Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 314/2018

Nr. 314/2018 23. mars 2018

AUGLÝSING
um staðfestingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs í eitt sveitarfélag.

Með vísan til 124. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, tilkynnir ráðuneytið að það hefur í dag staðfest sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs, í umdæmi sýslumannsins á Suðurnesjum, í eitt sveitarfélag.

Kjósa skal níu fulltrúa í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags við almennar sveitarstjórnarkosningar sem fram fara 26. maí 2018.

Nýkjörin sveitarstjórn tekur við stjórn hins sameinaða sveitarfélags 10. júní 2018 og á sama tíma tekur sameiningin gildi.

Samþykkt um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp, sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett sérstök samþykkt, verður birt sérstaklega. Jafnframt verður heiti hins sameinaða sveitarfélags auglýst sérstaklega.

Íbúar beggja sveitarfélaganna skulu vera þegnar hins sameinaða sveitarfélags.

Hið sameinaða sveitarfélag skal taka yfir allt það land sem nú tilheyrir sveitarfélögunum tveimur. Eignir, skuldir, réttindi og skyldur sem tilheyra sveitarfélögunum skulu falla til hins sameinaða sveitarfélags. Skjöl og bókhaldsgögn beggja sveitarfélaga skulu afhent hinu sameinaða sveitarfélagi til varðveislu.

Sveitarstjórnir sveitarfélaganna tveggja kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjórnir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, skulu vera undirkjörstjórnir við kosningarnar, nema annað verði ákveðið.

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 23. mars 2018.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

 


B deild - Útgáfud.: 27. mars 2018