Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 977/2023

Nr. 977/2023 6. september 2023

SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Skálatún – sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna.

1. gr.

Heiti.

Stofnunin er sjálfseignarstofnun og er nafn hennar Skálatún – sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna.

Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá sem og reglugerð nr. 140/2008 um sama efni.

 

2. gr.

Heimilisfang.

Heimilisfang Skálatúns – sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna er í Mosfellsbæ.

 

3. gr.

Markmið.

Tilurð stofnunarinnar má rekja til samkomulags Skálatúns – sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna við Sjálfeignarstofnunina Skálatún, dags. 25. maí 2023, um yfirtöku á eignum og starfsemi Skálatúns með þeim fyrirvara að það skuli gert í þágu barna og fjölskyldna, sbr. viðauka I í fylgiskjali I.

Markmið Skálatúns – sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna er óhagn­aðar­drifin starfsemi til almannaheilla, með því að eiga og nýta lóðarréttindi að Skálatúni, fasteignir og aðrar eignir sem stofnunin yfirtók frá sjálfseignarstofnuninni Skálatúni, sbr. fylgiskjal I. Mark­miðið er framtíðaruppbygging á svæði Skálatúns í þágu barna og fjölskyldna þeirra. Stofnunin mun eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi fasteigna er tilheyra stofnuninni á svæði Skálatúns í Mosfellsbæ, svo og með uppbyggingu fasteigna á svæðinu, í þágu opinberrar starfsemi á málefna­sviði barna- og fjölskyldna. Jafnframt mun stofnunin standa við skuldbindingar sínar skv. samkomu­lagi milli stofn­unarinnar, Mosfellsbæjar og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um afnot af hús­næði á svæði Skálatúns í þágu núverandi íbúa, þar til Mosfellsbær hefur afhent allar íbúðirnar til stofn­unarinnar, sbr. fylgiskjal II.

Ráðstafa skal fjármunum sjálfseignarstofnunarinnar fyrst og fremst í samræmi við markmið skipulags­skrárinnar; í eignarhald á landi Skálatúns og þróun þess, t.d. með uppbyggingu fasteigna, og í rekstur og viðhald fasteignanna. Fasteignir stofnunarinnar verða nýttar undir opinbera starfsemi á vegum ríkis og sveitarfélaga á málefnasviði barna og fjölskyldna. Stjórn hefur þó heimild til að ákveða að leigja lítinn hluta fasteigna stofnunarinnar til sjálfseignarstofnana eða félaga­samtaka sem starfa í þágu barna og fjölskyldna þeirra, sem eru rekin án hagnaðar­sjónarmiða.

 

4. gr.

Stofnandi og stofnfé.

Stofnandi sjálfseignarstofnunarinnar er mennta- og barnamálaráðuneytið, kt. 460269-2969, Sölvhóls­götu 4, Reykjavík.

Stofnfé er kr. 1.480.000, sem er framlag stofnanda hennar.

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar.

Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnanda hennar.

 

5. gr.

Stjórn.

Stjórn stofnunarinnar skipa þrír aðilar, tveir tilnefndir af mennta- og barnamálaráðherra og einn tilnefndur af Mosfellsbæ, til tveggja ára í senn. Þrír varamenn mega vera skipaðir með sama hætti. Kynjahlutfall þeirra sem sitja í stjórn skal á hverjum tíma vera sem jafnast. Annar fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytis skal vera formaður stjórnar en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum sjálfseignarstofnunarinnar. Hún stýrir öllum málefnum stofnunarinnar, þ.m.t. fer hún með meðferð og vörslu fjármuna hennar, og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi stofnunarinnar sé í réttu og góðu horfi og í samræmi við skipulagsskrá.

Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina, sbr. þó 4. mgr. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prókúruumboð fyrir stofnunina.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvægar ákvarðanir, t.d. varð­andi ráðstöfun eigna stofnunarinnar eða breytingar á samþykkt þessari, má ekki taka nema stjórnin sé fullskipuð, eftir atvikum með aðkomu varamanna. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Hver stjórnar­­maður fer með eitt atkvæði við atkvæðagreiðslu skv. málsgrein þessari. Rita skal fundar­gerðir um það sem gerist á stjórnarfundum.

Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

 

6. gr.

Fundarboðun.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda eða felur framkvæmdastjóra það, sbr. 9. gr. Hver stjórnarmaður getur krafist þess að stjórnarfundur sé haldinn. Sama rétt á kosinn endurskoðandi, sbr. 10. gr.

 

7. gr.

Ársfundur.

Ársfund stofnunarinnar skal halda eigi síðar en 31. maí ár hvert. Á ársfundi skal stjórn gera grein fyrir starfsemi stofnunarinnar síðastliðið ár, ársreikningi, svo og fjárhags- og framtíðarhorfum. Þá fer kosning stjórnar fram á tveggja ára fresti. Stjórn, framkvæmdastjóri og endurskoðandi, ásamt fulltrúum þeirra aðila sem tilnefna stjórnarmenn og tilnefndir stjórnarmenn, skulu eiga rétt á að sitja ársfund.

 

8. gr.

Framkvæmdastjóri.

Stjórn Skálatúns – sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna er heimilt að ráða framkvæmdastjóra, og ákveða starfskjör hans. Framkvæmdastjóri á rétt til setu á stjórnar­fundum, þótt hann sé ekki stjórnarmaður, með málfrelsi og tillögurétt, en hann fer þó ekki með atkvæðis­rétt. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar sem þeir óska eftir og veita ber samkvæmt lögum.

 

9. gr.

Endurskoðandi.

Stjórn Skálatúns – sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna skal velja endur­skoðanda til að endurskoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár. Endurskoðandi skal ekki eiga hagsmuna- eða starfstengsl við sjálfseignarstofnunina og vera löggiltur endurskoðandi.

 

10. gr.

Reikningsárið.

Starfsár og reikningsár er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt hann fyrir endurskoðanda eigi síðar en 30. apríl ár hvert. Að ársfundi loknum, og eigi síðar en 30. júní ár hvert, skal stjórnin senda ársreikninginn til Ríkisendurskoðunar, ásamt skýrslu um hvernig fé stofn­unarinnar hefur verið ráðstafað á reikningsárinu.

Fyrsta reikningsárið er frá stofnun sjóðsins til næstu áramóta.

 

11. gr.

Breyting skipulagsskrár, slit og sameining.

Til þess að breyta ákvæðum skipulagsskrár þessarar, sameina Skálatún – sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna annarri sjálfseignarstofnun eða leggja hana niður þarf sam­þykki allra stjórnarmanna Skálatúns – sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjöl­skyldna, eftir atvikum með aðkomu varamanna, auk samþykkis mennta- og barnamálaráðherra og bæjar­stjórnar Mosfellsbæjar. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra.

 

12. gr.

Önnur ákvæði.

Fjármunum stofnunarinnar skal eingöngu varið í samræmi við markmið hennar.

Eigi má selja fasteignir Skálatúns – sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjöl­skyldna eða binda þær veðböndum, nema með samþykki allra stjórnarmanna og að fengnu samþykki sýslumanns að undangenginni umsögn Ríkisendurskoðunar, sbr. 5. gr. laga nr. 19/1988, sbr. og fyrirvara í samningi stofnunarinnar og Mosfellsbæjar, sbr. fylgiskjal II um lóðarréttindi. Þar kemur fram að þinglýsa skuli kvöð á eignir á lóðinni L123763 um að framtíðaruppbygging á svæðinu verði einungis í þágu barna og fjölskyldna þeirra og að slík starfsemi verði rekin á vegum ríkis, sveitar­félaga, sjálfseignarstofnana og/eða félagasamtaka sem starfa í þágu barna og fjölskyldna og rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Jafnframt verði kvöð þinglýst um að Skálatún – sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna sé óheimilt að ráðstafa lóðinni L123763 til annarra aðila en þeirra sem að framan greinir nema með samþykki Mosfellsbæjar. Kvöðin hefur þó engin áhrif á þá starf­semi við núverandi íbúa að Skálatúni sem fram fer í þeim mannvirkjum sem standa á lóðinni.

Verði ekki lengur þörf fyrir rekstur Skálatúns – sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna í núverandi eða breyttu formi, eða rekstur stofnunarinnar leggst niður af einhverjum öðrum ástæðum, skulu eignir stofnunarinnar renna til málefna er lúta að stuðningi við börn og fjöl­skyldur á vegum ríkisins eða sveitarfélaga, eftir því sem best hentar á þeim tíma, sbr. þó fyrirvara í samningi stofnunarinnar og Mosfellsbæjar um lóðarréttindi sem vísað er til í 2. mgr. og fylgiskjali II.

Með tillögu um niðurlagningu stofnunarinnar skal fara sem um breytingar á skipulagsskrá þessari.

 

13. gr.

Staðfesting.

Leita skal staðfestingar embættis sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.

 

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa sam­kvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988.

 

F.h. sýslumannsins á Norðurlandi vestra, 6. september 2023,

 

Björn Hrafnkelsson.

Auður Steingrímsdóttir.

 

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 21. september 2023