Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 780/2007

Nr. 780/2007 22. ágúst 2007
SAMÞYKKT
fyrir búfjárhald í Bláskógabyggð.

1. gr.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja sem best skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Bláskógabyggð, með ákvæðum um vörsluskyldu og ábyrgð allra búfjáreigenda. Koma í veg fyrir ágang búfjár á lóðir íbúanna og vernda gróður í sveitarfélaginu.

2. gr.

Með búfé í samþykkt þessari er átt við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín sbr. lög um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002.

3. gr.

Í Bláskógabyggð er búfjárhald heimilt á lögbýlum með þeim skilyrðum að ábúendur lögbýla tilkynni sveitarstjórn um búfjárhaldið þegar það hefst og þegar því lýkur, þannig að sveitarstjórn geti uppfyllt ákvæði 4. gr. II. kafla laga um búfjárhald nr. 103/2002. Búfjárhald utan lögbýla, svo sem í Laugarási, Reykholti, Laugarvatni og innan frístunda­húsasvæða er einungis heimilt að fengnu samþykki sveitarstjórnar.

4. gr.

Byggingar gripahúsa utan lögbýla eru einungis leyfðar á ákveðnum svæðum sem skipulögð eru fyrir búfjárhald.

5. gr.

Skilyrði fyrir búfjárhaldi í Bláskógabyggð eru þau sömu og almennt gilda í landinu, þ.e. að allir þeir sem búfjárhald stunda, jafnt á lögbýlum sem utan þeirra, uppfylli ákvæði gildandi laga og reglugerða um búfjárhald, aðbúnað búfjár, sjúkdómavarnir, auðkenningu og merkingu, afréttamál o.fl. í samræmi við aðild sveitarfélagsins að búfjáreftirlitssvæði nr. 30.

6. gr.

Lausaganga búfjár utan lögbýla er óheimil í þéttbýli innan Bláskógabyggðar. Þéttbýlis­svæðin eru Laugarvatn, Reykholt og Laugarás, sbr. meðfylgjandi uppdrætti sem sýna afmörkun svæðanna, fylgiskjöl 1 – 3.

Bláskógabyggð skuldbindur sig, í samvinnu við aðra landeigendur, til að tryggja að vörslulínur um þéttbýlissvæði séu fjárheldar skv. reglugerð um girðingar nr. 748/2002, að haldið sé uppi reglubundnu eftirliti með girðingum þessum til hausts, þó með skilyrðum girðingarlaga nr. 135/2001 um rétt til kostnaðarskiptingar landeigenda m.m. sem eiga land að umræddum vörslulínum. Bláskógabyggð tryggir einnig að búfé sem fram kann að koma innan þéttbýlissvæða í sveitarfélaginu sé handsamað og skráð.

Bláskógabyggð áskilur sér rétt til að innheimta hjá búfjáreiganda útlagðan kostnað við handsömun og vörslu lausagöngufénaðar.

7. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum og með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

8. gr.

Samþykkt þessi er samþykkt af sveitarstjórn Bláskógabyggðar og staðfestist hér með samkvæmt 5. gr. laga nr. 103/2002, ásamt síðari breytingum, til þess að öðlast gildi við birtingu.

Landbúnaðarráðuneytinu, 22. ágúst 2007.

F. h. r.

Guðmundur B. Helgason.

Arnór Snæbjörnsson.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 31. ágúst 2007