Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 677/2019

Nr. 677/2019 4. júlí 2019

REGLUGERÐ
um línuívilnun.

1. gr.

Frá og með 1. september 2019, má við línuveiðar dagróðrabáta með línu, sem beitt er í landi, landa 20% umfram þann afla í þorski, ýsu, steinbít, keilu, löngu og gullkarfa sem reiknast til aflamarks þeirra, í einstökum róðrum. Einnig er heimilt við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem stokkuð er upp í landi, að landa 15% umfram þann afla í þorski, ýsu, steinbít, keilu, löngu og gullkarfa sem reiknast til aflamarks þeirra, í einstökum róðrum. Heimild þessi er bundin eftirfarandi skilyrðum:

  1. Að línan sé beitt í landi og ekki séu önnur veiðarfæri eða hlutar þeirra um borð í bátnum.
  2. Að línan sé stokkuð upp í landi með þeirri aðferð sem lýst er í 2. gr. og ekki séu önnur veiðarfæri eða hlutar þeirra um borð í bátnum.
  3. Að bátur komi til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að haldið var til veiða.
  4. Að sjálfvirkt tilkynningakerfi bátsins sé virkt.
  5. Að útgerðaraðili tilkynni um fyrirhugaðar línuveiðar til Fiskistofu, skv. 4. gr.
  6. Að við skráningu afla í löndunarhöfn, í aflaupplýsingakerfið Gafl, komi fram, að veiðarfæri í tilteknum róðri hafi verið landbeitt lína eða lína stokkuð upp í landi samkvæmt upplýsingum útgerðaraðila.

2. gr.

Þegar lína er stokkuð upp í landi skal verkferill vera eftirfarandi:

Lína fer eftir rörum í uppstokkara með burstum um borð í bátnum. Beita er þar þvegin af. Þeir krókar sem eru heilir og rata rétta leið raðast á stokk, en línan sjálf fer í kassa ásamt þeim krókum sem ekki eru í lagi. Sá hluti línunnar, þar sem taumar hafa slitnað af, fer beint í kassann. Kassar eru síðan hífðir í land í körum og á þann stað sem uppstokkun fer fram. Uppstokkun fer þannig fram að kassanum er komið fyrir í sérstakt sæti og stokkurinn festur við stærri rekka. Hver krókur fyrir sig er færður handvirkt inná þann rekka. Krókar eru réttir eða bætt á línuna og greitt úr flækjum eða hnútum. Þegar stokkurinn er tómur er línan flutt aftur á stokkinn sem hún var á og hann lagður í kassa.

3. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skal línuívilnun í þorski takmarkast við 2.000 lestir, 850 lestir af ýsu, 500 lestir af steinbít, 20 lestir af gullkarfa, 15 lestir af keilu og 60 lestir af löngu, miðað við óslægðan fisk, sem skiptast þannig innan fiskveiðiársins:

Tímabil Þorskur Ýsa Steinbítur Gullkarfi Keila Langa
1. september – nóvember 640       309        24        5         8         25       
2. desember – febrúar 759       272        75        3         2         11       
3. mars – maí 456       157        304        6         2         16       
4. júní – ágúst 145       111        98        6         3         8       
Samtals:  2.000       850        500        20         15         60       

4. gr.

Fiskistofa fylgist með línuafla og tilkynnir ráðuneytinu hvenær líklegt megi telja að viðmiðunar­afla hvers tímabils verði náð, sbr. 2. gr. Náist ekki að veiða viðmiðunarafla einhvers tímabils bætast ónýttar heimildir við viðmiðunarafla næsta tímabils á eftir. Fiskistofa tilkynnir síðan frá hvaða degi tiltekinn afli reiknast að fullu til aflamarks.

5. gr.

Útgerðaraðili skal tilkynna Fiskistofu fyrirfram um upphaf og lok þess tíma sem línuveiðar, skv. 1. gr. eru fyrirhugaðar. Fiskistofa ákveður nánar hvernig tilkynningunni skuli háttað. Tilkynningin gildir aldrei lengur en til loka fiskveiðiárs.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda fyrir fiskveiðiárið 2019/2020.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. júlí 2019.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Erna Jónsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 18. júlí 2019