Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1150/2018

Nr. 1150/2018 28. nóvember 2018

REGLUGERÐ
um sjálfstætt rekna grunnskóla.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um framkvæmd ákvæða grunnskólalaga, nr. 91/2008, sem fjalla um sjálf­stætt rekna grunnskóla skv. 43. gr. Með reglugerð þessari er kveðið á um:

  1. gerð þjónustusamnings og upplýsingar sem sveitarfélag skal afla sér um rekstraraðila,
  2. form og efni þjónustusamnings,
  3. umsókn til Menntamálastofnunar um staðfestingu þjónustusamnings,
  4. skilyrði fyrir staðfestingu Menntamálastofnunar,
  5. staðfestingarferli Menntamálastofnunar,
  6. rétt til framlags úr sveitarsjóði,
  7. upphæð framlags úr sveitarsjóði,
  8. upplýsingagjöf og eftirlit með starfsemi,
  9. sérstakar skyldur samningsaðila þegar nemendur eiga ekki val um innritun,
  10. afturköllun staðfestingar Menntamálastofnunar á þjónustusamningi og
  11. riftun á þjónustusamningi vegna vanefnda á ákvæðum hans.

Sveitarfélög bera ábyrgð á skólastarfinu og breytir engu í því efni þótt samið hafið verið við sjálf­stætt rekna grunnskóla um framkvæmd á einstökum þáttum skólastarfs eða skólastarfi í heild með þjónustusamningi.

2. gr.

Gerð þjónustusamnings og upplýsingar sem sveitarfélag
skal afla sér um rekstraraðila.

Lögaðili sem hyggst stofna sjálfstætt rekinn grunnskóla skal óska eftir þjónustusamningi við hlut­að­eigandi sveitarstjórn.

Áður en sveitarfélag gerir samning við rekstraraðila sjálfstætt rekins grunnskóla skal liggja fyrir að um sé að ræða lögaðila sem starfar í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Liggja þarf fyrir að tilgangur starfsemi lögaðilans sé að reka grunnskóla í samræmi við grunnskólalög. Auk þess getur tilgangur með starfsemi viðkomandi lögaðila falist í rekstri annarra viðurkenndra menntastofnana og þarf þá að liggja fyrir í hverju slík starfsemi felst.

Jafnframt þarf að liggja fyrir að yfir lögaðilanum sé stjórn sem er ábyrg fyrir rekstri skólans, þótt um fjárhagslegar ábyrgðir stjórnarmanna fari eftir almennum reglum sem gilda um það rekstrar­form sem valið hefur verið. Stjórnin skal vera bær aðili til að vera í forsvari fyrir lögaðilann og gera bindandi samninga í hans nafni. 

3. gr.

Form og efni þjónustusamnings.

Í þjónustusamningi skulu m.a. koma fram atriði er varða innritun allra nemenda og áherslur í starfsemi skólans og fjárhagsleg samskipti. Í samningi skal einnig kveða á um fyrirkomulag skóla­þjónustu og skólaaksturs, ef við á. Í samningi skal koma fram hvort rekstraraðili hafi heimild til gjaldtöku af foreldrum barns og hvaða skilyrðum hún sé háð. Kveða skal á um atriði sem varða gildi samnings, þar á meðal um reynslutíma, uppsagnarfrest og mat og eftirlit sveitarfélags með starfsemi skólans og upplýsingagjöf um skólahaldið og réttindi og skyldur samningsaðila til að tryggja lögbundna þjónustu við nemendur. Loks skal í þjónustusamningi kveðið á um meðferð rekstrar­afgangs af starfsemi skóla sem rekja má til opinberra fjárveitinga. Nýta skal slíkan rekstrar­afgang til að efla skólastarf viðkomandi skóla.

4. gr.

Umsókn til Menntamálastofnunar um staðfestingu þjónustusamnings.

Umsókn sveitarfélags um staðfestingu þjónustusamnings sveitarfélags við rekstraraðila samkvæmt reglugerð þessari skal berast Menntamálastofnun eigi síðar en sex mánuðum áður en formlegt skólastarf hefst. Sé um endurnýjun þjónustusamnings að ræða gilda framangreindir tímafrestir ekki.

Í umsókn skulu auk þjónustusamnings fylgja gögn og upplýsingar um eftirfarandi:

  1. Upplýsingar um eiganda og ábyrgðaraðila skólans.
  2. Upplýsingar um rekstrarform skólans, fjármögnun hans og rekstraráætlun.
  3. Gögn sem lýsa markmiðum, innihaldi og skipulagi náms við skólann í samræmi við lög um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla, þ.m.t. skólanámskrá, starfsáætlun viðkomandi grunn­skóla, skipulagsskrá eða samþykktir um skólann.
  4. Gögn um húsnæði skólans og lýsing á starfsaðstöðu, sbr. reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða.
  5. Lýsing á stjórn og skipulagi skólans og með hvaða hætti staðið verði að stofnun og starf­rækslu skólaráðs.
  6. Upplýsingar um væntanlega stjórnendur skólans.
  7. Yfirlýsing ábyrgðaraðila um að sveitarstjórn, Menntamálastofnun og mennta- og menn­ingar­mála­ráðuneyti verði veittar upplýsingar um skólahald og starfsemi skólans, og breytingar sem á því kunna að verða, á hverjum tíma.
  8. Staðfest afrit af starfsleyfi heilbrigðiseftirlits sveitarfélags og vottorð bruna- og eldvarnar­eftirlits á vegum sveitarfélaga og vinnueftirlits þarf að berast Menntamálastofnun mánuði fyrir áætlaða skólabyrjun.

5. gr.

Skilyrði fyrir staðfestingu Menntamálastofnunar.

Menntamálastofnun annast staðfestingu á þjónustusamningum fyrir hönd ráðherra.

Áður en kemur til staðfestingar Menntamálastofnunar á þjónustusamningi þarf að liggja fyrir að öllum lögbundnum skilyrðum sé fullnægt, þ.e. að samningur sé í samræmi við ákvæði grunn­skóla­laga, reglugerða sem settar hafa verið með stoð í lögunum og aðalnámskrá grunnskóla. Gildandi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og fram­halds­skóla, gilda einnig um grunnskóla sem hlotið hafa staðfestingu Menntamálastofnunar sam­kvæmt lögum um grunnskóla og reglugerð þessari.

6. gr.

Staðfestingarferli Menntamálastofnunar.

Menntamálastofnun skal staðfesta þjónustusamning þegar fyrir liggur að öllum lögbundnum skil­yrðum sé fullnægt. Ekki má hefja skólastarf fyrr en sú staðfesting liggur fyrir.

Menntamálastofnun skal taka við umsóknum sveitarfélaga um staðfestingu þjónustusamninga við rekstraraðila sjálfstætt rekinna grunnskóla.

Menntamálastofnun er heimilt að krefjast þess að umsókn sé skilað á sérstöku eyðublaði sem stofnunin lætur sveitarfélögum í té. Stofnuninni er einnig heimilt að krefjast þess að gögnum sé skilað á rafrænu formi sem stofnunin ákveður. Yfirfara skal umsóknir um staðfestingu þjón­ustu­samninga og fyrirliggjandi gögn, kalla eftir viðbótargögnum og leita umsagnar eftir því sem við á og miðla upplýsingum og leiðbeina umsóknaraðilum um gildandi lög, reglugerðir og aðal­námskrár í tengslum við ofangreindar umsóknir og setja leiðbeiningar á vef stofnunarinnar.

Verði skólanum fundið annað húsnæði eða árgöngum fjölgað skal rekstraraðili fyrst leita afstöðu viðkomandi sveitarfélags gagnvart slíkum breytingum sem leitar staðfestingar Menntamálastofnunar.

Hætti aðili rekstri tímabundið eða hefjist starfsemi skólans ekki innan tveggja ára frá staðfestingu þjónustusamnings skal hann tilkynna það til viðkomandi sveitarfélags og Menntamála­stofn­unar sem er heimilt að fella staðfestinguna úr gildi.

Birta skal á vef stofnunarinnar yfirlit yfir alla grunnskóla sem hlotið hafa staðfestingu skv. reglugerð þessari.

7. gr.

Réttur til framlags úr sveitarsjóði.

Grunnskólar sem eru reknir af einkaaðila á grundvelli laga um grunnskóla og þjónustusamnings við sveitarfélag, sem hlotið hefur staðfestingu Menntamálastofnunar, eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem eiga lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar og vegna barna sem ráðstafað hefur verið í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitar­félaginu. Sama gildir um grunnskóla sem þegar eru starfandi á grundvelli viðurkenningar ráðherra, en sveitarfélagi er þó heimilt í þjónustusamningi að takmarka framlag úr sveitarsjóði við hámarks­fjölda nemenda.

Í þeim tilvikum þegar barn sækir sjálfstætt rekinn grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags skulu lögheimilissveitarfélag og viðtökusveitarfélag gera með sér samning á grundvelli 5. gr. grunn­skóla­laga áður en barn er innritað í viðkomandi skóla. Viðtökusveitarfélag hefur þá sömu skyldur gagnvart skólavist barnsins og ætti það lögheimili þar. Um framlag úr sveitarsjóði í slíkum tilvikum fer með sama hætti og vegna annarra barna sem sækja skóla sem reknir eru af sveitar­félögum utan lögheimilissveitarfélags.

Grunnskólar, sem eigi eru reknir af sveitarfélögum en njóta framlags úr sveitarsjóði, skulu senda starfsáætlun, þar með taldar upplýsingar um kennslu og fjölda nemenda á næsta fjárhagsári til sveitarstjórnar eigi síðar en 1. maí ár hvert nema annað sé tekið fram í reglum sveitarfélags. Jafnframt skulu þeir grunnskólar sem gert hafa þjónustusamning við viðkomandi sveitarfélag senda því ársskýrslu ásamt endurskoðuðum ársreikningi.

8. gr.

Upphæð framlags úr sveitarsjóði.

Framlag skv. 8. gr. skal nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.

Útreikningur Hagstofu Íslands skv. 1. mgr. vegna komandi skólaárs skal liggja fyrir í september ár hvert. Útreikningur skal byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verðlagsbreytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunnskóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunnskólanna.

Hagstofa Íslands tekur saman 90 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur og birtir fimmta dag hvers mánaðar, á tímabilinu frá október og fram til ágúst, framreiknað framlag skv. 1. mgr. Við framreikning þess skal tekið tillit til verðlagsbreytinga sem orðið hafa frá ákvörðun framlags skv. 1. mgr., þ.e. almennra launahækkana starfsmanna grunnskóla og breytinga á vísitölu neysluverðs, miðað við vægi hvors þáttar í rekstrarkostnaði grunnskóla.

Sveitarfélög greiða framlög reglulega eftir því sem segir í þjónustusamningi. Greiðslurnar taka breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir útreikningum Hagstofu Íslands. Í þjónustusamningi sem sveitarfélag gerir við rekstraraðila sjálfstætt rekins grunnskóla er heimilt að semja sérstaklega um verðlagsbætur umfram útreikning Hagstofunnar skv. 3. mgr., svo sem um að sveitarfélag reikni breytingar á framlagi úr sveitarsjóði mánaðarlega á grundvelli launataflna í kjarasamningi grunn­skóla­kennara.

Sveitarfélögum er heimilt að greiða sérstakt stofnframlag til sjálfstætt rekinna grunnskóla. Slík framlög verða eingöngu nýtt í þágu skólastarfsins.

Óheimilt er að taka fjármuni sem rekja má til opinberra fjárveitinga í formi arðgreiðslu eða öðrum fjárhagslegum ávinningi fyrir eigendur sem ekki tengist rekstri og skólastarfi. Þessi takmörkun á einnig við ef hinn sjálfstætt rekni skóli er seldur.

9. gr.

Upplýsingagjöf og eftirlit með starfsemi.

Ákvæði grunnskólalaga um innra og ytra mat og upplýsingaskyldu sveitarfélaga taka til grunnskóla sem eru með staðfestan þjónustusamning samkvæmt reglugerð þessari, með sama hætti og til opinberra grunnskóla. Það sama á við um ákvæði reglugerðar um innra og ytra mat og upp­lýs­inga­skyldu sveitarstjórna um skólahald. Rekstraraðila sjálfstætt rekins grunnskóla er skylt að veita mennta­yfirvöldum ríkis og sveitarfélaga upplýsingar um rekstur og starfsemi skólans í samræmi við þjón­ustu­samning viðkomandi skóla við sveitarfélag þegar þess er óskað eða eins fljótt og kostur er.

Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs í sjálfstætt reknum grunnskólum sam­kvæmt lögum um grunnskóla og hlíta þeir skólar sama eftirliti og grunnskólar sem reknir eru af sveitar­félagi.

Grunnskólar sem hlotið hafa staðfestingu samkvæmt reglugerð þessari hlíta einnig sama mati og eftirliti af hálfu ráðuneytis og Menntamála­stofnunar og grunnskólar sem reknir eru af sveitar­félögum.

10. gr.

Sérstakar skyldur samningsaðila þegar nemendur eiga ekki val um innritun.

Sérstakar skyldur sveitarfélags eiga við þegar sveitarfélag semur við aðila um grunnskólahald sem felur í sér að hann tekur að sér rekstur skóla þar sem börn eiga ekki val um innritun. Skal sveitarfélag þannig tryggja börnum á skólaskyldualdri aðgang að gjaldfrjálsum grunnskóla.

Sveitarfélög skulu kynna formlega fyrir íbúum fyrirhugaða ákvörðun um útvistun á rekstri grunn­skóla og veita þeim upplýsingar um markmið útvistunar, áhrif og áætlanir um þjónustu og fjár­hag sveitarfélags til skemmri og lengri tíma.

Sveitarfélög skulu tryggja nemendum í sjálfstætt reknum grunnskólum, sem ekki eiga val um innritun í aðra grunnskóla, öll sömu réttindi og börn í skólum sveitarfélaga njóta. Sveitarfélaginu ber í þessum tilvikum að tryggja sjálfstætt reknum skóla viðeigandi fjárveitingar umfram það sem leiðir af reiknireglunni í 8. gr. og tryggja möguleika á að taka starfsemi grunnskólans yfir ef rekstraraðili þarf að hætta rekstri.

11. gr.

Afturköllun staðfestingar Menntamálastofnunar á þjónustusamningi.

Komi í ljós eða liggi fyrir rökstuddur grunur um að starfsemi grunnskóla, sem hlotið hefur stað­festingu samkvæmt reglugerð þessari, sé ekki í samræmi við gildandi lög og reglugerðir sem um starfsemina gilda, eða undanþágur sem veittar hafa verið, hvílir skylda á sveitarfélagi sem gert hefur þjón­ustu­samning við rekstraraðila að rannsaka slíkar ábendingar og eftir atvikum tilkynna til Mennta­mála­stofnunar.

Fái Menntamálastofnun upplýsingar með öðrum hætti um verulega annmarka á starfsemi sjálfstætt rekinna grunnskóla skal stofnunin kanna hjá viðkomandi sveitarfélagi og rekstraraðila hvort upp­lýsingarnar séu á rökum reistar.

Ef athugun sveitarfélags eða eftir atvikum Menntamálastofnunar leiðir í ljós að verulegir annmarkar eru á starfsemi sjálfstætt rekins grunnskóla skal rekstraraðila gefinn kostur á að bæta úr ann­mörkum innan tilgreindra tímamarka. Hafi ekki verið bætt úr þeim annmörkum innan veitts tíma­frests skal sveitarfélag tilkynna um slíkt til Menntamálastofnunar.

Reynast verulegir annmarkar vera enn til staðar hefur Menntamálastofnun heimild til að afturkalla staðfestingu á þjónustusamningi viðkomandi grunnskóla.

Við meðferð mála samkvæmt þessari grein skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga.

12. gr.

Riftun á þjónustusamningi vegna vanefnda.

Þjónustusamningar sem gerðir eru samkvæmt reglugerð þessari eru uppsegjanlegir með eins árs uppsagnarfresti.

Sveitarfélögum og rekstraraðilum grunnskóla samkvæmt reglugerð þessari er skylt að virða þjón­ustu­samninginn og vinna samkvæmt honum. Komi til vanefnda af hálfu annars hvors aðila samn­ings skal hinum aðilanum heimilt að grípa til viðeigandi vanefndarúrræða, allt frá því að gera athugasemd vegna vanefndarinnar og skora á hinn aðilann að bæta úr eða grípa til riftunar samn­ings að undangengnum hæfilegum fresti til úrbóta samkvæmt mati hverju sinni, sé um veru­lega vanefnd að ræða.

Við meðferð mála samkvæmt þessari grein skal sveitarfélag gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upplýsingaskyldu.

13. gr.

Kæruheimildir.

Sveitarfélög eða sjálfstætt reknir grunnskólar geta kært málsmeðferð eða afgreiðslu Mennta­mála­stofnunar til ráðuneytis og skal farið með slíkar kærur samkvæmt stjórnsýslulögum.

14. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 43. gr. f. laga um grunnskóla nr. 91/2008, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 612/2018 um breytingu á reglugerð um ákvörðun fram­laga úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla, nr. 1270/2016.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 28. nóvember 2018.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Karitas H. Gunnarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 17. desember 2018