I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um hvers konar starfsemi sem lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um, þar sem starfsmenn verða fyrir eða eiga á hættu að verða fyrir mengun frá efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu, sbr. þó strangari ákvæði í sérlögum og sérreglum um einstök efni sem geta valdið krabbameini eða stökkbreytingu.
2. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir heilsutjón starfsmanna sem vinna með efni, sem geta valdið krabbameini eða stökkbreytingu, eða verða fyrir mengun frá slíkum efnum.
3. gr.
Orðskýringar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Efni sem getur valdið krabbameini:
- Sérhvert efni eða efnablanda er uppfyllir viðmið samkvæmt flokki 1A eða 1B yfir efni sem geta valdið krabbameini, í I. viðauka reglugerðar (EB) nr. 1272/2008, sbr. a-lið 1. gr. reglugerðar nr. 415/2014, um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna.
- Sérhvert efni, efnablanda eða vinnsluferli sem vísað er til í I. viðauka reglugerðar þessarar sem og efni eða efnablanda sem verður til í vinnsluferli sem vísað er til í I. viðauka.
Efni sem getur valdið stökkbreytingu: Sérhvert efni eða efnablanda sem getur valdið stökkbreytingu í kímfrumum og uppfyllir viðmið samkvæmt flokki 1A og 1B yfir kímfrumustökkbreytivalda í I. viðauka reglugerðar (EB) nr. 1272/2008, sbr. a-lið 1. gr. reglugerðar nr. 415/2014, um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna.
Mengunarmörk: Hæsta leyfilega meðaltalsmengun (tímavegið meðaltal) efnis sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu í andrúmslofti starfsmanna á tilgreindu viðmiðunartímabili.
II. KAFLI
Skyldur atvinnurekanda.
4. gr.
Áhættumat.
Þegar líkur eru taldar á að starfsemi geti haft í för með sér áhættu vegna efnis sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu skal atvinnurekandi ákvarða eða láta ákvarða eðli ástandsins, hve mikil mengunin er, áhrif einstakra efna svo og heildaráhrif þeirra og hve lengi starfsmenn verða fyrir mengun, svo unnt sé að meta hvers konar hættu heilsu eða öryggi starfsmanna sé búin. Í samræmi við niðurstöður framangreinds skal atvinnurekandi ákvarða til hvaða ráðstafana skuli grípa.
Áhættumatið skal hafa sérstaka hliðsjón af störfum á vinnustað þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu eða öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin vegna mengunar eða af öðrum ástæðum.
Þegar um er að ræða störf sem hafa í för með sér mengun frá mörgum efnum sem geta valdið krabbameini eða stökkbreytingu skal áhættan metin á grundvelli þeirrar áhættu sem stafar samanlagt frá þeim öllum.
Atvinnurekandi skal halda skrá um þær forvarnir og aðrar sértækar ráðstafanir sem hann grípur til í tengslum við áhættumatið. Enn fremur skal atvinnurekandi endurskoða áhættumatið reglulega, einkum ef orðið hafa verulegar breytingar á starfsemi í tengslum við efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu.
5. gr.
Ráðstafanir vegna mengunar.
Þegar áhættumat skv. 4. gr. gefur til kynna að heilsu eða öryggi starfsmanna er hætta búin vegna mengunar skal atvinnurekandi beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir að starfsmenn verði fyrir mengun.
Atvinnurekandi skal ávallt leitast við, með tilliti til eðlis starfseminnar, að nota efni sem telst ekki vera hættulegt eða síður hættulegt heilsu eða öryggi starfsmanna við þær aðstæður sem það er notað.
Þegar ekki er tæknilega unnt að koma í veg fyrir hættu á mengun, sbr. 1. og 2. mgr., að teknu tilliti til eðlis starfseminnar og áhættumatsins skv. 4. gr., skal atvinnurekandi sjá til þess að dregið verði úr mengun eins og kostur er. Á þetta sérstaklega við um störf þar sem aukin hætta er á mengun frá efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu, svo sem störf við ýmis konar viðhald. Í þeim tilgangi skal atvinnurekandi beita eftirfarandi ráðstöfunum:
- draga úr magni efna sem geta valdið krabbameini eða stökkbreytingu á vinnustað í samræmi við eðli starfseminnar og fjarlægja þau með viðeigandi hætti,
- framleiða og nota efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu í lokuðu kerfi að svo miklu leyti sem unnt er,
- koma í veg fyrir útbreiðslu mengunar til að takmarka eins og unnt er þann fjölda starfsmanna sem verður fyrir mengun,
- haga vinnu og tæknilegu eftirliti þannig að komist sé hjá því eða því haldið í lágmarki að efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu dreifist innan vinnustaðar,
- gera almennar ráðstafanir til verndar starfsmönnum, svo sem með viðeigandi loftræstingu, og gera ráðstafanir til að vernda sérhvern starfsmann, t.d. með viðeigandi persónuhlífum, sé ekki annarra kosta völ,
- gera hreinlætisráðstafanir sem samrýmast því markmiði að koma í veg fyrir eða draga úr möguleikum á að efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu dreifist innan vinnustaðar,
- gera neyðaráætlun sem ætlað er að varna því að starfsmenn verði fyrir mengun frá efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu þegar mengun hefur átt sér stað,
- nota merki sem vara við hættu vegna efnis sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu svo og önnur viðeigandi viðvörunarmerki, svo sem merki sem banna reykingar,
- afmarka hættusvæði,
- láta safna saman úrgangi, geyma hann og farga honum á öruggan hátt, meðal annars með því að nota þétt ílát sem eru greinilega og áberandi merkt samkvæmt viðeigandi aðferð,
- sjá til þess að öruggum aðferðum sé beitt við meðhöndlun og flutning efnis sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu innan vinnustaðar.
Atvinnurekandi skal reglulega gera nauðsynlegar mælingar á efnamengun sem kann að stofna heilsu eða öryggi starfsmanna í hættu. Magn efnis skal ekki fara yfir mengunarmörk samkvæmt gildandi reglugerð nr. 390/2009, um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum, með síðari breytingum.
Atvinnurekandi skal afmarka vinnusvæði þar sem niðurstaða áhættumats skv. 4. gr. gefur til kynna að heilsu eða öryggi starfsmanna sé hætta búin og takmarka aðgang óviðkomandi að því.
Atvinnurekandi skal gæta þess að starfsmaður starfi ekki lengi í einu við aðstæður þar sem heilsu eða öryggi hans er hætta búin vegna efnis sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu.
6. gr.
Upplýsingar til Vinnueftirlits ríkisins.
Þegar niðurstaða áhættumats skv. 4. gr. gefur til kynna að heilsu eða öryggi starfsmanna sé hætta búin skal atvinnurekandi láta Vinnueftirliti ríkisins í té viðeigandi upplýsingar um eftirfarandi atriði, óski það þess:
- niðurstöður áhættumats skv. 4. gr.,
- þá starfsemi þar sem starfsmenn hafa orðið eða kunna að hafa orðið fyrir mengun frá efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu,
- ástæður þess að efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu er notað, ef við á, og hvort unnt sé að nota önnur síður hættuleg efni í staðinn,
- magn þess efnis eða efnablöndu sem er notuð og inniheldur efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu,
- fjölda starfsmanna sem varð fyrir mengun hafi mengun átt sér stað,
- nöfn og hæfni öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða á vinnustað,
- verndar- og forvarnaráðstafanir sem eru viðhafðar, þar á meðal hvaða gerð persónuhlífa er notuð.
Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins án ástæðulauss dráttar um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu geti valdið mengun.
7. gr.
Ráðstafanir vegna slysa eða óhappa.
Þegar áhættumat skv. 4. gr. gefur til kynna að heilsu eða öryggi starfsmanna er hætta búin skal atvinnurekandi sjá til þess að skriflegar leiðbeiningar liggi frammi á vinnustað sem og að kynna starfsmönnum efni þeirra. Í leiðbeiningunum skal koma fram hvaða starfsháttum skuli fylgt verði slys eða óhapp í tengslum við efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu.
Starfsmenn skulu án tafar tilkynna verkstjóra, öryggisverði eða öryggistrúnaðarmanni um öll slys eða óhöpp í tengslum við efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu.
Atvinnurekandi skal upplýsa starfsmenn eða fulltrúa þeirra án tafar um öll slys eða óhöpp sem eiga sér stað í tengslum við efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu og grípa þegar í stað til allra nauðsynlegra ráðstafana í því skyni að ráða bót á ástandinu.
Einungis skal heimila þeim starfsmönnum, sem brýn þörf er á að sinni viðgerðum, að fara inn á vinnusvæði þar sem slys eða óhöpp hafa átt sér stað í tengslum við efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu. Skal atvinnurekandi sjá til þess að viðkomandi starfsmenn fái viðeigandi persónuhlífar og nauðsynlegan öryggisbúnað sem þeir skulu nota þangað til ástandinu er aflétt. Öðrum en framangreindum starfsmönnum skal óheimill aðgangur að því svæði sem um ræðir.
8. gr.
Kröfur um hreinlæti og vernd einstakra starfsmanna.
Þegar um er að ræða starfsemi þar sem heilsu eða öryggi starfsmanna er hætta búin vegna vinnu með efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu skal atvinnurekandi tryggja að:
- starfsmenn neyti ekki matar eða drykkjar á vinnusvæðum þar sem hætta er á mengun,
- starfsmenn fái viðeigandi persónuhlífar eða annan viðeigandi fatnað,
- starfsmenn hafi aðgang að fullnægjandi snyrti- og salernisaðstöðu,
- allar nauðsynlegar hlífar séu geymdar á réttan hátt á ákveðnum stað, yfirfarnar og þrifnar fyrir notkun, ef það er unnt, en skilyrðislaust eftir að þær hafa verið notaðar og lagfærðar, ef þær bila, eða nýjar hafa verið teknar í notkun.
Starfsmenn skulu fara úr vinnufatnaði og persónuhlífum sem kunna að hafa mengast frá efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu á vinnustað áður en vinnustaðurinn er yfirgefinn. Gæta skal þess að umræddum vinnufatnaði og persónuhlífum sé haldið aðskildum frá öðrum fatnaði.
Ráðstafanir samkvæmt ákvæði þessu skulu vera starfsmönnum að kostnaðarlausu.
9. gr.
Þjálfun starfsmanna.
Atvinnurekandi skal tryggja að starfsmenn eða fulltrúar þeirra á vinnustað fái nægilega og viðeigandi þjálfun. Skal hún einkum fela í sér upplýsingar og leiðbeiningar um:
- hugsanlegt heilsutjón, einkum vegna tóbaksnotkunar,
- varúðarráðstafanir sem ber að gera til að koma í veg fyrir mengun,
- kröfur um hreinlæti,
- notkun persónuhlífa,
- ráðstafanir sem starfsmönnum ber að gera ef slys eða óhöpp verða og til að koma í veg fyrir slys eða óhöpp.
Þjálfun skv. 1. mgr. skal veitt þegar starfsmaður hefur störf sem fela í sér vinnu við efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu og reglulega eftir það eins og nauðsyn krefur. Þess skal gætt að þjálfunin sé í samræmi við nýja og breytta áhættuþætti.
10. gr.
Upplýsingar til starfsmanna.
Atvinnurekandi skal upplýsa starfsmenn um tæki og annan búnað á vinnustað sem innihalda efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu, geymslustaði slíkra efna, áhrif mengunar á heilsu og öryggi starfsmanna, hver séu mengunarmörkin í starfi sem og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um störf þeirra. Skal þess gætt að starfsmenn séu upplýstir um þær breytingar sem kunna að verða á vinnustað í tengslum við notkun á efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu.
Tæki og annar búnaður sem og geymslustaðir á vinnustað sem innihalda efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu skulu vera greinilega merkt.
Atvinnurekandi skal upplýsa starfsmenn eða fulltrúa þeirra á vinnustað án tafar um öll slys eða óhöpp þar sem efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu hefur hugsanlega borist út. Enn fremur skal atvinnurekandi upplýsa eins fljótt og kostur er um orsakir slyssins eða óhappsins og þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til í því skyni að ráða bót á ástandinu.
Hver starfsmaður skal hafa aðgang að þeim upplýsingum sem varða starf hans sérstaklega og tilgreindar eru í skrá skv. 11. gr.
Starfsmenn eða fulltrúar þeirra á vinnustað skulu hafa aðgang að sameiginlegum upplýsingum sem ekki tengjast störfum tiltekinna starfsmanna.
11. gr.
Skrá yfir starfsmenn.
Atvinnurekandi skal halda skrá yfir þá starfsmenn sem starfa á vinnusvæði á vinnustað þar sem heilsu eða öryggi þeirra er hætta búin. Í skránni skal tilgreina hvers konar starf er um að ræða og, ef unnt er, frá hvaða efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu mengunin stafaði, ef um mengun hefur verið að ræða, sem og lýsing á mengun, slysum og óhöppum, eftir því sem við á.
Atvinnurekandi skal varðveita skrá skv. 1. mgr. í 40 ár eftir að starfsmaður lætur af störfum.
Vinnueftirlit ríkisins og sá er annast heilsuvernd starfsmanna skv. 12. gr. skulu hafa aðgang að skrá skv. 1. mgr.
Þegar starfsemi á vinnustað er lögð niður skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins eintak af skrá skv. 1. mgr. og skal það varðveita hana í samræmi við ákvæði þetta.
12. gr.
Heilsuvernd starfsmanna.
Þegar áhættumat skv. 4. gr. gefur til kynna að heilsu eða öryggi starfsmanna er hætta búin frá efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu, skal atvinnurekandi sjá til þess að umræddir starfsmenn njóti heilsuverndar, sbr. XI. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og gildandi reglur um læknisskoðun og heilsuvernd.
Heilsuvernd skv. 1. mgr. skal meðal annars fela í sér að starfsmaður geti gengist undir læknisskoðun áður en hann hefur störf, þar sem hætta er á mengun frá efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu, og reglulega eftir það. Enn fremur skal vera unnt að koma við aðhlynningu eða úrbótum á hollustuháttum á vinnustað án ástæðulauss dráttar.
Hafi starfsmaður orðið fyrir sýkingu eða veikindum sem grunur leikur á að rekja megi til mengunar frá efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu, skal sá læknir sem ber ábyrgð á heilsuvernd starfsmanna gefa öðrum starfsmönnum, sem unnið hafa við sömu aðstæður, kost á að gangast undir læknisskoðun. Þegar svo ber undir skal endurmeta áhættumatið skv. 4. gr.
Sá er annast heilsuvernd starfsmanna skal varðveita skrá um heilsuvernd starfsmanns í 40 ár eftir að starfsmaður lætur af störfum með efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu. Fara skal með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Sá er annast heilsuvernd starfsmanna skal gera tillögu um hvaða verndar- eða forvarnaráðstafanir skuli gera með tilliti til einstakra starfsmanna, sjá II. viðauka.
Atvinnurekandi skal upplýsa og leiðbeina starfsmönnum um hvers konar heilsuvernd þeir eiga kost á eftir að þeir láta af störfum með efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu.
Starfsmenn skulu í samræmi við lög og gildandi reglur hafa aðgang að niðurstöðum heilsuverndar er varðar þá sjálfa í tengslum við störf þeirra með efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu. Einnig er hlutaðeigandi starfsmönnum eða atvinnurekanda heimilt að krefjast þess að niðurstöður heilsuverndar verði endurskoðaðar.
Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um öll sjúkdómstilfelli eða dauðsföll á vinnustað sem álitin eru afleiðing vegna mengunar af efni sem getur valdið krabbameini eða stökkbreytingu.
Þegar starfsemi á vinnustað er lögð niður skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins eintak af skrá skv. 4. mgr. og skal það varðveita hana í samræmi við ákvæði þetta.
III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
13. gr.
Refsiákvæði.
Með brot gegn reglugerð þessari skal fara eftir ákvæðum 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
14. gr.
Kæruheimild.
Um kæruheimildir á grundvelli reglugerðar þessarar fer samkvæmt 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
IV. KAFLI
Gildistaka.
15. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 38. gr. og 3. mgr. 51. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/37/EB frá 29. apríl 2004 um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna áhrifa af krabbameinsvöldum eða stökkbreytivöldum á vinnustað, sem vísað er til í XVIII. viðauka samnings um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2005 og til innleiðingar á tilskipun 2014/27/ESB um breytingu á tilskipun ráðsins 92/58/EBE, 92/85/EBE, 94/33/EB og 98/24/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/37/EB í því skyni að laga þær að reglugerð (EB) nr. 1272/2008 um flokkun, merkingu og pökkun efna og efnablandna sem vísað er til í XVIII. viðauka samnings um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 239/2014 og til innleiðingar tilskipunar 2017/2398/ESB frá 12. desember 2017, um breytingu á tilskipun ráðsins 2004/37/EB, um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna áhrifa af krabbameinsvöldum eða stökkbreytivöldum á vinnustað, sem vísað er til í XVIII. viðauka samnings um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2009, öðlast þegar gildi. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 98/2002, um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna sem geta valdið krabbameini eða stökkbreytingu á vinnustöðum, með síðari breytingum.
Félagsmálaráðuneytinu, 29. maí 2020.
Ásmundur Einar Daðason.
Bjarnheiður Gautadóttir.
VIÐAUKAR (sjá PDF-skjal)
|