1. gr.
Á neyðarstigi almannavarna er það borgaraleg skylda manna sem eru á aldrinum 18–65 ára að gegna, án endurgjalds, starfi í hjálparliði almannavarna í umdæmi þar sem þeir dveljast samkvæmt fyrirmælum er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar eða ríkislögreglustjóra.
Kveðja má þá sem eru á aldrinum 16–18 ára eða eldri en 65 ára til starfs skv. 1. mgr., ef þeir óska þess sjálfir.
Þeim sem kvaddir hafa verið til starfs skv. 1. mgr. ber að koma til læknisskoðunar, ef nauðsynlegt þykir.
Enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni starfi sem hann hefur verið kvaddur til í þágu almannavarna.
2. gr.
Lögreglustjórar fara með skipulagningu hjálparliðs almannavarna hver í sínu umdæmi, eftir því sem nánar segir í reglum þessum.
3. gr.
Lögreglustjóri skipar í hjálparlið. Ákvörðun lögreglustjóra um skipun í hjálparlið má skjóta til ráðherra.
Lögreglustjóri ákveður tölu manna í hjálparliði að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra og almannavarnanefnd. Hann skal við skipun í hjálparlið tryggja að gætt sé jafnræðis og starfskvöð komi sem réttlátast niður á borgarana.
Ríkislögreglustjóri veitir leiðbeiningar um starfsskiptingu hjálparliðs umdæma, svo og um lágmarksbúnað hjálparliðs, en að öðru leyti kveður lögreglustjóri á um þessi atriði.
4. gr.
Ríkislögreglustjóri boðar þá sem kvaddir hafa verið til starfa í hjálparliði almannavarna skv. 1. gr. til námskeiða og æfinga. Ríkislögreglustjóri heldur námskeið fyrir yfirmenn og leiðbeinendur í hjálparliði.
Ber öllum viðkomandi að fara að þeim fyrirmælum og öðrum starfsreglum. Óheimilt er að hverfa úr starfi án leyfis.
Ríkislögreglustjóri setur starfsreglur um þjálfun og skipuleggur hana í samráði við lögreglustjóra viðkomandi umdæmis hverju sinni.
Hámarkstími á hverju ári vegna námskeiða og æfinga er þrjár vikur.
Ef sá sem kvaddur hefur verið til starfa í hjálparliði almannavarna verður fyrir meiðslum eða tjóni á námskeiði eða æfingu á hann rétt á bótum.
5. gr.
Hjálparlið almannavarna skal m.a. aðstoða við eftirtalin verkefni: eldvarnir, björgun og sjúkraflutninga, ruðningsstarf, hjálparstarf vegna tjóns af völdum geislavirkni, sýkla eða eiturefna, löggæslu, fjarskiptaþjónustu og félagslegt hjálparstarf.
6. gr.
Á neyðarstigi almannavarna getur lögreglustjóri kvatt hvern fullorðinn mann, sem tiltækur er, til tafarlausrar aðstoðar við störf í þágu almannavarna. Ákvörðun um kvaðningu manns til tafarlausrar aðstoðar við almannavarnir verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
Á neyðarstigi almannavarna má sá sem kvaddur hefur verið til tafarlausrar aðstoðar í þágu almannavarna ekki fara úr lögsagnarumdæmi án samþykkis lögreglustjóra eða þess er hann tilnefnir.
Ríkislögreglustjóri hefur ákvörðunarvald um flutning þeirra manna sem kvaddir hafa verið til tafarlausrar aðstoðar í þágu almannavarna. Ef fjöldi manns eða hjálparlið er flutt á milli umdæma skal haft samráð við lögreglustjóra og almannavarnanefnd.
7. gr.
Ríkislögreglustjóra er heimilt að semja við Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Rauða kross Íslands og önnur félagasamtök um að annast ákveðin verkefni á sviði almannavarna.
8. gr.
Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt 22. gr. laga nr. 82/2008, öðlast gildi þegar í stað.
Dómsmálaráðuneytinu, 17. mars 2020.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
|