I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um umsækjendur um starfsleyfi og sérfræðileyfi frá embætti landlæknis sem koma frá ríkjum sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi samkvæmt lögum nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Ákvæði reglugerðar þessarar ganga framar ákvæðum um sama efni í reglugerðum um menntun, réttindi og skyldur löggiltra heilbrigðisstétta og skilyrði fyrir starfsleyfi og sérfræðileyfi sem settar eru á grundvelli laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012.
II. KAFLI
Umsóknir.
2. gr.
Frumskilyrði.
Til að umsókn sé tekin til efnislegrar meðferðar skal umsækjandi hafa lagt fram atvinnu- og dvalarleyfi eða undirritaðan ráðningarsamning. Ráðningarsamningur skal vera við heilbrigðisstofnun eða starfsstofu hér á landi þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt. Gildistaka ráðningarsamnings má hafa fyrirvara um að embætti landlæknis veiti starfsleyfið.
3. gr.
Nauðsynleg gögn við mat á umsókn.
Með umsókn um starfsleyfi og sérfræðileyfi skal leggja fram gögn um ríkisfang umsækjanda og prófskírteini í samræmi við reglugerð um menntun, réttindi og skyldur viðkomandi heilbrigðisstéttar og skilyrði fyrir starfsleyfi og sérfræðileyfi. Einnig skal leggja fram staðfestingu á innihaldi náms og námslengd. Þá skal umsækjandi leggja fram starfsleyfi og sérfræðileyfi sem hann hefur í öðru ríki. Embætti landlæknis er heimilt í undantekningartilvikum að víkja frá skilyrði um framvísun tiltekinna gagna enda sé engum vafa undirorpið að viðkomandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu leyfis hér á landi.
Umsækjandi skal leggja fram vottorð frá því ríki sem hann hefur starfsleyfi eða sérfræðileyfi í þar sem fram koma upplýsingar um að ekki hafi komið til takmörkunar á leyfi, sviptingar, afturköllunar eða annarra slíkra viðurlaga vegna alvarlegra brota í starfi eða mistaka (e. letter of good standing). Slíkt vottorð má ekki vera eldra en þriggja mánaða.
Þá skal leggja fram önnur gögn og vottorð sem embætti landlæknis telur nauðsynleg vegna útgáfu starfsleyfis eða sérfræðileyfis.
4. gr.
Gilt starfsleyfi innan EES-ríkis eða Sviss.
Ekki þarf að leggja fram staðfestingu á lengd og innihaldi náms eða afla umsagnar frá umsagnaraðila um námið, sbr. 6. gr., uppfylli umsækjandi um starfsleyfi sem læknir, hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir, lyfjafræðingur eða tannlæknir eftirtalin skilyrði:
- Umsækjandi hafi fullt og ótakmarkað starfsleyfi í sömu stétt og umsókn hans tekur til í öðru EES-ríki eða Sviss.
- Starfsleyfið hafi verið gilt í meira en þrjú ár samfleytt.
- Umsækjandi hafi starfað á grundvelli starfsleyfisins í viðkomandi EES-ríki eða Sviss að minnsta kosti undanfarin þrjú ár í fullu starfi.
5. gr.
Menntun frá ríki innan EES eða Sviss.
Byggist umsókn á námi sem umsækjandi stundaði og lauk í ríki innan EES eða Sviss skal ekki gera meiri kröfur um framlagningu gagna varðandi námið og eftir atvikum starfsþjálfun en gerðar eru til ríkisborgara EES-ríkja eða Sviss. Engu að síður skal gera sömu kröfur og fram koma í 2. og 3. gr. varðandi ríkisfang, ráðningarsamning, starfsleyfi, sérfræðileyfi og vottorð um leyfin.
Þá skal afla staðfestingar frá námslandi á því að menntun umsækjanda uppfylli lágmarkskröfur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.
6. gr.
Umsagnir.
Embætti landlæknis skal afla umsagnar um nám og eftir atvikum þjálfun umsækjanda til að kanna hvort skilyrði fyrir starfsleyfi í viðkomandi heilbrigðisstétt hér á landi séu uppfyllt. Leita skal umsagnar hjá viðeigandi menntastofnun, kennsluráði sérgreinar í læknisfræði, framhaldsmenntunarráði lækninga eða fagfélagi viðkomandi fagstéttar.
7. gr.
Forgangsröðun umsókna.
Embætti landlæknis er heimilt að forgangsraða umsóknum umsækjenda sem staddir eru á Íslandi umfram umsóknir þeirra sem ekki eru komnir hingað til lands. Þá er embætti landlæknis heimilt að forgangsraða umsóknum um starfsleyfi í heilbrigðisstétt sem mikill skortur er á fólki í hér á landi. Samráð skal haft við heilbrigðisráðuneytið um heilbrigðisstéttir sem skortur er á fólki í.
III. KAFLI
Niðurstaða umsóknar.
8. gr.
Niðurstaða umsóknar.
Embætti landlæknis skal upplýsa umsækjanda um niðurstöðu umsóknar eins fljótt og auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok gagnaöflunar.
9. gr.
Útgáfa leyfis.
Áður en útgáfa starfsleyfis fer fram skal umsækjandi vera kominn til Íslands og hafa hlotið atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi.
10. gr.
Synjun og kæruheimild.
Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði fyrir starfsleyfi eða sérfræðileyfi skal umsókn synjað. Synjun um veitingu leyfis er kæranleg til ráðherra, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.
11. gr.
Uppbótarráðstafanir.
Hafi að mati embættis landlæknis ekki verið sýnt fram á að nám og eftir atvikum þjálfun umsækjanda uppfylli skilyrði leyfisveitingar í kjölfar umsagnar, og að teknu tilliti til starfsreynslu ef við á, er embætti landlæknis heimilt að leggja fyrir umsækjanda að starfa undir handleiðslu sérfræðings á aðlögunartíma, sbr. 13. gr. Sé menntun og starfsreynsla umsækjanda talin verulega frábrugðin því sem krafist er hér á landi er embætti landlæknis heimilt að gera kröfu um að umsækjandi standist hæfnispróf skv. 12. gr., sem sýni fram á hvort umsækjandi búi yfir þeirri faglegu þekkingu og hæfni sem starfs- eða sérfræðileyfið krefst.
12. gr.
Hæfnispróf.
Með hæfnisprófi skal leggja mat á faglega þekkingu og hæfni umsækjanda og eftir atvikum klíníska þekkingu. Hæfnispróf er skipulagt af viðeigandi menntastofnun í samráði við embætti landlæknis sem er jafnframt heimilt að bjóða umsækjanda að þreyta hæfnispróf við menntastofnun í öðru landi.
Umsækjandi skal standast hæfnispróf innan 13 mánaða frá ákvörðun embættis landlæknis þar um.
13. gr.
Aðlögunartími.
Með aðlögunartíma er átt við starf undir handleiðslu sérfræðings sem hefur eftirlit með störfum umsækjanda til að unnt sé að leggja mat á það hvort umsækjandi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi heilbrigðisstéttar. Á aðlögunartíma er einnig unnt að veita umsækjanda tækifæri til að afla sér þeirrar þekkingar og hæfni sem á skortir til að uppfylla skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis hér á landi.
Við lok aðlögunartíma leggur embætti landlæknis mat á hvort umsækjandi hafi sambærilega faglega þekkingu og hæfi og heilbrigðisstarfsmenn viðkomandi heilbrigðisstéttar hér á landi.
Aðlögunartími skal að jafnaði hefjast innan 12 mánaða frá ákvörðun embættis landlæknis þess efnis. Umsækjandi skal sjálfur útvega sér starf og handleiðara.
Heimilt er að veita umsækjanda tímabundið starfsleyfi til þess að ljúka aðlögunartíma, sbr. 11. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn. Embætti landlæknis er eftir atvikum heimilt að framlengja tímabundið starfsleyfi sé ljóst að markmiði aðlögunartímans hafi ekki verið náð að honum loknum. Sé ljóst að mati handleiðara að umsækjandi komi ekki til með að uppfylla kröfur sem gerðar eru til viðkomandi heilbrigðisstéttar, svo sem um faglega kunnáttu, samskiptahæfni og aðrar kröfur er embætti landlæknis heimilt að afturkalla tímabundið starfsleyfi og synja umsókn um starfsleyfi.
Embætti landlæknis setur nánari reglur um aðlögunartíma og mat á honum svo og um stöðu umsækjanda sem vinnur undir handleiðslu hér á landi.
IV. KAFLI
Sérstök meðferð vegna brýnnar nauðsynjar.
14. gr.
Tímabundin leyfi vegna brýnnar nauðsynjar fyrir sérfræðiþekkingu.
Heilbrigðisstofnun getur sótt um tímabundið starfsleyfi, og á grundvelli þess sérfræðileyfi, fyrir hönd einstaklings sem býr yfir sérfræðiþekkingu sem stofnunin hefur sýnt fram á að brýnn skortur sé á innan hennar. Skilyrði er að umsóknin taki til viðkomandi sérfræðiþekkingar og ekki hafi tekist að ráða sérfræðing með leyfi hér á landi til að veita þjónustuna.
Tímabundið leyfi skv. 1. mgr. má veita til allt að sex mánaða og skal vera bundið við tiltekið starf á heilbrigðisstofnuninni. Gildi sérfræðileyfis er háð gildistíma starfsleyfis. Séu líkur á að þörf verði fyrir þjónustu sérfræðings umfram gildistíma tímabundins leyfis skal einnig hefja hefðbundið umsóknarferli án tafar, um starfsleyfi og eftir atvikum sérfræðileyfi, sem taki við af tímabundnu leyfi.
Sömu skilyrði gilda um framlagningu gagna og kveðið er á um í 2. og 3. gr., en undanþágu má veita frá skilyrði um að leggja fram prófskírteini ásamt upplýsingum um innihald náms og námslengd enda ábyrgist heilbrigðisstofnun sem sækir um leyfi skv. 1. mgr. að viðkomandi sérfræðingur búi yfir faglegri sérfræðiþekkingu og viðunandi tungumálakunnáttu til að geta stundað sérfræðistörf hér á landi, í samræmi við markmið laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.
Umsókn um undanþágu samkvæmt þessu ákvæði skal undirrituð af framkvæmdastjóra þess sviðs sem sérfræðingur mun starfa á innan heilbrigðisstofnunarinnar og þeim heilbrigðisstarfsmanni sem mun bera faglega ábyrgð á störfum sérfræðings, sbr. 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Umsókninni skal fylgja yfirlýsing umsækjanda um að viðkomandi sérfræðingur sem sótt er um leyfi fyrir, búi yfir þeirri sérfræðiþekkingu sem brýn nauðsyn er fyrir, sbr. 1. mgr.
V. KAFLI
Tungumálakröfur.
15. gr.
Tungumálakunnátta.
Íslenskukunnátta er ekki skilyrði fyrir starfsleyfi eða sérfræðileyfi heilbrigðisstétta hér á landi en vinnuveitandi heilbrigðisstarfsmanns skal ganga úr skugga um að heilbrigðisstarfsmaður búi yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu sem og þekkingu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem talin er nauðsynleg vegna starfsins, einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga og ef viðkomandi þarf að færa sjúkraskrá.
VI. KAFLI
Gjaldtaka og gildistaka.
16. gr.
Gjaldtaka.
Um gjaldtöku vegna útgáfu starfsleyfa fer skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
Um gjaldtöku fer samkvæmt 31. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn og vegna próftöku skv. 5. mgr. 5. gr. sömu laga, sbr. reglugerð nr. 951/2012 um gjaldtöku vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi heilbrigðisstarfsmanna og gjaldskrá nr. 257/2014 fyrir mat umsóknar um heimild heilbrigðisstarfsmanns til að gegna starfi hér á landi.
17. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5., 8., 30. og 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, öðlast þegar gildi.
Heilbrigðisráðuneytinu, 15. maí 2023.
Willum Þór Þórsson.
Ásta Valdimarsdóttir.
|