Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 3/2022

Nr. 3/2022 7. janúar 2022

REGLUGERÐ
um (4.) breytingu á reglugerð nr. 1240/2021, um sóttkví og einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna COVID-19.

1. gr. 

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglugerðarinnar:

  1. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. bætist við nýr málsliður, svohljóðandi: Í sóttkví samkvæmt reglu­gerð þessari felst takmörkun á athafnafrelsi og aðskilnaður einstaklinga sem grunur leikur á að hafi verið útsettir fyrir smiti.
  2. 2. mgr. orðast svo:
      Einstaklingum sem eru bólusettir gegn COVID-19 með þremur skömmtum af bóluefni, viður­kenndu af Lyfjastofnun, þar sem þriðji skammtur var gefinn a.m.k. 14 dögum fyrir útsetningu smits og einstaklingum sem hafa fengið staðfest smit af COVID-19 og verið bólusettir með tveimur skömmtum af bóluefni gegn COVID-19, viðurkenndu af Lyfja­stofnun, þar sem annar skammtur var gefinn a.m.k. 14 dögum fyrir útsetningu smits, ber ekki að viðhafa fullan aðskilnað á meðan sóttkví þeirra stendur en um skyldur þeirra í sótt­kví fer eftir 5. gr. a.

  

2. gr. 

Á eftir 5. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 5. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi: 

Skyldur þríbólusettra einstaklinga í sóttkví. 

Þeim einstaklingum sem gert hefur verið að sæta sóttkví samkvæmt reglugerð þessari en hafa fengið þrjá skammta af bóluefni gegn COVID-19 eða smitast hafa af COVID-19 og verið bólusettir með tveimur skömmtum af bóluefni gegn COVID-19, sbr. 2. mgr. 4. gr., ber ekki að viðhafa fullan aðskilnað á meðan sóttkví þeirra stendur. Í sóttkví þeirra felst takmörkun á athafnafrelsi í 5 daga eftir útsetningu smits með eftirfarandi hætti:

  1. Einstaklingur má hvorki fara á mannamót né staði þar sem fleiri koma saman heldur en 20 manns.
  2. Þrátt fyrir a-lið má einstaklingur sækja vinnu eða skóla þótt þar séu fleiri komnir saman sem og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, sækja matvöru- eða lyfjaversl­anir og nota almenningssamgöngur.
  3. Einstaklingur skal bera grímu í umgengni við einstaklinga, aðra en þá sem teljast vera í nánum tengslum, þótt unnt sé að viðhafa tveggja metra fjarlægð.
  4. Einstaklingi er ekki heimilt að fara í heimsókn á heilbrigðisstofnanir, þ.m.t. hjúkrunar­heimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar. Einstaklingur skal enn fremur forðast umgengni við þá einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af COVID-19.
  5. Einstaklingur skal undirgangast PCR-sýnatöku fimm dögum eftir útsetningu, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. Jafnframt er einstaklingi skylt að undirgangast PCR-sýnatöku án tafar vakni hjá honum grunur um smit sökum einkenna. Neikvæð niðurstaða úr slíku prófi styttir þó ekki sóttkví.

  

3. gr. 

2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Reglugerð þessi fellur úr gildi 1. mars 2022.

  

4. gr. 

Í stað fylgiskjals 1 og 2 koma ný fylgiskjöl 1 og 2 sem birt eru með reglugerð þessari.

  

5. gr. 

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 12., 13., 14. og 18. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breyt­ingum, tekur gildi nú þegar og gildir um alla einstaklinga sem sæta sóttkví við gildis­töku.

  

Heilbrigðisráðuneytinu, 7. janúar 2022.

 

Willum Þór Þórsson
heilbrigðisráðherra.

Ásta Valdimarsdóttir.

 

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal) 


B deild - Útgáfud.: 7. janúar 2022