Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 540/2024

Nr. 540/2024 19. apríl 2024

REGLUR
um framkvæmd skilavalds Seðlabanka Íslands.

1. gr.

Gildissvið og efni.

Reglur þessar fjalla um framkvæmd skilavalds Seðlabanka Íslands á grundvelli laga um skila­meðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020.

 

2. gr.

Um hlutverk og verkefni skilavalds.

Seðlabanki Íslands fer með skilavald, þ.e. stjórnsýsluvald til að grípa til aðgerða og sinna undir­búningi og framkvæmd skilameðferðar lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

Skilavaldið framkvæmir mat á skilabærni, gerir skilaáætlanir og ákvarðar lágmarkskröfu um eiginfjár­grunn og hæfar skuldbindingar fyrir lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki. Skilavaldið fram­kvæmir skilameðferð fyrirtækja í samræmi við skilaáætlanir.

Skrifstofa skilavalds, sem heyrir beint undir seðlabankastjóra, vinnur að verkefnum skilavalds, þ.m.t. gerð skilaáætlana, undirbúningi ákvarðanatöku skilavalds, samskiptum við ytri aðila ásamt öðrum daglegum verkefnum.

 

3. gr.

Um aðgreiningu skilavalds frá annarri starfsemi.

Skilavaldið er sjálfstætt í störfum sínum. Starfsemi þess er aðgreind frá annarri starfsemi og öðrum verkefnum hjá Seðlabanka Íslands. Markmið aðgreiningarinnar er að tryggja skilvirkni í skila­aðgerðum og komast hjá hagsmunaárekstrum.

Aðgreining verkefna skilavalds frá annarri starfsemi felur m.a. í sér:

  1. Aðgreind ferli við töku ákvarðana vegna skilameðferðar, sbr. 4. gr.,
  2. sjálfstæðar boðleiðir starfsfólks, sbr. 5. gr.,
  3. sérstaka meðhöndlun upplýsinga innan Seðlabankans, sbr. 6. gr., og
  4. sérstaka gjaldtöku vegna skilavalds, sbr. 7. gr.

 

4. gr.

Ákvörðunartaka innan Seðlabanka Íslands.

Endanleg ákvörðunartaka um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er í höndum seðlabankastjóra. Stjórnendur sem bera þær meginskyldur að fara með eindareftirlit með fjármála­fyrirtækjum koma ekki að ákvarðanatöku sem skilavald.

Ákvarðanir skilavalds um skilaáætlun og skilabærni, um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar og um mat á áætlun um endurskipulagningu rekstrar skulu teknar að undan­gengnu samráði við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.

 

5. gr.

Boðleiðir skilavalds.

Boðleiðir skilavalds, þ.m.t. skrifstofu þess, innan Seðlabanka Íslands skulu vera óheftar. Tilkynn­ingum og upplýsingum er beint í gegnum ferla sem aðskildir eru ferlum annarra verkefna innan bankans.

Skilavaldið, þ.m.t. skrifstofa þess, skal ekki vera heft í aðgerðum sínum vegna ákvarðana sem teknar eru vegna annarra starfa Seðlabankans.

 

6. gr.

Meðhöndlun upplýsinga innan Seðlabanka Íslands.

Skilavald skal hafa óhindraðan aðgang að upplýsingum frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og annarri starfsemi Seðlabankans enda sé upplýsingagjöfin nauðsynleg til að skilavaldið geti sinnt framkvæmd laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

Fjármálaeftirlit og önnur starfsemi Seðlabankans hafa ekki aðgang að upplýsingum sem varða starfsemi skilavalds, nema að undangengnu samþykki skilavaldsins.

Upplýsingar og gögn skrifstofu skilavalds skulu aðskildar með aðgangsstýringu frá öðrum upp­lýsingum sem ætlaðar eru fjármálaeftirliti og annarri starfsemi innan Seðlabankans.

 

7. gr.

Gjaldtaka vegna starfsemi skilavalds.

Starfsemi skilavaldsins er fjármögnuð með sérstakri gjaldtöku, sbr. 1.–3. gr. og 13. og 14. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald, nr. 99/1999.

 

8. gr.

Þagnarskylda og upplýsingagjöf vegna starfsemi skilavalds.

Um þagnarskyldu starfsmanna vegna starfsemi skilavalds fer skv. 8. gr. laga um skilameðferð lána­stofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020 og 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019.

Heimilt er skv. 8. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja að veita upp­lýsingar um starfsemi skilavaldsins á samandregnu formi, þannig að einstakar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki eru ógreinanleg. Slík upplýsingagjöf skal fara fram í formi stuttrar yfirlýsingar.

Við gerð yfirlýsingar skv. 2. mgr. skal að því gætt að upplýsingagjöf gangi ekki í berhögg við þagnarskyldu skilavalds og sé tilhlýðileg með hliðsjón af eftirtöldu: fjölda lánastofnana og verðbréfa­fyrirtækja sem fjallað er um, sértækum einkennum í upplýsingunum og ytra samhengi við birtingu upplýsinganna.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 4. mgr. 4. gr. laga um skilameðferð lána­stofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um framkvæmd skilavalds Seðlabanka Íslands, nr. 1733/2021.

 

Seðlabanka Íslands, 19. apríl 2024.

 

  Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Rannveig Júníusdóttir
framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 8. maí 2024