Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 877/2024

Nr. 877/2024 4. júlí 2024

AUGLÝSING
um breytingu á reglum nr. 1523/2023, um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2024.

1. gr.

Kafli 2.3 Bifreiðahlunnindi breytist og verður svohljóðandi:

 

2.3 Bifreiðahlunnindi.

Almennt.

Færa skal starfsmanni til tekna umráð hans yfir bifreið launagreiðanda. Á sama hátt skal færa einstaklingi til tekna umráð yfir bifreið í eigu rekstraraðila þótt ekki sé um launagreiðslur að ræða að öðru leyti.

Hafi launagreiðandi bifreið á leigu eða til láns og láti starfsmanni hana í té til umráða skulu þau metin starfsmanninum til tekna á sama hátt og ef bifreiðin væri í eigu launagreiðandans, sbr. það sem hér fer á eftir. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort bifreið er tekin á t.d. rekstrar- eða fjármögn­unar­leigu, eða samkvæmt annars konar greiðslu-/afnotafyrirkomulagi, eða á leigu frá bílaleigu eða öðrum aðilum. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða bensín- eða díselbifreið, eða bifreið sem notar aðra orkugjafa.

Greiði starfsmaður launagreiðanda sínum sannanlega fyrir afnot bifreiðarinnar koma slíkar greiðslur til frádráttar tekjumatinu.

Ekki skal telja til skattskyldra bifreiðahlunninda starfsmanna umráð og notkun á bifreiðum sem eru með sérútbúnu öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði og sem jafnan er ekið af sérstökum bifreiða­stjóra. 

Full og ótakmörkuð umráð.

Láti launagreiðandi starfsmanni sínum í té fólksbifreið, þ.m.t. skutbifreið, jeppabifreið, eða aðra bifreið sem hægt er að hafa sambærileg not af, til fullra umráða skal meta þau starfsmanni til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni.

Hafi starfsmaður fleiri en eina bifreið frá launagreiðanda sínum til fullra eða ótakmark­aðra umráða samtímis fyrir sig eða fjölskyldu sína skal reikna starfs­mann­inum til hlunninda umráð hans yfir hverri bifreið fyrir sig.

Eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnar­menn félaga teljast ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólks­bif­reið­um sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota, þ.m.t. skutbifreiðum, jeppa­bifreiðum, eða öðrum þeim bifreiðum sem hægt er að hafa sambærileg not af. Bifreiðahlunnindi skal því ætíð reikna miðað við full og ótakmörkuð afnot hjá þessum einstaklingum fyrir þau tímabil á tekjuárinu sem þeir hafa umráð yfir bifreiðum launagreiðanda til einkanota, hvort sem þar er um að ræða eina eða fleiri bifreiðar.

Útreikningur bifreiðahlunninda.

Við ákvörðun á fjárhæð fullra bifreiðahlunninda skal miða við aldur og verð bifreiðar, að meðtöldum virðisaukaskatti. Jafnframt þarf að taka tillit til þess hvort bifreið er í eigu launagreið­anda eða hvort hann hefur hana t.d. á rekstrarleigu.

Bifreið í eigu launagreiðanda - keypt 2014 eða síðar.

Ársumráð slíkrar bifreiðar skulu miðast við:

  1. Vegna bifreiða sem knúnar eru með jarðefnaeldsneyti 28% af upphaflegu kaupverði bif­reiðar­innar samkvæmt eignaskrá launagreiðandans eða þess sem innir hlunnindin af hendi.
  2. Vegna bifreiða sem knúnar eru með rafmagni, vetni eða metan 25% af upphaflegu kaup­verði bifreiðarinnar samkvæmt eignaskrá launagreiðandans eða þess sem innir hlunnindin af hendi á tímabilinu 1. janúar til og með 30. júní 2024 en 20% á tímabilinu 1. júlí til og með 31. desember 2024.

Heimilt er að færa verð bifreiðarinnar niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir kaupár en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á bifreiðahlunnindum verði aldrei lægra en 50% af kaupverði hennar.

Dæmi:

Kaupverð bifreiðar á árinu 2023 var 10.000.000 kr. Bifreiðin er knúin með jarðefnaeldsneyti. Þegar bifreiðahlunnindi fyrir tekjuárið 2024 eru reiknuð er heimilt að færa kaupverðið niður um 10%. Stofn til útreiknings verður því 9.000.000 kr. á tekjuárinu 2024 og tekjur af hlunnindum miðað við heilt ár verða 28% af þeirri fjárhæð eða 2.520.000 kr. sem svarar til 210.000 kr. á mánuði. Ef um er að ræða bifreið sem knúin er með rafmagni skal reikna hlunnindin 25% af kaupverði og þau verða því í þessu dæmi 2.250.000 kr. miðað við heilt ár eða 187.500 kr. á mánuði frá janúar til og með júní. Frá og með júlí til og með desember reiknast hlunnindin 20% sem svarar til 1.800.000 kr. miðað við heilt ár, eða 150.000 kr. á mánuði.

Bifreið í eigu launagreiðanda – keypt 2013 eða fyrr.

Ársumráð slíkrar bifreiðar skulu miðast við 28% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint í bæklingnum Bifreiðaskrá, RSK 6.03, fyrir það ár sem bifreiðin var tekin í notkun. Bifreiðaskrár er að finna á upplýsingavef Skattsins, skatturinn.is. Sé bifreiðin ekki í skránni skal miða við verð á sambærilegum bifreiðum. Heimilt er að færa verð bifreiðarinnar niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir kaupár en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á bifreiðahlunnindum verði aldrei lægra en 50% af verði hennar.

Dæmi:

Bifreið var tekin í notkun á árinu 2013. Verð hennar samkvæmt bifreiðaskrá 2013 var 8.000.000 kr. Þegar bifreiðahlunnindi fyrir tekjuárið 2024 eru reiknuð er heimilt að færa verðið niður um 10% á ári frá og með árinu 2014 til og með ársins 2024. Niðurfærslan reiknast alltaf af því verði sem útreikningur bifreiðahlunninda var byggður á árið áður, en þó aldrei hærra hlutfall en 50%. Í þessu dæmi verður niðurfærslan því 50% af upphaflega útreikningsverðinu. Stofn til útreiknings verður þannig 4.000.000 kr. og tekjur af hlunnindum miðað við heilt ár verða 28% af þeirri fjárhæð eða 1.120.000 kr. sem svarar til 93.333 kr. á mánuði.

Bifreið sem er ekki í eigu launagreiðanda.

Ársumráð slíkrar bifreiðar sem knúin er með jarðefnaeldsneyti skulu miðast við 28%, en 25% á tímabilinu janúar til og með júní og 20% á tímabilinu júlí til og með desember ef um er að ræða bifreið sem knúin er með rafmagni, vetni eða metan, af verði bifreiðarinnar samkvæmt verðlista viðkomandi bifreiðaumboðs þegar launagreiðandi fær umráð yfir bifreiðinni, t.d. þann dag sem bi­freið er tekin á leigu, eða viðmiðunarverð leigusalans á bifreiðinni þegar leigufjárhæð hvers árs/mán­aðar er ákveðin. Heimilt er að færa verð bifreiðarinnar niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir að launagreiðandi fær umráð yfir henni en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á bifreiðahlunnindum verði aldrei lægra en 50% af verði hennar.

Dæmi:

Bifreið var tekin á leigu á árinu 2019. Verð hennar samkvæmt verðlista bifreiðaumboðsins þegar gengið er frá leigusamningi var 10.000.000 kr. Þegar bifreiðahlunnindi fyrir tekjuárið 2024 eru reiknuð er heimilt að færa verðið niður um 10% hvert áranna 2020, 2021, 2022, 2023 og 2024 eða u.þ.b. 41% samtals. Stofn til útreiknings verður því 5.904.900 kr. tekjuárið 2024 og tekjur af hlunn­indum miðað við heilt ár verða 28% af þeirri fjárhæð eða 1.653.372 kr. sem svarar til 137.781 kr. á mánuði. Í dæminu er miðað við bifreið sem knúin er með jarðefnaeldsneyti. Hlutfallið breytist úr 28% í 25% á tímabilinu janúar til og með júní og 20% á tímabilinu júlí til og með desember ef um er að ræða bifreið sem knúin er með rafmagni, vetni eða metan.

Ef starfsmaður greiðir sjálfur rekstrarkostnað bifreiðar.

Greiði starfsmaður sjálfur rekstrarkostnað bifreiðar sem hann hefur til umráða skal lækka hlutf­all hlunninda um:

  1. 6% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint að framan þegar um er að ræða bifreið sem knúin er með jarðefnaeldsneyti.
  2. 3% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint að framan þegar um er að ræða bifreið sem knúin er með rafmagni, vetni eða metan.

Til rekstrarkostnaðar í þessu sambandi teljast ekki viðgerðir, varahlutir, hjólbarðar og trygg­ingar. Með rekstrarkostnaði í þessu sambandi er átt við eldsneytiskostnað, þ.m.t. rafmagn, smurn­ingu, þrif o.þ.h.

Ef um er að ræða bifreið sem eingöngu notar rafmagn sem orkugjafa og starfsmaður hleður bifreiðina á eigin kostnað, en annar rekstrarkostnaður er greiddur af launagreiðanda, er heimilt að lækka hlutfall hlunninda þannig að miðað sé við 24% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint að framan í stað 25% á tímabilinu 1. janúar 2024 til og með 30. júní 2024 en 19% á tímabilinu 1. júlí til og með 31. desember 2024 í stað 20%.

Hlunnindi fyrir hluta úr ári.

Mánaðarleg hlunnindi teljast 1/12 af hlunnindum reiknuðum eins og að framan greinir fyrir hvern byrjaðan mánuð og skal við það miðað ef umráðin vara hluta úr ári.

Dæmi:

Maður fær bifreið til fullra umráða frá launagreiðanda sínum 15. janúar á staðgreiðsluári til 10 júní s.á. Bifreiðahlunnindi reiknast í þessum dæmi í fimm fulla mánuði. Upphafstíminn er 15. janúar og fimmti mánuðurinn hefst 16. maí.

Bifreið í sameign starfsmanns og launagreiðanda.

Sé bifreið í sameign starfsmanns og launagreiðanda skal, í samræmi við framanritað, telja starfsmanni til hlunninda umráð þess hluta bifreiðarinnar sem er í eigu launagreiðanda.

Takmörkuð afnot.

Hafi starfsmaður haft afnot af bifreið launagreiðanda síns og honum er einungis heimilt að nota hana utan vinnutíma til aksturs milli heimilis og vinnustaðar og til einstakra tilfallandi afnota telst hann hafa takmörkuð afnot af bifreiðinni, enda sé hún að öðru leyti notuð í daglegum rekstri launagreiðanda. Takmörkuð afnot skulu metin til tekna miðað við 141kr. á hvern ekinn kílómetra. Gögn um takmörkuð afnot skulu greinilega færð og vera aðgengileg skattyfirvöldum hvort sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá starfsmanni. Sé um frekari afnot að ræða telst starfsmaður hafa full umráð bifreiðar eins og greint er frá hér að framan.

Þegar bifreið launagreiðanda er notuð til að koma starfsmönnum milli heimilis og vinnustaðar utan þess tíma sem almenningssamgöngur eru fyrir hendi og kjarasamningar kveða á um slíkt, skal ekki telja þann akstur til skattskyldra tekna starfsmanna. Við þessar aðstæður er heimilt að launa­maður nýti bifreið þessa til aksturs milli heimilis síns og vinnustaðar, enda sé honum jafnframt gert að sækja/skila öðrum starfsmönnum sama launagreiðanda til og frá heimilum þeirra, við upphaf eða lok vinnudags.

 

Reykjavík, 4. júlí 2024.

 

Snorri Olsen ríkisskattstjóri.


B deild - Útgáfud.: 18. júlí 2024