Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1330/2021

Nr. 1330/2021 18. nóvember 2021

REGLUR
um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig tæknifræðing.

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Verkfræðingafélag Íslands, félag verkfræðinga og tæknifræðinga (hér eftir: VFÍ), hafa komið sér saman um að miða við eftirfarandi reglur við mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig tæknifræðing, sbr. 1.-3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

 

1. gr.

Reglur þessar gilda um mat á umsóknum um leyfi til að nota starfsheitið tæknifræðingur. VFÍ er umsagnaraðili um hvort nám umsækjanda sé fullnaðarmenntun í tæknifræði og annast menntamála­nefnd VFÍ (hér eftir: MVFÍ) gerð matsins fyrir hönd félagsins.

 

2. gr.

Sækja skal um leyfi til að kalla sig tæknifræðing til þess ráðherra sem fer með lög um lög­gildingu starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996. Með umsókninni skulu fylgja afrit af prófskírteini og skírteinisviðauka (eða sambærilegt yfirlit yfir námsferil, einingar og einkunnir) frá viðkomandi skóla.

Ráðherra sendir umsóknir um leyfi til að kalla sig tæknifræðing til umsagnar VFÍ. Umsækjanda er einnig heimilt að senda umsókn um leyfi beint til VFÍ til umsagnar.

 

3. gr.

MVFÍ fjallar um hverja þá umsókn sem henni berst og sendir ráðherra umsögn sína. MVFÍ skal leitast við að svara erindum svo skjótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að erindi, ásamt fullnægjandi fylgigögnum berast. Séu fylgigögn ófullnægjandi skal nefndin upplýsa ráðherra um að umsókn sé ábótavant og útskýra hvaða gögn vanti.

 

4. gr.

MVFÍ leggur hlutlaust mat á hverja þá umsókn sem henni berst. Mat MVFÍ byggist á kröfum félagsins til menntunar umsækjanda. MVFÍ skal mæla með því að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig tæknifræðing ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

Lokið er með prófgráðu námi í tæknifræði við viðurkenndan háskóla eða tækniháskóla sem MVFÍ telur færan um að veita fullnægjandi menntun á viðkomandi sérsviði. Prófgráðan skal vera lokapróf og að námslengd og samsetningu vera sambærileg BSc/BEng prófi í tæknifræði að lág­marki 210 ECTS-einingar. Námið skal vera heildstætt með lokaverkefni í tæknifræði sem er með hagnýtum áherslum og þess eðlis að það samþætti námsgreinar fyrri námsára.

Nánar tiltekið skal prófgráðan fullnægja eftirfarandi lágmarkskröfum VFÍ um samsetningu:

a) Raungreinar: Hér er fyrst og fremst átt við stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði og tölfræði. Að lágmarki 30 ECTS
b) Tæknifræðilegar undirstöðugreinar eru t.a.m.: Kjarnagreinar námslínu s.s. forritun, varmafræði, straumfræði, efnisfræði, sveiflufræði, rafmagnsfræði, rafeindatækni, aflfræði, burðarþolsfræði, aðgerðagreining, teiknifræði, aðferðafræði o.fl. Að lágmarki 40 ECTS
c) Tæknifræðigreinar eru námsgreinar þar sem tæknilegri hönnun og/eða greiningu er beitt við úrlausn verkefna t.d. burðarvirki, véltæknilega hönnun, raforkuvirki, smáspennuvirki o.þ.h. Að lágmarki 70 ECTS

 

Þessu til viðbótar skulu vera að lágmarki 70 ECTS, sem afla má á eftirfarandi hátt:

Í fyrsta lagi lokaverkefni í tæknifræði með hagnýtum áherslum og þess eðlis að það samþætti námsgreinar fyrri námsára. Að jafnaði skal lokaverkefni vera a.m.k. 20 ECTS, en að lágmarki 15 ECTS ef auk þess eru einingar í stuðningsgreinum við lokaverkefnið.

Í öðru lagi eru valgreinar, sem almennt eru í tæknifræðigreinum, en geta þó einnig verið í raungreinum eða í tæknifræðilegum undirstöðugreinum. Þessar viðbótareiningar geta einnig verið í annars konar námsgreinum að frjálsu vali, að því tilskildu að prófgráðan í heild geti talist vera heilsteypt nám.

Í þriðja lagi er heimilt að meta til eininga starfsnám sem tengist viðkomandi sérsviði tækni­fræðinnar, að hámarki 30 ECTS. Starfsnámið skal vera skipulagt af skólanum eða í nánu samráði við skólann.

Hér að neðan er listi með námstitlum, sem almennt teljast fullnægja skilyrðum 4. gr. reglnanna, ef allt námið hefur verið stundað við háskóla eða tækniháskóla, sem MVFÍ telur færan um að veita fullnægjandi menntun á viðkomandi sérsviði. Listinn er einungis birtur til leiðbeiningar. Í öllum tilvikum þarf námið að fullnægja þeim kröfum sem settar eru fram í 4. gr. reglnanna.

Land Námstitill1) Skólar/Námsstofnun, ekki tæmandi listi
Ísland BSc/BS próf í tæknifræði Skólar: Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands
Danmörk Diplomingeniør/Bache­lor of Engineering (B.Eng.) Skólar: DTU, Danmarks Tekniske Universitet (Lyngby, Ballerup) VIA Universitet (Århus, Horsens, Randers), AU, Århus Universitet, AAU, Aalborg Universitet, SDU, Syddansk Universitet (Odense, Sønderborg)
Pólland Inzynier Skólar: Cracow, Gdansk, Kielche, Poznan, Szczecin, Warsaw og Wroclaw Universities of Technology
Þýskaland Bachelor of Engineering Áður Diplom-Ingenieur (FH) Próf frá University of Applied Sciences
Áður Fachhochschule (FH)
1) Dæmi eru um að sumir þessara námstitla uppfylli ekki skilyrði 4. gr. reglnanna í öllum tilvikum. Því þarf alltaf að skoða sérstaklega hvort námið fullnægi þeim kröfum sem settar eru fram í 4. gr. reglnanna.

 

5. gr.

Varðandi mat á skólum í Evrópu styðst MVFÍ aðallega við mat FEANI (European Federation of National Engineering Associations). FEANI birtir á netinu lista yfir viðurkenndar námsbrautir í verkfræði og tæknifræði í aðildarlöndum samtakanna (35 núverandi og fyrrverandi aðildarlönd 2021). Listinn heitir European Engineering Education Database (EEED) og er aðgengilegur á heimasíðu FEANI: www.feani.org.

Varðandi mat á skólum í Bandaríkjunum, styðst MVFÍ aðallega við gagnabanka ABET (Accreditation Board for Engineering and Technology) um viðurkenndar námsbrautir í tæknifræði og verkfræði við skóla í Bandaríkjunum. Í öðrum löndum hefur MVFÍ gjarnan leitað til verkfræð­inga­félaga og tæknifræðingafélaga viðkomandi landa. Yfirleitt eru námsbrautir í tæknifræði/verk­fræði vottaðar eða viðurkenndar af þessum félögum. Dæmi: Kanada: Canadian Engineering Accreditation Board. Ástralía: Engineers Australia, Program Accreditation. Nýja-Sjáland: Engineers New-Zealand, Accreditation of Engineering Education Programs.

ECTS-einingar (European Credit Transfer and Accumulation System, ECTS) eru skilgreindar á eftirfarandi hátt: ECTS byggir á þeirri forsendu að 60 einingar samsvari vinnuálagi námsmanns í fullu námi á einu skólaári. Vinnuálag námsmanns í fullu námi á námsbraut við evrópskan háskóla samsvarar í flestum tilvikum u.þ.b. 1.500-1.800 vinnustundum á ári, og þá má reikna með að ein ECTS-eining samsvari um 25-30 vinnustundum.

 

6. gr.

MVFÍ sendir umsögn sína til framkvæmdastjóra VFÍ, sem skal leggja umsögnina fyrir stjórn VFÍ. Ef umsögn MVFÍ er jákvæð ber stjórn VFÍ að mæla með því við ráðherra að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig tæknifræðing. Ef umsögn MVFÍ er neikvæð ber stjórn VFÍ að mæla gegn því að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig tæknifræðing og skal rökstyðja þá ákvörðun.

MVFÍ og stjórn og starfsmenn VFÍ skulu gæta trúnaðar um umsagnir og öll umsóknargögn.

Framkvæmdastjóri VFÍ tilkynnir ráðherra hverja afgreiðslu umsóknin hefur hlotið.

 

7. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar voru á stjórnarfundi VFÍ 11. nóvember 2021, eru settar á grund­velli 3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunar­greinum og öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.

 

8. gr.

Þeir nemendur sem innritast í tæknifræðinám fyrir 31. desember 2021 og stunda nám sitt samfellt eiga þess kost að verða metnir á grundvelli þeirra reglna sem í gildi voru við innritun.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 18. nóvember 2021.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Hreinn Hrafnkelsson.


B deild - Útgáfud.: 26. nóvember 2021