Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 344/2025

Nr. 344/2025 17. mars 2025

GJALDSKRÁ
Slökkviliðs Hornafjarðar.

I. KAFLI

1. gr.

Verkefni Slökkviliðs Hornafjarðar (SH) ákvarðast annars vegar af lögum um brunavarnir nr. 75/2000 og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hins vegar af ákvæðum í samþykktum SH.

 

2. gr.

SH innheimtir ferða- og uppihaldskostnað í samræmi við reglur ferðakostnaðarnefndar fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

 

3. gr.

Slökkviliðsstjóra er heimilt að fella niður gjald vegna starfsemi ef verkefni telst þjóna almanna­hagsmunum og/eða fellur að markmiðum sem SH eru sett í samþykktum.

 

II. KAFLI

Lögbundin verkefni.

4. gr.

Sé ákvæðum 2. mgr. 29. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 beitt skal eigandi eða umráða­maður mannvirkis eða lóðar bera kostnað samkvæmt gjaldskrá af eftirliti með því að farið hafi verið að kröfum um úrbætur samkvæmt 3. mgr. 29. gr. sömu laga. Einnig er heimilt að taka gjald fyrir öryggis- og lokaúttektir samkvæmt 3. mgr. 12. gr. sömu laga.

Fast tímagjald fyrir hverja byrjaða klukkustund útseldrar vinnu hvers starfsmanns er 19.660 kr.

 

5. gr.

Öryggisvaktir á mannvirki.

Innheimt skal fyrir alla vinnu og akstur sem fellur til vegna öryggisvakta eftir að eiganda eða forráðamanni hefur verið tilkynnt ákvörðun slökkviliðsstjóra um að öryggisvakt skuli sett á við­komandi húseign. Á það jafnframt við um tilfallandi vaktir vegna tímabundinna viðburða þar sem fullum eldvörnum verður ekki við komið eða á meðan unnið er að úrbótum á þeim. Innheimtar eru að lágmarki 78.640 kr. fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu, auk 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund umfram fjóra tíma fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu. Heimild til gjald­töku byggir á 3. mgr. 29. gr. og 30. gr. laga um brunavarnir.

 

6. gr.

Lokun mannvirkis.

Innheimt skal fyrir alla vinnu og akstur sem fellur til vegna lokunar mannvirkis eftir að eiganda eða forráðamanni hefur verið tilkynnt ákvörðun slökkviliðsstjóra um að loka skuli viðkomandi mann­virki. Innheimtar eru 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu. Þegar um útkall er að ræða utan tilskilins daglegs vinnutíma starfsmanns eru inn­heimtar 78.640 kr. auk 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund umfram fjóra tíma fyrir hvern starfs­mann sem sinnir verkefninu. Heimild til gjaldtöku byggir á 3. mgr. 29. gr. og 32. gr. laga um brunavarnir.

 

7. gr.

Dagsektir.

Innheimta skal fyrir alla vinnu og akstur sem fellur til frá og með ákvörðun slökkviliðsstjóra um dagsektir og þar til kröfum um úrbætur á eldvörnum hefur verið fullnægt. Innheimtar eru 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu. Heimild til gjaldtöku byggir á 3. mgr. 29. gr. laga um brunavarnir.

 

8. gr.

Öryggis- og lokaúttektir.

Innheimt er fyrir alla vinnu sem fellur til vegna öryggis- og lokaúttektar. Innheimtar eru 68.690 kr. fyrir lokaskoðun eldvarnaeftirlits og 44.650 kr. fyrir öryggisskoðun. Fyrir stærri úttektir skal að auki innheimta 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund umfram tvo tíma fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu. Heimild til gjaldtöku byggir á 3. mgr. 12. gr. laga um brunavarnir.

 

9. gr.

Eftirlit og eftirfylgni kröfugerðar.

Fyrir eftirlit og eftirfylgni kröfugerðar skal tekið fast gjald, 19.660 kr., fyrir hverja byrjaða klukku­stund. Þegar um útkall er að ræða utan tilskilins daglegs vinnutíma starfsmanns eru inn­heimtar 78.640 kr., auk 19.660 kr., fyrir hverja byrjaða klukkustund umfram fjóra tíma fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu. Heimild til gjaldtöku byggir á 3. mgr. 29. gr. laga um bruna­varnir.

 

10. gr.

Eftirfylgni útkalla vegna brunaviðvörunarkerfa.

Sé slökkvilið kallað út vegna boða frá sjálfvirku brunaviðvörunarkerfi án þess að eldur sé laus skal innheimt fyrir kostnaði af eftirliti með því að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir endurtekin falsboð.

Innheimt er fast gjald fyrir eina klukkustund, 28.000 kr., fyrir eftirlitið. Leiði það hins vegar til frekara eftirlits, vegna ítrekaðra falsboðana eða alvarlegra ágalla á brunavörnum, fellur það undir eftirlit og eftirfylgni kröfugerðar, sbr. 9. gr. þessarar gjaldskrár, og er þá innheimt samkvæmt því.  Heimild til gjaldtöku byggir á 3. mgr. 29. gr. laga um brunavarnir.

 

III. KAFLI

Önnur verkefni og þjónusta.

11. gr.

Slökkviliðið sinnir öðrum verkefnum sem eru ekki skilgreind sem verkefni liðsins samkvæmt lögum. Þessi verkefni verða þó að falla að tilgangi slökkviliðsins sem er að vinna að velferð íbúa sveitar­félagsins samkvæmt samþykktum SH, séu þau ekki falin öðrum til úrlausnar í lögum né fram­kvæmd í samkeppni við aðra aðila. Því ber að taka gjald fyrir veitta þjónustu.

Fast tímagjald samkvæmt 4. gr. fyrir hverja byrjaða klukkustund útseldrar vinnu hvers starfs­manns er 19.660 kr. fyrir lögbundin verkefni. Að teknu tilliti til samkeppnissjónarmiða, þjálfunar, virkjunar­tíma og þess að þjónustan er aðgengileg allan sólarhringinn, allt árið er fast tímagjald fyrir hverja byrjaða klukkustund útseldrar vinnu hvers starfsmanns innheimt með 35% álagi. Fast tímagjald fyrir vinnu sem ekki er skilgreind sem verkefni liðsins samkvæmt lögum er því 26.541 kr. nema annað sé sérstaklega tekið fram. Þar sem um sérstakan viðbúnað er að ræða, sbr. 12.-14. gr., er að lágmarki innheimt fyrir fjóra starfsmenn í tvær klukkustundir, eða 212.328 kr.

 

12. gr.

Viðbúnaður vegna eldsvoða og mengunaróhappa.

Í 2. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 kemur fram að lögin gilda um eld­varnir og slökkvistörf vegna eldsvoða og viðbúnað við mengunaróhöppum á landi nema kveðið sé á um annað í lögunum. Lögin gilda enn fremur um björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði. Slökkvistörf og viðbúnaður við mengunar­óhöppum á sjó og í lofti falla ekki undir lögin. Lögin ná til starfsemi slökkviliða á landi, þ.m.t. slökkvistarfa í jarðgöngum, í skipum sem liggja í höfn, loftförum sem eru á jörðu niðri, almennum vinnuvélum, bifreiðum eða öðrum vélknúnum ökutækjum. Er það mat slökkviliðsstjóra hverju sinni hvenær sinna skal beiðnum um verkefni utan gildissviðs laganna.

Ef óskað er eftir því að slökkviliðið sinni verkefni sem fellur utan gildissviðs laganna skal lágmarks­gjaldtaka vera fyrir fjóra starfsmenn í tvær klukkustundir ef ekki liggja fyrir samningar um annað. Innheimta skal því að lágmarki 157.280 kr. auk 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund umfram tvær fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu.

 

13. gr.

Viðbúnaður vegna upphreinsunar.

Upphreinsun sem fellur ekki undir skilgreiningu 3. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 á meng­unaróhappi er sinnt af slökkviliði þótt ekki sé mælt fyrir um það í lögum um brunavarnir, meðan ekki eru aðrir þar til hæfir aðilar tiltækir að sinna verkefninu. Er það mat slökkviliðsstjóra hverju sinni hvenær sinna skal beiðnum um verkefni fyrir utan gildissvið laganna.

Slökkviliðsstjóri skal innheimta samkvæmt gjaldskrá fyrir vinnu við upphreinsun, efni sem notuð eru til upphreinsunar, meðhöndlun og förgun þeirra, ef ekki liggja fyrir samningar um annað. Innheimta skal að lágmarki 157.280 kr., auk 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund umfram tvær fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu.

 

14. gr.

Viðbúnaður vegna verðmætabjörgunar og vatnsleka.

Verðmætabjörgun sem ekki er tilgreind í brunavarnalögum, t.d. vegna vatnsleka er sinnt af slökkviliði þótt ekki sé mælt fyrir um það í lögum um brunavarnir, meðan ekki eru aðrir þar til hæfir aðilar tiltækir til að sinna verkefninu. Er það mat slökkviliðsstjóra hverju sinni hvenær sinna skal beiðnum um verkefni fyrir utan gildissvið laganna.

Ef óskað er eftir því að slökkvilið sinni verkefni sem fellur utan gildissviðs laganna skal lágmarks­gjaldtaka vera fyrir fjóra starfsmenn í tvær klukkustundir ef ekki liggja fyrir samningar um annað. Innheimta skal því að lágmarki 157.280 kr., auk 19.660 fyrir hverja byrjaða klukkustund umfram tvær fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu.

 

15. gr.

Ráðgjafarþjónusta.

Falli ráðgjafarvinna undir ákvæði stjórnsýslulaga um upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu skal sú vinna undanþegin gjaldi. Ef ráðgjafarvinna er fyrir utan ákvæði d-liðar 1. mgr. 12. gr. laga um bruna­varnir nr. 75/2000, um leiðbeiningar til fyrirtækja og stofnana eftir atvikum um hvaðeina er varðar brunavarnir og eldsvoða vegna viðkomandi starfsemi, er þjónustan gjaldskyld. Innheimtar eru 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu.

 

16. gr.

Tækjaleiga.

Tækjaleiga er ekki fyrirskrifuð í lögum um brunavarnir. Þó er eðlilegt að leigja tæki sem ekki er hægt að leigja hjá öðrum aðilum eða ef aðstæður kalla á skjóta notkun sem aðrir aðilar geta ekki boðið.

Verðlagning er ákveðin þannig að hún sé ávallt í það minnsta 35% hærri en leiga á svipuðum eða sambærilegum tækjum sem aðrir geta útvegað til að tryggja samkeppnissjónarmið. Oftast er um að ræða dælu- eða vatnssugur, slökkvibíla, t.d. vegna kvikmyndagerðar eða einhvers atburðar sem kallar á slíkan búnað. Verðlagningu á tækjum skal endurskoða við hverja breytingu á gjaldskrá þessari.

Tæki SH skulu aðeins notuð af starfsmönnum slökkviliðsins. Innheimtar eru að lágmarki 78.640 kr. fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu, auk 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund umfram fjóra tíma, auk tækjaleigu.

 

17. gr.

Fylgd vegna sprengiefnaflutninga.

Sprengiefnafylgd er ekki áskilin í lögum um brunavarnir heldur er kveðið á um slíka fylgd í reglu­gerð um flutning á hættulegum farmi á landi, þar sem lögreglustjóri gefur ekki heimild til flutn­inga nema í fylgd slökkviliðs. Innheimtar eru að lágmarki 78.640 kr. fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu, auk 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund umfram fjóra tíma.

 

18. gr.

Annað.

Innheimt skal gjald fyrir aðra vinnu sem ekki er tilgreind hér og ekki er mælt fyrir um í lögum eða er í samræmi við stofnsamning SH. Innheimt er fyrir tæki samkvæmt 16. gr. og að lágmarki 78.640 kr. fyrir hvern starfsmann sem sinnir verkefninu, auk 19.660 kr. fyrir hverja byrjaða klukku­stund umfram fjóra tíma.

Getur þetta átt við um þjónustu vegna sérstakra verkefna eins og kvikmyndatöku, móttöku erlendra þjóðhöfðingja eða sendimanna, menningarviðburða o.fl. þess háttar.

 

IV. KAFLI

Innheimta.

19. gr.

Sveitarfélagið Hornafjörður annast innheimtu gjalda samkvæmt gjaldskrá þessari eða innheimtu­fyrirtæki sem verkefnið er falið samkvæmt samningi þar að lútandi. Um innheimtu gjalda skal fara eftir viðteknum venjum í innheimtu opinberra stofnana. Gjalddagi gjalda samkvæmt gjald­skránni er útgáfudagur reiknings og eindagi er 30 dögum síðar. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga séu gjöldin ekki greidd á eindaga. Gjöldum sem til eru komin vegna öryggis- og lokaúttekta sem og aðgerða til að knýja fram úrbætur samkvæmt lögum, sbr. 3. gr. til og með 10. gr. fylgir lögveð í við­komandi fasteign eða lóð, sbr. 3. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 29. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000.

 

V. KAFLI

Gildistaka og lagastoð.

20. gr.

Gjaldskrá þessi er samin af Slökkviliði Hornafjarðar og samþykkt af bæjarstjórn Sveitar­félagsins Hornafjarðar 13. febrúar 2025, með heimild í 1. mgr. 92. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Gjaldskráin er bundin neysluvísitölu og uppreiknast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingu á vísitölu miðað við grunnvísitölu í janúar 2025, grunnvísitala skal aldrei vera lægri en 365,5 stig.

Gjaldskráin öðlast gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Jafnframt fellur brott gjaldskrá sama efnis nr. 395/2014.

 

Hornafirði, 17. mars 2025.

 

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 31. mars 2025