1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um starfsemi innlendra vátryggingafélaga og starfsemi erlendra vátryggingafélaga hér á landi, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi. Þá gilda reglur þessar um vátryggingasamstæður, sbr. 1. gr. laga nr. 60/2017 um vátryggingasamstæður.
2. gr.
Verklag, framsetning og sniðmát fyrir skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu.
Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi skal vátryggingafélag eigi síðar en 14 vikum eftir lok reikningsárs birta opinberlega skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laga nr. 60/2017 um vátryggingasamstæður ber hluteignarfélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði og blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í vátryggingasamstæðu ábyrgð á að birta árlega opinberlega skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu á samstæðugrundvelli. Reglur þessar eru settar til að innleiða tæknilega framkvæmdarstaðla sem mæla fyrir um verklag, framsetningu og sniðmát vegna skýrslugjafarinnar.
3. gr.
Innleiðing reglugerðar.
Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2023/895 frá 4. apríl 2023 um tæknilega framkvæmdarstaðla fyrir beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB að því er varðar verklag, framsetningu og sniðmát fyrir birtingu upplýsinga frá vátrygginga- og endurtryggingafélögum um skýrslu þeirra um eigið gjaldþol og fjárhagsstöðu og um niðurfellingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/2452, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 280/2023 frá 27. október 2023. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 93 frá 19. desember 2024, bls. 1597-1805.
4. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 4. mgr. 57. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi og 5. mgr. 41. gr. laga nr. 60/2017 um vátryggingasamstæður, öðlast þegar gildi. Við gildistöku þeirra falla úr gildi reglur nr. 1115/2021 um verklag, framsetningu og sniðmát fyrir skýrslu vátryggingafélaga um gjaldþol og fjárhagslega stöðu.
Seðlabanka Íslands, 19. desember 2024.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri. |
|