Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 232/2022

Nr. 232/2022 24. febrúar 2022

REGLUR
um skipulagskröfur verðbréfafyrirtækja, upplýsingagjöf vegna virks eignarhlutar og viðmið vegna viðbótarstarfsemi.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um nánari framkvæmd laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga hvað varðar:

  1. Skipulagskröfur verðbréfafyrirtækja sem leggja stund á viðskipti með notkun algríms, skv. 25. og 27. gr. laganna.
  2. Tæmandi lista yfir upplýsingar sem fyrirhugaðir eigendur láta fylgja með í tilkynningu um fyrirhuguð kaup á virkum eignarhlut í verðbréfafyrirtæki, skv. 12. gr. laganna.
  3. Viðmiðin sem tilgreina hvenær starfsemi telst vera viðbót við aðalstarfsemi, skv. a-lið 2. mgr. 10. lið 1. mgr. 2. gr. laganna.

 

2. gr.

Tilvísanir.

Áætlun um viðskiptavakt: Tilvísanir í reglum þessum til áætlunar um viðskiptavakt skv. 17. og 48. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til áætlunar um viðskiptavakt skv. 26. og 84. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Farm- og hrávöruafleiður skv. 10. lið bálks C í I. viðauka MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til afleiða skv. 10. lið bálks C í I. viðauka við tilskipun 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til afleiða skv. g-lið 2. töluliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Heildarhlítni við 17. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til heildarhlítni við 17. gr. tilskip­unar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til hlítni við 25.-27. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Kröfur skv. 5. mgr. 17. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til krafna í samræmi við 5. mgr. 17. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til hlítni við 27. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Pöruð miðlaraviðskipti: Tilvísanir í reglum þessum til paraðra miðlaraviðskipta (e. matched principal basis), sbr. 38. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB, skal skilja sem tilvísun til jafnaðra eigin viðskipta skv. 27. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Samningur skv. 6. mgr. 17. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til samnings sem um getur í 6. mgr. 17. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til samnings skv. 25. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.Starfsleyfi fyrir eignastýringu: Tilvísanir í reglum þessum til starfsleyfis til að veita fjárfestingarþjónustuna „eignastýring“, sem um getur í 4. tölulið þáttar A í I. viðauka við tilskipun 2004/39/EB skal skilja sem tilvísanir til eignastýringar skv. d-lið 15. töluliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Starfsleyfi skv. CRD IV: Tilvísanir í reglum þessum til starfsleyfis í samræmi við tilskipun 2013/36/ESB skal skilja sem tilvísanir til starfsleyfis skv. lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Starfsleyfi skv. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til starfsleyfis í samræmi við tilskipun 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til starfsleyfis skv. lögum nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Verðbréfafyrirtæki skv. MiFID II:Tilvísanir í reglum þessum til verðbréfafyrirtækis samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til verðbréfafyrirtækis samkvæmt lögum nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Viðbótarstarfsemi skv. i. og ii. undirliðum j-liðar 1. mgr. 2. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til viðbótarstarfsemi skv. i. og ii. undirliðum j-liðar 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2014/65, skal skilja sem tilvísanir til starfsemi skv. a- og b-liðum 1. mgr. 10. liðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Viðskipti fyrir eigin reikning eða sölutrygging: Tilvísanir í reglum þessum til starfsemi sem felur í sér „viðskipti fyrir eigin reikning“ eða „sölutryggingu í tengslum við útgáfu fjármálagerninga og/eða útboð fjármálagerninga“, sem um getur í 3. og 6. lið þáttar A í I. viðauka tilskipunar 2004/39/EB skal skilja sem tilvísanir til c- og f-liða 15. töluliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

Viðskipti skv. a-, b- og c-liðum fimmtu undirgreinar 4. mgr. 2. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til viðskipta sem um getur í a-, b- og c-liðum fimmtu undirgreinar 4. mgr. 2. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem viðskipti:

  1. Innan samstæðu eins og fjallað er um í 3. gr. reglugerðar ESB nr. 648/2012, sbr. lög nr. 15/2018 um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, sem þjóna þeim tilgangi að veita samstæðunni lausafé eða vegna áhættustýringar.
  2. Með afleiður sem er unnt að mæla á hlutlægan hátt að dragi úr áhættu sem tengist beint viðskiptastarfsemi eða fjármögnun.
  3. Með hrávöruafleiður og losunarheimildir sem framkvæmd eru til að uppfylla skuldbindingar um að mynda seljanleika á viðskiptavettvangi þegar eftirlitsyfirvöld, eða viðskipta­vettvangur, krefjast slíkra skuldbindinga í samræmi við landslög.

 

3. gr.

Innleiðing reglugerða.

Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi eftirfarandi reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB) sem birtar eru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 72. frá 11. nóvember 2021, bls. 216-247 og 261-272, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 85/2019 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 88 frá 31. október 2019 bls. 7-19, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efna­hags­svæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest:

  1. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/589 frá 19. júlí 2016 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla sem tilgreina skipulagskröfur verðbréfafyrirtækja sem leggja stund á viðskipti með notkun algríms.
  2. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/1946 frá 11. júlí 2017 um viðbætur við tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB og 2014/65/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um tæmandi lista yfir upplýsingar sem fyrirhugaðir eigendur láta fylgja með í tilkynningu um fyrirhuguð kaup á virkum eignarhlut í verðbréfafyrirtæki.

Með reglum þessum öðlast einnig gildi hér á landi framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/592 frá 1. desember 2016 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um viðmiðin sem tilgreina hvenær starfsemi telst vera viðbót við aðalstarfsemi, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 4 frá 17. janúar 2022, bls. 31-38, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2019 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 88 frá 31. október 2019 bls. 7-19, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efna­hags­svæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.

 

4. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 3. mgr. 2. gr., 7. mgr. 12. gr., 8. mgr. 25. gr. og 6. mgr. 27. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga, taka gildi þegar í stað. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 1420/2021 um skipulagskröfur verðbréfafyrirtækja og upplýsingagjöf vegna virks eignarhlutar.

 

Seðlabanka Íslands, 24. febrúar 2022.

 

  Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Rannveig Júníusdóttir
framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 25. febrúar 2022