Með vísan til 124. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, tilkynnir ráðuneytið að það hefur í dag staðfest sameiningu Húnabyggðar og Skagabyggðar í eitt sveitarfélag.
Sameiningin tekur gildi 1. ágúst 2024. Tekur sveitarstjórn Húnabyggðar við stjórn hins sameinaða sveitarfélags samdægurs og fer með stjórn þess til loka yfirstandandi kjörtímabils. Heiti hins sameinaða sveitarfélags skal vera Húnabyggð og mun samþykkt um stjórn og fundarsköp Húnabyggðar nr. 1181/2022, gilda fyrir hið sameinaða sveitarfélag.
Íbúar sveitarfélaganna skulu vera þegnar hins sameinaða sveitarfélags. Hið sameinaða sveitarfélag skal taka yfir allt það land sem nú tilheyrir sveitarfélögunum tveimur. Eignir, skuldir, réttindi og skyldur sem tilheyra sveitarfélögunum skulu falla til hins sameinaða sveitarfélags. Skjöl og bókhaldsgögn beggja sveitarfélaga skulu afhent hinu sameinaða sveitarfélagi til varðveislu.
Innviðaráðuneytinu, 10. júlí 2024.
F. h. r.
Guðni Geir Einarsson.
|