Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1033/2023

Nr. 1033/2023 18. september 2023

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Ísafjarðarbæ.

1. gr.

Markmið.

Markmið samþykktar þessarar er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs í Ísafjarðarbæ valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, stuðla að endurnotkun og endurnýtingu, lág­mörkun kostnaðar samfélagsins og góðri þjónustu við íbúa.

Horft verður til úrgangsþríhyrningsins í meðhöndlun úrgangs, áhersla lögð á úrgangsforvarnir og mengunarbótareglan höfð að leiðarljósi við ákvörðun gjaldtöku vegna meðhöndlunar úrgangs.

 

2. gr.

Gildissvið.

Samþykkt þessi gildir fyrir meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs í Ísafjarðar­bæ.

 

3. gr.

Umsjón og eftirlit.

Umhverfis- og eignasvið fer með ákvörðunarvald í málefnum er varða meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu í umboði bæjarstjórnar. Sviðið fer með daglega yfirstjórn mála þessara samkvæmt samþykkt þessari.

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, í umboði heilbrigðisnefndar, hefur eftirlit með meðhöndlun úrgangs skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum og 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs með síðari breytingum, og að farið sé að samþykkt þessari.

 

4. gr.

Almenn ákvæði.

Meðhöndlun úrgangs í Ísafjarðarbæ skal vera samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Ísafjarðarbær ber ábyrgð á sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs á sínu svæði og sam­skiptum við þá aðila sem tengjast þeim viðfangsefnum. Ísafjarðarbær getur sinnt sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs á eigin vegum og er heimilt að fela öðrum framkvæmd söfnunar á úrgangi, rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva og förgun úrgangs. Rekstrar­aðilar skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti eða Umhverfisstofnun eftir því sem við á.

Gæta skal þess að ekki hljótist af mengun eða annar skaði fyrir umhverfi og að úrgangurinn uppfylli þær kröfur sem settar eru og við eiga, s.s. um flokkun og takmörkun á aðskotahlutum, þannig að úrgangurinn henti til endurnýtingar.

 

5. gr.

Skilgreiningar.

Í samþykkt þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:

Almennur úrgangur: úrgangur annar en spilliefni.

Heimilisúrgangur: úrgangur sem flokkast sem:

  1. blandaður úrgangur frá heimilum og úrgangur frá heimilum sem er sérstaklega safnað, þ.m.t. pappír og pappi, gler, málmar, plast, lífúrgangur, timbur, textíll, umbúðir, raf- og rafeinda­tækja­úrgangur, notaðar rafhlöður og rafgeymar og rúmfrekur úrgangur, þ.m.t. dýnur og húsgögn,
  2. blandaður úrgangur af öðrum uppruna og úrgangur af öðrum uppruna sem er sérstaklega safnað og er svipaður að eðli og samsetningu úrgangi frá heimilum,
  3. en þó ekki úrgangur frá framleiðslu, landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum, rotþróm, fráveitu­kerfum, þ.m.t. seyra, úr sér gengin ökutæki eða byggingar- og niðurrifsúrgangur.

Lífúrgangur: lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, skrif­stofum, heildsölum, smásölum, veitingastöðum, mötuneytum og veisluþjónustu­fyrirtækjum, og sambæri­legur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla.

Lífrænn úrgangur: úrgangur sem er niðurbrjótanlegur af örverum með eða án tilkomu súrefnis, t.d. lífúrgangur, sláturúrgangur, fiskúrgangur, ölgerðarhrat, húsdýraúrgangur, timbur, lýsi, garðyrkju­úrgangur, pappír og pappi, og seyra.

Móttökustöð: staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar eða nýtingar, eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla förgunarstaðir.

Rekstrarúrgangur: úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun og öðrum rekstri, annar en heimilis­úrgangur.

Söfnunarstöð (gámastöð): staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttöku­stöðva.

Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.

Að öðru leyti vísast til skilgreininga skv. 3. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum.

 

6. gr.

Flokkun úrgangs.

Sú skylda hvílir á handhafa úrgangs, hvort sem það er sá sem úrgangurinn fellur til hjá eða sá sem hefur hann undir höndum, að færa úrganginn til viðeigandi meðhöndlunar, annaðhvort beint til endurnýtingar eða á grenndar-, söfnunar- eða móttökustöð. Einstaklingum og lögaðilum er skylt að flokka heimilis- og rekstrarúrgang í samræmi við 10. gr. laga nr. 55/2003, með síðari breytingum, þar sem fjallað er um sérstaka söfnun og flokkun úrgangs.

Í sorpílát fyrir heimilisúrgang má aðeins setja þann úrgang sem fellur daglega til við venjulegt heimilishald, í samræmi við nánari fyrirmæli sem kunna að verða sett um flokkun úrgangs.

Við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli skal söfnun fara fram á sem aðgengilegastan hátt og í samræmi við 10. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, þ.e. á pappír og pappa, plasti, líf­úrgangi og blönduðum úrgangi. Heimajarðgerð er þó heimil sem og söfnun lífúrgangs með öðrum úrgangi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 4. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 57. gr. laganna.

Óheimilt er að láta garðaúrgang, jarðvegsefni, brotajárn og annan grófan úrgang í sorpílát og gáma sem ætluð eru fyrir almennan heimilisúrgang. Jarðvegsefni, þ.m.t. grjót, múrbrot o.þ.h., skal skilað á viðurkenndar móttöku- og flokkunarstöðvar (losunarstaði). Umhverfis- og framkvæmda­nefnd er heimilt, í sérstökum tilvikum, að stilla tímabundið upp gámum fyrir slíkan úrgang, t.d. í tengslum við átak í úrgangsmálum.

Spilliefnum, lyfjum og öðrum hættulegum úrgangi skal safnað í nærumhverfi.

Glerbrotum og öðrum oddhvössum hlutum, sem hætta er á að skaði þá sem meðhöndla úrgang eða sorpílát, skal pakkað inn eða gengið frá þeim á annan tryggilegan hátt.

Sé flokkun úrgangs óviðundandi, eða staðsetning eða frágangur íláta ekki í samræmi við leið­beiningar sveitarfélagsins og samþykkt þessa, er heimilt, að undangenginni viðvörun og tilmælum, að stöðva tímabundið hirðingu úrgangs frá viðkomandi fasteign þar til úrbætur hafa verið gerðar.

Ef ílát hefur ekki verið losað vegna hindrana, rangrar flokkunar eða af öðrum ástæðum, getur húsráðandi óskað eftir aukalosun, eftir að skilyrði til losunar hafa verið uppfyllt. Greitt er fyrir þjón­ustuna samkvæmt gjaldskrá, sbr. 16. gr. samþykktarinnar.

 

7. gr.

Söfnun heimilisúrgangs.

Ísafjarðarbær ber ábyrgð á að heimilisúrgangi sé safnað í sveitarfélaginu með reglubundnum hætti. Sveitarfélagið annast söfnun úrgangs frá íbúðarhúsnæði í þéttbýli, og frá íbúðarhúsnæði í dreifbýli þar sem búið er allt árið um kring, með þeim skilyrðum þó að aðgengi til söfnunar að íbúðar­húsnæðinu sem safna á úrgangi frá sé gott og aðgengilegt.

Frá atvinnuhúsnæði í dreifbýli, íbúðarhúsnæði þar sem ekki er búið allt árið um kring, og þar sem aðgengi að íbúðarhúsnæði í dreifbýli til söfnunar sorps telst óaðgengilegt, skal úrgangi safnað á grenndar-, söfnunar- og/eða móttökustöð. Umhverfis- og framkvæmdanefnd skal í samráði við heil­brigðis­nefnd ákvarða hvort aðgengi teljist fullnægjandi til söfnunar frá viðkomandi íbúðar­húsnæði eða hvort nauðsynlegt sé að úrgangi skuli skilað á grenndar-, söfnunar- og/eða móttökustöð.

Lögaðilum og/eða eigendum atvinnuhúsnæðis í þéttbýli er heimilt að semja við þjónustuaðila um söfnun heimilisúrgangs og skal staðfesting þess efnis send Ísafjarðarbæ við gerð samnings þar um. Að öðrum kosti annast sveitarfélagið söfnun úrgangs lögaðilans.

Húsráðendum, forsvarsmönnum fyrirtækja og stofnana í Ísafjarðarbæ er skylt að nota þær aðferðir og ílát við sorpgeymslu og hreinsun sem bæjarstjórn ákveður hverju sinni, eða leggur til, og í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.

Ísafjarðarbær leggur þeim til sorpílát fyrir tilteknar tegundir úrgangs sem fá þjónustu sveitar­félagsins við söfnun heimilisúrgangs. Ílátin skulu þannig gerð að auðvelt verði að flokka úrgang í samræmi við það flokkunarkerfi sem er í notkun á hverjum tíma. Þjónustuaðili leggur þeim til sams konar sorpílát sem gert hafa samning við þjónustuaðila um söfnun heimilisúrgangs.

Greiðandi, eða forsvarsmaður greiðanda úrgangsgjalda, getur beðið um að ílátum sé fjölgað eða óskað eftir annarri stærð íláta, eftir atvikum, og skal greiða umsýslugjald, auk gjalds samkvæmt fjölda og stærð íláta, í samræmi við gjaldskrá, sbr. og 16. gr. samþykktarinnar.

 

8. gr.

Geymslur og gerði fyrir söfnun úrgangs.

Ganga skal þannig frá sorpílátum, -geymslum og -gerðum að þau valdi ekki óþrifum, óþæg­indum eða verði fyrir skemmdum. Húsráðendur skulu gæta þess að fasteign fylgi nægilega mörg sorpílát og gæta þess að fylla ílátin ekki meira en svo að auðveldlega megi loka þeim. Einnig skulu húsráðendur gæta þess, til dæmis með skýli eða festingum, að lok opnist ekki þannig að úrgangur fjúki burt eða verði fyrir ágangi dýra eða ílát fyllist af snjó. Húsráðendur skulu sjá til þess að sorpílát séu hreinsuð reglulega og fylgjast með ástandi þeirra að öðru leyti. Séu sorpílát fest skal það vera með búnaði sem sorphirðumenn eiga auðvelt með að losa. Geymslur og sorpgerði má eingöngu nota til geymslu úrgangs.

Verði ílát fyrir skemmdum skal eigandi fasteignar, eða húsráðandi eftir atvikum, óska eftir nýju íláti. Teljist skemmd stafa af öðrum ástæðum en eðlilegri notkun eða sliti er Ísafjarðarbæ heimilt að innheimta gjald vegna endurnýjunar íláts.

Sorpílát skulu standa sem næst aðkomu að lóð þegar losun fer fram. Sorpgeymslur og sorpílát skulu staðsettar saman ef um fjölbýlishús er að ræða. Heimilt er að hafa sameiginlega söfnun úrgangs fyrir aðliggjandi lóðir að því tilskildu að öll söfnun úrgangs færist af viðkomandi lóðum. Skal þess þá gætt að aðgengi íbúa að ílátum sé eins gott og við verður komið. Jafnframt er heimilt að verða við óskum fasteignaeigenda um sameiginleg ílát innan lóðar að fengu samþykki allra hlutað­eigandi.

Af ílátum undir úrgang við íbúðarhús í þéttbýli sem draga þarf lengra en 15 m að lóðamörkum til losunar í hirðubíl er Ísafjarðarbæ heimilt að innheimta skrefagjald eftir gjaldskrá fyrir með­höndlun úrgangs í Ísafjarðarbæ.

Óheimilt er að staðsetja ílát undir úrgang sem eru þyngri en 40 kg þannig að fara þurfi með þau um tröppur eða mikinn hæðarmun á lóð. Þar sem fara þarf með ílát upp tröppur skulu vera á þeim fastar sliskjur, eða rampur eða skrábraut fyrir hjól, sem draga má ílátin eftir.

Lofthæð í innangengri sorpgeymslu skal ekki vera undir 200 cm og skal hurðarop vera nægilega breitt til að auðveldlega megi fara með sorpílát um það. Þá skal vera búnaður til staðar til að halda dyrum opnum.

Halda skal greiðfærri leið að sorpgeymslum og sorpílátum og hreinsa burt snjó á vetrum. Þegar hundur er tjóðraður á lóð eða laus á lóð innan hundheldrar girðingar skal tryggja að komast megi óhindrað að sorpílátum til losunar.

Verði ofangreind skilyrði ekki uppfyllt, s.s. um staðsetningu eða aðgengi að sorpílátum, sam­eigin­leg sorpgerði fjölbýlishúsa, kröfur um sorpgerði eða þyngd íláta, er umráðamanni sorpíláta heimilt að koma ílátum fyrir á losunarstað hirðubíls á hirðudegi eða við lóðamörk, eftir atvikum, og komast þannig hjá greiðslu aukagjalds skv. gjaldskrá, sbr. 16. gr. samþykktarinnar, eða að þjónustu­aðili sleppi hirðingu, sbr. 8. mgr. 6. gr. samþykktarinnar.

Að öðru leyti er vísað til byggingarreglugerðar og reglugerðar um meðhöndlun úrgangs.

 

9. gr.

Rekstrarúrgangur.

Rekstraraðilum er skylt að flokka rekstrarúrgang í samræmi við lög nr. 55/2003, með síðari breyt­ingum, og skulu sjálfir sjá um að koma úrgangi sem fellur til við reksturinn í viðeigandi með­höndlun.

Rekstraraðilar skulu fylgja kröfum sem gerðar eru um flokkun tiltekinna úrgangsflokka frá blönd­uðum úrgangi og eftir því sem við á kröfum um sorpgerði og geymslur. Óheimilt er að geyma rekstrar­úrgang á lóðum lengur en nauðsynlegt getur talist.

Byggingar- og niðurrifsúrgangur skal flokkaður í a.m.k. eftirfarandi flokka: spilliefni, timbur, stein­efni, málm, gler, plast og gifs.

Hvorki er heimilt að urða né senda til brennslu þær úrgangstegundir sem tilgreindar eru í 3. mgr. 6. gr. samþykktarinnar og hefur verið safnað sérstaklega nema þann úrgang sem eftir verður og hentar hvorki til endurnotkunar né endurvinnslu og brennsla eða eftir atvikum urðun er sá kostur sem skilar bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið.

 

10. gr.

Grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar.

Grenndarstöðvar taka á móti flokkuðum úrgangi frá íbúum, s.s. málmum, gleri og textíl.

Söfnunar- og móttökustöðvar sem almenningur á aðgang að, skulu staðsettar á aðgengilegum stöðum. Rekstraraðilar geta farið með sinn úrgang á söfnunar- og móttökustöðvar gegn gjaldi. Á söfn­unarstöðvum skal tekið á móti flokkuðum úrgangi til endurnýtingar þ.m.t. endurvinnslu frá heimilum, eða er fluttur til móttökustöðva.

Móttökustöð tekur á móti flokkuðum úrgangi samkvæmt gjaldskrá Ísafjarðarbæjar eða verktaka sem Ísafjarðarbær hefur samið við, hverju sinni.

 

11. gr.

Umgengni á almannafæri.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma rusl, garðaúrgang og annan úrgang á víðavangi, götum, gang­stígum, opnum svæðum eða fjörum í sveitarfélaginu. Tæki og hluti sem ekki eru í almennri eða stöðugri notkun skal geyma þannig að nágrannar og vegfarendur hafi ekki ama af.

Óheimilt er að geyma skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, kerrur, tæki, vinnuvélar, báta eða aðra hluti á almennum bifreiðastæðum, á götum eða á almannafæri.

Brjóti húsráðandi gegn ákvæðum þessarar samþykktar um meðferð og geymslu úrgangs skal það tilkynnt til umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar sem hlutast þá til um að úr verði bætt.

 

12. gr.

Fræðsla til almennings og lögaðila.

Ísafjarðarbær skal annast gerð upplýsingaefnis um úrgangsforvarnir og meðferð úrgangs í sveitar­félaginu og fræða almenning, lögaðila, rekstraraðila og handhafa úrgangs um úrgangsmál í sam­vinnu við heilbrigðisnefnd.

Ísafjarðarbær birtir árlega upplýsingar um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði.

 

13. gr.

Heimildir til frávika.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd er heimilt að veita heimild til frávika frá einstökum ákvæðum samþykktar þessarar, gangi frávik ekki gegn ákvæðum laga nr. 55/2003, og afleiddum reglu­gerðum, auk þess sem við samþykki frávika skal m.a. horft til þess að safnaður úrgangur fái viðun­andi farveg og að fyrirkomulag söfnunar stuðli að því að markmiðum samþykktar þessarar verði náð.

Sé óskað samþykkis frávika frá einstökum ákvæðum samþykktar þessarar skal rökstuddri beiðni þar að lútandi beint til umhverfis- og eignasviðs.

 

14. gr.

Verklagsreglur.

Ísafjarðarbæ er heimilt að setja verklagsreglur varðandi meðferð einstakra mála samkvæmt sam­þykkt þessari, s.s. varðandi óskir um breytingar á ílátum, beiðnir um aukalosun íláta og beiðnir um samþykkt frávika.

 

15. gr.

Kvartanir, ábendingar og kærur.

Hafi eigandi fasteignar eða húsráðandi ábendingu eða kvörtun vegna sorphirðu eða annarrar með­höndlunar úrgangs skal hann koma slíkri ábendingu á framfæri við umhverfis- og eignasvið Ísafjarðar­bæjar.

Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt samþykkt þessari til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011.

 

16. gr.

Gjaldtaka.

Bæjarstjórn ákvarðar og innheimtir gjald fyrir söfnun og meðhöndlun úrgangs samkvæmt gjald­skrá sem sett er í samræmi við ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá er Ísafjarðarbæ heimilt að innheimta gjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi m.a. uppsetningu og rekstur nauðsynlegra innviða í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laganna.

Vegna alls atvinnuhúsnæðis í dreifbýli, íbúðarhúsnæðis, þar sem ekki er búið allt árið um kring og þar sem aðgengi að íbúðarhúsnæði í dreifbýli til söfnunar sorps telst óaðgengilegt, er greiddur kostnaður eftir rúmmáli íláta (rúmmálsgjald), sem og fast gjald vegna reksturs grenndar- og söfnunar­stöðva og annars fasts kostnaðar (fastagjald). Sama á við um atvinnuhúsnæði í þéttbýli þar sem Ísafjarðarbær sér um hirðingu heimilisúrgangs. Vegna annars húsnæðis í þéttbýli og dreifbýli er aðeins greitt fastagjald.

Vegna allra skilgreindra sumarhúsa, samkvæmt skráning í fasteignaskrá, og íbúðarhúsnæðis með takmarkaðri íveru vegna snjóflóðahættu, er greiddur helmingur fastagjalds eins og það er á hverjum tíma.

Gjöld skulu innheimt sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Gjöld skulu ekki vera hærri en sem nemur þeim kostnaði sem til fellur við meðhöndlun úrgangs, veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits.

Gjöld fyrir söfnun og meðhöndlun úrgangs innheimtast með fasteignagjöldum og á sömu gjald­dögum. Gjöld skulu lögð á hverja fasteign sem nýtur framangreindrar þjónustu. Gjald fyrir íbúðir í fjöleignarhúsi er innheimt í hlutfalli við fermetrafjölda hverrar íbúðar af heildarkostnaði fasteignar­innar. Óski eigandi fasteignar eftir breytingu á fjölda eða stærð íláta tekur breyting á gjaldheimtu gildi frá og með næsta mánuði eftir afhendingu. Innheimta vegna ýmissa aukagjalda er eftir á við næstu mánaðamót.

Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Í gjaldskránni skal vísað til þessarar samþykktar.

 

17. gr.

Valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Um viðurlög fer samkvæmt XIX. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

18. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi, sem hefur hlotið málsmeðferð samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og meng­unar­varnir, var samþykkt af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar 7. september 2023. Samþykktin staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 162/2019, um sorp­hirðu í Ísafjarðarbæ.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 18. september 2023.

 

F. h. r.

Íris Bjargmundsdóttir.

Trausti Ágúst Hermannsson.


B deild - Útgáfud.: 29. september 2023