1. gr.
Við 2. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður í réttri stafrófsröð:
Sérklefi er kynhlutlaus búningsaðstaða með munaskáp, salernis- og baðaðstöðu og nýtist m.a. þeim sem þurfa sérstaka aðstoð eða sértækan búnað.
2. gr.
Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 25. tl. 2. gr. reglugerðarinnar og sama orðs hvarvetna annars staðar í reglugerðinni kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfis- og orkustofnun.
3. gr.
9. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Í búningsaðstöðu skal miða við a.m.k. 0,5 m² rými fyrir hvern gest. Þar sem samtímis geta dvalið allt að 50 gestir skal vera a.m.k. eitt salerni ásamt handlaug í búningsklefum karla og kvenna. Fyrir hverja 100 gesti til viðbótar bætist við eitt salerni í búningsklefum karla og kvenna. Fjöldi handlauga skal vera í samræmi við fjölda salerna og þvagskála. Í nýju húsnæði eða eftir meiriháttar breytingu á húsnæði skal vera til staðar sérklefi eða sérklefar og skal að lágmarki einn sérklefi uppfylla kröfur algildrar hönnunar. Undir meiriháttar breytingar falla m.a. nýbyggingar, viðbyggingar og umfangsmiklar breytingar á búningsaðstöðu eða öðrum sambærilegum rýmum, sem falla ekki undir venjubundið viðhald húsnæðis. Um salerni, þvagskálar, handlaugar, sérklefa, búnings- og baðaðstöðu gilda að öðru leyti ákvæði byggingarreglugerðar og ákvæði reglugerðar um hollustuhætti.
Aðgangur skal vera að salerni við sturtur. Við mat á nauðsynlegum fjölda sturta skal miða við það að hver sturta sé notuð af 12 manns á klukkustund. Að lágmarki skulu vera tvær sturtur í búningsklefum karla og kvenna en þrjár ef sundkennsla fer fram á sundstaðnum. Í sérklefa skal vera a.m.k. ein sturta. Gestir skulu þvo sér án sundfata áður en þeir ganga til laugar. Í baðaðstöðu skulu vera fyrirmæli um að gestir þvoi sér án sundfata áður en gengið er til laugar. Í baðaðstöðu skulu gestir hafa aðgang að mildri fljótandi húðsápu. Aðstaða skal vera til að sinna ungbörnum á öruggan hátt.
4. gr.
Á eftir orðinu „Endurnýjun“ í tl. 5 í II. viðauka kemur orðið: baðvatnsins.
5. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. tölul. 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 43. gr. laganna, og öðlast þegar gildi.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 10. febrúar 2025.
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
|