Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Leiðréttingar:
Leiðrétt skjal: B_nr_321_2020_leidrett.pdf
Leiðrétt 8. apríl 2020:
HTML-texti og PDF skjal: Í 1.-8. gr. þar sem orðið fjármálaeftirlitið eða fjármálaeftirlitsins kemur fyrir skal það ritað með stórum upphafsstaf, sbr. leiðrétt PDF-skjal


Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 321/2020

Nr. 321/2020 6. apríl 2020

GJALDSKRÁ
Seðlabanka Íslands vegna sértækra aðgerða fjármálaeftirlitsins.

1. gr.

Gildissvið o.fl.

Gjaldskrá þessi gildir um greiðslu kostnaðar vegna sértækra aðgerða fjármálaeftirlitsins skv. 7. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Gjaldskráin gildir einnig um endurskoðun tilboðsverðs yfirtöku­tilboðs skv. 8. mgr. 103. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, greiðslu kostnaðar við afgreiðslu umsókna um leyfi til útgáfu sértryggðra skulda­bréfa skv. 30. gr. laga nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf og þóknanir fyrir staðfestingu fjármála­eftirlitsins á lýsingum og viðaukum við þær skv. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 14/2020 um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði.

Fjármálaeftirlitið upplýsir aðila um gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá þessari.

 

2. gr.

Tímagjald.

Fyrir afgreiðslu á málum samkvæmt gjaldskrá þessari skal greiða tímagjald sem nemur 15.000 krónum fyrir vinnu starfsmanna fjármálaeftirlitsins og 20.000 krónum fyrir aðkeypta sérfræði­þjón­ustu, nema annað leiði af einstökum ákvæðum gjaldskrárinnar.

Gjaldið skal greitt samkvæmt reikningi sem Seðlabankinn gefur út við lok afgreiðslu máls ásamt tímaskýrslu um fjölda vinnustunda sem stofnunin hefur varið í afgreiðsluna. Seðla­bankanum er þó heimilt á hvaða stigi máls sem er að fara fram á greiðslu áfallins kostnaðar.

 

3. gr.

Nauðsynlegt umframeftirlit.

Eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða fyrir nauðsynlegt umframeftirlit fjármálaeftirlitsins, sam­kvæmt sérstakri ákvörðun Seðlabankans, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999, þ.m.t. kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, ferðalaga og skipunar sérfræðings skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Komi til greina að leggja kostnað á eftirlitsskyldan aðila vegna umframeftirlits skv. 1. mgr. upp­lýsir fjármálaeftirlitið um tímagjald starfsmanna, annarrar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og annan áætlaðan kostnað.

Kostnaðurinn skal greiddur samkvæmt reikningi sem Seðlabankinn gefur út að loknu umfram­eftirliti. Reikningnum skulu fylgja tímaskýrslur um fjölda vinnustunda sem fjármálaeftirlitið hefur varið í umframeftirlitið og upplýsingar um útlagðan kostnað, s.s. vegna aðkeyptrar sérfræði­þjónustu, ferðalaga og skipunar sérfræðings.

 

4. gr.

Afgreiðsla umsóknar um starfsleyfi.

Fastagjöld fyrir afgreiðslu umsókna um starfsleyfi eftirlitsskyldra aðila skulu vera í samræmi við þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999.

Gjaldið skal greitt við afhendingu umsóknar til fjármálaeftirlitsins og er að jafnaði óendur­kræft þótt umsókn sé dregin til baka eða synjað sé um útgáfu starfsleyfis.

 

5. gr.

Afgreiðsla og skráning sértækrar staðfestingar og mats.

Fyrir afgreiðslu og skráningu eftirfarandi sértækra staðfestinga og mats, sem leiða af starfsemi fjármálaeftirlitsins, en teljast ekki þáttur í reglubundnu eftirliti, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999, skulu eftirlitsskyldir aðilar, og eftir atvikum aðrir aðilar, greiða tímagjald skv. 2. gr. gjaldskrárinnar:

  1. Umsókn um aukið starfsleyfi (viðbótarstarfsleyfi) eða breytingu á tegund starfsleyfis.
  2. Umsókn um samruna, skiptingu eða yfirfærslu rekstrarhluta, sbr. XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og VII. kafla laga nr. 100/2016 um vátrygginga­starfsemi.
  3. Tilkynning um virkan eignarhlut, sbr. VI. kafla laga nr. 161/2002, X. kafla laga nr. 100/2016, II. kafla laga nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu og III. kafla laga nr. 17/2013 um útgáfu og meðferð rafeyris.
  4. Tilkynning vegna fyrirhugaðrar veitingar þjónustu erlendis án stofnunar útibús, með stofnun útibús eða í gegnum umboðsaðila, sbr. V. kafla laga nr. 161/2002, X. kafla laga nr. 62/2019 um dreifingu vátrygginga, XX. kafla laga nr. 100/2016, II. kafla laga nr. 120/2011 og III. kafla laga nr. 17/2013.
  5. Umsókn rekstrarfélags um staðfestingu verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðs, sbr. II. og III. kafla laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
  6. Tilkynning um fyrirhugaða markaðssetningu hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs erlendis, sbr. II. kafla laga nr. 128/2011.
  7. Umsókn fjármálafyrirtækis um heimild til að varðveita fjármálagerninga á safnreikningi, sbr. II. kafla laga nr. 108/2007.
  8. Umsókn um heimild fyrir einkaumboðsmann til að starfa í þágu fjármálafyrirtækis, sbr. II. kafla laga nr. 108/2007.
  9. Umsókn um undanþágu frá tilboðsskyldu, sbr. X. kafla laga nr. 108/2007.
  10. Umsókn um staðfestingu tilboðsyfirlits, sbr. XI. kafla laga nr. 108/2007.
  11. Umsókn um heimild til að beita innramatsaðferð við mat á áhættuþáttum í útreikningi á áhættu­grunni skv. 5. mgr. 84. gr. e laga nr. 161/2002.
  12. Umsókn um skráningu sem lánveitandi eða lánamiðlari, sbr. XIII. og XIV. kafla laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.
  13. Samþykki vegna notkunar eigin stika vátryggingafélags, sbr. 3. mgr. 100. gr. laga nr. 100/2016.
  14. Umsókn um heimild til að nota eigið líkan við útreikning á gjaldþolskröfu, sbr. 104. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi og 21. gr. laga nr. 60/2017 um vátrygginga­samstæð­ur.
  15. Umsókn um skráningu einstaklinga og lögaðila sem starfrækja gjaldeyris­skipta­stöð, þjón­ustu­veitenda viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og þjónustu­veitenda staf­rænna veskja, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjár­mögnun hryðjuverka.

Sé beiðni samkvæmt þessari grein hafnað eða hún dregin til baka eftir að afgreiðsla fjár­mála­eftirlitsins er hafin skal greiða áfallinn kostnað í samræmi við fjölda vinnustunda sem stofnunin hefur varið í afgreiðsluna og kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu.

 

6. gr.

Lýsingar.

Fyrir staðfestingu fjármálaeftirlitsins á lýsingu, skjala sem ætlað er að verða hluti lýsingar og við­auka við lýsingu skal greiða tímagjald skv. 2. gr. gjaldskrárinnar, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 14/2020 um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði.

Fyrir skráningu á endanlegum skilmálum grunnlýsinga, almennri útgefandalýsingu og breyt­ingum á henni skal greiða tímagjald skv. 2. gr. gjaldskrárinnar, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 14/2020.

Fyrir eftirlitsverkefni í tengslum við athugun á auglýsingum lýsinga skal greiða tímagjald skv. 2. gr. gjaldskrárinnar, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 14/2020.

Sé hætt við útboð eða töku verðbréfa til viðskipta eftir að afgreiðsla er hafin skal greiða áfallinn kostnað í samræmi við fjölda vinnustunda sem fjármálaeftirlitið hefur varið í afgreiðsluna og kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Seðlabankanum er heimilt á hvaða stigi máls að fara fram á greiðslu áfallins kostnaðar.

 

7. gr.

Endurskoðun tilboðsverðs yfirtökutilboðs.

Tilboðsgjafi eða útgefandi skal greiða fyrir endurskoðun tilboðsverðs yfirtökutilboðs skv. 8. mgr. 103. gr. laga nr. 108/2007. Fyrir vinnu starfsmanna fjármálaeftirlitsins skal greiða tímagjald skv. 2. gr. gjaldskrárinnar. Sé verðmat framkvæmt af utanaðkomandi matsaðila skal tilboðsgjafi eða útgefandi greiða fyrir verðmatið samkvæmt reikningi matsaðila, í samræmi við 2. gr. gjald­skrár­innar.

Dragi tilboðsgjafi eða útgefandi ósk sína um endurskoðun tilboðsverðs yfirtökutilboðs til baka eftir að endurskoðun er hafin skal viðkomandi greiða áfallinn kostnað í samræmi við fjölda vinnu­stunda sem fjármálaeftirlitið hefur varið í afgreiðsluna og kostnað vegna utanað­komandi matsaðila.

 

8. gr.

Afgreiðsla umsóknar um leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa.

Fyrir afgreiðslu umsóknar um leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa, sbr. 30. gr. laga nr. 11/2008, skal greiða tímagjald skv. 2. gr. gjaldskrárinnar.

Sé umsókn hafnað eða hún dregin til baka eftir að afgreiðsla umsóknar um leyfi til útgáfu sér­tryggðra skuldabréfa er hafin skal greiða áfallinn kostnað í samræmi við fjölda vinnustunda sem fjár­mála­eftirlitið hefur varið í afgreiðsluna og kostnað vegna aðkeyptrar sérfræði­þjónustu.

 

9. gr.

Gildistaka o.fl.

Gjaldskrá þessi er sett af Seðlabanka Íslands á grundvelli 4. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999, 8. mgr. 103. gr. laga nr. 108/2007, 30. gr. laga nr. 11/2008 og 4. mgr. 6. gr. laga nr. 14/2020.

Gjaldskráin tekur þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá Fjármála­eftirlitsins nr. 924/2017.

 

Seðlabanka Íslands, 6. apríl 2020.

 

  Ásgeir Jónsson Rannveig Júníusdóttir
  seðlabankastjóri. framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 7. apríl 2020