Meginreglur í hagskýrslugerð hafa nú verið endurskoðaðar með hliðsjón af breytingum á Evrópureglugerð nr. 223/2009, um evrópskar hagskýrslur, sem hagstofustjórar evrópska hagskýrslusamstarfsins (European Statistical System Committee) samþykktu þann 16. nóvember 2017. Á grundvelli Evrópureglugerðarinnar, sem tekið hefur gildi hér á landi í samræmi við EES-samninginn, gilda eftirfarandi meginreglur um opinbera hagskýrslugerð hér landi. Reglurnar eru ætlaðar stjórnvöldum ESB og aðildarríkja þess og hagskýrsluyfirvöldum, þ.e. Hagstofu ESB (Eurostat), hagstofum einstakra ríkja og öðrum sem hafa með höndum opinbera hagskýrslugerð í aðildarríkjum ESB.
Hagstofa Íslands tekur ásamt öðrum hagstofum EFTA-ríkjanna fullan þátt í evrópska hagskýrslusamstarfinu á grundvelli EES-samningsins. Reglugerð nr. 223/2009 hefur verið tekin upp í EES-samninginn og birt hér á landi en í því felst að mælst er til að meginreglurnar gildi fyrir íslensk stjórnvöld, Hagstofu Íslands og fyrir aðrar opinberar stofnanir sem fást við opinbera hagskýrslugerð hér á landi eins og hún er skilgreind í reglugerð nr. 223/2009.
Meginreglurnar, sem birtar eru sem fylgiskjal með auglýsingu þessari, öðlast þegar gildi og skal beita þeim við opinbera hagskýrslugerð hér á landi, sbr. lög um Hagstofu Íslands nr. 163/2007. Frá sama tíma fellur niður auglýsing nr. 1086/2016, um gildistöku meginreglna í hagskýrslugerð.
Forsætisráðuneytinu, 26. nóvember 2019.
Katrín Jakobsdóttir.
Fylgiskjal. (sjá PDF-skjal)
|