Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 101/2023

Nr. 101/2023 27. desember 2023

LÖG
um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

Almennt.

    Greiða skal til ríkissjóðs kílómetragjald af akstri bifreiða eins og nánar er ákveðið í lögum þessum.

 

2. gr.

Gjaldskyldar bifreiðar.

    Með gjaldskyldri bifreið samkvæmt lögum þessum er átt við bifreið sem fellur undir eitt af eftir­farandi skilyrðum:

  1. Bifreið sem er alfarið knúin rafmagni eða vetni, er skráð sem fólks- eða sendibifreið í ökutækjaskrá og fellur undir 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald.
  2. Tengiltvinnbifreið sem skráð er sem fólks- eða sendibifreið í ökutækjaskrá og fellur undir 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald.
  3. Tengiltvinnbifreið eða bifreið sem alfarið er knúin rafmagni eða vetni, sem skráð er sem fólks- eða sendibifreið erlendis eða keypt ný og óskráð erlendis og er nýtt tímabundið hér á landi að hámarki í tólf mánuði.

 

3. gr.

Gjaldskyldir aðilar.

    Skráður eigandi gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. er gjaldskyldur aðili samkvæmt lögum þessum. Skráður eigandi skal greiða kílómetragjald af bifreiðinni á eignar­halds­tíma sínum.

    Ef annar aðili en skráður eigandi hefur umráðarétt yfir gjaldskyldri bifreið sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., samkvæmt samningi við handhafa leyfis til að stunda eignaleigu eða fjár­mögn­unarleigu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og er skráður umráðamaður í ökutækja­skrá, hvílir gjaldskyldan, þrátt fyrir 1. mgr., á umráðamanni.

    Skráður eigandi og umráðamaður, sbr. 2. mgr., bera óskipta ábyrgð á greiðslu kílómetragjalds af gjaldskyldum bifreiðum og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvorum aðila fyrir sig.

    Skylda til greiðslu kílómetragjalds af bifreið sem skráð er erlendis hvílir á innflytjanda hennar.

 

4. gr.

Undanþága frá gjaldskyldu.

    Eftirfarandi bifreiðar skulu undanþegnar kílómetragjaldi:

  1. Bifreiðar sem ætlaðar eru fyrir starfsemi björgunarsveita, sem og viðurkenndra heildar­samtaka þeirra, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að viðkom­andi tæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita. Með björgunarsveit er átt við félög sem falla undir lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.
  2. Bifreiðar í eigu erlendra sendiráða eða erlendra sendiráðsmanna erlendra ríkja vegna notkunar hér á landi, enda séu bifreiðarnar merktar með viðeigandi skráningarmerki og auðkenndar í ökutækjaskrá.
  3. Bifreiðar í eigu aðila sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, á grundvelli alþjóðasamninga eða tvíhliða samninga eða sérstakra laga þar um.

 

5. gr.

Undanþága frá greiðslu.

    Ekki ber að greiða kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. í eftirfarandi tilvikum:

  1. Þegar bifreiðar hafa verið fluttar tímabundið úr landi. Skilyrði fyrir undanþágunni er að eigandi eða umráðamaður skrái stöðu akstursmælis bifreiðar, sbr. 8. gr., við brottför frá landinu og við komu til landsins ásamt því að tilgreina að um tímabundinn flutning úr landi sé að ræða. Einnig ber að framvísa staðfestingu til sönnunar á tímabundnum útflutningi á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
  2. Þegar skráningarmerki eru í varðveislu skráningaraðila. Skilyrði fyrir undanþágunni er að eigandi eða umráðamaður skrái stöðu akstursmælis bifreiðar við innlögn skráningarmerkis.

    Við skráningu á stöðu akstursmælis skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. skal ríkisskattstjóri leggja kílómetragjald á gjaldskyldan aðila vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á sem og yfirstandandi gjaldtímabils frá upphafi þess fram að skráningu á stöðu akstursmælis.

 

6. gr.

Gjaldtímabil og fjárhæð.

    Gjaldtímabil kílómetragjalds bifreiða sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. er hver almanaks­mánuður frá upphafi árs 2024.

    Fjárhæð gjalds á hvern kílómetra skal vera eftirfarandi:

  1. Fjárhæð gjalds vegna aksturs bifreiðar sem fellur undir 1. tölul. 2. gr. skal nema 6 kr. á hvern kílómetra, sbr. 9. og 10. gr.
  2. Fjárhæð gjalds vegna aksturs bifreiðar sem fellur undir 2. tölul. 2. gr. skal nema 2 kr. á hvern kílómetra, sbr. 9. og 10. gr.

 

7. gr.

Bifreiðar skráðar erlendis.

    Innflytjandi bifreiðar, sbr. 4. mgr. 3. gr., sem flytur inn gjaldskylda bifreið skv. 3. tölul. 2. gr. hingað til lands samkvæmt heimild tollyfirvalda skal greiða sérstakt daggjald vegna tímabundinnar notkunar hér á landi. Gjaldið skal nema 600 kr. á dag vegna bifreiðar sem alfarið er knúin rafmagni eða vetni og 200 kr. vegna tengiltvinnbifreiðar.

    Farmflytjandi annast innheimtu og skil á sérstöku daggjaldi skv. 1. mgr. og skal það renna í ríkissjóð. Sérstakt daggjald skal innheimt fyrir eða við komu bifreiðar til landsins miðað við áætlaða tímalengd notkunar hennar hér á landi. Skila ber innheimtu daggjaldi í síðasta lagi 30 dögum eftir komu fars til landsins. Reynist notkunartíminn annar skal sú fjárhæð sérstaks daggjalds sem á milli ber innheimt eða eftir atvikum endurgreidd við brottför bifreiðarinnar frá landinu eða við skráningu hennar hér á landi.

    Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er innflytjanda gjaldskyldrar bifreiðar skv. 3. tölul. 2. gr. heimilt að óska eftir greiðslu kílómetragjalds út frá skráningu á stöðu akstursmælis bifreiðar samkvæmt álestri og fjárhæðum skv. 2. mgr. 6. gr. Innflytjandi bifreiðar skal óska sérstaklega eftir slíkri tilhögun á greiðslu við farmflytjanda fyrir komu til landsins. Farmflytjandi skal upplýsa ríkisskattstjóra um slíka tilhögun innflytjanda. Geri innflytjandi ríkisskattstjóra ekki grein fyrir stöðu akstursmælis við komu til landsins ber honum að greiða daggjald skv. 1. mgr. og skal það innheimt fyrir brottför frá landinu.

    Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd og tilhögun innheimtu og skráningu þeirra bifreiða sem falla undir þessa grein.

 

8. gr.

Skráning á stöðu akstursmælis.

    Samgöngustofa hefur umsjón með skráningu á stöðu akstursmælis samkvæmt lögum þessum.

    Skráning á stöðu akstursmælis gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal fara fram rafrænt að lágmarki einu sinni á hverju almanaksári. Skráningin skal framkvæmd af gjaldskyldum aðila eða hjá faggiltri skoðunarstofu við sérstakan álestur á stöðu akstursmælis eða reglubundna skoðun bifreiðar. Slík skráning skal vera grundvöllur að álagningu kílómetragjalds skv. 10. gr.

    Gjaldskyldum aðila skal vera heimilt að skrá nýja stöðu á akstursmæli bifreiðar þegar 30 dagar eru liðnir frá síðustu skráningu hans. Breyting skal þó heimiluð innan sama dags og skráning fór fram. Skráning á stöðu akstursmælis á síðasta degi mánaðar tekur þó ekki gildi fyrr en næsta dag.

    Hafi skráning á stöðu akstursmælis ekki farið fram á almanaksárinu skal gjaldskyldur aðili láta skrá stöðuna hjá faggiltri skoðunarstofu.

    Gjaldskyldir aðilar og faggiltar skoðunarstofur skulu senda Samgöngustofu rafrænt upplýsingar um stöðu akstursmælis á álestrardegi á því formi sem Samgöngustofa ákveður.

    Þrátt fyrir 2.–5. mgr. skulu aðilar sem hafa með höndum sölu bifreiða, ábyrgðar- og þjón­ustu­skoðanir eða viðgerðir í atvinnuskyni á bifreiðum sem falla undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. lesa af og senda Samgöngustofu rafrænt upplýsingar um stöðu akstursmælis bifreiðar á því formi sem Sam­göngu­stofa ákveður. Þá skulu vátryggingafélög senda Sam­göngu­stofu upplýsingar um stöðu aksturs­mælis með sama hætti þegar um er að ræða tjón á þeim bifreiðum sem falla undir málsg­reinina.

    Samgöngustofu er heimilt að leiðrétta augljósar skráningarskekkjur á stöðu akstursmælis að höfðu samráði við gjaldskyldan aðila eða samkvæmt beiðni hans þar um, hvort heldur skráning var gerð af gjaldskyldum aðila eða faggiltri skoðunarstöð.

 

9. gr.

Áætlun á meðalakstri og fyrirframgreiðsla.

    Ríkisskattstjóri skal gera áætlun um meðalakstur bifreiðar á gjaldtímabili og birta hana gjald­skyldum aðila skv. 1. og 2. mgr. 3. gr. í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Áætlun skal taka mið af tveimur síðustu skráningum á stöðu akstursmælis bifreiðar skv. 8. gr., sbr. þó 4. mgr. Áætlun skal reiknuð fyrir hvern og einn almanaksmánuð og taka mið af meðalakstri bifreiðar á dag.

    Liggi ekki fyrir áætlaður akstur kaupanda eða nýs umráðamanns á ársgrundvelli eða ef eingöngu ein þekkt skráð staða á akstursmæli liggur fyrir, skal ríkisskattstjóri áætla akstur fyrir næsta tólf mánaða tímabil frá kaupum eða skráningu á nýjum umráðamanni gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. miðað við eftirfarandi:

  1. 14.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum einstaklings.
  2. 40.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum lögaðila.
  3. 50.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum ökutækjaleigu sem hefur starfsleyfi skv. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.
  4. 100.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum aðila sem hefur rekstrarleyfi til leigu­bifreiðaaksturs skv. 6. gr. laga nr. 120/2022, um leigubifreiðaakstur, og skráningar­númer leigubifreiðar heyrir undir rekstrarleyfi.

    Gjaldskyldum aðila er heimilt að skrá nýja áætlun í stað áætlunar ríkisskattstjóra skv. 1. eða 2. mgr. Áætlun ríkisskattstjóra skv. 1. eða 2. mgr. að teknu tilliti til breytinga gjaldskylds aðila, þ.e. breytt áætlun, skal vera grundvöllur fyrirframgreiðslu kílómetragjalds.

    Ef staða á akstursmæli gjaldskyldrar bifreiðar er ekki skráð innan tímamarka 2. mgr. 8. gr. skal áætlun ríkisskattstjóra taka mið af fyrirliggjandi upplýsingum um akstur hlutaðeigandi bifreiðar. Áætlun á akstri á tólf mánaða tímabili skal þó að lágmarki vera sem hér segir:

  1. 20.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum einstaklings.
  2. 70.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum lögaðila.
  3. 80.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum ökutækjaleigu sem hefur starfsleyfi skv. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.
  4. 150.000 km akstur ef bifreið er í eigu eða umráðum aðila sem hefur rekstrarleyfi til leigu­bifreiðaaksturs skv. 6. gr. laga um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022, og skráningar­númer leigubifreiðar heyrir undir rekstrarleyfi.

    Gjaldskyldum aðila skal gert að greiða fyrir fram upp í álagningu kílómetragjalds skv. 10. gr., miðað við áætlun um akstur.

    Fyrirframgreiðsla kílómetragjalds skal innheimt mánaðarlega fram að álagningu þess.

    Gjalddagi fyrirframgreiðslu kílómetragjalds er fyrsti dagur næsta mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir. Ef gjaldskyldur aðili hefur ekki greitt á eindaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.

 

10. gr.

Álagning og innheimta.

    Ríkisskattstjóri annast álagningu kílómetragjalds og innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu gjaldsins.

    Við skráningu gjaldskylds aðila eða faggiltrar skoðunarstofu á stöðu akstursmælis skal ríkis­skattstjóri leggja kílómetragjald á gjaldskyldan aðila vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem gjald hefur ekki verið lagt á svo sem nánar er kveðið á um í grein þessari.

    Stofn kílómetragjalds á hverju gjaldtímabili skal nema meðalakstri á dag margfaldað með fjölda daga á tímabilinu. Á gjaldtímabilum þar sem skráning á stöðu akstursmælis átti sér stað miðast stofninn við meðalakstur og fjölda daga fyrir og eftir skráningardag. Skráningardagur tilheyrir fyrra tímabilinu. Meðalakstur er reiknaður út frá akstri bifreiðar milli tveggja síðustu þekktra skráninga á akstursmæli bifreiðar skv. 8. gr.

    Liggi skráning á stöðu akstursmælis bifreiðar ekki fyrir 30 dögum eftir lok tímamarka 2. mgr. 8. gr. skal ríkisskattstjóri áætla meðalakstur bifreiðar vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á. Áætlunin skal vera svo rífleg að eigi sé hætt við að meðalakstur sé áætlaður minni en hann var í raun og leggja kílómetragjald á gjaldskyldan aðila í samræmi við þá áætlun.

    Gjalddagi álagningar er fyrsti dagur annars mánaðar eftir lok síðasta gjaldtímabils álagningar og eindagi 14 dögum síðar, sbr. 2. málsl. 7. mgr. 9. gr. Við eigendaskipti eða breytta skráningu umráðamanns skv. 13. gr., tímabundinn flutning úr landi skv. 1. tölul. 1. mgr. 5. gr., þegar skráningarmerki eru sett í varðveislu skráningaraðila skv. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. og afskráningu bifreiðar skv. 14. gr. er, þrátt fyrir 1. málsl., gjalddagi álagningar fyrsti dagur næsta mánaðar og eindagi 14 dögum síðar . Ef gjaldskyldur aðili hefur ekki greitt á eindaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga. Ef kílómetragjald er ekki greitt á eindaga er lögreglu heimilt, eftir kröfu innheimtumanns, að taka af bifreiðinni skráningarmerki til geymslu. Lögregla skal ekki afhenda þau aftur fyrr en færðar hafa verið sönnur á greiðslu kílómetragjalds.

     Við mismun, sem í ljós kemur á álögðu kílómetragjaldi og fyrirframgreiðslu þess, sem stafar af of lágri fyrirframgreiðslu, skal bæta 2,5% álagi á ársgrundvelli.

    Frá álagningu kílómetragjalds skal draga fyrirframgreiðslu þess. Að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum gilda, eftir því sem við á, ákvæði laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, þ.m.t. ákvæði laganna um skuldajöfnun.

 

11. gr.

Boðun í álestur hjá faggiltri skoðunarstofu.

    Ríkisskattstjóri skal boða gjaldskyldan aðila bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. í álestur á stöðu akstursmælis bifreiðar hjá faggiltri skoðunarstofu í eftirfarandi tilvikum:

  1. Ef skráning á stöðu akstursmælis hefur ekki farið fram á almanaksárinu, sbr. 2. mgr. 8. gr.
  2. Ef aðrar ástæður þykja vera fyrir hendi sem kalla á að bifreið fari í álestur hjá faggiltri skoðunarstofu samkvæmt mati ríkisskattstjóra.

 

12. gr.

Annars konar skil á upplýsingum.

    Gjaldskyldum aðila eða umboðsmanni hans er, þrátt fyrir ákvæði þessara laga, ávallt heimilt að skila inn upplýsingum og gögnum samkvæmt lögum þessum skriflega á því formi sem ríkis­skattstjóri ákveður.

    Gjaldskyldum aðila eða umboðsmanni hans skal jafnframt heimilt að óska eftir skráningu á stöðu akstursmælis bifreiðar hjá faggiltri skoðunarstofu í stað rafrænnar skráningar hans á stöðu aksturs­mælis.

 

13. gr.

Eigendaskipti og breytt skráning umráðamanns.

    Við eigendaskipti gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal skrá stöðu akstursmælis og áætlaðan akstur kaupanda á ársgrundvelli á tilkynningu um eigendaskipti bifreiðar samhliða skráningu eigendaskipta í ökutækjaskrá, á því formi sem Samgöngustofa ákveður. Sama á við um breytta skráningu á umráðamanni. Kaupandi eða nýr umráðamaður skal samþykkja skráða stöðu akstursmælis á tilkynningu um eigendaskipti að bifreið.

    Við breytta skráningu skv. 1. mgr. skal ríkisskattstjóri leggja kílómetragjald á seljanda eða fyrri umráðamann vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á og yfirstandandi gjaldtímabils fram að skráningu sem og yfirstandandi gjaldtímabils frá upphafi þess fram að skráningu. Gjaldskyldan færist yfir á kaupanda eða nýjan umráðamann frá dagsetningu skráningar í ökutækjaskrá.

    Hafi eigendaskipti eða breyting á umráðamanni orðið á gjaldskyldri bifreið án þess að þau hafi verið tilkynnt til skráningar skal álagning kílómetragjalds taka mið af stöðu á akstursmæli bifreiðar við eigendaskipti eða við breytingu á umráðamanni. Ef ekki liggur fyrir hver staðan var á akstursmæli við eigendaskipti eða við breytingu á umráðamanni skal reikna meðalakstur á dag miðað við síðustu þekktu stöðu akstursmælis fyrir eigendaskipti eða breytingu á umráðamanni og fyrsta álestur eftir eigendaskipti eða breytingu á umráðamanni og leggja á aðila í hlutfalli við eignarhalds- eða umráðatíma.

    Óheimilt er að skrá eigendaskipti eða breytingu á umráðamanni bifreiðar nema gjaldfallið kílómetragjald, þ.m.t. fyrirframgreiðsla þess, og eftir atvikum vanskráningargjald hafi áður verið greitt.

 

14. gr.

Afskráning bifreiða.

    Við afskráningu gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal gjaldskyldur aðili skrá stöðu akstursmælis á tilkynningu um afskráningu til Samgöngustofu á því formi sem Samgöngustofa ákveður. Í kjölfarið leggur ríkisskattstjóri kílómetragjald á gjaldskyldan aðila vegna þeirra liðnu gjaldtímabila sem ekki hefur verið lagt á og yfirstandandi gjaldtímabils fram að afskráningu sem og yfirstandandi gjaldtímabils frá upphafi þess fram að afskráningu. Þrátt fyrir 1. málsl. ber ekki að skrá stöðu akstursmælis við afskráningu gjaldskyldrar bifreiðar sem undanþegin hefur verið greiðslu skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 5. gr.

    Ef ekki er hægt að lesa af akstursmæli eða annars konar ómöguleiki er til staðar við aflestur af akstursmæli, til að mynda ef bifreið er týnd eða ónýt, skal við útreikning á álagningu kíló­metra­gjalds taka mið af fyrirliggjandi upplýsingum um akstur gjaldskylds aðila á hlutaðeigandi bifreið. Ef engar upplýsingar um akstur liggja fyrir skal miða álagningu við akstur skv. 2. mgr. 9. gr.

 

15. gr.

Virkni akstursmælis o.fl.

    Virkni og rétt talning kílómetra samkvæmt akstursmæli er á ábyrgð gjaldskylds aðila.

    Komi í ljós að talning akstursmælis er röng eða engin skal gjaldskyldur aðili tafarlaust tilkynna um bilun mælis til Samgöngustofu og grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja rétta talningu kílómetra.

    Ef taka þarf akstursmæli til viðgerðar skal lesið af honum áður en viðgerð hefst eða annar aksturs­mælir settur í hans stað og tilkynnt um stöðu hans til Samgöngustofu. Jafnframt skal tilkynnt þegar í stað til Samgöngustofu um lok viðgerðar eða, eftir atvikum, skipti á akstursmæli og skal þá jafnframt skrá stöðu akstursmælis.

    Komi í ljós að talning akstursmælis er röng eða engin skal ákvörðun um fyrirframgreiðslu og álagningu, þ.m.t. álagningu kílómetragjalds vegna óuppgerðra gjaldtímabila, taka mið af fyrri skráningu á akstri bifreiðar gjaldskylds aðila. Liggi upplýsingar um akstur ekki fyrir skal ákvarða akstur skv. 2. mgr. 9. gr.

 

16. gr.

Aðalskoðun.

    Við aðalskoðun gjaldskyldrar bifreiðar skal gjaldskyldur aðili færa sönnur á að greitt hafi verið af henni gjaldfallið kílómetragjald. Gjaldskyldum aðila er þó ekki skylt að færa sönnur á að hafa greitt gjaldfallið kílómetragjald fyrr en eftir eindaga. Að öðrum kosti skal faggilt skoðunarstofa neita um skoðun á bifreiðinni.

 

17. gr.

Upplýsingaskylda.

    Öllum aðilum sem fjallað er um í lögum þessum er skylt að láta ríkisskattstjóra og eftir atvikum Samgöngustofu í té ókeypis og á því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem óskað er eftir og unnt er að láta þeim í té.

 

18. gr.

Eftirlit og endurákvörðun.

    Komi í ljós verulegir annmarkar á forsendum álagningar kílómetragjalds eða telji ríkisskattstjóri frekari skýringa þörf á einhverju atriði varðandi skráningu gjaldskylds aðila á akstursstöðu gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal ríkisskattstjóri skriflega skora á hann að láta í té skýringar og gögn um aksturinn. Fái ríkisskattstjóri innan tiltekins tíma fullnægjandi skýringar og gögn ákvarðar hann eða endurákvarðar gjald að þeim skýringum og gögnum virtum, að öðrum kosti skal ríkisskattstjóri ákvarða eða endurákvarða gjald skv. 4. mgr. 9. gr. nema fyrirliggjandi gögn bendi til þess að akstur gjaldskylds aðila hafi verið meiri.

    Áður en ríkisskattstjóri hrindir endurákvörðun í framkvæmd skal hann skriflega gera gjald­skyldum aðila viðvart um fyrirhugaða endurákvörðun og forsendur hennar. Skal gjaldskyldum aðila veittur a.m.k. 15 daga frestur, frá birtingu tilkynningar um fyrirhugaða endurákvörðun, til að tjá sig skriflega um efni máls og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður um endurákvörðun er kveðinn upp. Ríkisskattstjóri hefur jafnframt heimild, að framangreindri málsmeðferð virtri, til endur­ákvörðunar kílómetragjalds komi í ljós að aðrar forsendur ákvörðunar hafi verið rangar. Ríkis­skattstjóra er heimilt að falla frá endurákvörðun nemi hún lægri fjárhæð en 10.000 kr.

    Ríkisskattstjóri skal að jafnaði innan þriggja mánaða frá lokum þess frests sem hann hefur veitt gjaldskyldum aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðunina og birta hann í samræmi við lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda eða tilkynna gjaldskyldum aðila á annan sannanlegan hátt.

    Heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar samkvæmt lögum þessum nær til síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Verði gjaldskyldum aðila eigi kennt um að kílómetragjald hafi verið vanálagt, og/eða hafi hann látið í té við álagningu eða álestur fullnægjandi upplýsingar og/eða gögn sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að ákvarða honum gjald nema vegna síðustu tveggja ára sem næst voru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram.

 

19. gr.

Kæruheimildir.

    Álagning kílómetragjalds samkvæmt lögum þessum er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar. Ríkisskattstjóri skal að jafnaði innan þriggja mánaða frá lokum kæru­frests kveða upp rökstuddan úrskurð um kæruna og birta hann í samræmi við lög um stafrænt póst­hólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

    Heimilt er að kæra úrskurð ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. og endurákvörðun skv. 18. gr. til yfir­skattanefndar samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

 

20. gr.

Vanskráningargjald.

    Gjaldskyldur aðili bifreiðar sem er gjaldskyld skv. 1. eða 2. tölul. 2. gr. skal greiða sérstakt vanskráningargjald sem ríkisskattstjóri leggur á hafi skráning ekki farið fram innan tímamarka 2. mgr. 8. gr. eða ef boðun skv. 2. tölul. 11. gr. er ekki sinnt innan 15 daga. Fjárhæð van­skrán­ingargjalds skal vera 50.000 kr. vegna hverrar gjaldskyldrar bifreiðar.

    Vanskráningargjald skal lækkað um 50% ef gjaldskyldur aðili lætur skrá stöðu akstursmælis á faggiltri skoðunarstofu innan 15 daga frá álagningu þess. Þá má fella niður vanskráningargjald hafi óviðráðanleg atvik staðið í vegi fyrir skráningu á stöðu akstursmælis.

    Þegar liðnir eru þrír mánuðir frá álagningu vanskráningargjalds skal ríkisskattstjóri senda lögreglu yfirlit yfir þær bifreiðar þar sem staða akstursmælis er enn óskráð. Lögregla hefur að liðnum tímamörkum 1. málsl. heimild til að fjarlægja skráningarmerki af þeim bifreiðum sem um ræðir. Lögregla skal ekki afhenda þau aftur fyrr en staða akstursmælis hefur verið skráð hjá faggiltri skoðunarstofu .

 

21. gr.

Lögveð og fjárnám.

    Kílómetragjald og vanskráningargjald ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði hvílir sem lögveð á hlutaðeigandi bifreið sem er aðfararhæft og gengur fyrir öllum öðrum skuldbindingum og framar öllum öðrum veðböndum í tvö ár frá gjalddaga. Á grundvelli slíks lögveðs má krefjast nauðungarsölu á bifreið án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Lögveð fellur niður við eigendaskipti hafi hinn nýi eigandi hvorki vitað né mátt vita um lögveðið.

    Heimilt er að innheimta gjaldfallið kílómetragjald og vanskráningargjald vegna hlutaðeigandi bifreiðar með fjárnámi hjá skráðum eiganda eða umráðamanni án undangengins dóms eða sáttar.

 

22. gr.

Ýmis ákvæði.

    Kílómetragjald sem innheimt er samkvæmt lögum þessum skal ekki mynda gjaldstofn til virðisaukaskatts.

    Að því leyti sem ekki er öðruvísi kveðið á um í lögum þessum skulu gilda, eftir því sem við getur átt, ákvæði laga um virðisaukaskatt.

    Að því leyti sem ekki er öðruvísi kveðið á um í lögum þessum um tímabundinn innflutning bifreiða skulu gilda, eftir því sem við getur átt, ákvæði tollalaga.

 

23. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

 

24. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast ákvæði 3. tölul. 2. gr., 4. mgr. 3. gr. og 7. gr. vegna rafmagns- og vetnisbifreiða gildi 1. júlí 2024 og vegna tengiltvinnbifreiða 1. janúar 2025.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. skal rafræn skráning á stöðu akstursmælis gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eiga sér stað fyrir 20. janúar 2024 hvort heldur skráningin er framkvæmd af gjaldskyldum aðila eða hjá faggiltri skoðunarstofu.

    Hafi skráning á stöðu akstursmælis ekki farið fram innan tímamarka 1. mgr. skal ríkisskattstjóri senda gjaldskyldum aðila ítrekun um skráningu.

    Ef skráning á stöðu akstursmælis liggur ekki fyrir 30. janúar 2024 skal gjaldskyldur aðili láta skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu.

    Gjaldskyldur aðili skal greiða vanskráningargjald hafi skráning ekki farið fram innan tímamarka 3. mgr. Fjárhæð vanskráningargjalds samkvæmt þessari grein skal vera 20.000 kr.

    Vanskráningargjald fellur niður ef gjaldskyldur aðili lætur skrá stöðu akstursmælis á faggiltri skoðunarstofu innan 20 daga frá álagningu gjaldsins. Þá má fella niður vanskráningargjald hafi óviðráðanleg atvik staðið í vegi fyrir skráningu á stöðu akstursmælis eða ef gjaldskyldur aðili færir gildar ástæður fyrir því að skráning hafi ekki átt sér stað. Ríkisskattstjóri metur það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

    Faggilt skoðunarstofa skal senda Samgöngustofu upplýsingar um stöðu akstursmælis á álestrardegi rafrænt.

 

II.

    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. skal ríkisskattstjóri gera áætlun um meðalakstur bifreiðar vegna fyrsta gjaldtímabils ársins 2024 og birta hana í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda fyrir 1. febrúar 2024. Áætlun skal miðuð við akstur á tólf mánaða tímabili skv. 1. eða 2. mgr. 9. gr.

    Gjaldskyldum aðila er heimilt að skrá nýja áætlun í stað áætlunar ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. Áætlun ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. að teknu tilliti til breytinga gjaldskylds aðila, þ.e. breytt áætlun, skal vera grundvöllur fyrirframgreiðslu kílómetragjalds.

    Ef staða akstursmælis bifreiðar er ekki skráð innan tímamarka 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I skal áætlun á fyrirframgreiðslu kílómetragjalds frá og með 1. febrúar 2024 að lágmarki miðuð við akstur á tólf mánaða tímabili skv. 4. mgr. 9. gr.

    Gjaldskyldum aðila skal gert að greiða fyrir fram upp í álagningu kílómetragjalds skv. 10. gr. út frá áætlun um akstur skv. 1. og 3. mgr. Áætlun skal reiknuð fyrir hvern og einn almanaksmánuð og taka mið af meðalakstri bifreiðar á dag.

    Gjalddagi fyrirframgreiðslu kílómetragjalds vegna fyrsta gjaldtímabils er 1. febrúar 2024 og eindagi 14 dögum síðar, sbr. 2. málsl. 7. mgr. 9. gr. Ef gjaldskyldur aðili hefur ekki greitt á eindaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.

 

III.

    Liggi ekki fyrir upplýsingar og gögn til að reikna út meðalakstur gjaldskyldrar bifreiðar sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. frá 1. janúar 2024 til fyrstu skráningar á stöðu akstursmælis skal þrátt fyrir ákvæði 10. gr. ákvarða meðalakstur á þessu tímabili út frá fyrsta þekkta meðalakstri eftir gildistöku laganna.

 

IV.

    Sé bifreið erlendis, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 5. gr., eða skráningarmerki í varðveislu skráningaraðila við gildistöku laganna skal ekki skrá stöðu akstursmælis við afskráningu hennar að aðstæðum óbreyttum.

 

V.

    Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 10. gr. skal ekki bæta álagi við mismun á álögðu kílómetragjaldi og fyrirframgreiðslu þess, sem stafar af of lágri fyrirframgreiðslu vegna bifreiða sem eru í eigu eða umráðum ökutækjaleigu sem hefur starfsleyfi skv. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015, vegna aksturs á tímabilinu 1. janúar 2024 til 30. júní 2024.

 

Gjört í Reykjavík, 27. desember 2023.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Bjarni Benediktsson.


A deild - Útgáfud.: 29. desember 2023