Forseti Íslands gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 9. tölul. 4. gr. laganna:
- 6. málsl. orðast svo: Þrátt fyrir 1. málsl. er lögaðila heimilt að stunda takmarkaða atvinnustarfsemi til fjáröflunar innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum hans og leiða má beint af tilgangi lögaðilans og atvinnustarfsemin hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu með tilliti til heildartekna hans eða er óverulegur hluti heildarstarfsemi.
- Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um frekari skilgreiningar á starfsemi til almannaheilla og þau skilyrði sem uppfylla þarf fyrir skráningu í almannaheillaskrá Skattsins.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. A-liðar 67. gr. laganna:
- Orðin „og því, sem þá kann að vera óráðstafað, til greiðslu auðlegðarskatts hans á álagningarárinu“ í 1. og 3. málsl. falla brott.
- Í stað „22/37“ í 4. málsl. kemur: 22/31.
3. gr.
Við 1. mgr. 90. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í þeim samskiptum sem eiga sér stað samkvæmt ákvæðum 94. og 96. gr., 2. og 3. mgr. 101. gr. og 102. gr. er nægjanlegt að nafn starfsmanns komi fram.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 92. gr. laganna:
- Í stað orðanna „og greiðslufyrirkomulag“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: greiðslufyrirkomulag og miðlun leigugreiðslna. Á rekstraraðilum stafrænna vettvanga sem tengjast vöru- og þjónustuviðskiptum liggur enn fremur upplýsingaskylda, m.a. um seljanda, hið selda, verð, greiðslufyrirkomulag og fjölda viðskipta.
- Orðin „og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála“ í 7. mgr. falla brott.
- 9. mgr. orðast svo:
Ríkisskattstjóri getur krafist upplýsinga ókeypis og á því formi sem hann ákveður til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála, þar á meðal frá fjármálastofnunum um framkvæmd áreiðanleikakannana á viðskiptamönnum sínum. Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd upplýsingaöflunar á grundvelli þessarar málsgreinar.
- Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Ríkisskattstjóra er heimilt að leggja dagsektir á rekstraraðila stafræns vettvangs vanræki hann skil skv. 4. mgr. Leggjast dagsektir á frá þeim degi sem rekstraraðila bar að standa skil á gögnum samkvæmt auglýsingu ríkisskattstjóra um skil á gögnum til þess dags að hann fullnægir skyldu sinni. Þá er ríkisskattstjóra heimilt að leggja dagsektir á fjármálastofnun vanræki hún skyldu sína skv. 9. mgr. eða hafi fjármálastofnun samþykkt viðskiptamann án þess að fullnægja upplýsingaskyldu sinni samkvæmt þeirri sömu málsgrein. Leggjast dagsektir á frá þeim degi sem fjármálastofnun bar að standa skil á gögnum samkvæmt reglum settum skv. 9. mgr. og til þess dags að hún fullnægir skyldu sinni. Dagsektir samkvæmt þessari málsgrein geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag. Ríkisskattstjóri má gera aðila sekt skv. 10. mgr. óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns hans og óháð því hvort brotið hafi verið drýgt til hagsbóta fyrir aðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu. Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tekin með úrskurði ríkisskattstjóra og er hann aðfararhæfur. Sekt rennur í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Sé stjórnvaldssekt ekki greidd innan mánaðar frá dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá úrskurðardegi. Álagðar dagsektir falla ekki niður þó að skilaskyldur aðili skili síðar gögnum. Ríkisskattstjóra er heimilt að fella niður sektir sé sýnt fram á að vanhöld hafi orðið af óviðráðanlegum eða öðrum afsakanlegum ástæðum. Ákvörðun ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt má kæra til yfirskattanefndar, sbr. lög um yfirskattanefnd. Kæra til yfirskattanefndar frestar hvorki innheimtu né leysir aðila undan viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu sektarinnar.
5. gr.
2. mgr. 99. gr. laganna orðast svo:
Úrskurðir skulu uppkveðnir af ríkisskattstjóra eða af starfsmanni í umboði hans og skal koma fram í úrskurði nafn þess sem ákvörðun tók.
6. gr.
Við 103. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Heimilt er að sú málsmeðferð vegna þeirra ákvarðana sem skattrannsóknarstjóri hefur með höndum samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sé rafræn. Í þeim samskiptum sem eiga sér stað skv. 1. málsl. er nægjanlegt að nafn starfsmanns komi fram.
II. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
7. gr.
Í stað „5.400 kr.“ í 3. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 6.500 kr.
III. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
8. gr.
Við 8. mgr. 36. gr. c laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er lífeyrissjóði heimilt að eiga allt að 35% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum skv. 1. og 2. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, eða einstakri deild þeirra, þó aldrei umfram 1% heildareigna í hverjum sjóði.
IV. KAFLI
Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993.
9. gr.
Í stað orðanna „2023 og 2024“ í inngangsmálslið EE-liðar ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 2023, 2024 og 2025.
V. KAFLI
Breyting á búnaðarlögum, nr. 70/1998.
10. gr.
15. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.
VI. KAFLI
Breyting á lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.
11. gr.
3. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
Hafi gjaldandi höfðað dómsmál til endurgreiðslu skatta, gjalda eða sekta má hann krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma þegar dómsmál telst höfðað. Hafi gjald verið dæmt ólögmætt leggjast dráttarvextir á greiðslur málshefjanda sem inntar voru af hendi eftir málshöfðun frá greiðsludegi þar til endurgreiðsla fer fram.
VII. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
12. gr.
Í stað orðanna „og ferðaskipuleggjenda“ í j-lið 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: ferðaskipuleggjenda og leiðsögumanna.
13. gr.
3. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
Ákvæði 2. mgr. gilda einnig um eftirtalda aðila við nýskráningu og endurskráningu á virðisaukaskattsskrá skv. 5. gr.:
- Einstakling sem orðið hefur gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir skráningu á virðisaukaskattsskrá.
- Einstakling sem hefur verið eigandi, stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri gjaldþrota félags einhvern tímann á síðustu 12 mánuðum fyrir gjaldþrot þess og það hafi orðið gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir skráningu á virðisaukaskattsskrá.
- Félag ef eigandi, stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri þess hefur orðið gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir skráningu á virðisaukaskattsskrá.
- Félag ef eigandi, stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri þess var eigandi, stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri gjaldþrota félags einhvern tímann á síðustu 12 mánuðum fyrir gjaldþrot þess og það hafi orðið gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir skráningu á virðisaukaskattsskrá.
VIII. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.
14. gr.
Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Tollyfirvöld skulu í þágu almenns tolleftirlits hafa aðgang að rafrænni vöktun og upptökum úr myndavélakerfum þeirra sem viðhafa slíka vöktun í tollhöfnum þar sem fyrsta og síðasta viðkoma fars er hér á landi, á hafnarsvæðum sem og geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur. Tollyfirvöldum er þannig heimilt, eftir því sem þau telja sig þurfa, að taka sjálf upp efni úr rafrænni vöktun sem þau fá aðgang að eða taka afrit af þeim upptökum sem þau fá aðgang að. Veita skal tollyfirvöldum aðgang að rafrænni vöktun bæði endurgjaldslaust og á því tæknilega formi og með þeim hætti sem tollyfirvöld mæla fyrir um. Tollyfirvöldum er jafnframt heimilt að viðhafa sjálf rafræna vöktun og taka upp efni úr henni eftir því sem þau telja sig þurfa.
15. gr.
Í stað orðanna „svo og“ í 2. mgr. 121. gr. laganna kemur: en heimilt.
16. gr.
Við 4. mgr. 159. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að nota lágskammtaröntgenskanna við nákvæma leit að fengnu samþykki viðkomandi.
17. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 180. gr. a laganna:
- Í stað orðanna „fyrirtæki eða einstaklinga sem brjóta“ í 1. mgr. kemur: hvern þann sem brýtur.
- Á eftir orðinu „skv.“ í 1. mgr. kemur: 4. mgr. 30. gr.
- Í stað orðsins „fyrirtæki“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: lögaðila.
IX. KAFLI
Breyting á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011.
18. gr.
2. gr. laganna orðast svo:
Greiða skal gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu á:
- gististað sem hefur rekstrarleyfi í flokki II–IV, sbr. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007,
- tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi.
Greiða skal gistináttaskatt fyrir hvern dvalargest sem hefur gistináttaeiningu til afnota um borð í skemmtiferðaskipi í innanlandssiglingum við Ísland.
Með gistináttaeiningu er átt við leigu á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt. Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði, þar á meðal um borð í skemmtiferðaskipi, sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar.
Gistináttaskattur af hverri seldri gistináttaeiningu skv. 1. mgr. skal vera sem hér segir:
- Fyrir gistiaðstöðu skv. a-lið 1. mgr.: 800 kr.
- Fyrir gistiaðstöðu skv. b-lið 1. mgr.: 400 kr.
Gistináttaskattur fyrir hvern dvalargest skv. 2. mgr. skal vera 400 kr. fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem farþegi dvelur í skipinu.
Gistináttaskattur samkvæmt ákvæði þessu myndar ekki gjaldstofn til virðisaukaskatts.
19. gr.
3. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Undanþágur frá gistináttaskatti.
Ekki skal greiða gistináttaskatt í eftirfarandi tilvikum:
- við sölu á gistináttaeiningu sem ekki ber virðisaukaskatt samkvæmt lögum um virðisaukaskatt,
- fyrir gistiaðstöðu sem áhöfn og annað starfsfólk í skemmtiferðaskipi í innanlandssiglingu við Ísland hefur til umráða um borð í skipinu.
20. gr.
Á eftir 3. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 3. gr. a og 3. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
a. (3. gr. a.)
Innviðagjald.
Greiða skal innviðagjald fyrir hvern farþega um borð í skemmtiferðaskipi í millilandasiglingum á meðan skipið dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins, sbr. 2. gr. tollalaga, nr. 88/2005.
Innviðagjald skal vera 2.500 kr. fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem skipið dvelur á tollsvæði ríkisins skv. 1. mgr.
b. (3. gr. b.)
Undanþágur frá innviðagjaldi.
Ekki skal greiða innviðagjald í eftirfarandi tilvikum:
- ef skemmtiferðaskip í millilandasiglingum leggst að höfn hér á landi og fyrir liggur með sannanlegum hætti að skipið hafi verið í nauðum statt vegna áreksturs, sjóskemmda, veikinda eða ófriðar,
- fyrir áhöfn og annað starfsfólk um borð í skemmtiferðaskipi í millilandasiglingum.
21. gr.
4. gr. laganna orðast svo:
Þeim sem selja gistináttaeiningar skv. 1. mgr. 2. gr. og rekstraraðilum skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum um Ísland skv. 2. mgr. 2. gr. ber skylda til að greiða gistináttaskatt, sbr. þó 3. gr.
Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa í millilandasiglingum skv. 3. gr. a ber skylda til að greiða innviðagjald.
Skattskyldir aðilar skv. 1. og 2. mgr. skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um skattskylda starfsemi áður en hún hefst.
Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir skattskylda aðila samkvæmt lögum þessum. Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. 2. mgr. 2. gr. og skemmtiferðaskipa í millilandasiglingum skv. 3. gr. a er heimilt að skrá sig á gistináttaskattsskrá í eigin nafni.
22. gr.
5. gr. laganna orðast svo:
Ríkisskattstjóri annast álagningu gistináttaskatts skv. 2. gr.
Skattskyldir aðilar skv. 1. mgr. 4. gr. skulu greiða gistináttaskatt fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við fjölda seldra gistináttaeininga eða fjölda farþega skemmtiferðaskips.
Uppgjörstímabil gistináttaskatts skulu vera þau sömu og uppgjörstímabil virðisaukaskatts skv. 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
Eigi síðar en á gjalddaga skulu skattskyldir aðilar ótilkvaddir skila Skattinum skýrslu um fjölda seldra gistinátta eða fjölda farþega skemmtiferðaskips á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu skattsins til innheimtumanns ríkissjóðs. Beri gjalddaga gistináttaskatts upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.
Skýrslur vegna gistináttaskatts skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
23. gr.
Á eftir 5. gr. a laganna kemur ný grein, 5. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Álagning innviðagjalds.
Ríkisskattstjóri annast álagningu innviðagjalds skv. 3. gr. a.
Uppgjörstímabil innviðagjalds hjá rekstraraðilum skemmtiferðaskipa skv. 2. mgr. 4. gr. telst vera sá tími sem skipið er innan tollsvæðis ríkisins hverju sinni. Gjalddagi er sjö dögum eftir að skip yfirgefur tollsvæði ríkisins.
Eigi síðar en á gjalddaga skulu rekstraraðilar skemmtiferðaskipa ótilkvaddir skila Skattinum skýrslu um fjölda farþega á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu skattsins til innheimtumanns ríkissjóðs. Beri gjalddaga innviðagjalds upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.
Skýrslur vegna innviðagjalds skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
24. gr.
Á eftir orðunum „gistináttaskatti“ og „gistináttaeininga“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: eða innviðagjaldi; og: eða fjölda farþega.
25. gr.
Heiti laganna verður: Lög um gistináttaskatt og innviðagjald.
X. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.
26. gr.
Í stað orðanna „líf- og heilsutryggingar“ í 1. málsl. 3. mgr. 1. gr. laganna kemur: líftryggingu, slysatryggingu og sjúkratryggingu.
27. gr.
Á eftir orðinu „skaðatrygging“ í a-lið 21. tölul. 2. gr. laganna kemur: eða persónutrygging.
28. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
- 1. mgr. orðast svo:
Við dreifingu skaðatrygginga og þeirra persónutrygginga sem falla undir 20. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, skal dreifingaraðili veita staðlaðar upplýsingar á sérstöku skjali á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Vátryggingafélag skal útbúa slíkt upplýsingaskjal vegna allra vátrygginga samkvæmt þessari málsgrein.
- Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Staðlað upplýsingaskjal.
29. gr.
Fyrirsögn 11. gr. laganna orðast svo: Sérstök upplýsingaskylda.
30. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 145. gr. b laganna:
- Orðin „vegna skaðatrygginga“ í 8. tölul. falla brott.
- Orðin „vegna persónutrygginga“ í 9. tölul. falla brott.
XI. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016.
31. gr.
Á eftir orðunum „skaðatrygginga og“ í 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: persónutrygginga, þ.m.t.
32. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
- Á eftir orðinu „skaðatryggingum“ í inngangsmálslið 1. mgr. kemur: og þeim persónutryggingum sem getur í þessari grein.
- Á eftir orðinu „skaðatrygginga“ í inngangsmálslið 2. mgr. kemur: og persónutrygginga.
- Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Starfsleyfi í skaðatryggingum o.fl.
33. gr.
Á eftir orðinu „skaðatrygginga“ í 22. gr. laganna kemur: og tilteknum greinaflokkum persónutrygginga.
34. gr.
Í stað orðanna „til skaðatrygginga“ í 2. tölul. 2. mgr. 73. gr. laganna kemur: skaðatryggingastarfsemi.
XII. KAFLI
Breyting á lögum um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019.
35. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
- Á eftir orðinu „skaðatrygginga“ í inngangsmálslið 1. mgr. kemur: og tilgreindra persónutrygginga.
- Orðin „2. mgr. 20. gr. og“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
XIII. KAFLI
Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995.
36. gr.
Á eftir 10. gr. a laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Gjald á nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, með sjö nýjum greinum, 10. gr. b – 10. gr. h, svohljóðandi, og breytist kaflanúmer III. kafla laganna samkvæmt því:
a. (10. gr. b.)
Greiða skal til ríkissjóðs sérstakt gjald af nikótínvörum, vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar fyrir rafrettur sem fluttar eru hingað til lands eða eru framleiddar hér á landi.
Með nikótínvörum, vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar fyrir rafrettur er átt við vörur sem falla undir lög nr. 87/2018 og flokkast undir 24. kafla í viðauka I við tollalög, nr. 88/2005.
b. (10. gr. c.)
Gjaldskyldir aðilar samkvæmt kafla þessum eru allir þeir sem flytja inn eða framleiða vörur skv. 10. gr. b hér á landi til sölu eða vinnslu.
Gjaldskyldir aðilar eru enn fremur þeir sem flytja með sér til landsins vörur skv. 10. gr. b til eigin nota, svo og þeir sem fá sendar slíkar vörur erlendis frá án þess að þær séu til sölu eða vinnslu.
Aðilar sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 10. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, eru undanþegnir gjaldskyldu við innflutning í samræmi við sérlög eða ákvæði alþjóðasamninga eða tvíhliða samninga.
c. (10. gr. d.)
Fjárhæð gjalds á vörur skv. 10. gr. b skal vera eftirfarandi:
- Nikótínvörur þar sem styrkur nikótíns er á bilinu 1 til og með 8 mg/g: 8 kr. á hvert gramm vöru.
- Nikótínvörur þar sem styrkur nikótíns er á bilinu 8,1 til og með 12 mg/g: 12 kr. á hvert gramm vöru.
- Nikótínvörur þar sem styrkur nikótíns er á bilinu 12,1 til og með 16 mg/g: 15 kr. á hvert gramm vöru.
- Nikótínvörur þar sem styrkur nikótíns er á bilinu 16,1 til og með 20 mg/g: 20 kr. á hvert gramm vöru.
- Vökvar í einnota rafrettur og vökvar til áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda ekki nikótín: 40 kr. á hvern millilítra vöru.
- Vökvar í einnota rafrettur og vökvar til áfyllingar fyrir rafrettur þar sem styrkur nikótíns er 12 mg/ml eða lægra: 40 kr. á hvern millilítra vöru.
- Vökvar í einnota rafrettur og vökvar til áfyllingar fyrir rafrettur þar sem styrkur nikótíns er 12,1 mg/ml eða hærra: 60 kr. á hvern millilítra vöru.
- Af vörum skv. 1.–7. tölul. sem seldar eru í tollfrjálsum verslunum sem falla undir ákvæði 2. mgr. 104. gr. tollalaga, nr. 88/2005: 50% af gjaldi skv. 1.–7. tölul.
Gjald skv. 1. mgr. skal lagt á í samræmi við upplýsingar sem tilgreindar eru á umbúðum vöru.
Ef umbúðir vöru greina ekki magn sem aðilar sem tilgreindir eru í 2. mgr. 10. gr. c flytja til landsins eða fá sent erlendis frá er tollyfirvöldum heimilt að meta magn og ákvarða gjald eftir því.
d. (10. gr. e.)
Þeir sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 10. gr. c skulu ótilkvaddir senda tilkynningu um starfsemi sína til ríkisskattstjóra. Þeir sem hefja gjaldskylda starfsemi skulu senda tilkynningu áður en starfsemin hefst.
Í tilkynningu skal tilgreina nafn, firmanafn, heimili og kennitölu rekstraraðila og hvers konar framleiðslu eða innflutning sé um að ræða.
Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir alla þá sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 10. gr. c laga þessara.
e. (10. gr. f.)
Gjald af innfluttum vörum skv. 10. gr. b skal greitt við tollafgreiðslu þeirra.
Af vörum skv. 10. gr. b, sem framleiddar eru innan lands til sölu þar, reiknast gjald við sölu eða afhendingu vörunnar frá verksmiðju eða framleiðanda til kaupanda og skiptir ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla fer fram.
Uppgjörstímabil gjalds skv. 2. mgr. er einn almanaksmánuður. Gjaldi ásamt skýrslu skal skila eigi síðar en á öðrum virka degi eftir lok hvers uppgjörstímabils vegna sölu eða afhendingu á vörum á því tímabili.
f. (10. gr. g.)
Ríkisskattstjóri leggur á gjald skv. 10. gr. d.
Sé gjald ekki greitt á gjalddaga, sbr. 10. gr. f, skal aðili sæta álagi til viðbótar því gjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef framleiðandi á vörum skv. 10. gr. b hefur ekki skilað skýrslu eða henni verið ábótavant og gjald því áætlað, nema hann hafi greitt fyrir gjalddaga upphæð sem svarar til áætlunar eða gefið fullnægjandi skýringu á vafaatriðum fyrir lok kærufrests.
Álag skv. 2. mgr. skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.
Sé gjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Dráttarvextir skulu reiknaðir frá og með gjalddaga.
Verði vanskil á greiðslu gjalds skal ríkisskattstjóri synja innflytjanda eða framleiðanda vöru skv. 10. gr. b um frekari greiðslufrest meðan vanskil vara.
Ef um er að ræða ítrekuð eða stórfelld vanskil á greiðslu gjalds, álags skv. 3. mgr. eða dráttarvaxta skv. 4. mgr. geta tollyfirvöld án fyrirvara stöðvað tollafgreiðslu á öðrum vörum til skuldara eða látið lögreglu stöðva atvinnurekstur skuldarans, m.a. með því að setja starfsstöðvar, skrifstofur, útsölur, tæki og vörur undir innsigli þar til full skil eru gerð, enda telji tollyfirvöld hagsmuni ríkissjóðs ekki verða tryggða með öðrum hætti.
g. (10. gr. h.)
Gjald skv. 10. gr. d skal fellt niður eða endurgreitt í eftirtöldum tilvikum:
- Við sölu á vörum skv. 10. gr. b úr landi.
- Við innflutning og sölu á vörum til tollfrjálsra verslana og tollfrjálsra forðageymslna, sbr. þó 8. tölul. 1. mgr. 10. gr. d. Jafnframt af vörum skv. 10. gr. b sem gjald hefur verið reiknað eða greitt af en þær síðan sendar til útlanda, í tollfrjálsa verslun, í tollvörugeymslu, í tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði eða þeim fargað undir eftirliti tollyfirvalda.
- Við innflutning á vörum skv. 10. gr. b til aðila sem njóta skattfrelsis hér á landi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
- Við innflutning og sölu á vörum skv. 10. gr. b til framleiðslu á vörum sem eru gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum til framleiðenda sem hafa leyfi til að selja vörurnar skv. 14. gr. a laga um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018.
37. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
- Í stað orðanna „og 2. mgr. 10. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 2. mgr. 10. gr. og 10. gr. h.
- Í stað orðanna „og tóbaki“ í 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. kemur: tóbaki, nikótínvörum, vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar fyrir rafrettur.
38. gr.
Í stað orðanna „áfengisgjald og tóbaksgjald“ í 12. gr. laganna kemur: gjald af áfengi, tóbaki, nikótínvörum, vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar fyrir rafrettur.
39. gr.
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Gjaldskyldir aðilar skv. 10. gr. c, sem framleiða vörur skv. 10. gr. b hér á landi til sölu eða vinnslu fyrir 1. janúar 2025, skulu tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína eigi síðar en 15. janúar 2025.
40. gr.
Heiti laganna verður: Lög um gjald af áfengi, tóbaki, nikótíni o.fl.
XIV. KAFLI
Breyting á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009.
41. gr.
Á eftir orðinu „þróunarverkefna“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: sem þau bera sjálf fjárhagslega áhættu af, og.
42. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
- Við 5. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til beins kostnaðar telst ekki kostnaður sem tengist fjármögnun eða sölu- og markaðsstarfsemi.
- Í stað orðsins „fyrirtækið“ í 6. tölul. kemur: nýsköpunarfyrirtækið.
- Í stað orðsins „möguleika“ í 9. tölul. kemur: markaðstækifæri fyrir þá vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð sem verið er að þróa í verkefninu, ásamt meginforsendum sem viðkomandi áætlun byggist á.
43. gr.
Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Tilgreina ber í umsókn hvers árs hvort fyrirtæki tengt umsækjanda hafi jafnframt lagt fram umsókn á grundvelli þessarar greinar.
44. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
- 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: að fram komi töluleg markmið um áhrif á rekstrartekjur/útflutning, störf og/eða annan virðisauka nýsköpunarfyrirtækis sem verði til vegna verkefnisins á líftíma afurða þess, ásamt áætlun um markaðssetningu og forsendum hennar, og.
- 3. tölul. 1. mgr. orðast svo: starfsmenn nýsköpunarfyrirtækis hafi sérfræðimenntun, þjálfun eða reynslu á þeim fagsviðum sem hugmynd að virðisaukandi vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð byggist á.
- Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Óheimilt er að framlengja umsókn um sama verkefni sem fengið hefur staðfestingu skv. 1. mgr. oftar en þrisvar. Ef sama verkefni hefur fengið framlengingu í þrígang getur umsækjandi sótt um staðfestingu á nýju verkefni sem byggist á fyrra verkefni ef sýnt er fram á að áfangamarkmiðum hafi sannanlega verið náð og nýtt verkefni byggist á þeim árangri. Rannís getur afturkallað staðfestingu skv. 1. mgr. ef umsókn um verkefni byggðist á röngum og villandi upplýsingum þannig að staðfesting hefði ekki verið veitt ef réttar upplýsingar hefðu legið fyrir. Rannís er heimilt að krefjast upplýsinga og gagna, á því formi sem það óskar, til að meta umsóknir í þessum tilgangi. Afturköllun samþykkis getur tekið til yfirstandandi og síðustu tveggja tekjuára.
45. gr.
Í stað orðanna „hækkar hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti“ í 6. gr. laganna kemur: skal heimilt að telja til þessarar aðkeyptu rannsóknar- eða þróunarvinnu allt að 20% af hámarkskostnaði.
46. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
- Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Ríkisskattstjóra er samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði heimilt að veita Rannís tiltækar upplýsingar um umsækjanda sem skipta máli við afgreiðslu umsóknar. Sama á við um upplýsingar í tengslum við eftirfylgni með staðfestum verkefnum um hvort forsendur hafi breyst.
- 3. málsl. 3. mgr. fellur brott.
47. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
- Í stað 1.–3. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- og/eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu skv. 5. gr. á rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 35 hundraðshlutum af útlögðum, styrkhæfum kostnaði í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja en 25 hundraðshlutum í tilviki stórra fyrirtækja enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti skal vera samtals 1.100.000.000 kr. á rekstrarári, þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 20 hundraðshluta vegna aðkeyptrar rannsóknar- og/eða þróunarvinnu skv. 6. gr.
- 3. mgr. orðast svo:
Kostnaður sem fellur til í atvinnurekstri tengdum rannsóknum og þróun skapar ekki frádráttarrétt hjá söluaðila, enda færist slíkur kostnaður til frádráttar hjá kaupanda. Kostnaður sem fellur til vegna rannsóknar- og/eða þróunarverkefnis sem unnið er fyrir annan aðila sem greiðir fyrir þá vinnu samkvæmt samningi, án annarrar áhættu nýsköpunarfyrirtækis en að skila tilteknum niðurstöðum til nota fyrir greiðanda verkefnisins, telst ekki uppfylla markmið laga þessara. Kostnaður sem fellur til vegna umsóknar til Rannís myndar ekki frádráttarrétt hjá nýsköpunarfyrirtæki.
- Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti takmarkast við samanlagðan kostnað fyrirtækja sem teljast tengd og sótt hafa um skattfrádrátt samkvæmt lögum þessum. Sé samanlagður kostnaður umfram hámarkið skiptist frádráttur af öllum styrkhæfum kostnaði hlutfallslega milli fyrirtækjanna. Fyrirtæki teljast tengd þegar:
- þau eru hluti samstæðu skv. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, eða eru undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri fyrirtækja innan samstæðu, eða
- meirihlutaeignarhald eins fyrirtækis yfir öðru er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti.
Frádráttur samkvæmt lögum þessum, vegna aðkeyptrar þjónustu, er aðeins heimill þegar þjónusta vegna rannsóknar- og/eða þróunarverkefnis er keypt af fyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða í ríkjum sem Ísland hefur gert tvísköttunar- eða upplýsingaskiptasamning við.
- Orðið „fjármagnskostnað“ í 5. mgr. fellur brott.
48. gr.
12. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Álag.
Ríkisskattstjóra er heimilt að gera nýsköpunarfyrirtæki, sem hlotið hefur skattfrádrátt skv. 10. gr., að greiða 25% álag á lækkun skattfrádráttar samkvæmt lögum þessum hafi það oftalið frádráttarbæran kostnað. Falla skal frá álaginu ef sýnt er fram á að skattaðila verði eigi kennt um annmarkana. Enn fremur skal ekki leggja á álag ef um refsiverðan verknað er að ræða.
49. gr.
Við IV. kafla laganna bætist ný grein, 15. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Refsingar.
Sé af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi talið rangt eða villandi fram í von um að nýsköpunarfyrirtæki fái notið skattfrádráttar skv. 10. gr. skal fara með slíkt brot skv. 8. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Sé framtalinn kostnaður byggður á tilhæfulausum eða fölsuðum gögnum sem myndað hafa grundvöll fyrir útgreiðslu skattfrádráttar skv. 2. málsl. 11. gr. skal fara með slík brot samkvæmt almennum hegningarlögum.
Ákvæði 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skulu að öðru leyti taka til brota á lögum þessum.
50. gr.
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Stefnt skal að endurskoðun laganna fyrir 1. janúar 2027.
XV. KAFLI
Breyting á lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020.
51. gr.
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Ráðherra sem fer með opinber fjármál er heimilt, í samráði við ráðherra sem fer með skipulag og uppbyggingu samgöngukerfisins, að undirgangast skuldbindingar fyrir hönd ríkissjóðs vegna útboðs á hringvegi norðaustan Selfoss og brú yfir Ölfusá gegn því að gjaldtaka af umferð um hana standi undir kostnaði í heild eða að lágmarki 50%. Standi gjaldtaka ekki undir öllum kostnaði er heimilt að ákvarða framlög úr ríkissjóði, enda hafi verið gert ráð fyrir útgjöldum í samgönguáætlun og fjármálaáætlun og fjárheimilda aflað fyrir þeim í fjárlögum.
Sé heimild skv. 1. mgr. ekki nýtt innan sex mánaða frá gildistöku hennar fellur hún úr gildi.
XVI. KAFLI
Breyting á lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl., nr. 102/2023.
52. gr.
A-liður 11. gr. laganna fellur brott.
53. gr.
Í stað orðanna „og a-liður 11. gr. og 22. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2025“ í 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: og 22. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2026.
54. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2025.
Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 51. gr. þegar gildi.
Gjört á Bessastöðum, 28. nóvember 2024.
Halla Tómasdóttir. (L. S.)
Sigurður Ingi Jóhannsson.
|