomandi umsækjanda. Ríkisskattstjóri rekur vefþjónustu sem veitir upplýsingar um undanþágur. Sótt er um aðgang að vefþjónustunni hjá ríkisskattstjóra. Skattaðili sem ber takmarkaða skattskyldu skv. 7. eða 8. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt sem fengið hefur undanþágu eða staðfestingu á lækkun frá ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. og móttekur vaxtagreiðslu eða hefur hagnað af sölu hlutabréfa frá aðilum öðrum en fjármálafyrirtæki þarf sjálfur að koma afriti af hinni samþykktu undanþágu/lækkun til greiðandans. Heimilt er að ákvarða gildistíma undanþágu/lækkunar í allt að fimm ár frá samþykktardegi en breytingar á heimilisfesti umsækjanda eða öðrum forsendum undanþágunnar á gildistíma hennar, s.s. að eignarhald hafi að öllu leyti fallið varanlega niður, leiða til þess að undanþágan missir gildi sitt. Raunverulegur eigandi vaxta skal tilkynna til ríkisskattstjóra verði breytingar á skattskyldu og heimilisfesti hans áður en undanþáguvottorð rennur út. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda eftir því sem við getur átt vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. Ríkisskattstjóra er heimilt að afturkalla undanþágu/lækkun berist upplýsingar um breyttar forsendur samkvæmt ákvæði þessu. 5. gr. Launagreiðendur. Sá sem innir af hendi vaxtagreiðslur eða greiðslur vegna kaupa á hlutabréfum til skattaðila sem ber takmarkaða skattskyldu telst vera launagreiðandi í skilningi 1. mgr. 7. gr. laga, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Annist milligönguaðili greiðslu vaxta eða greiðslur vegna kaupa á hlutabréfum telst hann vera launagreiðandi í skilningi áðurgreindra laga, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Launagreiðanda, sbr. 1. mgr., ber skylda til að halda eftir staðgreiðslu tekjuskatts af vaxtagreiðslum og útreiknuðum söluhagnaði skattaðila sem ber takmarkaða skattskyldu í samræmi við ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, og í samræmi við undanþágu sem skráð hefur verið, sbr. 4. gr. Hafi móttakandi teknanna ekki fengið skráða undanþágu frá skattskyldu, sbr. 4. gr., ber launagreiðanda að halda eftir staðgreiðslu af vaxtagreiðslunni og/eða útreiknuðum söluhagnaði og fer um skatthlutfallið eftir ákvæðum 70. gr. laga um tekjuskatt. Greiðandi og móttakandi bera óskipta ábyrgð á vantekinni staðgreiðslu, sbr. 22. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. 6. gr. Vörsluaðilar. Þegar viðskipti með íslenska fjármálagerninga, fara fram fyrir tilstilli verðbréfamiðlara og í gegnum vörslureikning, og vextir eða greiðslur sem fela í sér innlausn söluhagnaðar greiðast í kjölfar þeirra viðskipta, telst vörsluaðili, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði vera launagreiðandi. Vörsluaðilar, sbr. 1. mgr., geta sótt um heimild til ríkisskattstjóra til að ákvarða staðgreiðsluhlutfall viðskiptavina sinna af vaxtatekjum og söluhagnaði hlutabréfa til samræmis við ákvæði gildandi tvísköttunarsamninga sem Ísland er aðili að, enda hafi þeir allar nauðsynlegar upplýsingar um skattskyldu og heimilisfesti raunverulegs eiganda (e. beneficial owner) teknanna. Vörsluaðilar skulu í samræmi við 4. mgr. 4. gr. afla nýrra staðfestinga um skattskyldu og heimilisfesti viðskiptavina sinna eftir því sem við á innan gildistíma undanþágunnar, enda sé undanþágan ekki fallin niður s.s. vegna breytingar á heimilisfesti. Ríkisskattstjóri getur afturkallað heimild, sbr. 2. mgr., komi í ljós að gögn um skattskyldu og heimilisfesti raunverulegra eigenda reynast ófullnægjandi. Vörsluaðilum er skylt að afhenda ríkisskattstjóra allar þær upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru til framkvæmdar á skatteftirliti, sbr. 94. gr. laga um tekjuskatt og 25. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. 7. gr. Endurgreiðsla. Réttilega ákvörðuð og innborguð staðgreiðsla á tekjuskatti skattaðila sem skattskyldir eru skv. 7. eða 8. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt, skal vera fullnaðargreiðsla tekjuskatts án þess að frekari álagning fari fram, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Telji skattaðili að afdregin staðgreiðsla sé röng getur hann óskað eftir því að ríkisskattstjóri endurskoði staðgreiðsluna. Beiðni um endurgreiðslu skal fylgja umsókn um undanþágu eða lækkun, sbr. 4. gr., ásamt staðfestingu á því að staðgreiðsla hafi verið dregin af vaxtagreiðslunni eða söluhagnaði hlutabréfa. 8. gr. Staðgreiðsluskil. Um skil á staðgreiðslu, greiðslutímabil og eindaga fer samkvæmt III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Greiðslu til innheimtumanns skal fylgja skilagrein á sérstöku formi sem ríkisskattstjóri ákveður. 9. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og 41. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og kemur frá þeim tíma í stað reglugerðar nr. 1082/2009 um tekjuskatt og staðgreiðslu hans af vöxtum til aðila með takmarkaða skattskyldu. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 3. júlí 2013. F. h. r. Maríanna Jónasdóttir. Ingibjörg Helga Helgadóttir. |