1. gr.
Við reglurnar bætist ákvæði til bráðabirgða, með fyrirsögnina Ákvæði til bráðabirgða vegna viðbótar- og stuðningslána, svohljóðandi:
Til viðbótar þeim tryggingum sem taldar eru upp í 1. mgr. 10. gr. skulu eftirfarandi tryggingar teljast hæfar í viðskiptum við Seðlabankann:
- Veðbréf með veð í viðskiptabréfum, enda sé þar um að ræða veðgerning útgefinn af fjármálafyrirtæki (lánastofnun) með sjálfsvörsluveði í skuldabréfum, sem útgefin eru af rekstraraðilum á grundvelli III. kafla laga nr. 38/2020 um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, og sem uppfylla kröfur samkvæmt 43. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Veðbréf með veði í viðskiptabréfum skal vera á stöðluðu samningsformi sem Seðlabankinn samþykkir og skal það að mati Seðlabankans vera tryggt með nægjanlega góðum veðum, veita nægan aðgang að upplýsingum um stöðu og mat undirliggjandi trygginga á hverjum tíma, veita fullnægjandi réttarvernd og vera að öðru leyti nægjanleg trygging að mati bankans.
- Veðbréf með veð í viðskiptabréfum, enda sé þar um að ræða veðgerning útgefinn af fjármálafyrirtæki (lánastofnun) með sjálfsvörsluveði í skuldabréfum, sem útgefin eru af fyrirtækjum á grundvelli 4. gr. fjáraukalaga nr. 26/2020, sbr. samninga milli Seðlabankans og lánastofnana um veitingu ábyrgða vegna viðbótarlána; og skal veðbréfið uppfylla öll sömu skilyrði og skv. a-lið þessa ákvæðis.
Seðlabankinn getur, við ákvörðun um viðskipti, vikið frá öllum skilyrðum samkvæmt 2. mgr. 10. gr. sem og 3. mgr. 11. gr.
2. gr.
Gildistaka o.fl.
Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 2. mgr. 46. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, taka þegar gildi. Fjallað var um breytingarnar þann 23. júní 2020 á fundi peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands.
Seðlabanka Íslands, 1. september 2020.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri. |
|