Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1528/2024

Nr. 1528/2024 4. desember 2024

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Samþykkt þessi gildir fyrir meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs í Hvalfjarðar­sveit.

Meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu skal vera í samræmi við ákvæði samþykktar þessarar, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs.

Um orðskýringar vísast til skilgreininga skv. 3. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 3. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs.

 

2. gr.

Markmið.

Markmið samþykktar þessarar er að:

  1. Stuðla að því að meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, stuðla að endurnotkun og endurnýtingu, lágmörkun kostnaðar sam­félagsins, vinnuvernd starfsfólks og góðri þjónustu við íbúa.
  2. Fyrirkomulag söfnunar og meðhöndlunar úrgangs skal stuðla að því að markmiðum laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlunúrgangs og svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Suðvesturlandi 2022-2033 verði náð í sveitar­félaginu, þ.m.t. töluleg markmið um endurvinnslu og endurnýtingu.
  3. Horft verður til úrgangsþríhyrningsins við meðhöndlun úrgangs, áhersla lögð á úrgangs­forvarnir og mengunarbótareglan – sá geldur sem veldur – höfð að leiðarljósi við ákvörðun um gjaldtöku vegna meðhöndlunar úrgangs.

 

3. gr.

Umsjón, eftirlit og fræðsla.

Hvalfjarðarsveit getur sinnt sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs á eigin vegum en er heimilt að fela öðrum framkvæmd söfnunar á heimilisúrgangi, rekstur grenndarstöðva og flutning úrgangs til meðhöndlunar og förgunar. Umhverfis- og skipulagsdeild fer með daglega yfirstjórn mála­flokksins samkvæmt samþykkt þessari.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd Hvalfjarðarsveitar er ráðgefandi fyrir sveitarstjórn, sem fer með ákvörðunarvald og ber ábyrgð á málefnum er varða meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, í umboði heilbrigðisnefndar, hefur eftirlit með meðhöndlun úrgangs skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 9. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs og að farið sé að samþykkt þessari skv. 47. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Hvalfjarðarsveit skal sjá til þess að upplýsingaefni um úrgangsforvarnir og rétta meðhöndlun úrgangs sé aðgengilegt og fræða almenning og aðra úrgangshafa í sveitarfélaginu um úrgangsmál.

 

II. KAFLI

Fyrirkomulag söfnunar við heimili.

4. gr.

Flokkun heimilisúrgangs og sorpílát við heimili.

Sú skylda hvílir á handhafa úrgangs, að flokka úrganginn og setja hann í rétt söfnunarílát, eða að öðrum kosti koma honum til viðeigandi meðhöndlunar á grenndarstöð eða söfnunarstöð. Heimilis­úrgang skal flokka í að lágmarki sjö flokka sem óheimilt er að setja í ílát fyrir blandaðan úrgang:

  1. Lífúrgang (þ.m.t. matarleifar). Lífúrgang skal setja í pappírspoka áður en hann er settur í sorpílát. Sveitarstjórn getur ákveðið að bjóða íbúum að sækja um þátttöku í reynsluverkefni um heimajarðgerð, í stað þess að safna lífúrgangi í sérílát, samkvæmt nánari reglum sem sveitarstjórn staðfestir.
  2. Pappír/pappa.
  3. Plast.
  4. Textíl.
  5. Málma.
  6. Gler.
  7. Spilliefni.

Í sorpílát fyrir heimilisúrgang má aðeins setja úrgang sem fellur til við heimilishald, en þó ekki rúmfrekan garðaúrgang, textíl, gler, málma, raf- og rafeindatæki og timbur. Óheimilt erað setja spilliefni, lyf eða annan hættulegan úrgang í ílátin. Tekið er á móti gleri, málmum og textíl á grenndar­stöðvum eða söfnunarstöð samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar.

Sveitarfélagið útvegar öllum íbúðarhúsum í sveitarfélaginu ílát til flokkunar úrgangs. Að lágmarki skulu vera ílát fyrir fjóra flokka úrgangs við hvert íbúðarhús. Stærð íláta við hvert heimili í Mela­hverfi og Krosslandi er að jafnaði eftirfarandi:

  1. 240 lítra tunna fyrir pappír og pappa.
  2. 240 lítra tunna fyrir plast.
  3. 140 lítra tunna fyrir lífúrgang.
  4. 240 lítra tunna fyrir blandaðan heimilisúrgang.

Á heimilum í dreifbýli er ílátastærð sú sama, að undanskildu íláti fyrir pappa, sem er 660 lítra.

Fasteignareigandi getur beðið um að ílátum sé fjölgað ef hann sér fram á að þau yfirfyllist, óskað eftir annarri stærð íláta eða samnýtingu íláta, eftir því sem kveðið er á um í samþykkt þessari, gjaldskrá sveitarfélagsins eða öðrum fyrirmælum, enda greiði hann umsýslugjald, auk gjalds sam­kvæmt fjölda og stærð íláta, í samræmi við gjaldskrá, sbr. 14. gr. samþykktarinnar. Leitast skal við að hafa eins fá sorpílát við fjöleignarhús og nauðsynlegt er. Í fjöleignarhúsum þar sem sorp­geymslur og sorpílát eru samnýtt skulu ákvarðanir um fjölda og stærð íláta teknar í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Sveitarfélagið getur þó ákveðið fjölda og stærð íláta telji það að rými fyrir úrgang sem fellur til sé ófullnægjandi eða stærð íláts henti illa til hirðu.

 

5. gr.

Söfnun frá heimilum í þéttbýli og dreifbýli.

Við íbúðarhús í dreifbýli og þéttbýli og hjá lögaðilum sem fá þjónustu sveitarfélagsins skal sérstök söfnun fara fram á sem aðgengilegastan hátt, og í samræmi við 10. gr. laga nr. 55/2003 og reglu­gerð nr. 803/2023, um meðhöndlun úrgangs, þ.e. á pappír og pappa, plasti, lífúrgangi og blönduðum úrgangi.

Söfnun heimilisúrgangs frá heimilum í þéttbýli og dreifbýli fer fram í samræmi við hirðuáætlun (sorphirðudagatal) sem staðfest er af sveitarfélaginu. Hirðuáætlun skal kynnt íbúum og vera aðgengi­­leg á vefsvæði sveitarfélagsins og verktaka. Tíðni tæminga getur verið breytileg eftir úrgangs­­flokkum og árstíma.

Sveitarfélagið getur heimilað frávik frá hirðuáætlun vegna sérstakra aðstæðna. Slík frávik skulu auglýst eða tilkynnt íbúum með hæfilegum fyrirvara. Skal þá sá sem hefur úrgang í sinni vörslu sinna skyldum sínum samkvæmt samþykkt þessari, á auglýstum tíma, eins og um losun samkvæmt áætlun væri að ræða. Úrgang sem rúmast ekki í samþykktri áætlun getur húsráðandi losað á eigin kostnað á söfnunar- og móttökustöð eða á grenndarstöð.

Húsráðendur frístundahúsa sjá sjálfir um að koma heimilisúrgangi frá sér í gáma á grenndar­stöðvum sem sveitarfélagið leigir og sér um að losa eftir þörfum. Í þessi ílát má aðeins setja heimilisúrgang sem sérstaklega er safnað í samræmi við merkingar ílátanna, svo sem pappír og pappa, plast og annan blandaðan (óflokkaðan) heimilisúrgang af öðrum uppruna, þó ekki rúm­frekan garðaúrgang, grjót, timbur eða rekstrarúrgang, gler, málma, textíl, rafhlöður eða raf­geyma, né rúm­frekan úrgang eins og húsgögn. Óheimilt er að setja spilliefni í ílátin, heita ösku eða glóð.

 

III. KAFLI

Úrgangur frá lögaðilum.

6. gr.

Fyrirtæki og stofnanir.

Rekstraraðilum er skylt að koma úrgangi sem fellur til við reksturinn í viðeigandi meðhöndlun, í samræmi við lög nr. 55/2003, reglugerð nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs og ákvæði þessarar samþykktar, og bera þeir allan kostnað af söfnun og meðhöndlun hans.

Öllum rekstraraðilum er skylt að flokka þann úrgang sem til fellur í samræmi við samþykkt þessa. Aðstaða skal vera á lóð rekstraraðila fyrir ílát undir þá úrgangsflokka heimilisúrgangs sem til falla við starfsemina og tilgreindir eru í 1. mgr. 4. gr.

Rekstraraðilar skulu fylgja kröfum sem gerðar eru um flokkun úrgangsflokka, sem er sérsafnað í sveitarfélaginu, frá blönduðum úrgangi og öðrum rekstrarúrgangi. Eftir því sem við á gilda ákvæði samþykktar þessarar einnig um rekstraraðila, þ.m.t. ákvæði um frágang og geymslu úrgangs.

 

7. gr.

Rekstrarúrgangur.

Óheimilt er að geyma rekstrarúrgang á lóðum lengur en nauðsynlegt er. Ef úrgangur er geymdur á lóð skal tryggt að ekki stafi af því óhollusta, óþrifnaður eða hætta. Staðsetning gáma undir úrgang skal vera í samræmi við stöðuleyfi eða ákvæði deiliskipulags.

Fyrirtæki og stofnanir skulu flokka rekstrarúrgang þannig að hámarka megi undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu. Rekstraraðilum er skylt að flokka byggingar- og niðurrifsúrgang að lágmarki í eftirtalda flokka:

  1. Spilliefni.
  2. Timbur.
  3. Steinefni.
  4. Gler.
  5. Málma.
  6. Plast.
  7. Gifs.

Rekstraraðilum ber að koma rekstrarúrgangi sem ber framleiðendaábyrgð í viðeigandi með­höndlun.

Um mengaðan jarðveg og viðeigandi meðhöndlun fer skv. reglugerð um mengaðan jarðveg, nr. 1400/2020.

 

IV. KAFLI

Grenndar- og söfnunarstöðvar.

8. gr.

Grenndarstöðvar og tímabundið hreinsunarátak.

Þjónustustig á grenndarstöðvum getur verið mismunandi eftir aðstæðum. Grenndarstöðvar eru staðsettar víðs vegar í sveitarfélaginu og leitast sveitarstjórn við að staðsetja grenndarstöðvar í nágrenni við skipulögð frístundahúsasvæði. Í samræmi við markmið laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, fer fram sérstök söfnun á gleri, textíl og málmum á grenndarstöð sem staðsett er við þéttbýliskjarnann í Melahverfi, miðsvæðis í sveitarfélaginu. Einnig eru söfnunarílát fyrir þessa úrgangsflokka við félagsheimilið Miðgarð og við Hlíðarbæ.

Ílát skulu merkt með samræmdum flokkunarmerkjum. Óheimilt er að losa annan úrgang í söfn­unarílát á grenndarstöð en þá flokka úrgangs sem tilgreindir eru með merkingum á hverri stöð. Óheimilt er að skilja úrgang eftir utan við gáma á grenndarstöðvum.

Að minnsta kosti einu sinni á ári er komið fyrir stærri ílátum fyrir rúmfrekari úrgang eins og hús­gögn, garðaúrgang og timbur. Er það auglýst sérstaklega á heimasíðu sveitarfélagsins eða á annan áberandi hátt.

 

9. gr.

Söfnunarstöðvar.

Gámar fyrir almennan heimilisúrgang, endurvinnsluúrgang, raftæki, garðaúrgang, grófan úrgang, timbur, málma, steinefni, hjólbarða, ökutæki, nytjahluti og spilliefni eru staðsettir á Gámu á Akra­nesi og á söfnunarstöðinni Sólbakka í Borgarnesi. Þar er einnig móttaka á nytjahlutum, textíl, skilagjaldsskyldum drykkjarvöruumbúðum, rúmfrekum úrgangi o.fl.

Greiða skal fyrir móttöku úrgangs samkvæmt gjaldskrá viðkomandi söfnunarstöðvar.

 

V. KAFLI

Aðstaða til sorphirðu og umgengni.

10. gr.

Geymslur og gerði fyrir söfnun úrgangs.

Húsráðendur skulu sjá til þess að leið að sorpgeymslum og sorpílátum sé greiðfær til sorphirðu, að undirlag á leið frá sorpíláti að götu sé þannig að auðvelt sé að flytja ílátin og hreinsa burt snjó á vetrum. Mælst er til þess að aðkomuleiðir að ílátum undir úrgang séu upplýstar svo ekki skapist hætta fyrir starfsfólk við losun ílátanna.

Einnig skulu húsráðendur gæta þess að ílát séu lokuð og vel fest eða skorðuð, þannig að ílát eða úrgangur fjúki ekki burt, verði fyrir ágangi dýra eða ílát fyllist af snjó eða regnvatni.

Fasteignareigandi ber að gæta þess að fasteign fylgi nægilega mörg sorpílát og að fylla ekki ílátin meira en svo að auðveldlega megi loka þeim. Sé fyrirséð að ílátin yfirfyllist getur húsráðandi farið með umframmagn heimilisúrgangs á söfnunarstöð sveitarfélagsins.

Húsráðendur skulu sjá til þess að sorpílát séu hreinsuð reglulega og fylgjast með ástandi þeirra að öðru leyti. Séu sorpílát fest skal það vera með búnaði sem sorphirðufólk á auðvelt með að losa. Geymslur og sorpgerði má eingöngu nota til geymslu úrgangs.

Verði ílát fyrir skemmdum skal eigandi fasteignar óska eftir nýju íláti. Teljist skemmd stafa af öðrum ástæðum en eðlilegri notkun eða sliti er sveitarfélaginu heimilt að innheimta gjald vegna endurnýjunar íláts.

Þar sem fara þarf með ílát upp tröppur skal vera rampur eða skábraut fyrir hjól, sem draga má ílátin eftir. Þar sem fara þarf um lokuð hlið eða hurðir getur sveitarfélagið farið fram á að til staðar sé búnaður, t.d. krækjur, til að halda hurðum og hliðum opnum meðan losun fer fram.

Hvalfjarðarsveit getur heimilað sameiginlegt sorpgerði eða -geymslu fyrir aðliggjandi lóðir. Sam­eigin­legt sorpgerði/-geymsla er háð samþykki umhverfis- og skipulagsdeildar og skal skráð í álagningarkerfi sorphirðugjalda sem sameiginleg ef báðir/allir húsráðendur óska og skilyrði reglna sveitarfélagsins um samnýtingu sorpíláta eru uppfyllt.

Að öðru leyti er vísað til byggingarreglugerðar og reglugerðar um meðhöndlun úrgangs um skyldur fasteignareiganda og frágang sorpgerða og sorpgeymslna.

 

11. gr.

Ástæður til að hafna sorphirðu.

Sveitarfélaginu er heimilt að hafna því að taka á móti úrgangi, hirða og losa sorpílát við eftir­farandi aðstæður:

  1. Ílát innihalda úrgang sem ekki á að safna eða flokkun úrgangs er röng.
  2. Hindranir eru á leið að ílátum.
  3. Ílát er yfirfullt, sbr. 3. mgr. 10. gr.
  4. Ílát finnst ekki.
  5. Ílát eða aðstaða brýtur að öðru leyti í bága við kröfur í lögum, reglugerðum eða samþykkt sveitarfélagsins um meðhöndlun úrgangs.

Ef losun er hafnað skal húsráðanda og sveitarfélaginu tilkynnt um ástæður þess, sbr. 16. gr. Losun íláta fer þá fram við næstu reglulegu hirðu nema fasteignareigandi semji um annað og greiði fyrir þá aukaþjónustu.

 

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

12. gr.

Umgengni á almannafæri.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma garðaúrgang og annan úrgang á víðavangi, götum, gang­stígum eða opnum svæðum í sveitarfélaginu. Tæki og hluti sem ekki eru í almennri eða stöðugri notkun skal geyma þannig að nágrannar og vegfarendur hafi ekki ama af.

Óheimilt er að geyma skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, kerrur, tæki, vinnuvélar, báta eða aðra sambærilega hluti á almennum bifreiðastæðum, á götum, opnum svæðum eða annars staðar á almannafæri.

Brot gegn ákvæðum 1. og 2. mgr. skal tilkynna til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, sem hlutast þá til um að úr verði bætt. Heimilt er að fjarlægja slíka hluti á kostnað eiganda að undangenginni aðvörun.

 

13. gr.

Gjaldtaka og breytingar á fjölda og stærð íláta.

Sveitarstjórn setur gjaldskrá um söfnun og meðhöndlun úrgangs í samræmi við ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unar­varnir.

Sveitarfélagið skal birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda og skal í gjaldskránni vísað til þessarar samþykktar.

 

14. gr.

Verklagsreglur og heimild til frávika.

Sveitarstjórn er heimilt að setja nánari verklagsreglur varðandi meðferð einstakra mála skv. samþykkt þessari, s.s. varðandi óskir um breytingar á ílátum, sameiginleg sorpílát innan lóðar, beiðnir um aukalosun íláta, tilraunaverkefni um heimajarðgerð og aðrar óskir íbúa um sveigjanleika í þjónustu. Skulu slíkar verklagsreglur birtar opinberlega.

Skilyrði er að frávik gangi ekki gegn ákvæðum laga nr. 55/2003 eða afleiddum reglugerðum, auk þess sem við samþykki frávika skal m.a. horft til þess að safnaður úrgangur fái viðunandi farveg og að fyrirkomulag söfnunar stuðli að því að markmiðum samþykktar þessarar verði náð. Sé óskað samþykkis frávika frá einstökum ákvæðum samþykktar þessarar skal rökstuddri beiðni þar að lútandi beint til umhverfis- og skipulagsdeildar sveitarfélagsins samkvæmt nánari leiðbeiningum í verklags­reglum eða á vefsíðu sveitarfélagsins.

 

15. gr.

Kvartanir, ábendingar og kærur.

Hafi húsráðandi fram að færa kvörtun eða ábendingu varðandi framkvæmd úrgangsþjónustu skal hann koma henni á framfæri við skrifstofu sveitarfélagsins eða snúa sér til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands.

Brjóti húsráðandi gegn ofangreindum ákvæðum eða vanrækir skyldur sínar samkvæmt sam­þykkt þessari, fer almennt um þau mál skv. ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt samþykkt þessari til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 67. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

16. gr.

Valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Um viðurlög fer samkvæmt XIX. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

17. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi, sem hefur hlotið málsmeðferð samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og meng­unar­varnir, var samþykkt af sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar 27. nóvember 2024. Samþykktin staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 222/2023, um meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 4. desember 2024.

 

F. h. r.

Erla Arnardóttir.

Trausti Ágúst Hermannsson.


B deild - Útgáfud.: 18. desember 2024