Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 790/2024

Nr. 790/2024 24. júní 2024

GJALDSKRÁ
Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.

1. gr.

Almennt.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra skal innheimta gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari.

 

2. gr.

Skilgreiningar.

  1. Dagvinnutími: Skilgreindur dagvinnutími samkvæmt kjarasamningum fjármála- og efna­hags­ráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélaga.
  2. Hefðbundið tímagjald: Tímagjald sem er innheimt vegna þjónustu sem veitt er á dagvinnu­tíma skv. 3. gr. gjaldskrárinnar.
  3. Aukið tímagjald: Tímagjald sem er innheimt vegna þjónustu sem veitt er utan dagvinnutíma skv. 3. gr. gjaldskrárinnar.
  4. Þjónusta: Þjónusta sem veitt er af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og er í samræmi við lögbundið hlutverk stofnunarinnar eins og það er tilgreint í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
  5. Undirbúningur og eftirvinnsla: Vinna starfsmanna Samskiptamiðstöðvar sem fer fram í tengslum við veitingu þjónustu.
  6. Endurgjaldslaus túlkaþjónusta: Túlkaþjónusta sem heyrir ekki undir túlkaþjónustu sem veitt er á grundvelli laga og er greidd af hlutaðeigandi ríkisaðilum eða sveitarfélögum.

 

3. gr.

Tímavinna.

Fyrir þjónustu starfsmanns Samskiptamiðstöðvar skal innheimta eftirfarandi:

     kr.
Hefðbundið tímagjald 10.500
Aukið tímagjald 15.000

Lágmarksgjald fyrir veitta þjónustu starfsmanna Samskiptamiðstöðvar er sem nemur einni klukku­stund.

Þegar þjónusta er veitt á dagvinnutíma skal innheimt hefðbundið tímagjald fyrir þá þjónustu. Þegar veitt þjónusta hefst á dagvinnutíma en lýkur utan dagvinnutíma skal innheimt hefðbundið tímagjald fyrir þá þjónustu sem fer fram á dagvinnutíma en aukið tímagjald fyrir veitta þjónustu utan dagvinnutíma. Þegar veitt þjónusta fer alfarið fram utan dagvinnutíma skal innheimta að lágmarki sem nemur þriggja klukkustunda auknu tímagjaldi.

Heimilt er að innheimta tímagjald fyrir sérstaka undirbúningsvinnu eða eftirvinnslu starfsmanna vegna veittrar þjónustu. Skal þá innheimt hefðbundið tímagjald fyrir hverja vinnustund vegna slíkrar vinnu.

 

4. gr.

Ferðakostnaður.

Þurfi starfsmenn Samskiptamiðstöðvar að ferðast innan höfuðborgarsvæðisins vegna veittrar þjónustu er stofnuninni heimilt að innheimta akstursgjald, 2.500 kr. fyrir hverja ferð.

Þurfi starfsmenn Samskiptamiðstöðvar að ferðast utan höfuðborgarsvæðisins eða erlendis, vegna útseldrar vinnu eru innheimt fargjöld starfsmanna samkvæmt reikningi og dagpeningar sam­kvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar fjármála- og efnahagsráðuneytis.

 

5. gr.

Námskeið.

Stofnuninni er heimilt að innheimta eftirfarandi námskeiðsgjöld fyrir námskeið hjá stofnuninni:

     kr.
Almenn táknmálsnámskeið á dagvinnutíma, einstaklingar (30 klst.) 39.750
Almenn táknmálsnámskeið utan dagvinnutíma, einstaklingar (30 klst.) 49.700

Fyrir táknmálsnámskeið af annarri lengd, á vegum stofnunarinnar, skal innheimta hlutfallslega miðað við stundafjölda.

Fyrir útseld námskeið er innheimt tímagjald í samræmi við 3. gr. gjaldskrárinnar fyrir vinnu­stundir starfsmanns (fjölda kennslustunda yfir ákveðið tímabil auk yfirferðar verkefna og prófa eða sérstaks undirbúnings þegar við á) auk ferðakostnaðar, þegar við á, í samræmi við 4. gr. gjald­skrár­innar. Samskiptamiðstöð er heimilt að semja fyrir fram um námskeiðsgjöld í samræmi við áætlað vinnuframlag og ferðir starfsmanns og umbeðinn tíma- og nemendafjölda.

Um táknmálskennslu á háskólastigi skal gera sérstakan samning milli Samskiptamiðstöðvar heyrnar­lausra og heyrnarskertra og viðkomandi háskólastofnunar um greiðslur fyrir vinnu við kennslu. Innheimta skal hefðbundið tímagjald skv. 3. gr. gjaldskrárinnar fyrir hverja vinnustund sam­kvæmt þessari málsgrein.

 

6. gr.

Námsefni.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er heimilt að selja námsefni og myndbönd sem stofnunin útbýr. Skal söluverð taka mið af raunkostnaði við framleiðslu þess.

 

7. gr.

Innheimta.

Eindagi gjalda skv. gjaldskrá þessari er 30 dögum eftir útgáfu reiknings. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga hafi gjöld ekki verið greidd á eindaga. Heimilt er að innheimta kostnað sem hlýst af inn­heimtu gjalda séu þau ekki greidd á eindaga.

 

8. gr.

Undanþágur frá gjaldskrá.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er heimilt að veita eftirtaldar undanþágur frá gjaldtöku:

  1. Táknmálsfólk og nánustu aðstandendur þess (sem vísað er til í 2. mgr. 3. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011) skal undanþegið greiðslu námskeiðs­gjalda á táknmálsnámskeiðum stofnunarinnar.
  2. Samskiptamiðstöð er heimilt er að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs og greiða ferðakostnað táknmálstúlks innan jafnt sem utan höfuðborgarsvæðisins vegna þess, á grundvelli sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert. Við afgreiðslu beiðna á grund­velli þessarar heimildar skal gætt jafnræðis milli notenda þjónustunnar, með tilliti til þeirrar fjár­veitingar sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma.

 

9. gr.

Gildistaka.

Gjaldskrá þessi sem sett er samkvæmt heimild í 6. gr. laga nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra öðlast þegar gildi, um leið fellur úr gildi gjaldskrá fyrir Samskipta­miðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 444/2013.

Gjaldskrána skal endurskoða árlega.

 

Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 24. júní 2024.

 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Sigrún Brynja Einarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 5. júlí 2024