Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 655/2024

Nr. 655/2024 8. maí 2024

ALMENNAR SIÐAREGLUR
starfsfólks ríkisins.

Inngangur.

Í því skyni að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á stjórnsýslunni staðfestir fjármála- og efnahagsráðherra almennar siðareglur starfsfólks ríkisins sem hér fara á eftir, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Hver starfsmaður gætir að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum. Stjórnendur ríkisstofnana skulu enn fremur sjá til þess að starfsfólki sé kunnugt um reglurnar og að þær séu eðlilegur þáttur í starfi þeirra.

Þeir sem telja starfsfólk hafa brotið gegn siðareglunum geta komið ábendingum á framfæri við umboðsmann Alþingis en hann gætir þess meðal annars að stjórnsýsla fari fram í samræmi við þessar siðareglur, sem settar eru á grundvelli laga nr. 70/1996, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Telji einhver að brot á siðareglum hafi jafnframt falið í sér að hann sjálfur hafi verið beittur rangsleitni er unnt að bera fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Siðareglur þessar verður að skoða í samhengi við sértækari siðareglur sem kunna að gilda, sbr. siðareglur fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands, nr. 1080/2023, reglur sem settar hafa verið fyrir ein­staka stofnanir, sbr. heimild í 3. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 115/2011, og siðareglur fagstétta. Enn fremur eiga siðareglurnar að endurspegla tiltekin grunngildi í störfum hjá ríkinu eins og heilindi, óhlutdrægni og skilvirkni.

 

1. gr.

Frumskyldur.

  1. Starfsfólk ríkisins starfar samkvæmt stjórnarskrá og lögum í þágu almannahagsmuna.
  2. Starfsfólk gætir fyllstu fagmennsku og sinnir störfum sínum af vandvirkni og heiðarleika.
  3. Starfsfólk hefur í heiðri lýðræðisleg gildi, virðir jafnrétti og önnur mannréttindi.

 

2. gr.

Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar.

  1. Starfsfólk ríkisins forðast hagsmunaárekstra og hefur samráð við yfirmann í vafatilvikum.
  2. Starfsfólk gætir þess að fjárhagsleg og persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf þeirra.
  3. Starfsfólk sinnir ekki aukastörfum sem eru ósamrýmanleg starfinu.
  4. Starfsfólk forðast viðtöku gjafa ef líta má á þær sem endurgjald fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

 

3. gr.

Meðferð fjármuna.

  1. Starfsfólk ríkisins sýnir ráðdeild við meðferð fjármuna og spornar gegn sóun.

 

4. gr.

Háttsemi og framganga.

  1. Starfsfólk ríkisins vandar samskipti og kemur fram af háttvísi og virðingu.
  2. Starfsfólk gætir að orðspori vinnustaðar í samskiptum utan vinnu.

 

5. gr.

Faglegir starfshættir.

  1. Starfsfólk ríkisins tileinkar sér vinnubrögð sem skapað geta traust á starfi þeirra og stofnun.
  2. Starfsfólk stendur vörð um óhlutdrægni og faglegt sjálfstæði.
  3. Starfsfólk stuðlar að góðum samskiptum á vinnustað.
  4. Starfsfólk lætur samstarfsfólk njóta sannmælis og sanngirni.
  5. Starfsfólk leitar samvinnu um úrlausn mála eftir því sem kostur er.
  6. Starfsfólk gætir trúnaðar um atriði er gæta skal trúnaðar um.

 

6. gr.

Gagnsæi og upplýsingamiðlun.

  1. Starfsfólk ríkisins stuðlar að gagnsæi í starfsemi stofnunar og gætir þess að upplýsingar séu aðgengilegar í samræmi við lög og almenn viðmið.

 

7. gr.

Ábyrgð og eftirfylgni.

  1. Starfsfólk ríkisins ber ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum í samræmi við stöðu sína.
  2. Starfsfólk hvetur samstarfsfólk til að leita réttar síns telji það á sér brotið.
  3. Starfsfólk vekur athygli viðeigandi aðila á ólögmætum ákvörðunum og athöfnum.
  4. Starfsfólk geldur ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum eða fyrir að leita réttar síns telji það á sér brotið.

 

8. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi almennar siðareglur starfsmanna ríkis­ins, nr. 491/2013.

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 8. maí 2024.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Hermann Sæmundsson.


B deild - Útgáfud.: 3. júní 2024