1. gr.
Almenn skilyrði fyrir úthlutun aflamarks.
Úthluta skal aflamarki til fiskiskipa sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, við lok umsóknarfrests.
- Eru skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2022.
- Eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2022. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
Heimilt er að úthluta aflamarki byggðarlaga til fiskiskipa, sem uppfylla skilyrði a- og b-liðar og eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í öðru byggðarlagi en umsókn um byggðakvóta beinist að, ef þeir stunda einnig útgerð með skip sem skráð eru í því byggðarlagi sem þeir hafa heimilisfang í.
2. gr.
Sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflamarks innan einstakra byggðarlaga.
Ráðherra getur heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórna að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflamarks í einstökum byggðarlögum er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga.
3. gr.
Málsmeðferð á tillögum sveitarstjórna, staðfesting o.fl.
Ráðuneytið skal leita eftir afstöðu sveitarstjórna til þess hvort þær óski eftir að setja sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflamarksins innan einstakra byggðarlaga. Sveitarstjórnir skulu hafa fjögurra vikna frest til að senda ráðuneytinu tillögur sínar, á því formi sem ráðuneytið leggur til.
Eftir að tillögur sveitarstjórna hafa borist skulu þær birtar með aðgengilegum hætti, svo sem á vefsíðu ráðuneytisins, eigi síðar en sjö dögum áður en tekin verður afstaða til þeirra.
Ef fallist verður á tillögur sveitarstjórna um slík skilyrði staðfestir ráðuneytið tillögurnar, auglýsir þær í B-deild Stjórnartíðinda og felur Fiskistofu að úthluta aflamarki byggðarlagsins samkvæmt þeim. Berist tillögur sveitarstjórna ekki innan áðurnefnds frests eða ef ráðherra fellst ekki á tillögur sveitarstjórna fer um úthlutun aflamarks einstakra byggðarlaga til fiskiskipa samkvæmt 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og ákvæðum þessarar reglugerðar.
4. gr.
Viðmiðanir um úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa.
Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2021 til 31. ágúst 2022. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur hlutur til þess niður og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun.
Afli sem landað er í byggðarlagi úr fiskiskipum sem ekki eru skráð innan viðkomandi byggðarlags, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.
Réttindi til úthlutunar fylgja skipi, nema ef eigandi eða leigutaki fiskiskips, sbr. 1. gr., hefur endurnýjað fiskiskip sitt á því viðmiðunartímabili sem fram kemur í 1. mgr. og flutt aflahlutdeildir af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið getur hann í umsókn sinni óskað eftir að við úthlutun aflamarks, skv. 1. mgr. sé tekið tillit til landaðs afla eldra skips umsækjanda í sömu hlutföllum og nemur þeim aflahlutdeildum sem hafa verið fluttar milli skipanna. Sömu skilyrði eiga einnig við þegar endurnýjun skips á sér stað á tímabilinu eftir að viðmiðunartímabili sem fram kemur í 1. mgr. lýkur og fram að úthlutun.
Ef fiskiskip er endurnýjað eftir að skipting aflamarks hefur farið fram samkvæmt 1. mgr. en áður en uppfyllt hafa verið skilyrði samkvæmt 6. gr. er heimilt að óska eftir að flytja rétt til úthlutunar aflamarks af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið, enda hafi verið gerður fyrirvari þess efnis í kaupsamningi eða afsali, hafi skip verið selt á því tímamarki.
5. gr.
Framkvæmd úthlutunar.
Fiskistofa annast úthlutun aflamarks, sem kemur í hlut einstakra byggðarlaga, til fiskiskipa og skal auglýsa eftir umsóknum útgerða á vefsíðu Fiskistofu. Umsóknarfrestur skal vera tvær vikur.
Fiskistofa tilkynnir umsækjanda um ákvörðun um úthlutun á byggðakvóta.
Ákvarðanir Fiskistofu varðandi úthlutun samkvæmt þessari grein er heimilt að kæra til matvælaráðuneytisins. Kærufrestur er tvær vikur og skal úthlutun ekki fara fram fyrr en að þeim fresti liðnum. Skal ráðuneytið úrskurða um kærur innan tveggja mánaða. Ráðuneytið getur ákveðið að úthlutun aflaheimilda til skipa í tilteknu byggðarlagi verði frestað að hluta eða öllu leyti þar til það hefur lokið afgreiðslu á kærum sem borist hafa vegna úthlutunar í viðkomandi byggðarlagi.
6. gr.
Skilyrði um afhendingu byggðakvóta.
Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2022 til 31. ágúst 2023. Skilyrði þess að afla teljist landað til vinnslu er að honum sé haldið aðskildum frá öðrum afla ásamt því að vera vigtaður og skráður sérstaklega við vigtun á hafnarvog. Aflinn skal nema, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari. Eigandi fiskiskips skal gera skriflegan samning við fiskkaupanda um magn sem landað verður til vinnslu hjá viðkomandi vinnsluaðila, þar sem fram kemur að vinnsluaðili skuldbindi sig til að vinna aflann og skal bæjar- eða sveitarstjórn árita samninginn til staðfestingar.
Úthlutun aflamarks fer fram á grundvelli vigtarnóta sem borist hafa Fiskistofu og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt. Miða skal við allar botnfiskaflategundir sem gefinn hefur verið út þorskígildisstuðull fyrir. Einnig er það skilyrði fyrir úthlutun að ekki hafi verið flutt meira aflamark í þorskígildum talið á fiskveiðiárinu 2021/2022 frá viðkomandi fiskiskipum en flutt hefur verið til þeirra þegar afhending aflamarks á sér stað.
Afla sem boðinn er upp á fiskmarkaði telst ekki hafa verið landað til vinnslu samkvæmt þessari grein. Þá er einungis heimilt að meta til viðmiðunar samkvæmt þessari grein landaðan afla sem ekki hefur áður verið metinn til úthlutunar byggðakvóta.
Með vinnslu, skv. 1. mgr. er átt við flökun, flatningu, frystingu, söltun eða herslu.
Ef eigandi eða leigutaki fiskiskips, sbr. 1. gr., hefur endurnýjað fiskiskip sitt eftir að lokið er því viðmiðunartímabili sem fram kemur í 1. mgr. 4. gr. en áður en uppfyllt hafa verið skilyrði samkvæmt þessari grein og eftirstöðvar á rétti til úthlutunar, skv. 4. mgr. 4. gr., verið flutt af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið, sbr. 3. mgr. 4. gr., skal við mat á hvort uppfyllt eru skilyrði samkvæmt þessari grein einnig heimilt að miða við landaðan afla beggja skipanna í viðkomandi byggðarlagi.
7. gr.
Afhending og flutningur aflamarks.
Fiskistofu er heimilt að úthluta aflamarki fiskiskips á grundvelli afla annars skips í eigu sama lögaðila. Jafnframt er heimilt að flytja rétt til úthlutunar aflamarks milli skipa í eigu sama lögaðila. Óheimilt er að leigja skip annarra lögaðila til að uppfylla skilyrði um löndun afla til vinnslu samkvæmt 6. gr. Ráðherra er heimilt, að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar, að víkja frá ákvæðum þessarar greinar enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna. Um málsmeðferð og staðfestingu tillagna sveitarstjórna samkvæmt þessari grein skulu gilda ákvæði 3. gr.
Fiskistofu er heimilt samkvæmt beiðni útgerðaraðila að úthluta aflamarki fyrir fiskveiðiárið í fimm áföngum, 1/5 hverju sinni enda séu skilyrði um landað magn til vinnslu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar uppfyllt í sama hlutfalli á sama tíma. Hafi skilyrði fyrir úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa á grundvelli reglugerðar þessarar ekki verið uppfyllt að fullu í lok þess tímabils sem fram kemur í 1. mgr. þessarar greinar, fellur niður réttur til aflamarks í hlutfalli við það sem upp á vantar að skilyrði séu uppfyllt. Takist ekki að úthluta öllu aflamarki viðkomandi skips fyrir lok fiskveiðiársins er Fiskistofu heimilt að úthluta áunnu aflamarki fiskveiðiársins 2022/2023 á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2023, enda hafi ekki verið flutt meira aflamark frá skipinu en til þess í lok fiskveiðiársins á undan.
Heimilt er að flytja aflamark einstakra fiskveiðiára sem úthlutað er samkvæmt þessari grein yfir á næsta fiskveiðiár og úthluta því með þeim aflaheimildum sem koma til úthlutunar á því fiskveiðiári. Aflamark sem er flutt frá eldra fiskveiðiári skal tilheyra aflamarki þess fiskveiðiárs sem hófst 1. september næst á undan úthlutun aflamarks.
8. gr.
Lágmarksverð.
Verð fyrir afla sem landað er til vinnslu til að uppfylla skilyrði 6. gr. skal ekki vera lægra en það verð sem ákveðið er sem viðmiðunarverð af Verðlagsstofu skiptaverðs.
9. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi sem sett er, skv. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda fyrir fiskveiðiárið 2022/2023. Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022.
Matvælaráðuneytinu, 8. desember 2022.
Svandís Svavarsdóttir.
|