Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 468/2013

Nr. 468/2013 21. maí 2013
REGLUGERÐ
um nýtingu afla og aukaafurða.

1. gr.

Skylt er að hirða og landa öllum afla sem í veiðarfæri kemur í íslenskri lögsögu, með þeim undantekningum sem í reglugerð þessari greinir.

2. gr.

Heimilt er að varpa fyrir borð þeim fisktegundum sem ekki eru háðar takmörkun á leyfilegum heildarafla, enda verði þær ekki taldar hafa verðgildi.

Heimilt að varpa fyrir borð innyflum, hausum og öðru slíku sem fellur til við verkun og vinnslu afla um borð í veiðiskipum, en ávallt skal nýta þetta hráefni eftir því sem kostur er. Að auki gilda eftirtalin skilyrði:

  1. Fyrir öll skip gildir: Skylt er að hirða og koma með að landi öll þorsk- og ufsahrogn. Skylt er einnig að hirða og koma með að landi hausa og allan afskurð sem fellur til við vinnslu á makríl og íslenskri sumargotssíld.
  2. Fyrir önnur skip en þau er vinna afla um borð gildir: Skylt er að koma með að landi alla þorsklifur og að auki ufsa-, löngu-, keilu- og skötuselslifur.
  3. Fyrir skip sem vinna afla um borð gildir: Skylt er að hirða og koma með að landi alla grálúðuhausa. Skipum sem vinna afla um borð og eru með nýtanlegt lestarrúmmál (effective space) 600-800 m³ er skylt að hirða og koma með að landi að lágmarki 30% af þorskhausum sem til falla við veiðar á hverju fiskveiðiári. Skipum sem eru með nýtanlegt lestarrúmmál meira en 800 m³ er skylt að hirða og koma með að landi að lágmarki 40% af þorskhausum sem til falla við veiðar á hverju fiskveiðiári. Heimilt er þessum skipum í stað hausa, að koma með að landi samsvarandi magn af gellum, kinnum og/eða fésum eða af öðrum afurðum sem unnar eru úr hausum um borð. Jafnframt er svo skylt að hirða og koma með að landi allan afskurð sem fellur til við snyrtingu á þorsk-, ýsu-, karfa- og ufsaflökum um borð í skipum sem vinna afla um borð. Lestarrúmmál skipa samkvæmt þessum lið skal staðfest af Siglingastofnun Íslands.

3. gr.

Við hrognkelsaveiðar er skylt að koma með öll hrognkelsi að landi. Skipum sem stunda netaveiðar, aðrar en grásleppuveiðar samkvæmt sérstöku leyfi Fiskistofu, er skylt að sleppa allri grásleppu sem er lifandi í netum þegar þau eru dregin.

Um skyldu til að sleppa lúðu fer samkvæmt reglugerð um veiðar á lúðu.

4. gr.

Komi afli í veiðarfæri fiskiskips sem er selbitinn eða skemmdur á annan hátt og sem ekki er unnt að komast hjá við tilteknar veiðar, skal ekki reikna þann afla til aflamarks skipsins. Þessum afla skal haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins, hann veginn og skráður sérstaklega. Afla þennan er eingöngu heimilt að nýta til bræðslu.

5. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. er heimilt að varpa fyrir borð afla í rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar, sem ekki er mögulegt að nýta vegna þrengsla um borð eða vegna skipulags og framkvæmdar leiðangurs.

6. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar með síðari breytingum.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 1. september 2013 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 810/2011, um nýtingu afla og aukaafurða, með áorðnum breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði A-liðar 2. mgr. 3. gr. er skipum sem stunda makrílveiðar ekki skylt að koma með afskurð og hausa að landi á tímabilinu 7. júlí til 6. ágúst 2013.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 21. maí 2013.

F. h. r.

Jóhann Guðmundsson.

Arnór Snæbjörnsson.

B deild - Útgáfud.: 21. maí 2013