Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 393/2019

Nr. 393/2019 28. mars 2019

REGLUGERÐ
um stuðning við útgáfu bóka á íslensku.

1. gr.

Gildissvið.

Eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð þessari skal endurgreiða úr ríkissjóði 25% af endur­greiðslu­hæfum kostnaði sem fellur til vegna útgáfu á bókum á íslensku sem gefnar eru út hér á landi, í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, í aðildarríki stofnsamnings Fríversl­unar­samtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. 2., 6. og 8. gr. laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, nr. 130/2018.

2. gr.

Skilyrði endurgreiðslu.

Skilyrði endurgreiðslu skv. 1. gr. eru eftirfarandi:

  1. Umsókn um endurgreiðslu varði einvörðungu kostnað við útgáfu bókar. Með bók í þessu sambandi er átt við ritverk eða ritröð sem er a.m.k. átta blaðsíður að lengd og bundið eða fest á hliðstæðan hátt í kjöl. Undir hugtakið bók falla einnig hljóðupptökur af lestri slíkra verka auk geisladiska og annarra miðla með bókartexta og rafræn útgáfa slíkra verka. Með ritröð er átt við safn ritverka sem gefin eru út í mörgum bindum í heild í tímaröð eða sam­tímis með sameiginlegum heildartitli, undir- eða yfirtitli, en hvert bindi er sjálfstæð heild.
  2. Útgefin bók sé á íslenskri tungu. Ef bók hefur að geyma erlendan og íslenskan texta þarf a.m.k. helmingur heildartexta bókar að vera á íslensku. Skilyrðið telst þó uppfyllt ef íslensk­ur og erlendur texti er jafngildur í bók, á tveimur eða fleiri tungumálum, þ.m.t. íslensku.
  3. Umsækjandi sé fjárhagslega ábyrgur fyrir útgáfu bókar sem liggur til grundvallar endur­greiðslu, þ.e. að útgefandi sé raunverulegur útgefandi þeirrar bókar sem er andlag umsóknar og beri sem slíkur fjárhagslega ábyrgð á útgáfunni gagnvart viðsemjendum sínum og öðrum kröfuhöfum.
  4. Endurgreiðsluhæfur kostnaður umsækjanda nemi a.m.k. einni milljón kr. vegna útgáfu þeirrar bókar sem er andlag stuðnings hverju sinni. Þó skal endurgreiðsluhæfur kostnaður umsækjanda vegna útgáfu barna-, ungmenna- og ljóðabókar nema a.m.k. 500 þúsund kr. og bókar á stafrænum miðli, svo sem raf- og hljóðbókar, nema a.m.k. 200 þúsund kr.
  5. Umsækjandi sé skráður virðisaukaskattsskyldur aðili skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt með atvinnugreinarnúmerið 58.11.0 sem bókaútgáfa samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands. Umsækjandi með búsetu og heimilisfesti erlendis, sbr. 1. gr., skal sýna fram á slíka skráningu vegna starfsemi sinnar erlendis með vottorðum frá þar til bærum yfirvöldum í heimalandi sínu.
  6. Umsókn um endurgreiðslu sé byggð á skjölum sem fullnægja skilyrðum II. kafla, sbr. einnig 15. gr. reglugerðar um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila eftir því sem við á. Umsækjandi með heimilisfesti eða staðfestu utan Íslands skal sýna fram á hliðstæð skilyrði sem gilda í heimalandi hans.
  7. Umsækjandi færi sundurliðað bókhald yfir þann kostnað sem liggur til grundvallar beiðni um endurgreiðslu í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga svo unnt sé að greina þann kostnað sem tilheyrir útgáfu hverrar bókar fyrir sig, sbr. d-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2018.
  8. Umsækjandi sé ekki í vanskilum við opinbera aðila vegna opinberra gjalda. Leggja skal fram staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila.
  9. Umsækjandi leggi fram afrit af útgáfusamningi milli umsækjanda og höfundar auk stað­fest­ingar á greiðslum til höfundar eða rétthafa.
  10. Bók hafi verið gefin út og gerð aðgengileg almenningi, þ.e. samþykkt í alþjóðlega bók­númera­kerfið hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, skráð í bókasafnskerfið Gegni eða í sambærilegt skráningarkerfi erlendis og boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu.

3. gr.

Umsókn o.fl.

Umsókn um endurgreiðslu kostnaðar ásamt fylgigögnum skal send til nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku sem skipuð er skv. 4. gr. laga nr. 130/2018. Umsókn skal vera á því formi sem nefndin ákveður.

Umsókn skal berast í síðasta lagi níu mánuðum eftir útgáfu bókar sem sótt er um endurgreiðslu fyrir. Berist umsókn um endurgreiðslu eftir að níu mánuðir eru liðnir frá útgáfu bókar skal vísa henni frá. Reikna skal dagsetningu lokafrests frá þeim degi þegar bók er samþykkt í alþjóðlega bóknúmerakerfið hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni eða í sambærilegt skráningarkerfi erlendis.

Þrátt fyrir 2. mgr. skal nefndinni vera heimilt að taka til meðferðar umsókn sem berst henni að liðnum níu mánaða fresti ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Gildar ástæður í þessu sambandi geta t.a.m. verið utanaðkomandi og ófyrirsjáanleg atvik sem umsækjandi ber ekki ábyrgð á og hafa hamlað skilum á réttum tíma. Nefndin metur það í hverju tilviki fyrir sig hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

4. gr.

Endurgreiðsluhæfur kostnaður.

Eftirfarandi kostnaðarliðir sem falla til við útgáfuna á Íslandi, í öðrum löndum á Evrópska efna­hags­svæðinu, innan EFTA eða í Færeyjum skulu teljast til endurgreiðsluhæfs kostnaðar bóka­útgefanda samkvæmt reglugerð þessari, enda sé um að ræða kostnað sem telst frádráttarbær rekstrar­kostnaður samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt:

  1. Beinn launakostnaður vegna útgáfu bókar. Launakostnaður tekur bæði til launa og launa­tengdra gjalda. Um er að ræða heildarlaun sem gjaldfærð eru hjá bókaútgefanda vegna útgáfu tiltekinnar bókar. Útgefanda ber að halda utan um launakostnað og skráða tíma launamanns við útgáfu bókar í verkbókhaldi sínu. Undir beinan launakostnað fellur m.a. vinna við lestur handrits sem útgáfufyrirtækið fær frá höfundi enda verði af útgáfunni, ritstjórn handrits, þ.e. vinna sem fram fer áður en handrit er sent í prentsmiðju eða gefið út með öðrum hætti, prófarkalestur og samskipti við prentsmiðju eða aðra framleiðsluaðila, ljós­myndir, uppsetning og hönnun, myndskreytingar, hljóðupptökur, stafræn vinnsla o.fl.
  2. Beinar verktakagreiðslur vegna útgáfu bókar, þ.e. aðkeypt þjónusta frá verktökum sem tengist með beinum hætti útgáfu bókar og fellur undir a-lið.
  3. Laun höfundar eða rétthafa, þ.e. laun til höfundar eða rétthafa sem bókaútgefandi greiðir vegna útgáfu bókar fram að móttökudegi umsóknar um endurgreiðslu kostnaðar.
  4. Prentkostnaður og hliðstæður kostnaður vegna útgáfu í öðru formi en á prenti. Um er að ræða prentkostnað sem fellur til vegna prentunar þeirrar bókar sem umsókn tekur til. Hlið­stæður kostnaður er sá kostnaður sem fellur til vegna útgáfu bókar á öðrum miðli en pappír, til að mynda raf- eða hljóðbókar, svo sem forritunar sem tengist með beinum hætti fram­leiðslu bókar og annar sambærilegur kostnaður sem tengist með beinum hætti útgáfu þeirrar bókar sem umsókn tekur til.
  5. Þýðingarkostnaður og prófarkalestur, þ.e. kostnaður vegna þýðingar og yfirlestrar á próf­örkum, leiðréttinga á prentvillum sem í henni kunna að vera o.fl.
  6. Auglýsinga- og kynningarkostnaður, þ.e. beinn auglýsinga- og kynningarkostnaður sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfu bókar.
  7. Eigin vinna, þ.e. eigin vinna bókaútgefanda ef hann er jafnframt höfundar útgefinnar bókar. Bókaútgefanda er heimilt að reikna sér laun sem samsvara einum mánaðarlaunum lista­manna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um listamannalaun.

5. gr.

Kostnaður sem telst ekki endurgreiðsluhæfur.

Eftirtaldir kostnaðarliðir falla utan 4. gr. og skapa ekki rétt til endurgreiðslu:

  1. Vinna á framleiðslu- og hugmyndastigi, þ.e. vinna á framleiðslu- og hugmyndastigi ef ekki verður af útgáfu.
  2. Vinna á undirbúningsstigi við höfund eða rétthafa, svo sem samningaviðræður við erlenda rétthafa og samskipti við höfunda eða rétthafa áður en útgáfusamningur liggur fyrir eða eftir að bók er gefin út.
  3. Vinna og annar kostnaður við auglýsinga- og kynningarmál, fram að útgáfu bókar og eftir að fjórir mánuðir eru liðnir frá útgáfu bókar.
  4. Almenn stjórnun bókaútgefanda og vinna við dreifingu og/eða sölu, svo sem almennur stjórnunarkostnaður sem fellur til hjá bókaútgefanda o.fl., og kostnaður sem fellur til vegna dreifingar og/eða sölu bókar.
  5. Óbeinn kostnaður bókaútgefanda, til að mynda kostnaður sem tengist almennum rekstrar­kostnaði fasteigna, leigukostnaður, fjármagnskostnaður og annar rekstrarkostnaður sem tengist ekki með beinum hætti útgáfu bókar.
  6. Frádráttarbær innskattur, þ.e. sá virðisaukaskattur sem umsækjanda er heimilt að telja til innskatts vegna aðfanga sem falla undir 4. gr. á hverju uppgjörstímabili samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
  7. Annar kostnaður, þ.e. annar sá kostnaður sem fellur ekki undir endurgreiðsluhæfan kostnað skv. 4. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 130/2018.

6. gr.

Framkvæmd endurgreiðslu o.fl.

Hlutfall endurgreiðslu skal vera 25% af þeim kostnaði sem fellur til við útgáfu bókar og telst endurgreiðsluhæfur skv. 4. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 130/2018.

Nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku metur hvort mótteknar umsóknir uppfylli skilyrði 2. gr. og séu að öðru leyti í samræmi við leiðbeiningar hennar um form umsóknar. Ef þörf er á skal nefndin leiðbeina umsækjendum við gerð umsóknar og umsóknarferlið svo að umsókn teljist full­gild.

Komi í ljós að umsókn eða fylgigögnum umsóknar sé ábótavant, eða þörf er á að sannreyna kostnaðaruppgjör skv. g-lið 2. gr., eða gögn um annan framlagðan kostnað umsækjanda, getur nefndin óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá umsækjanda, til að mynda virðisauka­skatts­skýrslum, bókhaldi hans og reikningum. Nefndin skal veita umsækjanda 30 daga frest frá póstlagningu tilkynningar eða eftir atvikum rafrænni tilkynningu til þess að senda inn fullnægjandi gögn eða skýringar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. Sé réttum gögnum ekki skilað eða fullnægjandi skýringar ekki veittar innan veitts frests, eða gögn málsins benda til þess að kostnaðar­uppgjör sé ekki í samræmi við ákvæði 2. gr. skal umsókn hafnað.

Stjórn eða framkvæmdastjóri umsækjanda, ef um félag er að ræða, skal staðfesta að kostnaðar­uppgjör sé í samræmi við ákvæði laga nr. 130/2018 og þessarar reglugerðar. Nemi endur­greiðslan hærri fjárhæð en 12 milljónum króna skal kostnaðaruppgjör skv. g-lið 2. gr., sbr. 4. mgr. 8. gr. og d-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2018, jafnframt vera staðfest af endurskoðanda, skoðunar­manni eða viðurkenndum bókara.

Við mat á umsóknum um stuðning við útgáfu bóka á íslensku getur nefndin aflað álits sérfróðra aðila, svo sem sérfræðinga innan Stjórnarráðsins og annarra aðila, þ.m.t. skattyfirvalda á því hvort skilyrði 2. gr., sbr. og 5. gr. laga nr. 130/2018, eða önnur atriði laganna og reglugerðar þessarar séu uppfyllt.

Telji nefndin að umsókn uppfylli skilyrði fyrir endurgreiðslu skal hún ákvarða fjárhæð endurgreiðslu, ella skal umsókn hafnað.

Nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku skal afgreiða umsóknir eins fljótt og auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að henni hafa borist viðbótargögn. Þrátt fyrir 1. málsl. getur nefndin afgreitt umsókn síðar ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Í slíkum tilvikum skal nefndin skýra umsækjanda frá því að afgreiðsla umsóknar muni tefjast, upplýsa hann um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Nefndin skal tilkynna umsækjanda um ákvörðun sína um endurgreiðslu. Tilkynning um ákvörðun skal send með almennri póstsendingu eða rafrænt í því formi sem nefndin ákveður. Nefndin skal tilkynna innheimtumanni ríkissjóðs um ákvörðun sína um endurgreiðslu. Innheimtumaður annast endurgreiðslu.

7. gr.

Endurákvörðun.

Komi í ljós að endurgreiðsla til umsækjanda hafi verið of há er nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku heimilt að hlutast til um að endurákvörðun fari fram á fyrri ákvörðun hennar. Við meðferð slíkra mála skal gætt ákvæða stjórnsýslulaga, þ.m.t. skal tilkynna umsækjanda skriflega eða rafrænt um fyrirhugaða endurákvörðun og ástæður hennar til að umsækjandi geti tjáð sig skriflega um efni máls og lagt fram viðbótargögn. Leiði endurákvörðun til lækkunar á endurgreiðslu sam­kvæmt upphaflegri ákvörðun nefndarinnar skal umsækjandi endurgreiða mismuninn innan tíu daga frá því að tilkynnt er um ákvörðunina. Heimild til endurákvörðunar fellur niður að fjórum árum liðnum frá upphaflegri ákvörðun nefndarinnar.

8. gr.

Kæruleiðir.

Ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku á grundvelli reglugerðar þessarar og laga nr. 130/2018 er kæranleg til ráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku um hvað teljist vera endurgreiðsluhæfur kostnaður sbr. 5. og 6. gr. reglugerðarinnar og 6. gr. laga nr. 130/2018, eða fjárhæð endur­greiðslu, svo og hvort fullnægjandi gögn liggi til grundvallar útgáfukostnaði, er kæranleg til yfir­skatta­nefndar.

Kærufrestur skv. 1. og 2. mgr. er 30 dagar og reiknast frá dagsetningu ákvörðunar nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku.

9. gr.

Aðrir styrkir.

Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu bókar sem er andlag umsóknar dregst sá styrkur frá þeirri fjárhæð sem telst endurgreiðsluhæfur kostnaður, skv. 4. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 130/2018.

Samanlögð fjárhæð styrkja skv. 1. mgr. og endurgreiðslu skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, sbr. 8. gr. laga nr. 130/2018, skal ekki fara yfir 50% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sömu bókar.

Ef bókaútgefandi gefur út sömu bók á fleiri en einum miðli, sbr. 1. málsl., skal útgefandi halda kostnaði, sbr. g-lið 2. gr. við hvern og einn miðil skýrt aðgreindum. Óheimilt er að krefjast endur­greiðslu oftar en einu sinni vegna sama kostnaðar.

10. gr.

Frestun á útborgun endurgreiðslu.

Fjárhæð endurgreiðslna samkvæmt reglugerð þessari er háð fjárveitingum ráðherra á grundvelli fjárheimilda frá Alþingi í samræmi við fjárlög. Nefndin hefur heimild til að fresta útborgun endur­greiðslna sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni. Séu samþykktar endur­greiðslur á fjárlagaárinu umfram fjárveitingar er nefndinni heimilt að fresta endurgreiðslu, annað­hvort að öllu leyti eða að hluta, yfir á næsta fjárlagaár.

11. gr.

Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 11. gr. laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku nr. 130/2018, og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Heimilt er að óska eftir endurgreiðslu kostnaðar samkvæmt reglugerð þessari á hluta kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku sem gefnar eru út og gerðar aðgengilegar almenningi frá 1. janúar 2019, skv. 1. og 6. gr., sbr. 8. og 12. gr. laga nr. 130/2018.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 28. mars 2019.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 2. maí 2019