Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 40/2022

Nr. 40/2022 22. júní 2022

LÖG
um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993 (aldur hjónaefna, könnunarmenn o.fl.).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    2. málsl. 7. gr. laganna fellur brott.

 

2. gr.

    Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 2. málsl. 8. gr. laganna kemur: sýslumann.

 

3. gr.

    Í stað orðsins „Ráðuneytið“ í 3. málsl. 12. gr. laganna kemur: Sýslumaður.

 

4. gr.

    Í stað 2.–3. mgr. 13. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Hjónaefni skulu lýsa því yfir, með skriflegri yfirlýsingu eða á rafrænu eyðublaði undirrituðu með fullgildum rafrænum skilríkjum, að viðlögðum drengskap, að þau viti ekki um tálma á fyrirhuguðum hjúskap sínum. Könnunarmaður krefur hjónaefni til tryggingar um vottorð tveggja áreiðanlegra svaramanna er báðir ábyrgjast að enginn lagatálmi sé á fyrirhuguðum hjúskap. Sýslumaður getur leyft ef sérstaklega stendur á að vikið sé frá þessu, þar á meðal að aðeins einn svaramaður undirriti vottorð.

    Ráðherra setur reglugerð um könnun á hjónavígsluskilyrðum, þar á meðal um þau skilríki sem krefja skal hjónaefni um við gæslu þessara skilyrða, svo sem gögn til staðfestingar á fæðingu, hjúskaparstöðu og um lok fyrri hjúskapar frá þar til bæru yfirvaldi. Könnunarmanni er heimilt að afla framangreindra upplýsinga eða gagna hjá Þjóðskrá Íslands, sýslumönnum og dómstólum með rafrænum hætti. Framangreindum aðilum ber að veita könnunarmanni rafrænan aðgang að umbeðnum upplýsingum eða gögnum búi þeir yfir þeim.

    Afli könnunarmaður nauðsynlegra upplýsinga eða gagna við könnun hjónavígsluskilyrða skv. 2. málsl. 3. mgr. ber honum að upplýsa hjónaefni um fyrirhugaða upplýsingaöflun í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

5. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:

    Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annast könnun á hjónavígsluskilyrðum. Fer könnunin fram í lögsagnarumdæmi þar sem annað hjónaefna á lögheimili. Nú á hvorugt lögheimili hér á landi og fer könnun þá fram í umdæmi þar sem annað þeirra dvelst. Heimilt er að taka gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs.

 

6. gr.

    Á eftir 25. gr. laganna kemur ný grein, 25. gr. a, svohljóðandi:

    Hjón sem gengið hafa í hjúskap erlendis eiga rétt á að fá hjúskapinn viðurkenndan hér á landi ef hjúskapurinn uppfyllir hjónavígsluskilyrði og reglur um stofnun hjúskapar í vígslulandinu.

    Hjúskapur sem stofnað er til erlendis verður þó ekki viðurkenndur hér á landi ef annað hjóna eða bæði voru yngri en 18 ára þegar vígsla fór fram. Þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem var yngri en 18 ára krefjast þess er þó heimilt að viðurkenna hjúskap hér á landi ef viðkomandi hafði náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn er viðurkenndur í því landi þar sem hjónavígslan fór fram.

    Hjúskapur sem að öðru leyti en getið er um í 2. mgr. brýtur í bága við grunnreglur íslenskrar réttarskipunar eða allsherjarreglu verður ekki viðurkenndur hér á landi.

    Hjón sem óska viðurkenningar og skráningar á hjónavígslu sem hefur farið fram erlendis skulu beina erindi sínu til Þjóðskrár Íslands. Ef vafi leikur á því hvort uppfyllt eru skilyrði fyrir skráningu hjónavígslunnar skv. 2. og 3. mgr. skal Þjóðskrá Íslands beina málinu til sýslumanns sem úrskurðar um skráningu hjónavígslu. Bera má synjun sýslumanns undir ráðuneytið. Sýslumaður tilkynnir Þjóðskrá Íslands um niðurstöðu málsins.

 

7. gr.

    Á eftir 2. mgr. 114. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

    Mál til hjónaskilnaðar má höfða hér á landi ef hjónavígslan hefur farið fram hér og leitt er í ljós að stefnandi getur ekki höfðað mál í landinu þar sem hann hefur ríkisfang eða er búsettur.

 

8. gr.

    Við 1. mgr. 123. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Ef hjónaskilnaðar er krafist, enda hafi hjónavígsla farið fram hér á landi og leitt er í ljós að sá sem óskar hjónaskilnaðar getur ekki óskað eftir hjónaskilnaði í landinu þar sem hann á ríkisfang eða er búsettur.

 

9. gr.

    Við 2. mgr. 133. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að könnun á hjónavígsluskilyrðum skv. 1. mgr. 14. gr. og viðurkenning á hjónavígslu skv. 25. gr. a verði á hendi eins sýslumanns.

 

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu 4. og 5. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. september 2022.

 

11. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Barnalög, nr. 76/2003: 2. mgr. 61. gr. laganna fellur brott.
  2. Lögræðislög, nr. 71/1997: 2. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.
  3. Lög um útlendinga, nr. 80/2016: Á eftir 4. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi verið stofnað til hjúskapar erlendis áður en aðili náði 18 ára aldri er þó heimilt að líta til þess hvort hjúskapur hafi verið viðurkenndur með úrskurði sýslumanns eða ráðuneytis skv. 25. gr. a hjúskaparlaga, nr. 31/1993, og verið skráður í þjóðskrá.

 

Gjört í Reykjavík, 22. júní 2022.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Jón Gunnarsson.


A deild - Útgáfud.: 6. júlí 2022