Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 912/2015

Nr. 912/2015 1. október 2015

SAMÞYKKT
um kattahald og gæludýrahald annarra en hunda í sex sveitarfélögum á starfssvæði heilbrigðisnefndar Austurlandssvæðis.

1. gr.

Gildissvið.

Samþykkt þessi gildir í Sveitarfélaginu Hornafirði, Djúpavogshreppi, Fjarðabyggð, Seyðisfjarðar­kaupstað, Fljótsdalshéraði og Vopnafjarðarhreppi. Kattahald og gæludýrahald annarra en hunda í framangreindum sveitarfélögum á starfssvæði heilbrigðisnefndar Austurlands sætir þeim tak­mörk­unum sem fram koma í samþykkt þessari.

2. gr.

Stjórnsýsla.

Heilbrigðisnefnd Austurlandssvæðis fer með málefni katta og annarra gæludýra samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og hefur eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Sveitarfélögin sem eiga aðild að samþykkt þessari fara með framkvæmd samþykktarinnar eins og nánar greinir í henni í umboði heilbrigðisnefndar.

Sveitarfélög skulu ráða sérstaka dýraeftirlitsmenn eða fela starfsmönnum sveitarfélagsins hlutverk dýraeftirlitsmanna. Dýraeftirlitsmenn sveitarfélaga starfa undir eftirliti og á ábyrgð heilbrigðis­nefndar.

Dýraeftirlitsmenn geta leitað aðstoðar heilbrigðisnefndar og lögregluyfirvalda, ef og þegar þörf krefur, t.d. ef köttur eða annað gæludýr er að mati eftirlitsmanns hættulegt umhverfi sínu, vörslu­aðili dýrsins tálmar starfi eftirlitsmanns samkvæmt samþykkt þessari, þegar nauðsynlegt er vegna almannahagsmuna dýravelferðar eða heilbrigðis- og öryggissjónarmiða að leita atbeina lögreglu við að fjarlægja dýr.

3. gr.

Dýravelferð og dýravernd.

Um almennan aðbúnað og velferð gæludýra sem og um ræktun, verslun, geymslu og leigu katta eða annarra gæludýra í atvinnuskyni gilda ákvæði reglugerðar nr. 1077/2004, um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.

Samkvæmt lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, fer Matvælastofnun með eftirlit og framkvæmd þeirra laga.

4. gr.

Skráningarskylda.

Allir kettir í þéttbýli eru skráningarskyldir.

Kattahald í dreifbýli sætir að öllu jöfnu ekki takmörkunum.

Skylt er að sækja um skráningu kattar í þéttbýli hjá því sveitarfélagi sem eigandi hans hefur lögheimili innan tveggja vikna frá því að köttur er tekinn inn á heimili. Kettlinga skal skrá eigi síðar en þegar þeir ná þriggja mánaða aldri.

Kettir sem sótt er um skráningu fyrir skulu örmerktir eða húðflúraðir af dýralækni samkvæmt reglugerð nr. 1077/2004, um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni, og skal númer merkis skráð við skráningu dýrs.

Ketti skal skrá á nafn og heimili lögráða einstaklings sem hefur heimili í viðkomandi sveitarfélagi og skal kötturinn haldinn á heimili eigandans. Útgefið leyfi er óframseljanlegt. Ekki er heimilt að skrá fleiri en tvo ketti á hvert heimili.

Við skráningu kattar getur sveitarfélag leitað umsagnar lögreglu og annarra heilbrigðiseftirlitssvæða telji það ástæðu til.

5. gr.

Gögn sem þarf að framvísa við skráningu.

Eftirfarandi gögn skal leggja fram við skráningu kattar:

  1. Undirritaða umsókn á umsóknareyðublöðum sem má nálgast á skrifstofu viðkomandi sveitar­félags.
  2. Upplýsingar um heiti, fæðingardag, kyn, tegund og önnur einkenni kattar.
  3. Mynd af kettinum.
  4. Vottorð frá dýralækni um einstaklingsmerkingu kattar, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra.
  5. Vottorð frá dýralækni um ormahreinsun kattarins, sbr. 58. gr. reglugerðar nr. 941/2002, um hollustuhætti.
  6. Staðfestingu frá viðurkenndu tryggingafyrirtæki um að umsækjandi hafi gilda ábyrgðar­tryggingu sem nær til alls þess tjóns sem kötturinn kann að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum sé sveitarfélagið ekki með hóptryggingu innifalda í skráningargjaldi.
  7. Þegar sótt er um leyfi til að halda kött í fjöleignarhúsi gilda ákvæði laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, og skal leggja fram samþykki tilskilins hluta íbúðareigenda í fjöleignarhúsi. Þetta skal gert áður en dýr er tekið inn á heimili í fjöleignarhúsi.

Skilyrði fyrir skráningu kattar er að gögn skv. 1. mgr. hafi verið lögð fram af hálfu umsækjanda og skráningargjald greitt samkvæmt gjaldskrá sem viðkomandi sveitarfélag hefur sett.

Skráður eigandi kattar ber að tilkynna viðkomandi sveitarfélagi skriflega innan mánaðar um aðsetursskipti eða fráfall kattar.

Sveitarstjórn getur ákveðið að í húsnæði í eigu sveitarfélags sé ekki heimilt að halda ketti.

Sveitarstjórn er heimilt að hafna beiðni um skráningu kattar ef umsækjandi hefur áður eða ítrekað gerst brotlegur við samþykkt um kattahald í sveitarfélaginu eða annars staðar.

Umsækjandi hefur rétt á að málsmeðferð og ákvörðun varðandi skráningu kattar fari fram hjá heilbrigðisnefnd. Hafi ákvörðun verði tekin af sveitarfélagi áður felst í umfjöllun heilbrigðisnefndar endurupptaka málsins. Umsækjandi getur skotið ákvörðun sveitarfélagsins til heilbrigðisnefndar til endurupptöku og úrskurðar.

6. gr.

Skyldur sveitarfélaga.

Í kjölfar skráningar ber sveitarfélagi að afhenda forráðamanni kattar leyfisskírteini sem staðfestingu á að köttur hans hafi verið skráður til heimilis í viðkomandi sveitarfélagi.

Sveitarfélag skal tryggja að til staðar sé dýrageymsla sem hefur tilskilin leyfi skv. 24. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti og reglugerð nr. 1077/2004, um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni, til vörslu katta sem þarf að fanga vegna brota á samþykkt þessari.

7. gr.

Skyldur eftirlitsaðila.

Dýraeftirlitsmenn sveitarfélaga skulu halda og uppfæra skrá yfir ketti í viðkomandi sveitarfélagi. Í skránni skulu koma fram allar upplýsingar er varða skráða ketti og sem dýraeftirlitsmaður telur skipta máli, þ.m.t. hvenær kettirnir hafa verið ormahreinsaðir og öll afskipti sem eftirlitsaðilar hafa haft af köttunum og eigendum þeirra.

Heilbrigðiseftirlit, lögregla og eftir atvikum aðrir starfsmenn sveitarfélaga skulu tilkynna dýra­eftirlits­mönnum um kvartanir eða afskipti þeirra af köttum í sveitarfélaginu.

Dýraeftirlitsmaður leggur til við heilbrigðisnefnd að kattaeigendur séu áminntir vegna brota á sam­þykkt, sbr. 9. gr. og heldur skrá um það.

Dýraeftirlitsmenn skulu starfa samkvæmt verklagsreglum sem heilbrigðisnefnd Austurlandssvæðis samþykkir.

8. gr.

Skyldur eigenda og umráðamanna katta.

Skráðum eiganda kattar ber að sjá til þess að umhirða kattarins sé í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2013, um velferð dýra.

Kattaeigendur skulu færa ketti sína árlega til ormahreinsunar hjá dýralækni og skulu afhenda sveitarfélaginu staðfestingu um að ormahreinsun hafi farið fram. Sveitarfélagið upplýsir um hvenær árleg ormahreinsun fer fram og er kattaeigendum skylt að mæta á tilsettum tímum með kettina sína. Ef kattaeigandi getur af einhverjum ástæðum ekki mætt á tilsettum tíma skal hann afhenda sveitarfélaginu staðfestingu frá dýralækni um að ormahreinsun hafi farið fram.

Kattaeigendum er skylt að ábyrgðartryggja sig gegn tjóni sem kettir þeirra kunna að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum og skulu þeir árlega framvísa til sveitarfélags staðfestingu frá viðurkenndu tryggingafélagi þar um sé sveitarfélagið ekki með hóptryggingu innifalda í skrán­ingar­gjaldi.

Eigendur katta skulu árlega greiða skráningargjald fyrir ketti þeirra samkvæmt gjaldskrá sem sveitarfélagið setur að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Auk einstaklingsmerkingar skulu kettir bera hálsól með upplýsingum um heimilisfang eiganda og símanúmer.

Kattaeigendum ber að sjá til þess að högnar séu geltir og að læður séu gerðar ófrjóar eða hafðar á getnaðarvarnapillu.

Eigendum og umráðamönnum katta ber, eftir því sem framast er unnt, að sjá svo um að kettir þeirra valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði eða óhollustu.

Kattaeigendum ber að hafa sandkassa fyrir köttinn á lóð sinni.

Ef köttur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða umráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.

Kattaeigendum og umráðamönnum ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, eftir því sem tök eru á, m.a. með því að hengja bjöllur á hálsólar katta og halda þeim innandyra á nóttunni.

Óheimilt er að hafa ketti í opinberum stofnunum, skólahúsum, matvöruverslunum, við vatnsveitur vatnsból og verndarsvæði þeirra, brunna og sjóveitur eða á öðrum þeim stöðum sem tilgreindir eru í fylgiskjali 3 með reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti. Einnig er óheimilt að hleypa köttum inn í húsnæði matvælafyrirtækja, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, og inn í húsnæði vatns­veitna, sbr. reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn.

9. gr.

Föngun katta.

Sveitarstjórn er heimilt að láta fanga ketti í búr í eftirfarandi tilfellum:

  1. ef köttur er ómerktur, hvort sem er án hálsólar og/eða varanlegs merkis
  2. ef ítrekað er kvartað undan ágangi katta á tilteknu svæði eða
  3. ef köttur finnst innandyra hjá nágranna í leyfisleysi, á öðrum óheimilum stað eða í fjöl­eignar­húsi þar sem á skortir tilskilið samþykki annarra íbúðareigenda, sbr. 5. gr.

Kettir sem fangaðir eru skulu færðir í dýrageymslu skv. 2. mgr. 6. gr. Merktum köttum sem ekki er kvartað yfir en lenda í búrum skal þó sleppa lausum og skráðum eigendum tilkynnt um hand­sömunina og ástæður hennar.

Ef merktir kettir eru teknir úr umferð skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. skal það tilkynnt skráðum eig­endum. Komi ítrekað til handsömunar á merktum ketti vegna ónæðis telst það vera brot á sam­þykkt þessari. Ef umráðamaður vitjar ekki dýrsins innan viku frá því að honum var tilkynnt um hand­sömun þess eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er sveitarfélagi heimilt að ráð­stafa dýrinu eins og um hálfvillt dýr sé að ræða, sbr. ákvæði 24. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Köttur, sem hefur verið handsamaður ítrekað, skal færður í dýrageymslu og því aðeins afhentur eiganda að öll skilyrði fyrir kattahaldi skv. 5. gr. séu uppfyllt. Kattareigandi ber allan kostnað af handsömun, vörslu og fóðrun kattarins, sem og aflífunar hans ef til hennar kemur sam­kvæmt gjaldskrá viðkomandi sveitarfélags.

Köttur sem ekki er einstaklingsmerktur í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, telst vera hálfvillt dýr. Í þeim tilvikum sem hálfvilltir kettir eru handsamaðir er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa kettinum til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta eftir tvo sólarhringa frá handsömun.

Eigandi ómerkts kattar sem gefur sig fram skal því aðeins fá köttinn afhentan að hann hafi látið skrá köttinn, greitt skráningargjald vegna hans og uppfyllt öll skilyrði samþykktar þessarar fyrir leyfi til kattahalds. Skal eigandanum við greiðslu skráningargjalds afhent beiðni sem nýta má hjá dýralækni til greiðslu fyrir örmerkingu og hreinsun kattarins.

10. gr.

Aðgerðir gegn hálfvilltum köttum.

Meiriháttar föngun hálfvilltra katta í þéttbýliskjörnum skal auglýsa með a.m.k. viku fyrirvara og með tilmælum um að skráðum köttum sé haldið innan dyra.

Eftir tvo sólarhringa frá handsömun er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa hálfvilltum ketti til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta.

11. gr.

Gjaldtaka.

Sveitarstjórnum er heimilt að innheimta skráningar- og eftirlitsgjöld í samræmi við gjaldskrá sem viðkomandi sveitarfélag setur skv. 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og meng­unar­varnir, og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Sveitarstjórn skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.

Skráningargjald skal í fyrsta sinn greitt við skráningu kattar og síðan árlega fyrirfram. Skrán­ingar­gjaldi er ætlað að standa undir kostnaði sveitarfélagsins við kattahald og framkvæmd sam­þykktar þessarar. Í gjaldskránni skal koma fram hvað er innifalið í skráningargjaldi vegna katta­halds.

Í gjaldskrá skal kveðið á um handsömunar- og vörslugjald vegna handsömunar katta sem teknir eru í vörslu á vegum sveitarfélaga vegna brota á samþykkt þessari.

Við ákvörðun gjalda skal tekið mið af þeim kostnaði sem leiðir af framkvæmd þessarar samþykktar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða fram­kvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

12. gr.

Gæludýr önnur en kettir og hundar.

Eigendum og umráðamönnum gæludýra annarra en hunda og katta er skylt að koma í veg fyrir að dýr þeirra sleppi úr haldi. Gerist það skal þegar gera ráðstafanir til að handsama dýrið.

Eigendur og umráðamenn gæludýra sem haldin eru utandyra, t.d. kanína eða annarra nagdýra, skulu sjá til þess að dýrin valdi ekki nágrönnum ama svo sem með hávaða eða óhreinindum. Skulu þeir tryggja að dýrin geti ekki nagað sig út úr búri eða aðhaldi.

Kanínur skulu einstaklingsmerktar skv. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra.

13. gr.

Þvingunarúrræði og afturköllun leyfa.

Um valdsvið og þvingunarúrræði vísast til VI. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og meng­unar­varnir.

Sveitarfélagi er heimilt að afturkalla skráningu katta ef vanhöld verða á ormahreinsun, tryggingum, greiðslu skráningargjalds sem og ef skráður eigandi hefur brotið gegn samþykkt þessari. Einnig er heimilt að afturkalla allar skráningar telji sveitarfélag það nauðsynlegt í þágu hollustuhátta og öryggis. Jafnframt getur sveitarfélag, telji það og héraðsdýralæknir brýna þörf á, bannað eða tak­markað kattahald í dreifbýli.

Skráðir eigendur eða umráðamenn gæludýra sem brjóta gegn ákvæðum samþykktar þessarar skulu jafnan sæta skriflegri áminningu af hálfu heil­brigðis­nefndar og gefinn hæfilegur frestur til úrbóta.

Ef skráður eigandi eða umráðamaður kattar vanrækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað eða alvarlega gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um kattahald getur heilbrigðisnefnd bannað viðkomandi að halda kött og látið fjarlægja dýrið.

Skráðum eiganda dýrs er skylt að greiða kostnað sem leiðir af brotum á samþykkt þessari.

14. gr.

Viðurlög.

Um viðurlög vegna brota á samþykkt þessari vísast til VIII. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsi­ákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Um kærumeðferð fer samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

15. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi sem samin er af heilbrigðisnefnd Austurlandssvæðis og samþykkt af sveitar­stjórnum Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Djúpavogshrepps, Fjarðabyggðar, Seyðisfjarðar­kaupstaðar, Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðarhrepps staðfestist hér með skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast gildi þegar við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 705/2010, um kattahald og gæludýrahald annarra dýra en hunda í Seyðis­fjarðar­kaupstað, á Fljótsdalshéraði, í Fjarðabyggð og í Vopnafjarðarhreppi, samþykkt nr. 995/2008, um kattahald í Djúpavogshreppi, og samþykkt nr. 574/2007, um kattahald fyrir Sveitar­félagið Horna­fjörð.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 1. október 2015.

F. h. r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Laufey Helga Guðmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 15. október 2015