1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um nánari framkvæmd laga nr. 3/2006, um ársreikninga, varðandi skyldu til að skila ársreikningum á rafrænu formi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 109. gr. tilvitnaðra laga.
2. gr.
Skilafrestur.
Aðalfund skal halda ekki sjaldnar en einu sinni á ári og aldrei síðar en innan átta mánaða frá lokum hvers reikningsárs samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Skila skal ársreikningi (og samstæðureikningi, ef við á) eigi síðar en mánuði eftir að reikningurinn hefur verið staðfestur á aðalfundi eða félagsfundi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Ef aðalfundur er haldinn í áttunda mánuði frá lokum reikningsárs skal skila ársreikningi og eftir atvikum samstæðureikningi fyrir lok mánaðarins, sbr. þó ákvæði 3. mgr. þessarar greinar.
Samstæðureikninga, eða eftir atvikum ársreikninga, félaga sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á skipulegum markaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, skal þó senda þegar í stað eftir samþykkt þeirra og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006. Sama gildir um samstæðureikninga, eða eftir atvikum ársreikninga félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum samkvæmt heimild í 92. gr. laganna.
Félög sem nýta sér heimild skv. 7. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006 til að skila rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggðum á skattframtali félagsins er heimilt að skila slíkum ársreikningi innan þess frests sem ríkisskattstjóri veitir skattaðilum til að skila framtölum sínum, sbr. 2. mgr. 93. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
3. gr.
Um birtingarskyld gögn.
Á forsíðu ársreiknings (og samstæðureiknings, ef við á) skal koma fram nafn félags, félagsform, kennitala félagsins og heimilisfang, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 11. gr. reglugerðar, nr. 664/2008, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga. Á forsíðu skal einnig koma fram rekstrarárið og hvort um sé að ræða ársreikning félagsins eða samstæðureikning samstæðunnar.
Ársreikningurinn skal mynda eina heild og skal að lágmarki hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Ársreikningur lítilla, meðalstórra og stórra félaga skal einnig hafa að geyma skýrslu stjórnar og ársreikningur meðalstórra og stórra félaga skal að auki hafa að geyma sjóðstreymisyfirlit, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006.
Hafi ársreikningur verið endurskoðaður skal ársreikningurinn og áritun endurskoðanda mynda eina heild, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006.
Hafi skoðunarmaður yfirfarið ársreikninginn skal undirritun hans og dagsetning vera fylgiskjal með ársreikningi, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006.
4. gr.
Rafræn skil ársreikninga og samstæðureikninga.
Ársreikningum og samstæðureikningum skal skilað rafrænt á upplýsingasíðu á þjónustuvef Skattsins, www.skattur.is. Nánari leiðbeiningar er að finna á upplýsingavef Skattsins.
Á upplýsingasíðunni skal gera grein fyrir eftirfarandi:
- Reikningsári sem verið er að skila fyrir. Ef reikningsárið er annað en almanaksár, skal miða skilin við það ár sem reikningsári lýkur, t.d. ef reikningslok eru 30. apríl 2019 þá skal skilað undir árinu 2019.
- Velja skal reikningstegund. Þegar félagi er skylt að gera samstæðureikning þarf að skila bæði ársreikningi móðurfélagsins og samstæðureikningi fyrir samstæðuna.
- Skrá skal fjölda ársverka.
- Skrá skal dagsetningu aðalfundar eða ígildi aðalfundar hjá eins manns einkahlutafélögum sem miðast við skráningu í gerðabók, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Mikilvægt er að réttar upplýsingar séu gefnar um dagsetningu aðalfundar félagsins þar sem ekki er hægt að breyta þessum upplýsingum eftir að ársreikningurinn hefur verið sendur inn. Notast er við þessar upplýsingar m.a. við mat á því hvort reglum um skil ársreikninga samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006 hafi verið fylgt.
- Skrá skal netfang sendandans vegna tilkynningar um móttöku og færslu ársreiknings í ársreikningaskrá, höfnun ársreiknings eða beiðni um frekari upplýsingar skv. 1. mgr. 117. gr laga nr. 3/2006.
- Forskráðar upplýsingar um endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmann eru sóttar í fyrirtækjaskrá. Gæta þarf að því að um réttar upplýsingar sé að ræða og leiðrétta sé þess þörf.
- Forskráðar upplýsingar um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra félagsins eru sóttar í fyrirtækjaskrá. Gæta þarf að því að um réttar upplýsingar sé að ræða og leiðrétta sé þess þörf.
- Í tilviki einkahlutafélaga, hlutafélaga og samlagshlutafélaga þarf að skrá hluthafa og hlutafé þeirra. Hægt er að nota áður innsendar upplýsingar til Skattsins um hluthafa. Gæta þarf að því að um réttar upplýsingar sé að ræða og leiðrétta sé þess þörf. Ef hluthafi er erlendur og án íslenskrar kennitölu skal nafn hans og lögheimili skráð í þar til gerða reiti.
- Við skil á samstæðureikningi skal færa inn kennitölur og eignarhluta í innlendum dótturfélögum en annars nafn, eignarhluta og heimaríki erlendra dótturfélaga, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 664/2008.
- Staðfesta þarf að ársreikningurinn, og eftir atvikum samstæðureikningurinn sem sendur er inn sé í samræmi við undirritað frumrit þess reiknings sem samþykktur var á aðalfundi félagsins með því að merkja í viðeigandi reit. Sé skjalið sem sent er inn án undirritana, þurfa að koma fram í skjalinu nöfn stjórnarmanna, endurskoðanda/skoðunarmannsins sem árituðu/staðfestu reikninginn.
- Ljúka þarf ferlinu með því að skila reikningi og gæta þess að staðfestingarpóstur hafi borist á uppgefið netfang við innsendingu reikningsins. Hafi staðfestingarpóstur ekki borist telst reikningi ekki hafa verið skilað til ársreikningaskrár.
5. gr.
Rafræn skil rekstrar- og efnahagsyfirlits byggð á skattframtali félagsins (Hnappurinn).
Rekstrar- og efnahagsyfirliti skal skilað rafrænt á upplýsingasíðu á þjónustuvef Skattsins, www.skattur.is. Nánari leiðbeiningar er að finna á upplýsingavef Skattsins.
Á upplýsingasíðunni skulu veittar upplýsingar skv. 1.-8. tölul. 2. mgr. 4. gr., hér að framan, og:
- Staðfesta þarf að sá ársreikningur sem byggður er á skattframtali félagsins, hnappsreikningurinn, hafi verið lagður fyrir og staðfestur á aðalfundi félagsins.
- Séu til staðar skuldbindingar, ábyrgðir og ábyrgðarskuldbindingar sem ekki kom fram á efnahagsyfirliti, þarf að merkja í viðeigandi reit og skýra það nánar. Sama á við um fyrirfram-greiðslur og lánveitingar til stjórnenda og eigenda félagsins.
- Hafi félagið keypt eða selt eigin bréf á reikningsárinu, þarf að merkja í viðeigandi reit og skýra það nánar.
- Ljúka þarf ferlinu með því að skila reikningi og gæta þess að staðfestingarpóstur hafi borist á uppgefið netfang við innsendingu reikningsins. Hafi staðfestingarpóstur ekki borist telst reikningi ekki hafa verið skilað til ársreikningaskrár.
6. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 4. málsl. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, öðlast þegar gildi. Við gildistöku þeirra falla úr gildi reglur um rafræn skil ársreikninga til ársreikningaskrár, nr. 1220/2007.
Reykjavík, 5. júlí 2023.
Snorri Olsen ríkisskattstjóri.
|