I. KAFLI Um reglur, velsæmi og almennt öryggi á almannafæri. 1. gr. Með almannafæri í samþykkt þessari er átt við götur, vegi, gangstéttir, gangstíga og svæði sem almenningi eru til afnota svo sem leikvelli, torg, bryggjur, íþróttavelli, útivistarsvæði, markaði o.fl. Ákvæðin um almannafæri gilda einnig eftir því sem við á um aðra staði, sem opnir eru almenningi, svo sem kvikmyndahús, leikhús, samkomuhús, söfn, veitingastaði, verslanir, leiktækjastaði, bifreiðastöðvar, biðskýli og söluturna. Með leiktækjastað er átt við stað þar sem aðgangur er veittur að leiktækjum, spilakössum, knattborðum, tölvum o.þ.h. gegn borgun. Með þéttbýli er í samþykkt þessari átt við Borgarnes, Hvanneyri, Kleppjárnsreyki, Reykholt, Varmaland og Bifröst og hverja þá þyrpingu húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 m. Undantekning frá því er varðandi reglur um hunda- og kattahald sbr. 1. mgr. 32. gr. þessarar samþykktar. 2. gr. Uppþot, áflog, óspektir eða önnur háttsemi, sem raskar allsherjarreglu, má ekki eiga sér stað á almannafæri, og ekki mega menn þyrpast þar saman ef það truflar umferð eða veldur vegfarendum óþægindum. Óheimilt er að príla á húsþökum eða klifra í ljósastaurum eða fánastöngum að óþörfu. Enginn má áreita aðra á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega hegðun. Ekki má á almannafæri fletta sig klæðum eða kasta af sér þvagi eða losa af sér saur. 3. gr. Bannað er að aðhafast nokkuð það að óþörfu sem raskar næturró manna. Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri, ef ástæða er til að ætla að hún valdi ónæði eða truflun. Sveitarstjórn getur bannað neyslu áfengis á almannafæri á tilteknum tíma á tilteknum svæðum. Slíka samþykkt skal tilkynna lögreglustjóra og birta almenningi. 4. gr. Hver sá sem staddur er á almannafæri skal segja til nafns síns, kennitölu og heimilis, þegar lögreglan krefst þess. Skylt er að hlýða fyrirmælum lögreglu s.s. vegna umferðarstjórnunar eða til þess að halda uppi reglu á almannafæri. Lögreglustjóri getur bannað almenna umferð fólks og fyrirskipað almenningi að halda sig innandyra vegna almannahættuástands sem hann telur að hafi skapast eða geti skapast. Lögreglan getur vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri, sem valda vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði. Sama á við um þá sem valda óspektum, hættu eða hneykslan á almannafæri sökum ölvunar eða af öðrum ástæðum. 5. gr. Meðferð vatns við hvers konar þrif utandyra er óheimil nema í frostlausu veðri, ef það veldur rennsli á gangstétt, gangstíg eða götu þannig að valdi hættu eða óþægindum. Í götubrunna og göturæsi má ekki hella hættulegum efnum, spilliefnum eða efnum sem geta valdið mengun eða skemmdum í holræsakerfinu. Eiganda eða umsjónarmanni húss er skylt að fjarlægja af húsi sínu snjó og grýlukerti, sem fallið geta niður og valdið hættu fyrir vegfarendur. 6. gr. Öllum ber að ganga vel um á almannafæri og skemma þar ekki hluti sem ætlaðir eru til almenningsnota eða prýði. Þetta á einnig við þá hluta af húsum og öðrum mannvirkjum sem liggja að almannafæri. Bannað er að mála, teikna eða festa auglýsingar á mannvirki, nema með leyfi eiganda eða umráðamanns. Óheimilt er að reisa auglýsingaskilti á almannafæri nema með leyfi sveitarfélagsins. Slíkar auglýsingar skal hlutaðeigandi taka niður, þegar þær hafa fullnægt tilgangi sínum og hreinsa vel staðinn þar sem þær voru. Löglega uppfestar auglýsingar má enginn rífa niður eða gera ólæsilegar á annan hátt. Sveitarstjórn getur sett umgengnisreglur um skemmtigarða, leikvelli og önnur opin svæði. Eigi má gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum eða tjaldvögnum á almannafæri í þéttbýli utan sérmerktra svæða. 7. gr. Tilkynna skal lögreglustjóra um fyrirhugaðar hópgöngur, útifundi, tónleika og aðrar útisamkomur til að hann geti gert viðeigandi ráðstafanir varðandi stjórnun umferðar. Lögreglustjóri getur breytt gönguleið eða samkomustað telji hann það nauðsynlegt. 8. gr. Meðferð skotvopna á almannafæri er bönnuð nema með sérstakri undanþágu frá lögreglustjóra. Meðferð skotvopna á einkalöndum er bönnuð nema með leyfi landeiganda. Óheimilt er á almannafæri að ganga með logandi blys eða kveikja á bálköstum nema með leyfi lögreglustjóra. Einnig skal leita leyfis lögreglustjóra til að halda flugeldasýningar. Hafi bálköstur verið reistur til fyrirhugaðrar brennu, hann of stór eða ekki hefur reynst unnt að kveikja í honum vegna hættu sem af því kynni að skapast, getur lögreglustjóri mælt fyrir um að bálkösturinn verði tekinn niður. Lögreglustjóri getur einnig látið taka bálköstinn niður á kostnað þess/þeirra sem til hans stofnuðu. Nauðsynlegar sprengingar vegna mannvirkjagerðar má aðeins framkvæma með sérstöku leyfi lögreglustjóra og sveitarstjórnar. Um meðferð sprengiefnis fer samkvæmt reglugerð um sprengiefni. 9. gr. Enga atvinnu, sem tálmar umferð, má reka á almannafæri. Sveitarstjórn getur sett samþykktir um farandsölu og sölu á götum, torgum og öðrum stöðum. 10. gr. Atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum er óheimil. Sveitarstjórn getur þó heimilað þar minni háttar starfsemi, svo fremi að tryggt sé að slíkt leiði ekki af sér ónæði eða truflun gagnvart íbúum og önnur opinber leyfi liggi fyrir. Slíkt leyfi skal ekki veitt til lengri tíma en fjögurra ára í senn og er bundið við nafn leyfishafa. Brjóti leyfishafi gegn ákvæðum þessarar greinar eða reksturinn þykir ekki fara vel úr hendi getur sveitarstjórn afturkallað leyfið með þriggja mánaða fyrirvara. Atvinnurekstri í húsnæði, sem liggur að íbúðarbyggð, skal haga þannig, að ekki hljótist ónæði eða truflun fyrir þá sem næstir búa. Gildir þetta jafnt um starfsemina sjálfa, sem og umferð sem af henni hlýst. Sveitarstjórn getur sett sérstakar reglur um atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum. 11. gr. Ekki má gera jarðrask, skurði í gangstéttir, götur eða torg sveitarfélagsins, nema með leyfi sveitarstjórnar og tilkynningu til lögreglustjóra. Að verki loknu skal færa það í samt lag. Þegar grafinn er skurður í gangstétt, skal sá sem verkið vinnur tryggja öryggi vegfarenda svo sem með því að sjá fyrir göngubrautum og aðvörunum. Lögreglustjóri gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að afstýra hættu fyrir vegfarendur. Einnig getur hann ákveðið að skurðir séu byrgðir á þeim tíma sem ekki er unnið þannig að umferð sé óhindruð Ef framkvæmdir dragast um of getur sveitarstjórn látið setja í samt lag það sem raskað var á kostnað þess sem ábyrgð bar á verkinu. 12. gr. Húseigendum eða umráðamönnum húseigna er skylt að hlíta fyrirmælum sveitarstjórnar um frágang girðinga o.þ.h. sem liggja að almannafæri. Einnig skal húsráðendum skylt að snyrta allan gróður, þ.m.t. trjágróður sem liggur að götum, gangstéttum og gangstígum þannig að umferð vegfarenda sé óhindruð. Þegar hús eða annað mannvirki brennur eða það er flutt brott, án þess að annað sé byggt í staðinn, er eiganda þess skylt að ganga svo frá hússtæðinu, að ekki stafi af því hætta, óþrifnaður eða óprýði. Sama gildir um hús sem standa yfirgefin. Lögreglu er heimilt að taka í sínar vörslur, fella niður, festa eða fergja, hvaðeina það sem hætta er á að geti fokið og valdið tjóni. Kostnaður sem af slíku hlýst er á ábyrgð eiganda hlutarins eða umráðamanns. Þegar hús er byggt, rifið, endurbyggt eða flutt, er eiganda og/eða verktaka skylt að haga sér eftir þeim fyrirmælum, sem sveitarstjórn gefur, til að forðast farartálma, hættu eða óþægindi fyrir vegfarendur. Við flutning húsa skal eigandi og/eða verktaki kalla til lögreglu eftir því sem lög kveða á um. Um öryggi á vinnusvæðum við almannafæri gilda ákvæði skipulags- og byggingarlaga auk reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ásamt reglum settum á grundvelli þeirra. 13. gr. Enginn má án leyfis húsráðanda láta fyrir berast á lóðum hans eða landi. Auk þess getur lögreglan bannað mönnum að hafast þar við ef hún telur að það valdi óþægindum eða hættu. Óheimilt er að fara í híbýli manna í söluerindum, ef húsráðandi leggur við því bann. 14. gr. Óheimilt er að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri, nema í þar til gerð ílát. Enginn má fleygja rusli eða öðru þess háttar á lóð annars manns. Hver sem það gerir skal flytja óhreinindin tafarlaust á brott á sinn kostnað. Í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir eins og þær eru hverju sinni, er bannað að skilja eftir, flytja eða geyma úrgang á þann hátt sem valdið geta skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. II. KAFLI Um ökutæki, umferð o.fl. 15. gr. Á almannafæri má ekki leggja eða setja neitt það sem hindrar almenna umferð eða veldur hættu. Bannað er að leggja ökutækjum á gangstéttum. Lögreglustjóri getur, að fengnum tillögum frá sveitarstjórn, veitt undanþágu frá ofangreindu. Dráttarvélum, vinnuvélum, vörubifreiðum sem eru 7,5 tonn eða meira að eigin þyngd og fólksflutningabifreiðum sem flytja 10 farþega eða fleiri, má ekki leggja á götum, einkalóðum í íbúðarhverfum eða almenningsbifreiðastæðum, nema þau séu til þess ætluð. Sveitarstjórn getur veitt undanþágu frá banni þessu og skal þá afmarka og merkja sérstaklega þá staði, sem undanþágan nær til. Undanþágan getur auk staðsetningar náð til ákveðinna tímabila. 16. gr. Lögreglustjóri getur bannað stöðu hjólhýsa, fellihýsa, báta, hestaflutningavagna og þess háttar tækja á götum og almennum bifreiðastæðum, þyki það valda íbúum óþægindum, óþrifnaði eða hættu. Heimilt er að undangenginni viðvörun t.d. með álímingarmiða og aðvörunarorðum, að flytja í burtu og taka í vörslu sveitarfélags skráningarskyld vélknúin ökutæki sem standa án skrásetningarnúmera á götum og almennum bílastæðum. Sama gildir um ökutæki sem skilin eru eftir á opnum svæðum. Sama á við um bílaparta og varahluti. 17. gr. Óheimilt er að láta aflvél bifreiða eða vinnuvéla ganga að óþörfu, svo komast megi hjá loftmengun og hávaða á almannafæri, eða þar sem ætla má að slíkt geti valdið óþægindum. Óheimilt er að aka ökutækjum þannig að þau gefi frá sér hávaða sem ástæða er til að ætla að valdi ónæði eða truflun eða hafa hljómflutningstæki ökutækja það hátt stillt að ástæða er til að ætla að valdi ónæði eða truflun. Lögregla getur bannað notkun slíkra ökutækja. Óheimilt er að keyra vinnuvélar eftir götunum einungis til að flytja mann milli staða. Óheimilt er að hringspóla eða láta dekk ökutækja spóla á þurrum fleti, s.s. malbiki eða steyptu plani, að ástæðulausu. 18. gr. Lögreglustjóri getur, að fengnum tillögum sveitarstjórnar, takmarkað eða bannað umferð vinnuvéla, vörubifreiða eða annarra ökutækja á einstökum götum, ef slík umferð er álitin hættuleg eða til sérstakra óþæginda fyrir aðra umferð eða íbúa. Lögreglustjóri getur stöðvað almenna umferð ökutækja á ákveðnum vegköflum um tiltekinn tíma vegna fjár- eða hrossarekstra eða annarra þarfa. Um breytingar á hámarkshraða á götum í sveitarfélaginu gilda reglur umferðarlaga. 19. gr. Á og við götur eða vegi, þar sem hætta stafar af má ekki gera rennibrautir, renna sér á skíðum, skautum, hjólaskautum, hjólabrettum, sleðum eða iðka leiki, eða íþróttir þannig að hætta eða umferðartruflun geti hlotist af. Einnig er bannað að hanga í bifreiðum, eða öðrum farartækjum sem eru á ferð eða festa við þau sleða eða annað sem óþægindum eða hættu getur valdið. Lögreglustjóri getur heimilað skíða-, sleða- eða rennibrautir á vegi í alfararleið og skulu þeir vegir sérstaklega merktir sem slíkir. 20. gr. Allur akstur torfærutækja, svo sem fjórhjóla, vélsleða og sambærilegra tækja, er bannaður í þéttbýli og á öðrum svæðum þar sem það er auglýst sérstaklega. Undanþágu frá þessari grein hafa hjálpar- og björgunarsveitir í neyðartilvikum svo og þeir einstaklingar sem vegna fötlunar sinnar komast ekki ferða sinna nema á slíkum farartækjum. Einnig er sveitarstjórn heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði á afmörkuðum svæðum og skal sú ákvörðun tilkynnt lögreglustjóra. 21. gr. Þeir sem flytja farm um götur og vegi sveitarfélagsins skulu gæta þess vandlega að ganga þannig frá farminum að ekki valdi óþrifum. Valdi flutningur, ferming eða afferming óþrifum á almannafæri er stjórnanda flutningatækisins skylt að hreinsa það upp þegar í stað. Óheimilt er að henda nokkru út úr ökutæki sem er á ferð. 22. gr. Börn yngri en átján ára sem fara um á hestum, reiðhjólum, hjólabrettum og hjólaskautum skulu nota hlífðarhjálm og annan viðeigandi hlífðarbúnað. Foreldrar og forráðamenn ósakhæfra barna bera ábyrgð á því að börn noti hlífðarbúnað skv. þessari grein. 23. gr. Ef ís á sjó eða vötnum þykir ekki nógu traustur getur lögreglustjóri bannað alla umferð um hann. III. KAFLI Um veitingastaði, skemmtanahald o.fl. 24. gr. Sveitarstjórn setur reglur um opnunartíma veitingastaða. Við ákvörðun um opnunartíma getur sveitarstjórn litið til flokkunar veitingastaða samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald svo og staðsetningar viðkomandi veitingastaðar. Heimilt er sveitarstjórn að banna starfsemi tiltekinna flokka veitingastaða á afmörkuðum svæðum. Um opnunartíma verslana og annarra þjónustufyrirtækja fer samkvæmt lögum er gilda á hverjum tíma eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim. Sveitarstjórn getur þó takmarkað opnunar- eða þjónustutíma hjá einstökum aðilum ef starfsemin veldur nágrönnum eða vegfarendum ónæði. 25. gr. Á veitingastöðum skulu allir gestir, sem eigi hafa þar náttstað, hafa farið út eigi síðar en hálfri stundu eftir að lokað er. Þó má selja ferðamönnum veitingar á hvaða tíma sem er, ef þeir hafa náttstað í veitingahúsinu eftir lokunartíma. Heimill er rekstur heimsendingarþjónustu allan sólarhringinn. 26. gr. Hver sá sem rekur veitinga- eða gististað, kvikmyndahús, leikhús eða annað samkomuhús eða heldur almenna skemmtun eða sýningu, skal sjá um að allt fari þar vel fram og starfsemin valdi ekki nágrönnum eða vegfarendum ónæði. Slík starfsemi skal háð sérstöku eftirliti og er lögreglunni heimilt að fara um samkomusali og önnur húsakynni, sem gestir eiga aðgang að. Á öllum gististöðum skal haldin nákvæm gestaskrá. Ábyrgðaraðili skal tryggja að gestir verði ekki fyrir ítrekaðri áreitni af hálfu annarra gesta og skal kalla til lögreglu ef með þarf. Á skemmtistöðum og veitingastöðum með reglubundna skemmtistarfsemi er ekki heimilt að sýna nektardans. 27. gr. Enginn má reka spilakassa, leiktæki eða þess háttar starfsemi gegn borgun nema með leyfi lögreglustjóra og að fenginni umsögn sveitarstjórnar. Leyfi skal ekki veitt til lengri tíma í senn en fjögurra ára. Það skal bundið við nafn leyfishafa og rekstur á tilteknum stað. Lögreglustjóri ákveður gjald fyrir leyfið, sem greiðist árlega. Óheimilt er að selja börnum og unglingum yngri en 14 ára aðgang að leiktækjum. Miða skal við fæðingarár. Börnum yngri en 16 ára er ekki heimill aðgangur að slíkum tækjum eftir kl. 20, nema í fylgd með forsjáraðila. Starfsmenn leiktækja- og spilastofa skulu hafa náð fullum 18 ára aldri. Ef leyfishafi brýtur gegn ákvæðum greinar þessarar eða þeim skilyrðum sem starfseminni eru sett, getur lögreglustjóri svipt hann leyfinu, enda hafi leyfishafi ekki sinnt áminningu um úrbætur. 28. gr. Skemmtun sem seldur er aðgangur að má eigi halda nema að fengnu leyfi lögreglustjóra og með þeim skilmálum sem hann setur. Í leyfi lögreglustjóra skal kveða á um aldurstakmörk að skemmtun. Miða skal við fæðingarár en ekki fæðingardag. 29. gr. Lögreglustjóri getur bannað þeim einstaklingum aðgang að veitingahúsum og eða skemmtunum í umdæmi sínu, sem ítrekað hafa hagað sér ósæmilega á skemmtunum eða á veitingahúsum. Lögreglustjóri skal tilkynna forstöðumönnum samkomustaða um slíkt bann og er þá óheimilt að veita hlutaðeigandi einstaklingum aðgang. IV. KAFLI Um götuspjöld og húsnúmer. 30. gr. Sveitarstjórn ákveður nöfn á götum og lætur festa upp skilti með þeim, þar sem þurfa þykir, svo sem við gatnamót og á fasteignir. Húseigendur skulu merkja hús sín með húsnúmeri og eftir atvikum bókstöfum, á götuhlið eða öðrum áberandi stað, vegfarendum og þjónustuaðilum til glöggvunar. Lögbýli skulu merkt með nafni býlis við upphaf vegar. Þar sem fleiri en eitt býli eru við héraðs- og tengivegi skal vera skilti er sýnir öll býli sem við þá standa. V. KAFLI Um útivistartíma barna og ungmenna. 31. gr. Um útivistartíma barna og unglinga gilda ákvæði barnaverndarlaga og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. VI. KAFLI Um dýrahald og lausagöngu búfjár. 32. gr. Hunda- og kattahald er bannað í þéttbýli nema með sérstöku leyfi og með skilmálum sem sveitarstjórn setur. Hugtakið þéttbýli skv. þessari grein ber að skilja eins og það er skilgreint í reglum sveitarstjórnar um hunda- og kattahald hverju sinni. Hunda, sem ráðast á menn eða elta skepnur út um hagann, er heimilt að aflífa, en komi til þess er skylt að fara eftir lögum nr. 15/1994 um dýravernd. 33. gr. Búfjárhald er bannað í þéttbýli nema með sérstöku leyfi og skilmálum sem sveitarstjórn setur. 34. gr. Lausaganga búfjár er bönnuð í þéttbýli. Að öðru leyti fer um lausagöngu búfjár samkvæmt vegalögum og lögum um búfjárhald og þeim reglum sem sveitarstjórn kann að setja. Umferð hesta er bönnuð innan þéttbýlismarka annars staðar en á merktum reiðvegum nema með sérstöku leyfi eða samkvæmt samþykkt sveitarstjórnar. VII. KAFLI Um refsingar, kostnað o.fl. 35. gr. Samþykkt þessi gildir fyrir sveitarfélagið Borgarbyggð. Ber að túlka hana með hliðsjón af gildandi lögum og reglum hverju sinni, s.s. almennum hegningarlögum, skipulags- og byggingarlögum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir o.fl. Brot gegn lögreglusamþykkt þessari varðar sektum, sbr. ákvæði 6. gr. laga nr. 36/1988 um lögreglusamþykktir, ef ekki liggur fyrir þyngri refsing samkvæmt lögum. Um mál sem varða brot gegn lögreglusamþykktinni skal fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008. 36. gr. Láti einhver það ógert sem er skylda hans samkvæmt lögreglusamþykkt þessari eða reglum settum samkvæmt henni, getur lögreglustjóri látið gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hindra að vanrækslan valdi tjóni. Kostnaður við slíkar aðgerðir greiðist af þeim sem ábyrgðina ber. Hið sama gildir um kostnað af ráðstöfunum til að hindra fyrirhugaða athöfn eða stöðva athöfn sem ekki er að fullu lokið, en bönnuð er í samþykktinni eða samkvæmt henni. Sé sá sem slíka ábyrgð ber ófær um að greiða kostnaðinn þá greiðist hann úr ríkissjóði. Heimilt er lögreglustjóra að ljúka máli með því að leyfa þeim sem gerst hefur sekur um að henda rusli eða brjóta gler að hreinsa sjálfur til eftir sig. Það er háð mati lögreglustjóra í hverju tilfelli fyrir sig hvort beita skuli þessari heimild. 37. gr. Lögreglusamþykkt þessi, sem sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur samið og samþykkt með heimild í lögum nr. 36/1988, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi lögreglusamþykkt fyrir Mýrasýslu nr. 556 frá 8. október 1980, lögreglusamþykkt Borgarfjarðarsýslu nr. 578/2002 og lögreglusamþykkt Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu nr. 555/1982 að því leyti sem tvær síðarnefndu ná yfir svæði sem tilheyrir Borgarbyggð. Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, 14. apríl 2010. Ragna Árnadóttir. Skúli Þór Gunnsteinsson. |