Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 66/2021

Nr. 66/2021 11. júní 2021

SKIPALÖG

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum.

 

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um íslensk skip.

    Að því leyti sem reglur alþjóðalaga mæla ekki fyrir um annað gilda lög þessi um erlend skip þegar þau eru stödd innan landhelgi, innan efnahagslögsögu eða á landgrunni Íslands.

 

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða sem hér segir:

  1. Erlent skip er skip sem ekki telst íslenskt skip.
  2. Farbann er þegar skip er kyrrsett í höfn.
  3. Farþegaskip er skip sem má flytja fleiri en tólf farþega.
  4. Fiskiskip er skip sem ætlað er til fiskveiða.
  5. Flokkað skip er skip sem er flokkað af viðurkenndu flokkunarfélagi.
  6. Hafnarríkiseftirlit er eftirlit og skoðun sem Samgöngustofa framkvæmir á erlendum skipum í íslenskum höfnum í samræmi við alþjóðalög.
  7. Heimahöfn skráðs skips er þar sem eigandi eða leigutaki ætlar því heimilisfang.
  8. Íslenskt skip er skip sem skráð er á Íslandi og rétt hefur til að sigla undir íslenskum fána.
  9. Leiðarbréf er skírteini, gefið út af Samgöngustofu, sem veitir skipi heimild til að sigla án þess að gefið hafi verið út þjóðernis- og skrásetningarskírteini.
  10. Mælibréf er skírteini sem sýnir mælda lengd skips og tonnatölu þess.
  11. Skip er sérhvert fljótandi far nema annars sé getið.
  12. Skyndiskoðun er fyrirvaralaus skoðun Samgöngustofu eða Landhelgisgæslu Íslands á skipi.
  13. Viðurkennt flokkunarfélag er fyrirtæki, sem hlotið hefur viðurkenningu á Evrópska efnahags­svæðinu og hefur gert samstarfssamning við Samgöngustofu, sem annast flokkun skipa í samræmi við tæknilegar kröfur.
  14. Þurrleiguskráning er tímabundin skráning skips sem leigt hefur verið án áhafnar.

 

II. KAFLI

Skráning skipa.

4. gr.

Skipaskrá.

    Samgöngustofa heldur skipaskrá yfir öll skip sem skráð eru samkvæmt lögum þessum.

    Ráðherra skal með reglugerð mæla fyrir um þau atriði sem skráð skulu á skipaskrá, sem og með hvaða hætti för eða tæki, sem á sjó fljóta, en eru ekki knúin af hreyfiafli í þeim sjálfum, skuli skráð á skipaskrá.

    Skipaskrá skal vera rafræn. Samgöngustofu er heimilt að veita aðgang að og miðla upplýsingum úr skipaskrá, þar á meðal upplýsingum um eigendur, umráðamenn og útgerðaraðila skipa, að upp­fylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

5. gr.

Skráningarskylda.

    Sérhvert skip sem er 6 metrar á lengd eða stærra, mælt milli stafna, er skráningarskylt.

    Bráðabirgðaskráning má fara fram á skipum sem eru í smíðum eða ófullgerð að öðru leyti.

    Heimilt er að skrá skip hér á landi í eigu íslenskra ríkisborgara, íslenskra lögaðila með lögheimili hér á landi, ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, ríkisborgara aðildarríkja stofn­samn­ings Fríverslunarsamtaka Evrópu og færeyskra ríkisborgara.

    Ráðherra skal mæla nánar fyrir um skráningar með reglugerð.

 

6. gr.

Frumskráning.

    Ný skip sem smíðuð eru hér á landi og ætlað er að hafa heimahöfn á Íslandi skal tilkynna Sam­göngu­stofu til skráningar áður en þau eru tekin til notkunar. Önnur skip sem eru skrán­ingar­skyld skal tilkynna um leið og þau komast í eign íslensks aðila sé ætlunin að skrá skipið hér á landi, enda hafi ekki farið fram bráðabirgðaskráning.

    Eigandi eða eigendur skips skulu senda Samgöngustofu beiðni um skráningu. Ráðherra skal með reglugerð mæla fyrir um hvaða upplýsingar um skip skuli koma fram í skráningarbeiðni.

    Með skráningarbeiðni skal fylgja skipasmíðaskírteini eða annað eignarheimildarbréf skrán­ingar­beiðanda. Ef notað skip er flutt hingað til lands frá útlöndum skal fylgja vottorð hlutað­eigandi erlends skráningaryfirvalds um að skipið hafi annaðhvort ekki verið skráð þar eða að öðrum kosti afskráð þar af skipaskrá.

 

7. gr.

Skráning fiskiskipa.

    Eigi er heimilt að skrá fiskiskip á skipaskrá nema að uppfylltum skilyrðum laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998, um eignarhald.

 

8. gr.

Þurrleiguskráning erlendis.

    Samgöngustofa getur heimilað að skip sem skráð er á íslenska skipaskrá sé skráð þurrleigu­skráningu á erlenda skipaskrá þegar skilyrðum 3. mgr. 5. gr. um eignarhald er fullnægt. Getur stofnunin ákveðið að heimild til þurrleiguskráningar takmarkist við skipaskrár tiltekinna ríkja. Heimilt er að skrá skip á þennan hátt til allt að fimm ára og framlengja þurrleiguskráningu í fram­haldi af því um allt að eitt ár í senn.

    Ráðherra skal með reglugerð mæla fyrir um þær upplýsingar sem skulu fylgja umsókn um heimild til þurrleiguskráningar.

    Áður en Samgöngustofa veitir heimild til þurrleiguskráningar fiskiskips skal liggja fyrir staðfesting þess ráðuneytis er fer með málefni sjávarútvegs á því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

  1. skip sem sigla undir þjóðfána Íslendinga gætu ekki stundað þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur,
  2. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur grafa ekki undan alþjóðlegum stjórnunar- og verndunarráðstöfunum sem ákveðnar eru og beitt er í samræmi við reglur þjóðaréttar,
  3. verndunarsjónarmið mæla ekki gegn þeim veiðum sem skipið mun stunda meðan á þurr­leigu­skráningu stendur,
  4. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur eru í samræmi við þær reglur sem viðeigandi alþjóðasamningar mæla fyrir um,
  5. sýnt þykir að ríkið sem skipið mun verða skráð þurrleiguskráningu í muni virða skyldur sínar sem fánaríki,
  6. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur veiti ekki því ríki sem skipið mun verða skráð þurrleiguskráningu í veiðireynslu sem gæti nýst því síðar í samn­ingum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda eða gangi að öðru leyti gegn hags­munum Íslendinga,
  7. önnur skilyrði sem sá ráðherra er fer með málefni sjávarútvegs getur kveðið á um í reglu­gerð.

    Skip sem skráð er á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá siglir undir þjóðfána erlenda ríkisins og skal fylgja ákvæðum laga og reglna þess ríkis, þ.m.t. ákvæðum um eftirlit með skipum, búnað skipa og mönnun þeirra, meðan á þurrleiguskráningu stendur. Veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti skulu skráð hjá hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra hér á landi.

    Heimild til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. fellur niður þegar:

  1. þurrleigusamningur fellur úr gildi,
  2. forsendur heimildar til þurrleiguskráningar eru brostnar að mati Samgöngustofu,
  3. skilyrði fyrir heimild til þurrleiguskráningar skv. 3. mgr. eru ekki lengur uppfyllt að mati þess ráðuneytis er fer með málefni sjávarútvegs,
  4. leigutaki skipsins óskar þess,
  5. 1. mgr. 17. gr. á við um skipið.

    Þegar heimild skips til þurrleiguskráningar fellur niður skal Samgöngustofa fara fram á það við erlendu skipaskrána að skipið verði tafarlaust afskráð af henni. Uppfylli skipið ekki skilyrði íslenskra laga og reglna um eftirlit með skipum ber forráðamönnum þess að sjá til þess að úr því sé bætt innan þriggja sólarhringa frá því að tilkynning berst um að það hafi verið afskráð af hinni erlendu skipaskrá. Þegar skilyrði hafa verið uppfyllt skal tilkynna það til Samgöngustofu.

    Þurrleiguskráningu skips telst lokið þegar tilkynning berst frá erlendu skipaskránni um að það hafi verið afskráð af henni.

 

9. gr.

Þurrleiguskráning á Íslandi.

    Heimilt er að skrá skip þurrleiguskráningu á skipaskrá þegar aðilar skv. 3. mgr. 5. gr. hafa aðeins umráð skipsins með samningi og skilyrðum 3. mgr. 5. gr. um eignarhald er ekki fullnægt. Heimilt er að skrá skip á þennan hátt til allt að fimm ára og framlengja skráningu í framhaldi af því um eitt ár í senn.

    Skip sem skráð er þurrleiguskráningu skal sigla undir íslenskum fána og skal uppfylla skilyrði íslenskra laga og reglna um eftirlit með skipum, þ.m.t. ákvæði um búnað skipa og mönnun þeirra. Veðbönd skips sem skráð er með þessum hætti skulu skráð í frumskráningarríki.

    Ráðherra skal með reglugerð mæla nánar fyrir um skilyrði þess að skráning af þessu tagi fari fram.

    Skip skráð þurrleiguskráningu skal afskráð af skipaskrá þegar:

  1. þurrleigusamningur fellur úr gildi,
  2. skilyrðum skráningar er ekki lengur fullnægt,
  3. leigutaki óskar afskráningar,
  4. skip hefur ekki lengur heimild frumskráningarríkis til að sigla undir fána annars ríkis og
  5. 2.–5. tölul. 1. mgr. 16. gr. eiga við um skipið.

 

10. gr.

Einkaréttur á skipsheitum og einkennum.

    Samgöngustofa getur veitt eiganda skips einkarétt til heitis á skipi sem skráð er á Íslandi. Sama gildir um einkarétt til reykháfsmerkja og annarra einkenna á skipinu, þar á meðal sérfána. Heimilt er að veita þennan rétt þó að skilyrði til skráningar séu ekki enn fyrir hendi.

    Hafi einkaréttur verið veittur skv. 1. mgr. er öðrum óheimilt að nota það skipaheiti eða einkenni svo lík heiti eða einkenni að villu geti valdið. Þó má heiti og einkenni skips sem skráð hefur verið fyrir veitingu á einkarétti haldast óbreytt meðan það helst í eigu sama aðila.

    Einkaréttur til heitis eða einkennis fellur úr gildi þremur árum eftir að skip hefur verið afskráð af skipaskrá ef eigandi heitisins eða einkennisins hefur ekki endurnýjað það á öðru skipi.

    Samgöngustofa heldur skrá yfir heiti og einkenni skipa sem einkaréttur hefur verið veittur á og birtir jafnóðum í skipaskrá.

 

11. gr.

Fáni.

    Skip, sem fullnægja skilyrðum 3. mgr. 5. gr. eða skráð hafa verið skv. 7. eða 9. gr., teljast íslensk skip og hafa rétt til að sigla undir þjóðfána Íslands. Er þeim óheimilt að sigla undir þjóðfána annars ríkis.

    Skip sem er skráð á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá telst þó ekki vera íslenskt skip og hefur ekki rétt til að sigla undir þjóðfána Íslands meðan á þurrleigu­skrán­ingunni stendur.

 

12. gr.

Þjóðernis- og skrásetningarskírteini.

    Samgöngustofa gefur út þjóðernis- og skrásetningarskírteini handa skráðum skipum sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd og skrásetningarskírteini fyrir skip sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd. Fari skip sem er styttra en 15 metrar að mestu lengd milli Íslands og annarra landa skal gefið út þjóðernis- og skrásetningarskírteini handa því.

    Þjóðernis- og skrásetningarskírteini skal ávallt fylgja skipi. Skírteini skal framvísa yfirvöldum þegar þess er krafist.

    Öðrum en Samgöngustofu er óheimilt að rita nokkuð á skírteinin eða breyta nokkru í þeim.

    Óheimilt er að breyta þjóðernisskráningu skips á meðan það er í ferð eða viðkomuhöfn nema raunverulegt framsal eignarréttar hafi átt sér stað eða breyting á skráningu hafi farið fram meðan á siglingu skips stendur.

    Ráðherra mælir með reglugerð fyrir um efni þjóðernis- og skrásetningarskírteina.

    Samgöngustofu er heimilt að gefa út ný þjóðernis- og skrásetningarskírteini við eftirfarandi aðstæður, og skal þá eldra skírteini skilað til stofnunarinnar nema það hafi glatast:

  1. Ef heiti skips er breytt.
  2. Ef heimilisfangi skips er breytt.
  3. Ef skipi er breytt svo að það svarar ekki lengur til þess sem stendur í þjóðernis- og skrásetn­ingar­skírteini um gerð þess, aðalmál eða brúttótonn/rúmlestatölu.
  4. Ef eigendaskipti verða á skipi.
  5. Ef þjóðernis- og skrásetningarskírteini hefur glatast.

 

13. gr.

Þjóðernis- og skrásetningarskírteini til bráðabirgða.

    Nú er skip smíðað erlendis fyrir aðila sem hefur heimild til að skrá skip sitt á Íslandi eða hann verður með öðrum hætti eigandi að skipi erlendis og getur Samgöngustofa þá gefið út þjóðernis- og skrásetningarskírteini handa skipinu til bráðabirgða. Skal það ávallt fylgja skipi og framvísað yfir­völdum þegar þess er krafist.

    Ráðherra mælir með reglugerð fyrir um inntak þjóðernis- og skrásetningarskírteina til bráða­birgða. Beiðni um útgáfu þjóðernis- og skrásetningarskírteinis til bráðabirgða skulu fylgja full­nægjandi gögn um atriði þau sem greina skal í skírteininu, svo og vottorð hlutaðeigandi erlends skrán­ingar­yfirvalds um að skipið hafi annaðhvort ekki verið skráð þar eða að öðrum kosti afskráð þar af skipa­skrá.

    Bráðabirgðaþjóðernisskírteini skal gilda sem venjulegt þjóðernis- og skrásetningarskírteini en þó ekki lengur en einn almanaksmánuð frá útgáfudegi nema sérstök heimild Samgöngustofu komi til.

    Nú hefur skip sem statt er erlendis glatað þjóðernis- og skrásetningarskírteini sínu og getur þá Samgöngustofa gefið út þjóðernis- og skrásetningarskírteini til bráðabirgða, enda skal þá eftir því sem við verður komið farið eftir reglum 1.–3. mgr.

    Samgöngustofu er heimilt að fela fulltrúa utanríkisþjónustu Íslands að annast útgáfu þjóðernis- og skrásetningarskírteinis til bráðabirgða.

 

14. gr.

Nýr eigandi að skráðu skipi eða skipshluta.

    Þegar nýr eigandi að skráðu skipi eða skipshluta hefur látið þinglýsa eignarheimild sinni skal hann skila skráningarbeiðni til Samgöngustofu ásamt endurriti af hinni þinglesnu eignarheimild.

    Nýjum eiganda er óheimilt að láta lögskrá áhöfn á skipið í sínu nafni fyrr en skráningarbeiðnin hefur borist Samgöngustofu, skipið verið skráð á skipaskrá og lögbundin skjöl gefin út því til handa.

    Þegar eigendaskipti verða ber fyrri eigandi ábyrgð á gjöldum vegna skipsins þar til umskráning hefur farið fram.

 

15. gr.

Breytt heiti og heimilisfang skips.

    Ef eigandi skráðs skips vill fá því nýtt heiti eða nýtt heimilisfang skal hann senda Samgöngustofu tilkynningu um það, sbr. 2. mgr. 17. gr. Óheimilt er að breyta heiti eða heimilisfangi fyrr en Samgöngu­stofa hefur skráð hið nýja heiti eða heimilisfang á skipaskrá.

    Nú er heiti skips eða heimilisfangi breytt á skipaskrá og tilkynnir Samgöngustofa það þá þegar til þinglýsingarstjóra í því þinglýsingaumdæmi þar sem skip á eða átti heimilisfang, en þing­lýsingar­stjóri skal án tafar tilkynna breytinguna veðhöfum eða öðrum óbeinum rétthöfum í skipinu ef þeir eru kunnir.

    Nú veldur hið nýja heimilisfang því að skip er flutt á milli þinglýsingaumdæma. Verður þá aðgangur í skipabók þinglýsingarstjóra í því umdæmi sem skip er flutt til virkur eftir umskráningu skips í skipaskrá. Réttaráhrif þinglýsingar rofna ekki vegna flutningsins.

 

16. gr.

Afskráning.

    Afskrá skal skip af skipaskrá:

  1. Þegar tilkynnt er um fyrirhugaða skráningu á skipaskrá annars ríkis.
  2. Ef það fullnægir ekki lengur skilyrðum 5., 7. eða 9. gr.
  3. Ef það hefur farist svo að um sé kunnugt, sömuleiðis ef það hefur horfið án þess að til þess hafi spurst í sex mánuði.
  4. Ef það er rifið, metið ónýtt eða ekki talið þess virði að við það sé gert.
  5. Ef skoðun hefur ekki farið fram á skipi í fimm ár samfleytt.

    Framangreind atriði skulu sönnuð með opinberu vottorði, skoðun eða á annan þann hátt sem Samgöngustofa telur fullnægjandi.

    Þegar eiganda skips verður kunnugt um einhver atriði sem eiga að valda afskráningu þess af skipaskrá skv. 1. mgr. skal hann þegar í stað tilkynna Samgöngustofu það. Ef skipið hefur fengið þjóðernis- og skrásetningarskírteini skal eigandi afhenda skírteinið Samgöngustofu nema glatað sé.

    Ef skráð eru réttindi í skipi skal ekki fella það niður af skipaskrá nema rétthafi samþykki það. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samþykki rétthafa má fella skip af skipaskrá ef ákvæði 3.–5. tölul. 1. mgr. eiga við og fyrir liggur fullnægjandi staðfesting þess að skipið verði ekki haffært á ný eða verðmæti réttindanna eru óveruleg í ljósi þeirra atvika og hagsmuna sem í húfi eru. Ef skipið er ekki fellt úr þinglýsingabókum skal afskráningar af skipaskrá getið þar á blaði skips og einnig á veðbókarvottorðum um skipið.

 

17. gr.

Tilkynningar og beiðnir um breytingu á skráningu.

    Nú verður breyting á einhverjum atriðum sem skrá skal á skipaskrá samkvæmt stjórnvalds­fyrirmælum á grundvelli 4. gr. og ber þá eiganda eða eigendum skips að tilkynna Samgöngu­stofu breytinguna þegar í stað.

    Skráningarbeiðnir og tilkynningar skulu vera rafrænar eða á viðeigandi eyðublöðum sem Sam­göngu­stofa og þinglýsingarstjórar láta í té.

 

18. gr.

Leiðarbréf.

    Samgöngustofa getur, þegar sérstök ástæða er til, veitt skipi staðsettu á Íslandi leiðarbréf til að sigla áður en það er skráð á skipaskrá. Hefur þá leiðarbréf sama gildi hér á landi sem þjóðernis- og skrásetningarskírteini.

    Samgöngustofa getur jafnframt veitt skipi leiðarbréf þegar það er smíðað hér á landi og ætlað til skráningar erlendis.

    Samgöngustofu er einnig heimilt, ef nauðsyn ber til að skip fari þegar til útlanda, að veita því þjóðernis- og skrásetningarskírteini til bráðabirgða til siglingar þangað.

    Ráðherra skal með reglugerð mæla nánar fyrir um skilyrði fyrir útgáfu leiðarbréfa.

 

III. KAFLI

Merking og mæling skipa.

19. gr.

Merking skipa.

    Merkja skal hvert skip með viðeigandi hætti í samræmi við reglugerð er ráðherra setur.

    Bannað er að leyna merkingum skv. 1. mgr. eða nema brott. Ekki má heldur merkja skip öðru heiti en það er skráð undir.

 

20. gr.

Mæling skipa.

    Hvert skip með skráningarlengd 24 metra eða lengra skal mælt og tonnatala þess reiknuð sam­kvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa sem undirrituð var í London 23. júní 1969, með síðari breytingum. Ráðherra skal mæla nánar fyrir um slíkar mælingar með reglugerð.

    Hvert skip með skráningarlengd allt að 24 metrum skal mælt og tonnatala þess reiknuð sam­kvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

    Heimilt er að mæla hvert skip og reikna brúttórúmlestatölu samkvæmt alþjóðareglum um mæl­ingu skipa, gefnum út af Þjóðabandalaginu 30. júní 1939, eins og mælt er fyrir í samningi, undir­rituðum í Ósló 10. júní 1947, með síðari breytingum, eftir nánari reglum sem ráðherra ákveður með reglugerð.

    Þegar skip er skráð á íslenska skipaskrá ber eiganda þess að senda Samgöngustofu útreikninga á tonnatölu þess og teikningar og önnur nauðsynleg gögn til þess að ákveða mælingu þess. Heimilt er að taka útreikninga og mælingar sem samþykktar hafa verið af erlendu ríki gildar ef það ríki er aðili að alþjóðasamþykkt um mælingar skipa frá 1969.

    Samgöngustofa getur hvenær sem ástæða þykir til endurskoðað mælingu skipa. Einnig geta eigendur skipa fengið skip sín mæld að nýju óski þeir þess.

 

21. gr.

Mælibréf.

    Skip sem mælt hefur verið skv. 1. mgr. 20. gr. og reglum sem ráðherra hefur sett skal fá alþjóð­legt mælibréf.

    Skip sem mælt er samkvæmt reglum sem ráðherra hefur sett skv. 2. mgr. 20. gr. skal fá íslenskt mælibréf.

    Ráðherra skal með reglugerð mæla fyrir um form mælibréfa.

    Heimilt er að mæla erlent skip við komu hingað til lands hafi það ekki gilt mælibréf í samræmi við alþjóðasamþykkt um mælingar skipa frá 1969.

 

22. gr.

Tilkynning um smíði skips.

    Eigandi skips skal tilkynna Samgöngustofu um nýsmíði skips. Áður en smíði hefst skal skipa­smiður eða fyrirsvarsmaður hans senda Samgöngustofu tilkynningu um smíði skips, sem ætlað er til skráningar hér á landi, smíðalýsingu, teikningar, útreikninga á tonnatölu og teikningum og önnur gögn sem Samgöngustofa telur nauðsynleg vegna mælingar og eftirlits skv. 26. gr. Enn fremur skal hinn sami tilkynna Samgöngustofu hvenær tímabært er að skoða og mæla skipið.

 

23. gr.

Breyting á skipi.

    Ef skipi er breytt þannig að tonnatala þess breytist er eiganda þess skylt að tilkynna það til Samgöngustofu og skal þá senda stofnuninni nýja útreikninga á tonnatölu, teikningar og önnur nauðsynleg gögn til að ákvarða mælingu þess. Að því loknu skal gefa út nýtt mælibréf.

 

IV. KAFLI

Eftirlit með skipum.

24. gr.

Smíði skipa, búnaður þeirra, mengunarvarnir o.fl.

    Hvert skip skal smíðað og útbúið á þann hátt að öryggi sé tryggt eins og kostur er með tilliti til notkunar og þeirra verkefna sem því eru ætluð á hverjum tíma.

    Til að tryggja öryggi skipverja, farþega, skips og farms, sem og varnir gegn mengun, skal skip fullnægja skilyrðum á hverjum tíma um smíði, búnað og örugga starfsemi skips, þ.m.t. um burðar­virki þess, bol, vatnsþétta niðurhólfun, lagnakerfi, vélbúnað, rafbúnað, eldvarnir, siglinga­tæki, fjarskiptabúnað, björgunar- og öryggisbúnað, mengunarvarnabúnað, lyf og læknis­áhöld, merkingar og annan búnað. Þá skal skip vera mannað með fullnægjandi hætti til að tryggja öryggi. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um þessa þætti.

    Ráðherra ákveður í reglugerð hvaða lög, stjórnvaldsfyrirmæli, skírteini og skipsbækur skuli vera um borð í skipum.

    Skip skulu smíðuð og búin í samræmi við lög og reglur um varnir gegn mengun hafs og stranda.

 

25. gr.

Aðbúnaður og vinnuskilyrði.

    Vinnusvæði og vistarverur skipverja skal hanna og búa með hliðsjón af öryggi og velferð þeirra. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um vinnusvæði, vistarverur, aðbúnað og vinnu­skilyrði skipverja, þ.m.t. um hönnun og merkingar vinnusvæða og vinnslubúnaðar, öryggis­búnað, notkun og viðhald vinnutækja og öryggisbúnaðar og heilbrigðis- og hollustuhætti í skipum.

 

26. gr.

Eftirlit með nýsmíði skips.

    Nýsmíði skipa er háð eftirliti Samgöngustofu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Mæli reglugerðin ekki fyrir um tiltekin atriði skal fara eftir kröfum viðurkenndra flokkunarfélaga um smíði skipa af samsvarandi skipategund eða reglum sem Samgöngustofa samþykkir sem sambærilegar.

    Eiganda skips er heimilt að fela viðurkenndu flokkunarfélagi eftirlit með smíði skips, enda sé skipið smíðað eftir reglum sem gilda hér á landi eða reglum samþykktum af Samgöngustofu sem sambærilegar.

 

27. gr.

Eftirlit með breytingum á skipi.

    Engar meiri háttar breytingar má gera á skipi, svo sem stækkun farmrýmis eða yfirbyggingar, aðalvélarskipti eða breytingar sem hafa áhrif á mælingu skips, sjóhæfni og stöðugleika, öryggi og/eða aðbúnað áhafnar og farþega, án þess að fyrir liggi samþykki Samgöngustofu eða annars aðila sem stofnunin hefur veitt umboð. Breytingarnar skulu gerðar undir eftirliti Samgöngustofu og gilda þar sömu reglur um eftirlit og tilkynningarskyldu og um nýsmíði.

    Sömu reglur um tilkynningarskyldu og eftirlit skulu einnig gilda um meiri háttar viðgerðir sem áhrif geta haft á öryggi skips, sjóhæfni og stöðugleika skips og aðbúnað áhafnar og farþega.

 

28. gr.

Innflutningur skipa.

    Skip sem er keypt eða leigt frá útlöndum til skráningar hér á landi skal hafa verið smíðað í samræmi við reglur viðurkennds flokkunarfélags um flokkuð skip eða sambærilegar reglur. Einnig skal slíkt skip fullnægja skilyrðum íslenskra laga og reglugerða, sem ráðherra skal setja, um styrk­leika, búnað og haffæri. Skal Samgöngustofa upplýst um fyrirhugaðan innflutning og henni veittar nauðsynlegar upplýsingar um skip. Skoðun skal fara fram áður en skipið er flutt inn.

 

29. gr.

Ábyrgð.

    Skipstjóra er skylt að sjá til þess að skip sé haffært þegar það leggur úr höfn og hafi gild lögboðin skírteini um borð. Eiganda skips, útgerðarmanni, skipstjóra og yfirvélstjóra er skylt að sjá til þess að lögskipaðar skoðunargerðir fari fram á skipi eftir því sem við á.

    Um starfsskyldur yfirmanna við skoðunargerð og verkaskiptingu fer skv. III. kafla sjómannalaga, nr. 35/1985.

 

30. gr.

Skoðun skipa.

    Öll skip sem notuð eru í atvinnuskyni skulu sæta skoðun Samgöngustofu í samræmi við ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur um umfang, tíðni og framkvæmd skoðana á skipum. Ráðherra er heimilt að ákveða að skip, sem ekki eru notuð í atvinnuskyni, skuli skoðuð af Samgöngustofu með reglulegu millibili.

    Við skoðun á skipum skal ganga úr skugga um að þau uppfylli ákvæði laga, reglna og alþjóða­samninga um smíði, búnað og örugga starfsemi skips, þ.m.t. um burðarvirki þess, vatnsþétta niður­hólfun, lagnakerfi, bol, björgunar- og öryggisbúnað, vélbúnað, fjarskiptabúnað, rafbúnað, eld­varna­­búnað, mengunarvarnabúnað, siglingatæki, merkingar, lyf og læknisáhöld og annan búnað og mönnun sem varðar öryggi skipsins til að tryggja öryggi skipverja, farþega, skips og farms og varnir gegn mengun frá skipum.

    Samgöngustofa hefur heimild til að fela öðrum að framkvæma skoðun og gefur út starfsleyfi þeim til handa. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi viðurkenndra skoðunaraðila.

    Sé skip í flokki hjá viðurkenndu flokkunarfélagi og gildu flokkunarskírteini er framvísað skal sú skoðun sem fram fór á því til viðhalds á flokkuninni talin fullnægjandi um styrkleika bols, eimkatla og vél- og rafbúnaðar, enda fullnægi skipið jafnframt þeim ákvæðum sem sérstaklega er mælt fyrir um í íslenskum lögum eða reglum varðandi þau atriði sem flokkunin tekur til, svo og skuld­bind­ingum samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt og öðlast hafa gildi.

 

31. gr.

Framkvæmd eftirlits.

    Þegar starfsmenn Samgöngustofu eða þeir sem stofnunin hefur veitt umboð eru að starfi hafa þeir rétt til þess að fara um borð í hvert skip sem statt er í íslenskri höfn, innan íslenskrar landhelgi eða í íslensk skip í erlendri höfn til þess að rannsaka það sem þeim ber samkvæmt stöðu sinni. Sama gildir um skip í smíðum.

    Komi í ljós að skip, búnaður eða starfsemi þess er ekki í samræmi við lög þessi, reglur eða önnur fyrirmæli getur Samgöngustofa fyrirskipað að úr því skuli bætt þegar í stað eða innan ákveðins frests.

    Starfsmenn Samgöngustofu og aðrir sem eftirliti sinna skulu gæta þess að valda hvorki óþarfa töfum á skipi né torvelda vinnu umfram nauðsyn. Þeir skulu framvísa starfsskírteinum sé þess óskað.

    Eigendur, útgerðarmenn, skipstjórar, vélstjórar og aðrir sem starfa í umboði þeirra skulu veita Samgöngustofu og öðrum sem sinna eftirliti alla aðstoð og upplýsingar sem óskað er vegna eftirlits og öryggis skips, svo og upplýsingar um ástand skips, sem varðar lög þessi og reglur sem settar eru samkvæmt þeim. Eigandi eða útgerðarmaður skal sjá til þess að skip sé aðgengilegt til skoð­unar.

 

32. gr.

Aukaskoðun skipa.

    Aukaskoðun skal fara fram á skipi sem hér segir:

  1. Þegar skip hefur verið til viðgerðar vegna atriða sem varða öryggi skips og/eða áhafnar.
  2. Þegar gerðar hafa verið breytingar eða endurbætur á skipi sem varða eða hafa áhrif á öryggi skips og áhafnar eða hættu á mengun frá skipi.
  3. Þegar skip hefur orðið fyrir tjóni þar sem ætla má að skemmdir kunni að hafa áhrif á öryggi skips og áhafnar eða hættu á mengun frá skipi.
  4. Þegar eigandi skips, útgerðarmaður, skipstjóri, yfirvélstjóri, skipverji, stjórn stéttarfélags eða stofnun sem á réttmætra hagsmuna að gæta varðandi örugga starfsemi skips, aðbúnað og vinnuskilyrði um borð eða mengunarvarnir krefst skoðunar eða leggur fram kvörtun nema Samgöngustofa telji slíka kröfu eða kvörtun ekki á rökum reista. Samgöngustofu er óheimilt að veita upplýsingar um það hver hafi lagt fram slíka kröfu eða kvörtun.
  5. Þegar Samgöngustofa telur annars ástæðu til að rannsaka öryggi tiltekinna hluta skips eða búnaðar þess eða atriði sem varða örugga starfsemi skips.

 

33. gr.

Hafnarríkiseftirlit.

    Samgöngustofa skal skoða erlend skip sem koma til hafnar á Íslandi í samræmi við reglur Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit frá 1982, með síðari breytingum, og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar. Ráðherra setur reglur um framkvæmd hafnarríkiseftirlits, eftirlit með komu­tilkynn­ingum erlendra skipa og um hæfniskröfur þeirra skoðunarmanna Samgöngustofu sem annast eftir­litið.

 

34. gr.

Skyndiskoðun skipa.

    Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að taka skip sem lög þessi gilda um til skyndiskoðunar án fyrirvara til að ganga úr skugga um hvort ástand skipsins og búnaður þess sé í samræmi við lög og reglur sem og önnur atriði sem varða örugga starfsemi skipsins, svo sem hvort gætt sé ákvæða laga og reglna um fjölda í áhöfn skipsins, skírteini þess, takmarkað farsvið og útivist, atvinnuréttindi áhafnar, lögskráningu og fjölda farþega á farþegaskipum.

    Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands gera með sér samstarfssamning um hvernig eftirliti skv. 1. mgr. skuli hagað.

 

35. gr.

Haffærisskírteini og önnur skírteini.

    Að skoðun lokinni ákveður Samgöngustofa hvort hún telji að fullnægt sé ákvæðum laga og reglna um smíði, búnað og örugga starfsemi skips og gefa skuli út, árita eða endurnýja skírteini.

    Viðeigandi skírteini skulu gefin út til skipa sem falla undir ákvæði alþjóðasamninga og reglu­gerðar sem ráðherra setur.

    Haffærisskírteini eða önnur jafngild skírteini skulu gefin út til skipa sem falla ekki undir alþjóða­samninga í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, þar sem m.a. skal kveðið á um form og gildis­tíma slíkra skírteina.

 

36. gr.

Óhaffær skip.

    Skip skal telja óhaffært:

  1. Hafi það ekki gilt viðeigandi skírteini eða haffærisskírteini samkvæmt reglugerð sem ráð­herra setur eða ákvæðum alþjóðasamninga.
  2. Liggi það dýpra en hleðslumerki þess leyfa samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur eða ákvæðum alþjóðasamninga.
  3. Sé bol þess, búnaði, þar á meðal mengunarvarnabúnaði, vélum, tækjum eða áhöfn svo áfátt eða skipið er af öðrum ástæðum svo á sig komið með tilliti til öryggis skipsins og þeirra manna sem skipinu fylgja að telja verður vegna sjóferðar þeirrar er skipið skal fara að hættulegra sé að vera í förum með það en venjulegt er.

 

37. gr.

Skemmdir á skipi.

    Hafi skip lent í árekstri, tekið grunn eða annað að borið svo að ástæða sé til að ætla að skip sé óhaffært er skipstjóra skylt að láta skoða skipið á þeim stað er því verður fyrst við komið. Starfsmenn Samgöngustofu eða aðrir aðilar sem stofnunin hefur viðurkennt skulu framkvæma þá skoðun.

    Þurfi að færa skip sem er óhaffært af slysstað eða úr höfn til viðgerðar eða nánari skoðunar skal Samgöngustofa eða aðrir aðilar sem stofnunin hefur viðurkennt ákveða hvaða ráðstafanir skuli gerðar með tilliti til öryggis skipsins, þeirra manna sem skipinu fylgja og mengunarhættu frá skipinu. Hafa skal samráð, eftir atvikum, við Landhelgisgæslu Íslands, Umhverfisstofnun og hafnar­stjóra og önnur þar til bær stjórnvöld um hvaða ráðstafanir skulu gerðar.

 

38. gr.

Upplýsingaskylda.

    Löggæslumenn, hafnaryfirvöld, leiðsögu- og hafnsögumenn, tollgæslumenn, trúnaðarmenn skip­verja eða starfsmenn tryggingafélaga, sem fá vitneskju um að lög þessi eða reglur settar sam­kvæmt þeim hafi verið brotin eða telja sig hafa ástæðu til að ætla að skip sé ekki haffært, skulu tafar­laust gera Samgöngustofu viðvart. Sama gildir um starfsmenn skipasmíðastöðva og verkstæða þegar þeir eru að starfi sínu, þó þannig að þeir skulu gera yfirmanni sínum viðvart sem tilkynnir það tafar­laust til Samgöngustofu.

 

39. gr.

Gömul skip og safnskip.

    Ráðherra getur ákveðið að nýjar reglugerðir nái ekki til gamalla skipa og skipa sem kjölur hefur verið lagður að eða eru á hliðstæðu smíðastigi. Þó skal tekið tillit til varna gegn mengun, öryggis og aðbúnaðar um borð, enn fremur gerðar og fyrirhugaðrar notkunar skipanna. Sé gert ráð fyrir að ákvæði nýrra reglugerða nái til gamalla skipa skal þess getið sérstaklega. Þá skal að jafnaði veita eigendum slíkra skipa hæfilegan frest til að fara að nýjum ákvæðum.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja ákvæði sem undanþiggja safnskip, þ.e. skip 50 ára og eldri sem rekin eru í menningarlegum tilgangi, frá tilteknum kröfum þessara laga og reglna.

 

40. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að eftirlit skuli haft með öryggi annarra skipa á sjó, ám og vötnum og hvernig því eftirliti skuli haga.

    Ráðherra er enn fremur heimilt að setja reglugerðir um eftirlit með skipum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

 

41. gr.

Farþegaflutningar í atvinnuskyni.

    Farþegaflutningar í atvinnuskyni, þ.m.t. skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna, með skipum sem lög þessi gilda um eru háðir leyfi Samgöngustofu. Skal slíkt leyfi gefið út þegar leitt er í ljós að fullnægt er ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, svo og ákvæðum annarra laga og reglugerða sem gilda um skip í farþegaflutningum. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um útgáfu og skilyrði leyfis samkvæmt þessari málsgrein, leyfilegan fjölda farþega um borð í farþegaskipum og farsvið farþegaskipa.

 

V. KAFLI

Farbann.

42. gr.

Farbann.

    Eigi að leggja skipi úr höfn án þess að það hafi haffærisskírteini eða gild viðeigandi skírteini samkvæmt lögum þessum og reglugerðum eða ákvæðum alþjóðasamninga eða skip er annars óhaffært á ferð skal Samgöngustofa leggja farbann á það.

    Enn fremur skal leggja farbann á skip ef starfsmenn Samgöngustofu eru hindraðir í störfum við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum.

    Ef ástæður farbanns eru ekki lengur fyrir hendi skal farbanni aflétt þegar í stað.

 

43. gr.

Tilkynning um farbann.

    Ákvörðun um farbann skal þegar í stað tilkynna skipstjóra og útgerðarmanni skriflega. Ástæður fyrir farbanni skulu tilgreindar, svo og skilyrði fyrir því að banni verði aflétt. Samgöngustofa getur óskað eftir því ef nauðsyn krefur að lögreglustjórar og hafnar- og tollyfirvöld á hverjum stað, svo og starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, veiti þeim fulltingi við framkvæmd farbanns og ber þeim að verða við þeirri ósk.

 

VI. KAFLI

Gjöld og viðurlög.

44. gr.

Þjónustugjöld.

    Samgöngustofu er heimilt að innheimta þjónustugjöld vegna laga þessara í samræmi við 13. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012. Þjónustugjöld Sam­göngu­stofu eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 15. gr. sömu laga.

 

45. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn eða upp­fyllir ekki skilyrði eftirfarandi ákvæða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim:

  1. 1. mgr. 5. gr. um skráningarskyldu,
  2. 1. mgr. 11. gr. um notkun íslenska fánans,
  3. 19. gr. um merkingu skipa,
  4. 20. gr. um mælingu skipa,
  5. 22. gr. um tilkynningu um smíði skips,
  6. 24. gr. um smíði skipa, búnað þeirra, mengunarvarnir o.fl.,
  7. 25. gr. um aðbúnað og vinnuskilyrði,
  8. 27. gr. um eftirlit með breytingum á skipi,
  9. 1. mgr. 29. gr. um ábyrgð vegna haffæris og lögskipaðra skoðunargerða,
  10. 1. og 4. mgr. 31. gr. um framkvæmd skoðunar,
  11. 33. gr. um hafnarríkiseftirlit,
  12. 36. gr. um óhaffær skip,
  13. 1. mgr. 37. gr. um skemmdir á skipi,
  14. 38. gr. um upplýsingaskyldu,
  15. 41. gr. um farþegaflutninga í atvinnuskyni.

    Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100.000 kr. til 500.000 kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 200.000 kr. til 2.000.000 kr.

    Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til þess hvað brot hefur staðið lengi yfir, samstarfsvilja hins brotlega og hvort um ítrekað brot er að ræða. Samgöngustofu er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt marg­feldi af þeim hagnaði sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögum þessum, þó innan ramma 2. mgr.

    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

    Ákvörðun Samgöngustofu um stjórnvaldssekt er aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar. Stjórnvaldssektir renna í ríkissjóð, að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.

    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

    Aðili máls getur skotið ákvörðun Samgöngustofu um stjórnvaldssekt til ráðherra innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfir.

 

46. gr.

Refsingar.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nú er brot framið með verknaði, svo sem skjalafalsi, sem refsiverður er samkvæmt almennum hegningarlögum og skal þá einnig beita viðeigandi ákvæðum þeirra. Tilraun og hlutdeild í brotum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

    Nú er brot skv. 1. mgr. framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

    Lög þessi raska í engu ákvæðum áfengislaga að því er snertir viðurlög ef menn eru undir áhrifum áfengis við störf sín.

 

47. gr.

Kæra til lögreglu.

    Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að kæra brot á lögum þessum og reglu­gerðum sem settar eru samkvæmt þeim til lögreglu.

    Varði meint brot bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Samgöngustofa hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Samgöngustofu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Samgöngustofa á hvaða stigi málsins sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.

    Varði brot á lögum þessum bæði refsiábyrgð fyrir einstakling og lögaðila metur Samgöngustofa, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort mál skuli kært til lögreglu að hluta eða í heild.

    Með kæru Samgöngustofu skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Samgöngustofu um að kæra mál til lögreglu.

    Samgöngustofu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu og ákæruvaldi og taka þátt í aðgerðum lögreglu að öðru leyti.

    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Samgöngustofu í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast brotum sem til meðferðar eru hjá stofnuninni og taka þátt í aðgerðum hennar að öðru leyti.

    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafn­framt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Samgöngustofu til með­ferðar og ákvörðunar.

 

48. gr.

Réttur einstaklinga til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssektar eða kæru til lögreglu vegna brota gegn ákvæðum þessara laga eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um brot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands skulu leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

 

49. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, lög um skipamælingar, nr. 146/2002, lög um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa hf. Olíumöl innflutning á olíu­pramma, nr. 4/1977, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Köfunarstöðinni hf., Dýpk­unar­félaginu hf., Slysavarnafélagi Íslands og Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. innflutning á skipum, nr. 27/1989, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa Slysavarnafélagi Íslands að flytja inn björg­unar­bát, nr. 23/1993, og lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Sveinbirni Runólfs­syni sf. innflutning á gröfupramma, nr. 24/1993.

 

Gjört í Reykjavík, 11. júní 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 25. júní 2021